föstudagur, júlí 02, 2004

Ég er í mínum pælingum en þarf að styðja þær með annarra manna pælingum. Þetta er meginkjarninn í þessu öllu.

Ætti ég að breyta um ritgerðarefni? Fara yfir í efni eins og
"Sögulegt yfirlit yfir þróun náttúruverndar á Íslandi" í staðinn fyrir
"Fornar upprunaútskýringar á náttúrunni í eddunni" ? Veit það svei mér ekki. Hitt er auðvelt og vel afmarkað, en verra en hrútleiðinlegt, en það gamla er margþáttað en ótrúlega skemmtilegt viðfangsefni, sem þýðir að í það fer mikil vinna.

Er bara að koma heilanum aftur af stað. Sólbrann í dag, eins og venjulega. Manga flýgur, hrafninn flýgur! en Imba er frek, opnar ginið og heimtar mat, vill helst ekki fljúga og vill láta mata sig. Manga sofnaði á handlegg eins túrhestsins, hraut með hausinn undir væng.

Á sunnudaginn verður hægt að horfa á úrslitaleikinn í fótboltanum, í gamla bragganum á Hólmavík. Þar verður breiðtjald og bjór, Lára og Þorvaldur koma líklega, því það verður bjór en einnig vegna fótbolta. Svo er ball með hljómsveitinni Hraun í Árnesi, Trékyllisvík á laugardaginn, og svo er kvikmyndahátíðin 101 Hólmavík að byrja á sunndaginn. Nóg að gerast hér, það verður draugurinn að segja.

miðvikudagur, júní 30, 2004

Góður vinur Illugaskottu sem er ættaður frá Brekku í Sveinsstaðahreppi í Austur-Húnavatnssýslu rak upp risa stór augu þegar hann var að lesa heimasíðu umhverfisráðherra siv.is á mánudagskvöldið, en þar var mynd af bóndabænum Sveinsstöðum sem eru í Sveinsstaðahreppi í Austur-Húnavatnssýslu.

Ráðherra vor hafði barasta flutt Sveinsstaði, en undir myndinni stóð: Sveinsstaðir í Skagafirði. Humm, Sveinsstaðir hafa verið í Húnavatnssýslu í nokkuð mörg ár, alla vegana áður en hann fæddist, en það var árið 1969. Þetta gat ekki staðist,,,að það væri búið að færa þá yfir í aðra sýslu með hjálp umhverfisráðherra.

Vinurinn klóraði sér í hausnum og ákvað að láta vita af þessu. Hann sendi ráðherra tölvupóst. Ráðherrann hringdi í vininn í dag. Þakkaði honum kærlega fyrir að benda sér á þetta, hún gæti bara ekki gert honum Magga vini sínum þetta og að hún væri búin að leiðrétta þetta.

En þið sem ekki vitið þá býr Magnús á Sveinsstöðum. Vinurinn varð kátur þegar hann heyrði að búið væri að flytja Sveinsstaði aftur yfir í Austur-Húnavatnssýslu, og vonandi verður hann Maggi aftur kátur,,Maggi Sveinsstaðabóndi. Búin að fljúga þarna á milli sýslanna.

Annars þá skelli hlær marbendill núna, hann heldur um ístruna og hún hristist, hann liggur á gólfinu. Ég ætla að fara að hlæja með honum og svo ætlum við að elda flatböku og ræða um hafmeyjur og hafstramba.

mánudagur, júní 28, 2004

Er í Reykjavík fram á miðvikudag. Allt farið í óreglu úr reglu, eins og vera ber.

Sem þýðir að ég verð að fara að byrja á skítverkinu ógurlega sem er ritgerðar andskotinn. Það er búið að vera fjör á sýningunni.

Illugaskotta fær oft þessa spurningu frá Íslendingum: "Ertu norn?" Þá segir Illugaskotta
"Enginn alvöru norn segir að hún sé norn, það skemmir galdurinn",,,,en bara svona meir í gríni.

Sumarið er flott hérna í Reykjavík, hef ekki komið hingað í júní í mörg ár. Furðulegt. Margt í býgerð hjá mér og Þórdísi, sem ætlar að koma að heimsækja mig á Strandir.