föstudagur, mars 26, 2004

Fór í alls kyns útréttingar í dag. Keypti glærur, tók bækur á bókasafninu, kom bókinni minni í sölu í anddyri Þjóðarbókhlöðunnar, hitti fólk, ræddi málin og varð margs vísari. En hvað það er gott að vera inni þegar það er hvasst úti.

Allt er ágætt, þótt ég hafi vælt eins og versti ræfill fyrr í dag. Stundum er draugur bara fúll.
Föstudagsmorgun, blaðsíðurnar urður ekki 25 í þessari viku þær urðu 11, en fúllt. Gengur samt allt saman, það er nú önnur saga.

Illugskotta á í miklum vandræðum með sjálfa sig. Hún getur ekki, alls ekki frá helvíti tekið ákvarðanir sem varða líf hennar. Það er hennar mesti galli að hún breytir og breytir, klikkast og svo velur hún eitthvað. Það er voða sniðugt í smá tíma, en missir svo ljómann. Hvað er til ráða?

Til ráða er kannski að verða fullorðinn, hætta að flækjast og skjóta rótum. Gef skít í fyrra líf og byrja eitthvað nýtt. Æji hvað það er leiðinlegt að vera í tilvistarkreppu. Það verð ég að segja. Var að vakna, klæddi mig og datt inn í tölvuna. Hef ekkert étið í morgun, því mig langar ekki að borða, mig langar ekki að gera neitt. Sit hér nudda á mér ennið, dæsi og vesenast í hausnum á sjálfri mér sem gerir út af við mig. Samt á Illugaskotta að vera ánægð, hún er ekki með sjúkdóm, allir hressir í fjölskyldunni hennar, hún á góða vini og býr á frábæru landi. Hvað er þá að?

Hvað í andskotanum er að Illugaskottu? Hún vill skapa og hafa mikið að gera, en það er ekki að gerast núna. Þannig að nú verður hún að fara að átta sig á því að lífið gerist ekki bara, það verður að taka á hlutunum svo þeir gerist.

Illugaskotta veit að það fólk hefur verið að baktala hana, rægja hana og ljúga upp á hana vegna atburða sem átt sér stað seinasta sumar. En hún getur ekki sannað það. Annað er það að enginn spyr út í þessar lygar, fólk samþykir þær bara.

Hvers vegna? Því er erfitt að svara.

Nú eiga goðakvæðin það skilið í Konungsbók eddukvæða að ég fari og lesi þau öll aftur.

Í fyrra dreymdi mig draum. Illugaskotta var að fara að brjótast inn í Þjóðmenningarhúsið ásamt vini sínum. Því Illugaskotta vildi hvorki meira né minna en sjálft handrit Konungsbókar eddukvæða fyrir trúlofunarhring!!!!! Dýrmætasta handrit Íslands, það er ekki slæmur trúlofunarhringur.

fimmtudagur, mars 25, 2004

Ég er svo galin að ég er hætt að muna hvað ég heiti. En þetta mun allt koma. Er að berjast við sjálfa mig og allt það sem gengur á í hausnum á mér. Ég verð að fara að velja hvað og hvenær og allt það.

Mér líður fáranlega yfir öllu.

En það er gaman. Eins og Þrúður vinkona segir þá á maður að njóta þess sem gengur á í lífi manns hverju sinni, það mun ekki koma aftur!!!!
Það er hressandi veður úti, rok og rigning. Mikið er það gott, þá langar Illlugaskottu að vera heima og vinna eins mikið og hægt. Það eru komnar 37 síður af 100! Mun þetta klárast, gott fólk, vonandi og ég skal. Um það bil tíu síður verða með myndum þá eru komnar 47, svo þarf ég að skrifa um auðlindir, náttúruauðlindir og menningarauðlindir, eignarétt á þeim og hvernig listamenn sérstaklega hafa ekki verið feimnir við að taka á því að forma og móta ýmislegt úr menningarauðlindum eins og Eddunni, hin ýmsu verk. Hins vegar hefur verkfræðingastóðið ásamt Landsvirkjun og stjórnvöldum eignað sér náttúruauðlindir þessa lands með því að móta náttúruna eftir sínu höfði. Kannski eru þeir listamenn náttúruauðlindana? Ekki eru þeir hræddir við náttúruölfin og ekki er Þór þrumuguð það heldur, hann ræðst á náttúruaflið Miðgarðsorm sem hringar sig um öll höf og einnig drepur hann tröll.

Þetta allt velkist um í huga mér ásamt því sem ég hamast í Snorra-Eddu og er að fara svo aftur í Konungsbók-Eddukvæða. Með sama áframhaldi við skrif þá mun allur apríl mánuður fara í þessa ritgerð, en það er í lagi. Í mai eru skil, og þá hef ég tíma til að fínpússa og fá yfirlesningu.

Mikið er þetta leiðinlegt blogg hjá mér í dag. En þetta er líf mitt í dag, ritgerðin og Vesturbæjarlaugin. Á eftir að fara í sund í dag.

Var boðin í mat í gærkveldi og mikið var það notalegt, að sitja til borðs með tveimur öðrum og borða frábæran fiskrétt.

Annars þá er Illugaskotta í 44 tilvistarkreppu lífs síns, sem þýðir að hún veit ekkert hvert lífið stefnir. Það heldur áfram án þess að hægt er að ráða við eitt né neitt, bara að það sé eitthvað skemmtilegt þá er henni sama.

miðvikudagur, mars 24, 2004

Ég eldaði tvær flatbökur í gær ásamt því að fara í reiðtúr og fá rasssæri,,,,það var gaman. Loksins finnur maður að skrokkurinn er á lífi.
Fínasti reiðtúr á honum Lýsingi og með henni Þórdísi.

Rasssærið olli því að Illugaskotta vaknaði mjög, mjög snemma og skellti sér í sund.

Fastagestirnir sem ég kannast við voru þarna á ferðinni. Þær spyrja alltaf hvor aðra afhverju þær hafi ekki mætt. Þær vita að oftast hefur eitthvað alvarlegt gengið á þegar fastagestirnir mæta ekki í langan tíma. Langur tími hjá þeim eru t.d. þrjár vikur.

Einn fastagesturinn kom inn. Hún heilsar. Hún var síðan spurð af einni gamalli hvort eitthvað mikið væri búið að ganga á í hennar lífi. Sú unga sagði að það væri margt erfitt búið að vera á ferðinni. Svo hvíslaði hún en samt heyrðist það upp og niður skáparöðina,,að hún væri með krabbamein og hún væri að fara í aðgerð.

Sú gamla tók þessu með ró, sagði hægt og lágt: "æ, æ." Sú unga sagði að svona væri þetta bara, vonandi myndi allt ganga vel, en sér fyndist óhugnanlegt hve margir væru með krabbamein og hve algengt það væri.

Illugaskotta varð hugsi. Þetta er rétt. Hvað veldur? Það er stór spurning. Myndi segja að það væru þrír megin þættir: Mengun í umhverfinu sem hefur áhrif á matinn sem menn éta ásamt því að alls kyns aðskotarefni eru alls staðar, stress er númer tvö og svo númer þrjú myndi ég segja erfðir.

Hvað er til ráða? Ekki verða stressaður, maður getur ekki slitið sig frá erfðunum, og reyna að éta hollt og íslenskt,,,ekki allt þetta drasl sem inniheldur endalaus E efni,,,og annað álíka. En hvað veit draugur að nafni Illugaskotta annað en líf hennar snýst um eina ritgerð.

þriðjudagur, mars 23, 2004

Búin að fara í sund í morgun. Það var gott. Huxa mikið þessa daganna um tilgang, allt, hvers vegna, og hvað. Horfði mikið á hrafna sem voru í áköfum ástarleikjum í gær hér fyrir utan gluggann minn. Þeir svífa og svo skella þeir saman í loftinu, hrafninn er minn uppáhaldsfugl. Hans nafn á latínu er Corvus corax, ég kalla hann nú bara krumma. Krummi er samt pest þegar maðurinn fer að fæða hann óbeint, má þá nefna gorhauganna sem eru við bæinn minn fyrir norðan. Sláturhúsið þar skilur allt eftir opið og krummi nýtur góðs af, þarna er svokallað hrafnager.

Krummi verpir fyrstur hér á landi. Einu sinni björguðum við hrafnsunga úr laup, við erum nokkur úr minni fjölskyldu. Það var þegar við áttum enn þá jörðina Smyrlaberg. Þar verpa alltaf hrafnar, eitt par. Eitt sumarið þá sat einn unginn í hreiðrinu en hinir tveir flugu um loftin blá. Foreldrar krumma litla görguðu og görguðu á hann að skalla sér út í frelsið,sögðu honum að hætta að hanga heima, þar væri bara laupurinn. En krummi gargaði á móti að hann kæmist ekki úr hreiðrinu. Ég og bróðir minn fórum og athuguðum með hann krumma litla.

Þið sem ekki hafði séð hrafnslaupa gerið ykkur ekki grein fyrir því hvernig hann er. Hrafninn er ekki smekklegasti og snyrtilegasti fugl sem til er. Krummi velur allt sem er gróft og sterkt, sama úr hvaða efni það er. Þarna voru stórar greinar, ull, járnarusl eitthvað og svo var það sem hefti krumma að komast á brott, blátt baggaband. Baggabandið hafði vafist um fót krumma og stoppað blóðflæðið niður í klærnar, eins og við ökkla á manneskju. Við klipptum bandið í burtu og þá datt fóturinn af, þetta var einfættur krummi.

Við tókum hann með okkur niður á tún til að sýna einni lítilli hann, krummi gargaði næstum því úr sér tunguna. Svo slepptum við honum, hann hoppaði um túnið, gargaði ógurlega og svo flaug hann af stað. Ég hef oft hugsað hvort hann krummi einfætti sé enn þá á flugi einhvers staðar yfir þessu skrímsla landi.

Mun vinna til 17:00 í dag, hamast í þessu. Fer svo í heimsókn og þar munum við nokkrir snillingar baka flatbökur.

Áttavitinn er með skekkju í sér.

mánudagur, mars 22, 2004

"Þetta eru allt asnar Guðjón"!, er nafn á bók sem Illugaskotta hefur ekki lesið, en hún notar þessa setningu oft.

Er heima búin að lesa Gylfaginningu, rífa úr henni það sem snertir á náttúruútskýringum, og þá kemur annað vandamál. Auðvitað verð ég að vera með kynningu á hver þessi goð eru, hverjir kraftar þeirra eru og hæfileikar. Það þýðir ekkert að segja að þegar Baldur hinn góði var drepinn með Mistilteini sem Höður hinn blindi skaut að honum, því Loki rétti honum Mistilteininn og þá bara dó Baldur og allir hlutir áttu að gráta Baldur svo hann myndi vakna aftur til lífsins, og það gerðu þeir. Steinar, dýr, mannfólk, og plöntur, en tröllkona nokkur að nafni Þökk, sagðist mundu gráta þurrum tárum. Og þess vegna var ekki hægt að fá Baldur til baka frá henni Hel. Hel er undirheima gellan, sem er með hálft andlit á lífi en hinn helmingurinn á henni er dauður.

Nákvæmlega skiljið þið eitthvað í þessu? Þetta er frekar eitthvað eins og það er í hausnum á mér. Vil hafa þetta auðvelt og áhugavert, fyndið og skemmtilegt.

Það skulu verða skrifaðar 25 blaðsíður í þessari viku, og fjandinn og allir hans árar hafi mig ef það gerist ekki.

Ég er sem sagt að skrifa um fornar útskýringar á náttúrunni, byrjaði í Konungsbók eddukvæða og er nú að garfa í Snorra-Eddu, en hann Snorri Sturluson á að hafa notað Konungsbók eddukvæða sér til halds og trausts. Langaði svo að stökkva inn í þjóðsögurnar og þjóðtrúnna okkar íslensku...setja fullt af flottum myndum með og slá í gegn, (sagt eins og í Stuðmannalaginu ógurlega)

En það er erfitt að koma þessu saman á þann hátt að þetta segi manni eitthvað, en það er mikill fróðleikur varðandi náttúruna falinn í þessum kvæðum og sögum.

Farin að skemmta mér meir...

Lífið er frábært! Alltaf eitthvað að gerast sem er ótrúlega ekki á mínum skipulagslista eða geralista....

Áttavitinn færðist vestur í mínu lífi.

sunnudagur, mars 21, 2004

Á sunnudögum á Illugaskotta frí, frá ritgerðinni þótt hún dveldi áfram í hausnum á draugnum. Gef mér þrjár vikur síðan ekki söguna meir.

Dagurinn var góður. Fór í Kolaportið með henni Guðrúnu Ósk,,,lékum okkur með fjarstýrða bíla, töluðum við eldgamlan vestfirðing sem var að selja harðfisk, hákarl og fleira íslenskt, einnig hittum við fyndna prjónakonu.

Síðan fórum við í göngutúr, svo í verslun fyrir ömmu, drukkum hjá henni kaffi, síðan fórum við í sund, fórum yfir sundlaugina í handahlaupum, það var gaman. En vorum alveg ringlaðar eftir það.....hlógum mikið, fórum einnig á einhverja sýningu í Gerðubergi bara af því við vorum þarna í Breiðholtinu.

Síðan skutlaði ég henni heim, en ég sjálf fór á Kaffi Mokka að lesa blöðin og drekka kaffi.

Verslaði svo í matinn í Krónunni, sá fyrrverandi eitthvað...sem virðist elta mig uppi þessa daganna, en ömurlegt að rekast hundrað sinnum á manneskju sem maður hefur engan áhuga á að hitta....hann var vandræðalegur og Illugaskotta varð alveg bálill út í þetta kjaftæði..,,hennti mínum bökuðu baunum í poka og strunsaði út...

Gaman að vera pirruð og hress, kex.

Er að fara að heimsækja hann Tómas sem býr hér á 3. hæðinni. Skoða hjá honum myndir svo segist hann eiga rauðvín.....hvaða hvaða!!!!

Hlátur, og enn þá meiri hlátur. Marbendill er farin að hlæja á ný, það er svo margt að gerast í þessum heimi og hvað þá á þessu skrímsla skeri.