laugardagur, desember 10, 2005

Það er rigning úti, Illugaskotta er í Winnipeg fram á miðja næstu viku, vegna þess að hún er í fríi frá indjánum, snjósleðum, gildrum, beitu og öllu sem tilheyrir Hollow Water, er eiginlega búin að vinna yfir mig þarna,,,hverjum manni er nauðsynlegt að breyta um umhverfi af og til.

Það hefur gengið upp og ofan að taka upp allt það sem ég þarf, en sé til hvert stefnir. Er að fara í bíó í kvöld að sjá nýjustu Harry Potter, sá seinast myndina Walk the Line sem er um líf Johnny Cash, sem er nú einn af mínum uppáhalds söngvurum.

Fer í heimsókn í Íslenska consúlatið á mánudaginn, þangað er alltaf gaman að koma. Það er ísing á öllum vegum, og allir eru úti í skurði.

Það er lítið um jólaundirbúning þar sem ég bý, ætli ég geri það ekki bara. Borðaði elgssamloku og heimabakað brauð í morgunmat í morgun. Vorum komin hingað um klukkan 3 í dag. Það er ægilegt að fylgjast með fréttum af þessum gíslum, þessum kanadísku og bresku gíslum í Írak.

Bestu kveðjur heim,

þriðjudagur, desember 06, 2005

Sællt veri fólkið! Núna er sá tími hér í Manitoba að flestir setja bílana sína í samband við rafmagn yfir nóttina, en í hverjum einasta bíl sem maður sér hér er rafmagnslína sem hitar eitthvað í húddinu, vélina að ég held!

Já það er orðið frekar kalt um 22 stiga frost og um það bil 30 með vindi. Gary lagði 10 gildrur í dag, og ég fór með, ég fer með í allt. Förum á snjósleðum hérna út á ánna, sem er gaddfreðin. Síðan erum við með gildrur, kassa og beitu. Beitan eru gaddfreðnir og úldnir fiskhausar! En það finnst Marten best að bíta í, en hann veiðir helst Martein! sem er einhvers konar minka úlfur, hunda kvikindi, að ég held, hef aldrei séð hann Martein en kannski annað kvöld þegar við förum að vitja um gildrurnar. Já svo eru gildrurnar spentar upp, beitan er sett í botnin á kassanum, gildran er bundin föst við tré og sett beint fyrir framan kassann, síðan eru settar greinar við hliðina til að fela kassann. Svo setjum við úldna hausa rétt við gildruna, og svo er að sjá og bíða hver er gráðugastur í úldna hausa.

Í gær fór ég í göngutúr úti á ánni, sá allt í einu risa stór dýraspor, fyrst var ég að spá hver væri með svona stór löpp. Ekki elgur, því þetta var sko ekki klaufa far, nei en einhvers konar köttur var þetta. Illugskotta fylgdi sporunum, og sá allt í einu að þetta dýr hafði lagst niður og auðvitað staðið upp aftur, það voru klær fremst á þessum sporum! Úfff,,,þetta voru úlfaspor, Timber wolf, sagði Gary. En þeir láta fólk í friði, ferðast um í hópum og veiða í hópum.

Já fann stærsta bjórahús sem ég hef nokkrun tíma séð hérna lengst inni í skógi, og þvílíkt löng stífla sem er lögð í bókstafinn ess. Ég held að þetta sé fjölbýlishús bjóra. En bjórinn er réttdræpur núna 365 daga á ári, því hann er pest og fer í taugarnar á mönnum sem eru að leggja vegi og rafmagnslínur. En bjórinn þekki víst 78 jurtalyf, og geri aðrir betur. En þessir bjórar hafa líklega ákveðið að stofna bjóra nýlendu með meiru.!

Ég þarf að klæða mig allt öðruvísi hér en heima á Íslandi, því hér er svo þurr kuldi. Hér þarf maður að passa sig að vera alls ekki í þröngum peysum eða buxum, því þá kólnar maður inn að beini. Er í snjósleðabuxum, víðri peysu, víðum jakka, öllu víðu, en Illugaskotta á við það slæma vesen að stríða að hún svitnar svo auðveldlega, sem þýðir að hún kólnar líka hratt ef það er stoppað lengi. Þannig að ég passa mig að vera alltaf að gera eitthvað á meðan Gary er að leggja gildrunar þá horfi ég á, en er líka að rífa niður greinar til að setja við gildruna.

Á morgun er fundur í Sakgeeng, sem er fyrstu þjóðar samfélag í Pine Falls, sem er bærinn sem er 1 klukkustund í suður frá Hollow Water. Það er enn einn Elders meeting, en fólk hér er að fá fram alls kyns vitenskju frá þeim gömlu, sem hægt verður að nota til að fá að halda í veiðilendur og land frumbyggja.

Við söguðum niður eina Björk í dag, og núna logar hún vel í ofninum, en grænn viður logar best þegar ofninn er orðinn heitur, þurr viður er notaður til uppkveikju, ég vissi ekkert um eldiviðar fræði áður fyrr en er að verða ágæt í því að kveikja eld, eins og formæður mínar voru víst flestar frábærar í.

Jæja best að fara að skrifa í tölvuna mína, mína daglegu dagbók, og drekka eitthvað heitt.