laugardagur, september 04, 2004

Í gær lagðist Illugaskotta í smá ferð norður á Strandir, til Seljanes. Veðrið var sól, logn, fögur fjallasýn ásamt því að himinninn var heiður og blár. Annað var að það var ekki nokkur sála á ferðinni. Illugskotta tók myndir eins og óð væri, fjöllin æptu á athygli og það fengu þau. Síðan var laumaðist ég í heita pottinn þar sem bannað er að baða sig. Það var gaman að liggja þarna með fagurt útsýni til fjalla og hafið rétt bak við sig.

Næsta stopp var á Djúpavík, síðan stoppaði ég á Eyri, þar var sjórinn sem spegill, tveir gamlir kallar voru að landa þorski, búið að byggja smá bryggju. Allt í einu kom jeppi, gömul hjón. Tók þau tali, svo kom annar jeppi kona og barn, svo tvær dráttavélar og tveir kallar. Allir stóðu og spjölluðu um þorsk, hringorma, reka, veður, fugla, ferðamenn, og fleira merkilegt.

Næsti viðkomustaður var Seljanes. Þegar Illugaskotta renndi þar í hlað þá var klukkan að verða 20:00. Þar stóðu fjórir kallar allt í einu, þeir hreyfðu sig ekki þar sem þeir stóðu í röð við húsgafflinn. Hummm,,, voru þetta tröll eða menn???,þekkti einn þeirra en ekki hina þrjá. Þetta voru þá Guðjón, Grímur, Jón og Óskar. Bræður fjórir frá Dröngum sem eru að gera upp gamla íbúðarhúsið.

Spjallað um refi, minnka, nýtingu náttúrunnar, brjálaða veiðimenn, étið brim salt saltkjöt, allt í einu var klukkan að verða 2 um nótt. Þá voru lygasögurnar orðnar margar, hláturinn enn þá meiri og allir farnir að geyspa vel, einn útselurinn hraut undir þessu öllu saman.

Það þyrfti að setja alla þá sem eru að fá byssu-og veiðleyfi í geðrannsókn sagði einn Drangabróðirinn. Illugaskotta er sammála, of mikið af bölvuðum fávitum hafa leyfi til þess að bera byssu, námskeiðið er aulahellt, of auðvelt.

Illugaskotta svaf úti á túni,,,,það var ljúft, vaknaði klukkan 4 um nóttina þegar rigningin var farin að lemja á mér andlitið, fór þá inn í hús.

Daginn eftir var byrjað að smíða, allt í einu urðu hundarnir brjálaðir niðri í fjöru. Þeir fundu minnk, haglabyssa, bensín, hundar, menn, eldur, minnkalykt. Skot, dráp, tveir hundar að rífa í sig minnk.

Haldið áfram að smíða. Illugaskotta vildi gera eitthvað, humm. En fann ekki neitt. Ritgerðin kallaði ásamt því að hana langaði aftur í sund. Yfirgaf bræðurna fjóra sem eru ekkert annað en skemmtilegir.

Kom við á Ingólfsfirði, fékk þar orma þorsk að borða, flatkökur og kaffi. Spjallað margt um forna tíð. Síðan áfram haldið suður. Sund í Bjarnarfirði, heim í rúmið. Lambasteik hjá Sigga og Alex, ásamt góðum samræðum, um pólitík og um landið okkar sem íslensk stjórnvöld bera ekki nógu mikla virðingu fyrir.

föstudagur, september 03, 2004

Komin með 19 blaðsíður í ritgerðinni, er sem sagt að byrja frá grunni.

Búin að fara í gegnum kvæðin þrjú úr konungsbók eddukvæða og einnig í gegnum það sem ég mun taka fyrir úr Snorra-Eddu. Nú er bara að fara að lesa allar fræðigreinarnar sem ég hef viðað að mér, en fyrst verður haldið í Seljanes.

Veðrið er æði, sól og logn ég er farin að pakka, en mun þá taka með mér Snorra-Eddu til að spá aðeins betur í þetta allt saman sem ég er ekki alveg viss um hvort ég muni taka fyrir.

Ég þarf að undirbúa fjögur viðtöl, hafa samband við þetta fólk og koma á fundi. Einnig er ég búin að panta þónokkuð af lestrarefni í tengslum við náttúrutúlkunina,sem mjög lítið er búið að skrifa um á íslensku. En á að vera eitt aðaltæki landvarða í fræðslunni. Merkilegt nokkkkk,,,,,en ég skal laga það.

Það gengur allt vel, og hugmyndirnar hrynja inn.

fimmtudagur, september 02, 2004

Seljanes annað kvöld. Vinna eins og satann sjálfur þegar hann er í ham. Hringja, græja, redda, lesa, skrifa, spá og pæla.

Fór í sund í gær, hef alltaf verið frekar löt að synda skriðsund, en neyddist til að synda það mína 500 metra, þar sem annað hnéð á mér gargaði og vældi þegar ég synnti bringusund. Kom þá á nýrri tækni hjá mér í skriðsundinu, þannig að nú held ég að ég syndi það oftar.

Fuglarnir hafa róast og eru flestir að ég held farnir að huga að utlandsferðum, æðurinn og rjúpan er sá fugl sem ég verð hvað mest vör við í morgungöngunni minni.

Skrifaði tvö alvöru bréf í gær, ásamt því að sortera bókhaldið og aðra pappíra.

miðvikudagur, september 01, 2004

Steingrímsfjörðurinn er spegill,sólin glennir sig út um alla Strandasýslu og Illugaskotta situr inni og les fornkvæði.

Nú er gaman, nú er fjör.

þriðjudagur, ágúst 31, 2004

Ja svei mér þá. Þetta finnst mér vera eitt það óklifurslegasta fjall sem ég hef fengið í hausinn. En eins og bóndinn sagði sem gat ekki fært alla áburðarpokana,,úff, jamm og jæja. Bara einn poka á dag...svo voru þeir allt í einu orðnir tveir á dag og allt í einu var þetta bara búið.

Illugaskottu langar að fara norður á Strandir.
Í dag er seinasti vinnudagurinn minn á Galdrasýningunni. Þetta sumar hefur liðið ótrúlega hratt, á morgun er 1. september.

Í vor þegar Illugaskotta var að gera upp við sig hvað í skrattanum hún ætti að gera af sér, þá var hún ekki viss hvort það væri sniðugt eða skemmtilegt að vinna á Ströndum. En það var sniðugt, skemmtilegt og nauðsynlegt fyrir Illugaskottu að dvelja á Ströndum í sumar. Vinnan var skemmtileg, ég lærði margt nýtt og hitti fullt af áhugaverðu og skemmtilegu fólki.

Eiginlega ef Illugaskotta á að segja eins og er, þá var það gott fyrir hana að hætta í þessum landvarða-skálavarða buisness, en hún hætti á harkalegann hátt, það er önnur saga sem hefur kennt Illugaskottu margt.

Imba hrafn kom aðeins við hér í gær, hún er orðin mjög stygg. Það kom til mín maður sem sagði að hún væri heimskur hrafn vegna þess að hún vildi ekki koma á hendina á honum! Ég sagði að það væri hún ekki, hún væri varkár og allt væri hættulegt, sérstaklega maðurinn.

Rottan fræga sem öskraði og andskotaðist á Hringbrautinni hefur skotið upp kollinum hér á Hólmavík, hún virðist halda svolítið upp á hann Sigga Atla, og hans skeggvöxt.

Yfir og út, ég ætla að halda áfram að synda um á netinu, lesa annarra manna blogg og sitt hvað fleira, þennan seinasta vinnudag minn.