föstudagur, maí 06, 2005

Föstudagur til fjárans,,fjársins, fjár, mjár og skjár. Stundum tala ég bara með orðum sem ríma, í rími. Hef ekki enn þá séð kríuna, fer af og til smá út fyrir bæinn til að heyra vorsöngva og finna lyktina af vorinu sem er alltaf ógnar góð. Allur gróður að vakna og jarðvegur að afþýðast.

Ég er núna hjá Svavari hann er að lesa yfir náttúrusýnar kaflann minn. Gott að fá gagnrýni frá honum. Náði í kápu fyrir ritgerðina á Félagsvísindadeild áðan, og allt er þetta hægt og rólega að smella saman. Mun láta prenta 5 eintök. Þessi rigerðarsmíð hefur verið rosaleg reynsla, eiginlega einskonar eldskírn. Lærdómsrík eldsskírn.

Mig langar óendanlega mikið að sjá vinkonur mínar í Danmörku, Fríðu og Eydísi, börnin þeirra. Spjalla við þær og hafa gaman. Bráðum, einhvern tíma. Illugaskotta er kát og hlakka mikið til sumarsins. Ég byrja að vinna 16. maí á Galdrasýningunni. Þá verð ég flutt á Strandir.

fimmtudagur, maí 05, 2005

Þótt ég væri hvalur þá væri ég ekki búin að drekka meira vatn, Illugaskotta er alltaf þyrst. Held að heilastarfsemin geri þetta allt saman, hann er loksins farin að virka heilinn.

Fyrir tveim dögum breytist Illugaskotta í frökin Þus. Illugaskotta fór á Þjóðarbókhlöðuna og þusaði og þusaði um að hún skuldaði sko ekki neina bók, og hún draugurinn sjálf myndi og hefði aldrei týnt bók á sinni löngu ævi. En í tölvan sagði það að Illugaskotta lægi á tveimur bókum eins og ormur á gulli. Nei, það er ekki rétt þusaði Illugaskotta, glætan og hefði aldrei gerst. Endaði með því að draugurinn sveimaði af stað með bókasafnsverði og viti menn, dýr, skrímsli og draugar. Illugaskotta fann aðra bókina, hún var þarna inni á bókasafninu...en hin bókin fannst ekki. Bókin var straujuð inn á meðan draugurinn stóð þarna sigri hrósandi, og fékk framlengingu á hina bókina! Það var nú ekki eitthvað sem Illugaskotta vildi, þannig að hún þarf að vera Fröken Þus aftur á morgun.

En hvað tölvur og önnur tækni getur verið pirrandi þegar eitthvað svona gerist. Meira mark tekið á vél en draug! Ekki gott.

Var að týna fífla hausa og blöð, einnig kerfil það er lakkgríslykt af honum. Er byrjuð aftur að spá í jurtir og lækningarmátt þeirra. Fífillinn og hvönnin er miklar lækningajurtir, sem vaxa gjörsamlega alls staðar. Er einnig að vinna í ritgerðinni, allt gengur vel, hægt og bítandi.

miðvikudagur, maí 04, 2005

Miðvikudagur. Framsóknarflokkurinn og Jónas frá Hriflu. Þarna á milli er órjúfanlegur þráður, sterkari en orð fá lýst. Aðdáun framsóknarmanna á Jónasi er ósvikin, enda stofnaði hann flokkinn. Hins vegar er Illugaskottu spurn hvort að aðdáun Jónasar væri jafnmikil á flokknum ef Jónas væri á lífi? Jónas var mikill aðdáandi allrar sveitarmenningar hvaða nafni sem hægt var hana að nefna. Ekki sé ég mikinn stuðning frá Framsóknarflokknum við það að styðja við landsbyggðina og framfarir þar á bæ. Hins vegar slefa þeir ef minnst er á Jónas.

Illugaskotta er engin aðdáandi Framsóknarflokksins eða Jónasar, áhugaverðir punktar hér og þar, en nei. Jónas valdi t.d. hvað væri úrkynjuð list og hvað ekki. Hvað er það? Hvernig er hægt að segja að eitt sé fallegt og annað ljótt? Smekkur, gildi og val fólks er mismunandi.

Vinir mínir sumir hafa sagt að Jónas frá Hriflu hafi verið fasisti. Illugaskotta hefur ekki skoðun á því máli. Einnig segja margir þeirra að Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn séu fasistaflokkar, sem troði sínum skoðunum upp á fólk og komi sínum markmiðum í gegnum þingið, sama hvað tautar og raular.

Jamm og já...eitt er hins vegar öruggt. Að það er engum hollt að stjórna of lengi, svo er einnig með ríksstjórnina okkar. Hún er þreytt, stíf og komin með verklega vöðvabólgu. Hún þarf að fara frá völdum. Það er komin tími á nýjar hugmyndir, hugsjónir og baráttumál. Jæja ég er farin upp á himininn með norrænu goðsögunum,,,

mánudagur, maí 02, 2005

Kuldaboli var duglegur í nótt að dreifa hvítu efni yfir Bláfjöllin og hana Esju gömlu. Illugaskotta fór snemma í sund, síðan í blóðprufu verð að vita ástandið í blóðfitunni, ætla alls ekki að láta hana koma aftan að mér, skal vera fyrri til að drepa hana. Prentaði út fröken ritgerð 135 síður án mynda, búin að lesa minn hluta. Kolla vinkona er að lesa yfir 40 síður, varðandi stafsetningu. Á morgun hitta Gísla og Þorra smá fundur varðandi útfærslu á praktíska hlutanum,síðan set ég inn myndir og myndaskrá, með dyggri hjálp frá henni Röggu vinkonu og tölvusnillingi.

Síðan klára að lesa yfir á miðvikudaginn. Fínpússa og setja sem fyrst í prentun.

Ég get varla sleppt hendinni af þessu barni. Er það tilbúið að fara út í hinn stóra heim? Án mín? Án þess að ég sé að segja því til og halda verndarhendi yfir því? Þór og Óðinn ég veit það ekki....!!! Best að anda rólega og sleppa þessu barni brátt út í hinn stóra heim.

Mark vinur minn hringdi áðan, frá Skotlandi. Hann fer til Eistlands eftir nokkra daga, til Tallin. Það hljóta að vera áhugaverð lönd: Eistland, Lettland og Litháen.

sunnudagur, maí 01, 2005

1. maí er í dag. Nú er svo stutt í bjartar sumarnætur, með fuglum í móa og draugum á sveimi. Það var samt kalt í gærkveldi. Var í Hafnarfirðinum í gærkveldi í heimsókn hjá henni Sirru sem mun eignast barn eftir að ég held 29 daga. Við átum ís og spjölluðum um margt.

Illugaskotta hefur ekki áhuga á því að festa líf sitt í steinsteypu. Af og til hellist yfir mig að ég verði að eiga heima einhvers staðar, eiga hús, vera í fastri vinnu, detta í hinn reiknanlega pakka. Vinna frá 8-17..frí um helgar, versla í Bónus á föstudögum, skreppa af og til út úr bænum, eiga kall og buru. Æji nei, þetta er svo óáhugavert sem frekast getur. Þetta skipulagða líf, úff...nei, ég held ég haldi áfram að njóta frelsisins, prófi nýja hluti og kynnist fleira fólki.

Ég hef átt íbúð með fullt af dauðu drasli, það var ágætt en svo kom ekkert meir,,,ég var alltaf að bíða eftir að eitthvað fleira spennandi myndi gerast. Þá vildi ég kaupa fleiri dauða hluti, áklæði á sófann, mála þetta og hitt og eiga hitt og þetta, og allt í einu þá bara vildi Illugaskotta ekki eiga dauða hluti.

Hún bara fór út í hinn stóra heim með hjartað í buxunum og kom heim til baka með hjartað á réttum stað.
Það sem ég var stressuð þegar ég fór í fyrsta skipti til útlanda. Réð mig í 7 mánaða vinnu á Jersey sem er í Ermasundinu, 22 ára og hafði bara aldrei farið á stóra flugvelli, ratað á einhver flughlið, notað vegabréf eða undarlega flugfarseðla. Núna tek ég ekki eftir þessu þegar ég ferðast, nema ég er sífellt að passa það að ég týni ekki vegabréfinu eða flugmiðanum. Margt er merkilegt í hinum stóra kýrhaus.