föstudagur, september 10, 2004

Skrif Illugaskottu hafa stundum æst upp fólk. Illugaskotta vill engum illt, hún vill bara að segja hvað býr í hennar brjósti. Það er í frjálsu vali hvers og eins hvernig hann/hún tekur skoðanir mínar til sín.

Skoðanaskipti eru til þess að fólk geti rætt málin, gagnrýnt hvort annað og séð hlutina í fleiru en einu ljósi. Skoðanir eru til þess að breyta samfélögum, koma af stað umræðu svo eitthvað breytist, svo fólk fari að hugsa á annann hátt.

Illugaskotta er að fara að smala á morgun. Fé og fólk, labb og fjör.


Fannst og finnst áhugavert að Umhverfisráðuneytið og aðilar sem koma að ferðaþjónustu á hálendinu séu að fara að beita sér að auknum krafti gegn utanvegarakstri. Gott og blessað og allt það kjaftæði! En, ég segi bara en,, því ég hef lítið tjáð mig um hina all hötuðu Kárahnjúkavirkjun, en hvað með spjöllin sem þar eru unnin? Allan utanvegar aksturinn sem þar á sér stað? Þetta er í lagi því þetta er framkvæmdarsvæði, öðru nafni aftökustaður Kárahnjúkasvæðisins.

Þá eru nokkur utanvegaraksturs hjólför ekki neitt miðað við það. Eins og Andri Snær rithöfundur benti á. Það er verið að skemma heilu hauganna af náttúrudóti sem ætti að vera fyrir komandi kynslóðir. En nei þetta er bara svona, best að koma í veg fyrir utanvegarakstur þá erum við alla veganna að gera eitthvað gott fyrir landið okkar. Jamm,,og hux...Illugaskotta verður alveg snarbrjáluð þegar hún hugsar um Kárahnjúkarvirkjun. Þetta eru mestu mistök sem hafa verið gerð.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir núverandi menntamálaráðherra, sagði árið 2001 sem Siv heimilaði virkjunnar skömmina, að Sivjar yrði minnst sem konunnar sem hafði bjargað efnahag íslensku þjóðarinnar!

Það verður aldrei spáir Illugaskotta.

Siv er umhverfisráðherra í nokkra daga í viðbót, svo sest hún inn á Alþingi sem óbreyttur þingmaður. Hvað fékk hún fyrir að heimila Kárahnjúkavirkjun?
Virðingu og stuðning flokksins síns? Ekki held ég það.

Sivjar verður minnst sem umhverfisráðherrans sem heimilaði stærsta hernaðinn gegn landinu okkar, umhverfisráðherrann sem hefur komið í veg fyrir að börnin okkar fái að sjá þetta svæði í sinni upprunanlegu mynd, hennar verður minnst sem umhverfisráðherrans sem réttlæti þennan hernað gegn landinu.

Hvað hefði gerst ef hún hefði sagt nei við Kárahnjúkavirkjun?

Eiga umhverfisráðherrar ekki að vinna fyrir umhverfið?

Kynslóðir koma og fara, stjórnmálamenn koma og fara. Allt fer einhvern vegin.

fimmtudagur, september 09, 2004

Illugaskotta sefur frekar lítið þessar næturnar, einhvern veginn er hugurinn á flugi út um allar trissur, fjöll, dali, og ár.

Svo þegar klukkan er að nálgast það að verða 16:30 þá fer draugurinn að horfa á rúmið sitt löngunar augum. Bara smá lúr, já bara smá segir draugurinn við sjálfan sig. Nei það gengur ekki, ég ætla að vera búin að lesa þessar bækur, ljósrit og fleira fyrir 23. september. Annað sem hefur komið í ljós, það eru til svo margar fræðigreinar um mitt mál sem ég er að rekast á í heimildarskrám þessarra fræði kalla og kellinga að stundum sýður á mér. Það er ekki hægt að lesa allt, sem er alveg satt.

En draugurinn hefur ákveðið að vera ekki að stressast eða flýta sér, bara einn bagga í einu og svo verður þetta búið.

Hef dottið í einhvern matarpakka! Bakaði fjallagrasabrauð í gær, tvö stykki. Og í kvöld ætla ég að búa til baunasúpu, án saltkjöts! Nota beikon, gulrætur, rófur, lauk og kartöflur. Þetta verður öndvegis baunasúpa. Langar að gera spænskan mat á morgun. Hlakka til að synda á eftir.


miðvikudagur, september 08, 2004

Jötnar voru og eru hundvísir, þetta er orð sem lítið sem ekkert er notað í dag. Ég hef hins vegar ekki séð eitt einasta slæki í dag, kannski í kvöld þegar ég fer í sund.

Vonandi hitti ég bráðlega hundvísan jötunn sem getur stjórnað vindinum. Þá mun ég kaupa mér svifdreka, svífa til framandi landa. Nú er hausinn á mér orðinn fullur af forneskju í bland við drauma. Farin að búa til fjallagrasabrauð í pásunni minni.


þriðjudagur, september 07, 2004

Að horfa á myndir í sjónvarpsfréttum af morðum, slysum, svindlum, rifrildum, valdagræðgi, nauðgunum, misþyrmingum og fleiru neikvæðu er það sem sett er í fréttir. Það eru svo sjaldan jákvæðar og skemtilegar fréttir, ef þær eru þá eru þær hafðar í enda fréttatíma, eins og stef eða eitthvað.

Þessar neikvæðu fréttir hafa hægt og bítandi slæm áhrif á þjóðarsálina sem býr víst í Þjóðmenningarhúsinu ef maður á að muna orð Davíðs Oddssonar þegar hann opnaði það snobb hús!

Ég var að horfa á myndir í seinni kvöldfréttum frá gíslatökunni í Rússlandi. Greyið fólkið, þetta hefur verið hræðilegt. Fast þarna inni með sprengjur út um allt, vopnaða og grímuklædda menn yfir sér. Svo sá ég myndir í dönsku vefblaði, það var annar viðbjóður.

Illugaskotta er að spá í að stofna nýjann fréttatíma. Tími jákvæðra frétta, þar verður sagt frá hinu og þessu jákvæða í lífi Íslendinga og hvað sé að gerast hér og þar í dýralífinu hér á landi.

Nú kallar sjónvarpið, minn stjórnandi á kvöldin, breskur glæpaþáttur. Hann lætur Illugaskotta ekki fram hjá sér fara,,kaldhæðnislegt...morð, neikvætt, spenna, áhugavert,,,,úr verður sjónvarpsþáttur...hummm þetta er eitt alsherjar samsæri.
Það rignir og rignir. Það er gott. Illugaskotta heyrði í Bjarna bróður sínum í gær.Hann fór út á sjó í morgun í 6 vikur! Vá, vera á sama staðnum í 6 vikur það er með ólíkindum. En þetta er gott pláss á Örvari frá Skagaströnd sem er víst ágætur togari.

Búin að gera þetta og hitt í morgun. Allt að gerast.


mánudagur, september 06, 2004

Ég sá hval í gær, eina hnýsu sem blés hátt og mikið.

Hef verið að tala við Carrie-Ann sem býr í Canödu, hún er núna að keyra yfir hana Canödu til Bresku Cólumbíu, hún er núna í Alberta fylki í þjóðgarðinum Jasper. Hún fékk nóg af NRI, deildinni sem ég var í og hún. En ætlar að fara aftur í janúar, til þess að klára.

Nú er sól, rok og hressandi veður. Allt gengur ágætlega, langar bara að klára þetta sem fyrst.