föstudagur, ágúst 13, 2004

Hitabylgjan skall á Ströndum í dag. Illugaskotta var að vinna, tók fram sólstólinn. Lá eins og skata í vinnunni, ásamt því sem ég sorteraði allar myndirnar mínar í tölvunni. Setti þær í merktar möppur en á eftir að gefa þeim flestum titla ásamt því að brenna þær á diska. Ásdís tók mynd af mér í vinnunni í dag þar sem Illugaskotta lá í sólstólnum, með sólgleraugun og öll íklædd svörtu...var þó farin úr sokkum.

Var samt einna mest inni því það var svo heitt að draugurinn lamaðist.

Hvað gerir maður svo þegar sumarið er búið? bla...humm hvar ætti Illugaskotta að búa næst? Kannski í vita? Hálfvita? Eða í tjaldi,,,bíl, bát, flugvél eða húsi?..Íslandi, Indlandi eða Banglahdesh....!??'

Vammmm....læt þetta allt ráðast.

fimmtudagur, ágúst 12, 2004

Veðrið og Íslendingar = mikilvægt.

Óveður og Íslendingar og alls kyns persónur= enn þá mikilvægara.

Vá,,,er bara að spá. Var að gjóa öðru auganu á Kastljósið áðan. Fyrsta umræðuefnið var veðrið, hitamet og bla...

Það gengur vel að lesa Sjálfstætt fólk, mikið er hann Bjartur í Sumarhúsum mikill þverhaus, þverhaus Kólumkilla! Hann er núna að bjóða draugum og forynjum byrginn. Hann býður öllum byrginn. Hreindýrum, hreppstjóranum, kaupfélagsstjóranum, verslunarstjóranum, veðrinu, sjúkdómum og gleðinni. Allt fyrir sjálfstæðið og rollurnar!

Textinn í þessari bók er svo eðlilegur, að maður sér allt fyrir sér. Fólkið, dýrin og náttúruna, en Illugaskotta hefur aldrei verið hrifin af honum Laxa kallinum. Eitthvað sem hefur verið innrætt í hana eða hún innrætt hjá sjálfri sér. Bara,,,, hann settur á einhver hærri stall en aðrir, og þess vegna hefur Illugaskotta ekki viljað lesa þenna Laxa kall. En svo gluggaði hún í bókina og festist í þessari sögu, enda ægir þarna öllu saman og síðast og ekki síst er mikið talað um drauga og huldufólk.

Sjálfstæður maður er sá sem skuldar engum neitt og á allt sitt sjálfur, þarf aldrei að biðja um hjálp eða aðstoð.

miðvikudagur, ágúst 11, 2004

Illugaskotta er komin aftur í Hólmavík, var að vinna í dag. Það er greinilegt að ferðamenn eru einhvers staðar annars staðar en á Hólmavík. En aðsókn hefur dregist mikið saman.

Ferðalagið var meira en gott. Við keyrðum í Trékyllisvík á fyrsta kvöldinu. Þar tjölduðum við, eða Þórdís tjaldaði, ég bjó mér til bæli úti í móa þar sem ég svaf undir berum himni, því ekkert er betra en það. Um morguninn gengum við að Kistunni, þar sem þrír menn voru teknir af lífi fyrir galdur. Kistan er gjá niður við sjóinn. Svo var safnið Kört í Trékyllisvík skoðað og það er mjög athyglisvert safn. Með ljósmyndasýningu frá gömlum tímum hér á Ströndum, ásamt ótrúlega mörgum merkilegum hlutum. Svo var það Norðurfjörður, Krossnesslaug, Munaðarnes til að sjá Drangaskörðinn en þau voru illsýnileg vegna þoku, svo var keyrt inn í Ófeigsfjörðinn.

Þar komum við okkur fyrir og fórum síðan í gönguferð áleiðis að Hvalárgljúfrum, það var gaman. Allt á kafi í berjum, mikið um áhugaverðar plöntur, heilu haugarnir af Grettistökum þarna á leiðinni, og komust við að mynni gljúfranna. En vegna þess að frú þoka var að skella á, þá skeiðuðum við niður að á til þess að vera vissar um að komast aftur til bílsins. Hvalá er merkilega djúp sums staðar, og þar sem hún er dýpst heitir Óp, ekki veit ég afhverju, og ekki vissi Pétur afhverju.

Í gær var svo keyrt af stað heim á leið. Stoppuðum þá í Djúpuvík, og í Kúvíkum sem var verslunarstaður Strandamanna lengi vel. En nú eru þar rústir einar. Í Reykjafirði var sól og blíða en alls staðar annars staðar var frú þoka á ferðinni. Svo fórum við í sund í Bjarnarfirðinum, ég sýndi svo Þórdísi Galdrasýninguna og svo fór hún í Önundarfjörðinn en Illugaskotta fór að sofa.

Illugaskotta er komin með Reykjavíkurveikina. Sem lýsir sér þannig að hana langar í: bíó, hamborgara á American Style, drekka bjór fyrir utan kaffihús og láta bíla æla yfir sig mengun, hitta vini sína, fara á kaffi mokka, í sund í vesturbæjarlauginni, hitta ömmu, versla sér tónlist og kannski fatagarma. En ég þjáist ekki mikið. Er á leið í sund.

sunnudagur, ágúst 08, 2004

Nú er ég bara að bíða eftir Þórdísi. Svo brunum við af stað norður í Ófeigsfjörðinn í kvöld. Þar munum við setja upp tjaldbúðir vorar, eða réttara sagt matbúðir. Erum með víst mat fyrir um 20 manns! Svo á að ganga þvers og kruss um landakortið...en aðallega éta þó.

Veðrið segist ætla að vera gott. Engin Manga sást í dag. Illugaskotta saknar hrafnanna. komast af stað...núna það vil ég...