föstudagur, desember 20, 2002

Fimm ára dóttir vinar míns sagði þetta við mig í gærkveldi:" Veistu Björk það eru bara fimm dagar til jóla". Ha, hver andskotinn!!! hugsaði ég en sagði við hana"Já ég veit það og ég get ekki beðið alveg eins og þú"
Klukkan 1630 byrjar jólafríið. Syfjan er rosaleg á morgnana en ekki í morgun því það var ekki rigning, bara smá frost í nótt og það hefði verið geggjað að sofa úti í garði í nótt. Illugaskotta á ekkert rúm lengur því hún seldi það meðleigjanda sínum, því Illugaskottu leiðist það hræðilega að þurfa alltaf að flytja þetta bévítans rúm með sér hvert sem hún er að flytja, þannig að nú á hún bara hengirúm. Í kvöld er jólaglögg landvarða, nenni ekki því ég er félagsskítur þessa dagana, en mun fara í jólaglögg Umhverfisstofnunar sem verður í dag, kökur og með því ......

Át óhollasta morgunverð í heimi áðan, kóka kóla og kalda pizzu, en samt besti morgunverður í heiminum að mínu mati. Kvíður fyir prófinu veit varla hvað maður á að kunna í þessari vistfræði en mun mæta annað er ekki hægt..

fimmtudagur, desember 19, 2002

Trén eru ekki bara farin að bruma í Reykjavík, þau eru farin að blómstra!!!!! Runni einn sem stendur við anddyri Tæknigarðs þar sem ég á heima þessa dagana, hann sko runninn er farin að blómstra, það eru komin græn blöð út úr honum..... þetta var nú bara eftir, því veðrið hér á suðurlandinu er eins og á vorin, það er vorlykt í lofti og ekki að undra þótt plöntur ruglist í árstíðum ekki frekar en menn. Ef ég væri að skrýða út úr helli og búin að sofa í 3 mánuði þá myndi ég halda að það væri maí, alveg eins og runninn fyrir utan Tæknigarð. En samkvæmt dagatalinu þá er desember og jólin eru í næstu viku.Ég á eftir að flytja og pakka og kaupa jólagjafir og koma mér norður í afslöppun.....Illugaskotta er farin að lesa heldur seint í dag. 1330 :).

miðvikudagur, desember 18, 2002

Hvenær nemur tegund land og hvenær ekki? Þetta er svo leiðinlegt, er annars ekki að nenna að skrifa þetta. Úfff stress með það að það er stafsetningar villa í auglýsingar draslinu sem er fyrir sólstöðuhátíðina Fólk og fjöll og prentsmiðjan bíður spennt eftir breytingunni frá hönnuðinum sem er týndur úti í bæ og veit ekkert að það er villa í plakatinu, andskotinn sjálfur.....er búin að leita að henni út um allt.

Skoðaði hús í gær ásamt vini mínum við leynivatnið flotta, en húsið var að springa af raka og vibbaleg fúkalykt í því, En sá ótrúlega möguleika í því að búa þar, sérstaklega með það í huga að geta sofið úti í garði og æft mig á sjókajak bróður míns sem rykfellur í geymslu hér í Reykjavík.....get ekki beðið eftir því að drekkja mér í víni og gleði eftir þessi próf, og skunda norður til þess að skera út í laufabrauð og taka á móti jólunum.

mánudagur, desember 16, 2002

Nú er ég farin að telja dagana, fer sem sagt norður á mánudaginn í næstu viku!!! Og það er rigning,,,,sem betur fer segi ég nú bara :). Fór í Smáralindina í gær og það var hræðilegt, svo þungt loft og ótrúlega mikið af stressuðu fólki sem var að leita að einhverju sem það vissi ekki hvað var eða hvar það þetta væri að finna, en ég vissi að hverju ég var að leita en nennti ekki að skoða það eða máta þegar ég fann það, æddi bara út og fór heim til ömmu, þar sem alltaf er hægt að fá besta kaffi á landinu og besta ristaða brauð landsins. Við spjölluðum um það hvað fréttirnar væru nú alltaf leiðinlegar, það eru eiginlega aldrei skemmtilegar fréttir, bara leiðindi, rifrildi, morð, slys, náttúruhamfarir og önnur ömurleg heit,,,,,,,ég vil hafa sérstakan fréttatíma þar sem unnið er í því að birta jákvæðar, uppbyggilegar og skemmtilegar fréttir. Fannst forsíðan á Mogganum í gær, nánar tiltekið sunnudagsmogganum ömurleg, þar voru menn og vinnuvélar að grafa sig út og suður í kringum Dimmugljúfur...ekki jákvæð frétt en þetta er jákvæð frétt fyrir Frikka Sófa.


Sá er árla rís verður margs vís Þetta er margsannað í mínu lífi en núna í desember er ég ekki sú sem árla rís og verð þess vegna ekki margs vís þessa dagana.Ps, foreldrar mínir fjárfestu í íslenskum fiðurfénaði í sumar, og viti menn fyrir nokkrum dögum síðan steig haninn inn í heim hanans, því allt í einu sagði hún móðir mín mér að hann væri byrjaður að gala!!! ég segi nú bara greyið hænurnar, fá engan frið fyrir þessu hana ræksni sem vill æfa raddböndinn mjög snemma á morgnana og svo eru hanar víst einnig kynóðir sem er enn þá verra ef þú ert hæna sem ert ekki í stuði en verður bara að lúta þínum hana sem fær það sem hann vill þegar honum sýnist.

Hér í Reykjavík eru seld egg sem eru sögð vera frá hamingjusömum hænum. Afhverju eru þær sagðar vera hamingjusamar? Jú, það er vegna þess að þær geta valsað út úr húsinu sínum út á hlað og kroppað þar orma og korn, og annað þær eru með hana sér við hlið sem galar ömurlega snemma á morgnana og er líka ótrúlegt kyntröll!!!!! Hvað haldið þið?

sunnudagur, desember 15, 2002

Læt veðrið hafa of mikil áhrif á mig, þessi rigning er yfirþyrmandi leiðinleg.

Langaði að segja ykkur frá því að í fyrradag var ég í sundi og vildi vera í friði, hitti ég þá ekki leiðinlegasta New York búa heimsins sem varð að tala og segja mér frá því hvar hann hefði nú stigið sínum ljótu fótum niður á jarðkringluna og að hann væri nú ekki alveg U.S.A búi því hann hefði nú verið alinn upp í Barcelona. Hummmm hvað eru Bandaríkjamenn að hugsa!!! Þeir þurfa alltaf að koma því að hvað þeir séu nú veraldarvanir, og sérstaklega þurfa þeir að koma því að ef þeir hafa nú ekki alveg búið í Bandaríkjunum alla sína lúsar ævi. Hann talaði og talaði og ég varð fúlari og fúlari þar sem hann var að trufla þagnarstund í pottinum í Vesturbæjarlauginni, en af því ég er svo óþolandi almennileg gella þá bara leyfði ég honum að mala á meðan ég hugsaði um það hvernig ég myndi koma honum fyrir kattarnef.

Það sem leiðinlega Bandaríkjamanninum fannst um Ísland:> Honum fannst fólkið ótrúlega almennilegt, honum fannst fáranlega fyndið hvað lítið væri um atvinnuleysi, að maður gæti bara gengið um göturnar án þess að vera í hættu að verða drepinn, honum fannst tungumálið okkar heillandi og áhugavert, honum fannst ótrúlega fyndið að það væri hægt að ganga upp að dyrum Herra Ólafs Ragnars Grímssonar og bara banka! honum fannst sundlaugarnar vera frábærar og hann langar til að flytja hingað og honum fannst margt annað en ég bara man það ekki.