fimmtudagur, febrúar 24, 2005

Á morgun fer ég norður, þá verður gaman. Núna er ekki gaman, þótt ég spyrji allan daginn út og inn, hvort það sé ekki fjör? og hvort það sé ekki gaman?, þá er ég að grínast og hæðast af þessum fjörorðum.

Það er vor úti, þokan er eitthvað að glenna sig. Mér líður eins og ég sé að fara til tannlæknis, en ég er að fara á fund.

Í gær fór ég með Röggu að labba í Heiðmörk, fundum stíg við vatn, svo fundum við hlið, auðvitað verður maður að sjá hvað er bakvið hlið og við enda á götum. Þarna voru há tré og langur stígur, merkilegt. Svo rákumst við á eldgamallt hús með fallegri styttu fyrir utan.

Álftirnar eru hressar í þessu veðri, líka gæsir og smáfuglar. Nú er eitthvað annað að éta en frosið úti allt.

miðvikudagur, febrúar 23, 2005

Horfði á myndina "The Corporation" í gærkveldi, þessi mynd sýnir fram á að stórfyrirtækin í heiminum, stjórna, misnota og græða á öllu því sem skiptir máli, en þeim er sama þótt þeir misnoti börn, fátækt fólk og náttúruna. Svo lengi sem þeir græða, græða og græða. Einkageirinn græðir, með því að einkavæða allt tapar fólkið en fyrirtækin græða.

Ég er á móti þessari einkavæðingu alls staðar, eitthvað má vera í eigu ríkisins, því þá hefur fólk einhver völd á það sem gert verður. En með einkavæðingu fer allt á hendur fárra og fólkið missir völd til að segja eitthvað, eða bæta hlutina.

Það er komin tími til að skipta um ríkisstjórn, það er komið nóg af lélegri stjórnun þessa magnaða lands og á kröftugri þjóð. Það þarf að leyfa fólkinu að spreyta sig meira, það þarf að sýna meiri áhuga á menntun barna, að fjölskyldufólk geti verið meira heima með börnin, því þau eru framtíðin. Fyrirtæki eru ekki framtíðin eða stjóriðjan eins og ríkisstjórnin virðist trúa.

Það þarf meiri nýsköpun úti á landi, virkjun á menningararfi og góðri menntun er alveg nauðsynleg. Ungt fólk með alls kyns menntun getur ekki spreytt sig, því það eru ekki störf fyrir það. Menntunin nýtist í eitthvað allt annað en hún gagnast best í. Unga fólkið fer ekki aftur heim úr Reykjavík, kraftar þess koma ekki til baka í heimahaganna. Með nýsköpun úti á landi væri hægt að virkja krafta heimamanna og unga fólksins saman sem er að flytja aftur heim. Nýta staðbundna þekkingu til að sýna fram á það sérstaka og einstaka sem prýðir hvert hérað og sýslu hér á landi.

Lífið er ekki Reykjavík eða sumarbústaðir um helgar, lífið er um allt land. Þjónusta við fólk úti á landi er skammarlega slæm.

Það er vor, vor, vor úti. Kv frá Illugaskottu, sem er eitthvað pólitísk þessa daganna.

þriðjudagur, febrúar 22, 2005

Ég fór fram úr mér í brjálæðis pirrings kastinu þarna á laugardagsfærslunni, það er rétt. Maður á ekkert að bera á torg hvað hausinn er orðin brjál og sálin er orðin skál. En jú, þetta er orðið fjandi langt og erfitt ferli.

Þegar ég tala við annað fólk sem hefur verið að skrifa M.A ritgerð í umhverfisfræðum, þá hefur enginn orðið fyrir eins stífum kröfum og ég. Humm,,það leiðir hugann að því hvað sé að gerast með mig og mitt verk. Stórt verk og ég ræðst aldrei á garðinn þar sem hann er lægstur. Hugmynd minni verð ég að koma á framfæri, ég má ekki hætta við og gefast upp, þá er næsti kostur sem er að fara í frí.

Koma hress og spræk aftur að verkinu og sýna vandvirkni 100% og skilning á efninu 100%, mig vantar að ná utan um megin hugmyndina, að ég nái utan um hana og geti komið henni frá mér á skiljanlegan máta fyrir lesendur verksins og hlustendur varnarinnar hjá mér er megin málið.

Mig vantar tröppur frá jörðinni upp á himinhvolfið, ég þarf að færa náttúrutúlkunar kaflann fremst en ekki hafa hann næst fremst, ég þarf að taka myndirnar út, þær mun ég bara nota á kynningum, og ég þarf að laga hvernig ég nota óbeinar heimildir, allt og sumt og jú, ég þarf einnig að búa til stuttann kafla hvernig ég ætla að segja fólki frá náttúrunni út frá þessum fornu útskýringum, þannig að allir hafi gaman af og skilji það sem um er rætt....Allt og sumt, en heilinn og ég erum orðin þreytt.

Þokan liggur yfir eins og rosalega þykkur feldur á ísbirni. Ég er ísbjörn urrrr,,,ekki hrafn.

mánudagur, febrúar 21, 2005

Er að byrja aftur, ég gefst aldrei upp. Takk fyrir peppið. það er þoka úti, ég er fúlegg.

Annað er það í fréttum að Illugaskotta og einnig leiðbeinandinn hafa fundið fleiri ritstulda frá henni, í ritgerðinni. Það er ógnar pirrandi að hafa gert aðra eins hluti, hér og þar. En þetta er bara úr íslensku heimildunum, þar hef ég umorðað, en ekki nóg. Þetta er ekki gert með ráðnum hug, svona vinnar þreyttir hugar. Þar næsta fimmtudag verð ég í flugvél til Ameríku.

Er einnig að laga annað, ég segi eins og er. Þetta virðist enga endi taka, og lífið verður undarlegt ef þetta tekur einhvern endi, mikið væri ég til í að vera núna úti á sjó að draga ýsu og þorsk í soðið.

Svona er nú það, ótrúlegt fjör, gaman og hlátur. Ætla til ömmu í kvöld og elda ýsu úr frystinum þar, ætli ýsur vaxi í frystum?