laugardagur, apríl 26, 2003

Laugardagur til skemmtunar. Byrjaði daginn á því að líta út um gluggann,,sól og blíða og ekki inni veður. Fór á vörðu hleðslunámskeið með Röggu ven og þar var náttúrulega Guðjón að kenna, litlu frændur hennar Röggu komu líka og höfðu gaman af. Síðan var arkað í hið nýja hús Orkuveitunnar, þetta er nú meira húsið. Ég kalla það Svarthöfða. Stórt hús, gat í miðjunni á því, rosa flæmi. Fórum efst í hraða lyftu. Svo út að skoða tækja- deildina það var gaman og svo upp í körfu á körfubíl og með einhverjum gaur sem sýndi okkur hvernig þetta virkar. 12 metra upp í loft og svo aftur niður, það var gaman. Ragga sá þegar við vorum komin í háloftin að það meiga bara vera 2 mennesker í körfu en við vorum þrjú!!!!

föstudagur, apríl 25, 2003

Seinasti kennsludagur hjá mér í dag. Er á hjólinu loksins búin að vera á bílnum og kemst ekkert áfram hér í bænum og alltaf basl að finna bílastæði sem eru ekki með stöðumæla bjána. Snatt og snilld í dag, kíkja í búðir með Röggu og ekki hreyfa bílinn fyrr en löggan er farin að sofa hehehehhe, er enn þá á nöglum. Það kom loðin nágranni í heimsókn í morgun, ég sagði bara uss við hann og þá þeyttist hann út. Sól og blíða hér á suður hlandinu......farin út, komið bréf frá skólanum, ég er komin inn nú þarf bara að klára nokkra snúninga og þá er þetta komið.

fimmtudagur, apríl 24, 2003

Ég óska lesendum Skottu bókar gleðilegs sumars. Ég var bitin í fyrradag þegar ég var að skoða margæsir, eitthvert kvikindi beit mig nokkrum sinnum í kálfann, jöfn bil á milli bita, 10 mm. Kannski var þetta fló en kvikindið lætur manni klæja.
Það er rakt og gott veður í Reykjavík í dag, engin sól en logn og smá mugga. Keyrði í skólann í morgun, tók fram úr leigubíl, leit á farþegann, greyið hann. Dauður með hausinn hangandi en merkilegt þó já þá hélt hann dauða haldi í Gemsann sinn,eins og hann væri seinasta haldreipið við raunveruleikann.
Úfff hvað ég er feginn að vera ekki þunn í dag, nei kláraði næstum því heila ritgerð í gær um hvort komandi kynslóðir skipti máli. Skrifuð á ensku þannig að heilinn fékk að kenna á því.

Spurningar sem komu upp voru. Hvað hafa komandi kynslóðir gert fyrir okkur? Hvað vitum við hvað er rétt fyrir þær eftir 400 ár t.d.? og nei ætla ekki að drepa ykkur drap mig næstum því. Nú í dag, gera niðurlag og laga stafsetningar villurnar!!! sem eru nokkrar. En ótrúlegt en satt þá kemur enskan fljótt í skrifum, maður bara er ekki í æfingu.

miðvikudagur, apríl 23, 2003

Forynjur og skrímsli, hvar eiga þau heima? Í símaskránni er ekki hægt að finna þau, ekki í garðinum heima. Vildi óska að maður gæti bara hringt í eitt skrímsli og forynju vin þess til þess að taka þau með í bíó.
ÁAAAAAAAAAAAAAAAAAAAA, sumarið er svo brjálað úti, fuglarnir enn þá hressari. Sá hópa af margæsum lenda í gær þegar ég var í fuglaskoðun við Bessastaði, minntu mig samt óþægilega mikið á mörgæsir en voru það nú ekki. blúbb.

Ég er með bólu inni í eyranu, hver andskotinn og ég sé hana ekki en get ekki stungið út úr eyrunum,,,,ojbarasta vont.

Sumardagurinn fyrsti er á morgun, og árin hlaðast upp.

þriðjudagur, apríl 22, 2003

aldeilis fyndin frétt um gæsirnar sem hann Svabbi túrbó svali benti mér á sem og einnig um stúlku kindina á dráttarvélinni.

Aligæsir í lausagöngu á Ísafirði gerðu aðsúg að lögreglubíl
Lögreglan á Ísafirði hefur að undanförnu haft afskipti af lausagöngu aligæsa sem munu ósjaldan hafa verið íbúum í Múlalandi til ama. Þessar tilteknu gæsir eru þekkt vandamál, að sögn lögreglunnar. Þær eru hávaðasamar og ágengar og börn óttast þær og jafnvel fullorðnir líka. Sem dæmi um ósvífni og frekju gæsanna má nefna, að þær veittust að lögreglubíl og gogguðu í hann þegar lögreglan kom til að hafa hendur í fiðri þeirra.

Í vikunni var lögreglunni tilkynnt um akstur 13 ára stúlku á dráttarvél á þjóðvegi í umdæminu. Hún mun aðeins hafa ekið skamman veg milli afleggjara en lögreglan lítur þetta engu að síður alvarlegum augum.

sól, sól og Krían er víst komin, sá frétt um það hef ekki heyrt hana né séð. Ótrúlegt blaðafargan og bras fyrir skólann úti, sækja um húsnæði, dvalarleyfi og í þessum pökkum þurfa að vera myndir og vottorð um allan skrattann nema kannski helst að maður sé í lagi í hausnum.

mánudagur, apríl 21, 2003

Var að koma til Reykjavíkur. Páskarnir hafa verið frábærir. Var heima á Blönduósi, í hesthúsinu, skemmunni, og svo út og suður. Ætlaði að læra og læra og læra en gerði allt annað. Hér kemur stutt yfirlit. Ég fór á Strandir í alveg frábært afmæli hjá Ásdísi. Svo keyrði ég fyrir Vatnsnesið, daginn eftir þann 18. apríl fór ég í Mývatnssveit, æddi upp á hálendið sem er í óðaönn að búa sig undir sumarið því það var aldrei vetur, komst stutt, aftur í Mývó, þar étið og drukkið með mývó fólki,,,svo ætt af stað snemma um morguninn til þess að komast í páska svínið og páska lambið hjá ma og pa og öllum hinum. Ég skoðaði allt sem ég hef ekki skoðað áður í mývó og læt hér staðar numið...hemmm, ég fór ekki í GRETTISLAUG. Því er nú ver og miður. Næstum því flestir fuglar komnir, nema krían.

Á jörðinni sem var eitt sinn jörðin okkar, Smyrlaberg, kom ég við þann 17. apríl. Fór að fylgjast með hrafnapari sem var að kyssast og knúsast, fann þá út að þeir ættu hreiður í berginu. Ég fór, fann hreiðrið og þvílíkur laupur,,,þarna voru: gaddavír, baggabönd bæði gul og blá, vírar úr girðingum, ull, greinar, hrossabein og kindabein. Krummi er snillingur enda minn uppáhaldsfugl, ég var nú ekki snillingur að þeirra mati, þau görguðu á mig og voru voða stressuð þar sem ég var að taka myndi. Í laupnum voru tvö egg og mig dauðlangar til þess að fá annan hrafnsungann og ala upp.

Ég er komin til Reykjavíkur til þess að gera öll verkefnin sem ég ætlaði að gera fyrir norðan.