föstudagur, mars 14, 2003

Krummi hann er svartur, krummi er fuglinn minn. Hrafnar, heita Corvus corax á latínu. Ég hef mikinn áhuga á hröfnun, finnst þeir vera dularfullir og fyndnir, þeir leika ótrúlega loftfimleika hér á Háskóla svæðinu, snúa sér í hringi á fullri ferð í loftinu, ég held að þá séu þeir í ástarslag, og ég hef einnig tekið eftir því að þeir kjósa að sitja á hausum ljósastauranna hér í borginni og þá eru þeir líklega að hlýja sér á fótunum og ræða þar heimsins mál og nauðsynjar hrafna. Ótrúlegt finnst mörgum að hrafninn er stærstur spörfugla á Íslandi, en mörgum finnst að hrafninn sé ekki spörfugl þar sem hann er "ræningi" að margra manna mati, en hrafninn er flokkaður sem spörfugl því hann hoppar um eins og skógarþrösturinn til dæmis en er víst ekki eins sætur og dúllulegur og hinir spörfuglarnir. Spádómsfugl, það er hrafninn og einnig er hann uppáhalds fuglinn minn, því hann sýnir af sér mikla loftfimleika, er dularfullur fugl og einnig svartur. Einum vini mínum finnst hrafninn alltaf vera að tala við sig ef hann er að krúnka nálægt honum, að hann sé að segja sér einhverja vitneskju,spá fyrir honum eða kannski bara segja góðann daginn....

fimmtudagur, mars 13, 2003

13. mars !!! Hvað er að ske??? Dagarnir og árin fljúga út um gluggann og inn í gleymskuna svona alla veganna sumir dagar sem ekki er vert að muna eftir. Binna vinkona var að spyrja mig afhverju ég skrifa aldrei um skólan og ég virðist alltaf vera að gera eitthvað annað en að vera í skóla. Það er líklega rétt, ég nenni ekki að skólast meir. En læt mig hafa það því þetta er alveg að vera búið. En þessa daganna er ég að móta lokaverkefnið mitt og reyna að koma skráningarmálum á hreint, er skráð inn í stjórnmálafræðideild!!! halló ég er þjóðfræðingur ekki pólitíkus!!! og er að leita mér að umsjónarkennara fyrir lokaverkefnið, og er einnig að koma Canada málum á hreint og græja pappíra fyrir vesturheim. Einhvern vegin allt út um allt en þannig er þetta gaman. Ég á afmæli í næsta mánuði, sama dag og Snúlla/ mamma hans Jóns Jónssonar á Ströndum, fræðabónda. Á ég núna að fara að pæla í stöðu minni í lífinu, nei!!! nenni því ekki þetta er nóg í dag...erum að fara í ferð á Línuhönnun í dag þannig að ég kemst ekki í leikfimi þar sem maður fær dóp eftir sprikklið í kroppinn. Lokaverkefnið mitt er ómótað, bara orð á blaði og í hausnum á mér, er að pæla í því að skrifa um útskýringar fólks áður fyrr á náttúrufyrirbærum og náttúrhamförum, hver var skilningur þeirra, hvernig og afhverju útskýrði þetta fólk hlutina svona, þjóðtrú og sögur tengdar náttúrunni.....dýr og plöntur, og steinar og galdrar......alltaf að gera það sem er skemmtilegt það er mitt mottó og drífa hlutina af....

miðvikudagur, mars 12, 2003

Vorið er komið og grundirnar gróa. Fór í bíó í gærkveldi að sjá myndina Nói albinói, þessi mynd á já skilið það hrós sem hún hefur verið að fá, einlæg, fyndin, vel tekin, góð tónlist, góðir leikarar og snilldar flétta. Mæli með þessari mynd. Ég og Ragga hlógum og hlógum í hléinu því við höfuðum ekki hisst svo lengi og höfðum um margt að pískra. Svo fórum við á rúntinnn því ég hafði keypt mér geisladiska sem taka mann aftur til fortíðar, við urðum að fara aðeins aftur til fortíðar með Sálinni hans Jóns míns, ég veit!þetta er ekki góð tónlist en minningar fylgja þessum lögum, svona fyndin atvik frá því maður var 16 ára og var á sveitaböllum fyrir norðan að flippa. Einu sinni vorum við Iðunn að djamma í Miðgarði í Skagafirði, Sálin var að spila, húsið var fullt og við vorum fullar af gleði og einnig af allkóhóli. Svo allt í einu vorum við komnar upp á svið alveg hressar og þvílíkt montnar að vera þarna, nei nei, allt í einu liggjum við kylliflatar á dansgólfinu, þá höfðu dyraverðirnir ákveðið að dúndra okkur niður af sviðinu þar sem við vorum ekki alveg í takt við það sem var að gerast þar. Þetta var þvílíkt fyndið atriði, gellur í nokkrar sekúndur að okkar mati og aular frá helvíti þær næstu þar sem við flæktumst saman niðri á gólfinu....Fyndið bara fyndið...svo gleymdi ég diskunum í bílnum hjá Röggu þannig að ekkert flakk til fortíðar í dag hjá mér einungis Röggu sem keyrir um göturnar í dag með sólheimabros á andlitinu og örugglega í endalausu tímaflakki í fortíðinni.

þriðjudagur, mars 11, 2003

Í gær var búið að teikna fjallamynd í rykið á hliðarglugganum á bílnum mínum, fjöll, sól og uppi á fjöllunum stóðu tvær manneskjur, mig langar á fjöllin núna,,og í nótt þá fraus myndin í frostrósir ótrúlega flott, einhver á ferð sem laumast um bílastæðin hér á Háskólasvæðinu. Sund og hjól í dag, nota hjólið eins mikið og hægt er, ætla að taka Guddu frænku á fimmtudaginn með mér upp í sveit, skutlum hjólunum á pallinn á jeppanum keyrum út í sveit og svo hjóla um eitthvert svæði og skoða, leita að keldusvínum og öðrum svínum. Veðrið er gott og ég er inni. bleugh, dæs og væl.

mánudagur, mars 10, 2003

Sagan af því þegar ég var næstum því lamin af manneskju sem notar sama skónúmer og ég.
Sem sagt daginn sem ég vogaði mér í leikfimi hér í Háskólanum þá fékk ég "lánaða" skó sem ég hélt að væru óskilamunir og ætlaði bara að setja aftur á sinn stað þegar ég væri búin að svitna í þeim og hamast í þeim. Jæja ég laumaðist í þá og svo byrjaði leikfimin, það var hoppað, hlaupið og meira hoppað, mér varð vibbalega heitt á fótunum og fæturnir mínir kölluð á mig að hleypa sér út úr þessum illa lyktandi skóm, ég hlustaði á þá og segi bara sem betur fer. Hennti af mér skónum og hélt áfram að hoppa og skoppa. En svo kemur allt í einu manneskja upp að mér, gargar og argar, ég sagði bara ha! og horfði á hana, þá hvæsti hún á mig "Tókst þú þessa skó"? Ég bara" Humm já ætlaði bara að fá þá lánaða, ætlaði sko að skila þeim aftur". Hún:" Ég bara setti þá þarna því ég ætlaði í þá aftur, hvað er eiginlega að þér." heumm, já það er spurning? Hvað er ekki að mér? Ég var bara að hoppa og skoppa á meðan hún æsti sig og mundaði hnefanna. Ég ætla ekki að hugsa til enda ef ég hefði verið í skónum og hún komið, þá hefði ég fengið að kenna á því, kannski hefðu byrjað slagsmál á milli mín og hennar. Þetta var dagurinn þegar ég var næstum því tekin í annarar konu fótsporum.
Vera týndur eða týnd á jökli er örugglega ekki það sem margir vildu vera, afhverju ætli gaurinn hafi yfirgefið sleðann sinn? Vona að þeir finnist sem fyrst þessir gaurar. Ekkert markvert að gerast í mínu lífi, svona nokkurs konar ládeyða, flatneskja, forneskja. Hummm, kannski er efnafræðingurinn að leita á Langjökli.. Sólin skein hér í morgun og ég get notað öfga flottu sólgleraugun mín. Einhver hringdi í mig í gærkveldi, nennti ekki að svara því ég var að sofna, svo veit maður ekkert hvaða fjandans númer þetta er, eigandi finnst ekki skráður, hvaða réttlæti er í því? Pirr, pirr, urrrrr.....Megið þið eiga góða viku, með skattaskýrslunum ykkar.