laugardagur, febrúar 21, 2004

Bull og vitleysa gengur á í hausnum á mér. Þegar vindurinn hamast á húsinu og hríðin þá sefur Illugaskotta aldrei betur, núna var sett svefnmet í turninum, heilir 10 tímar og geri aðrir betur.
Kvöldið í gær var leiðinlegt, leigði mér tvær spólur og nennti ekki að horfa á þær. Laugardagur til laugar, og það er ég að fara að gera núna. Fara í sund, bókasafnið og eitthvað.

Hausinn á mér er að springa af svefni, svaf í hring, svaf inn í mig hausverk. Tónleikar í kvöld með Önnu Fanney og Oddi syni hennar, það verður gaman. Hitti kátann hvolp í gær sem vildi láta faðma sig og einnig láta einhver slást við sig, það var gaman.

föstudagur, febrúar 20, 2004

Illugaskotta skrifast á við vin sem býr í Canödu. Við skrifum tölvupóst. Vinurinn heitir Garry Raven og hann er indíáni, frá Ojibway ættfloknum. Það sem hann gerir er að hann er kennari, hann kennir indíánum aftur inn á menningu sína. Þetta er magnaður gaur. T.d núna um helgina er hann að fara í kofann sinn sem hann á einhvers staðar úti í skógi, 3 klukkustundir á snjósleða og þar ætlar hann að vera í afslöppun í þrjá daga. Veiða, sofa og láta sér líða vel. Maður lifandi þetta er ógnar áhugavert líf.

Bréfin hans er venjulega í tölvunni á morgnana og koma mér alltaf til að hlæja eða brosa. Sem betur fer.

Nokkur hluti fjölskyldunnar minnar fyrir norðan er að koma í bæinn í dag, það verður fjör. Ég og frænkan sem er víst 10 ára, fórum í sund í gærkveldi. Svo sýndi ég henni hýbýli mín, og kenndi henni að elda indverska kartöfluréttinn minn. Það var hún ánægð með og sérstaklega vegna þess að henni fannst þetta magnaður réttur. Svo sagði hún að ég byggi í notalegri íbúð, ég var og er alveg sammála henni. Einnig sagði hún að ef ég ætti mann þá yrði hann alveg rosalega ánægður með mig, þar sem ég bý til svona góðan mat. En hún sagði að ég ætti ekki mann líklega vegna þess að ég nenni ekki að dröslast með einhvern kall alltaf mér við hlið....þetta fannst Illugaskottu mjög fyndið, og hugsaði sitt.

Ég hygg ferð út á land eftir helgi, eitthvað að hugsa um að fara í fjallaferð um þar næstu helgi sem endar í Kverkfjöllum, en er samt ekki viss. Svona er þetta, hef varla tíma fyrir fjallaferð. Það er þorrablót fyrirhugað í Kverkfjöllum þá helgina.

Farin í morgunkaffið yndislega. Brynhildur valkyrja verður að senda mér annan poka af þessu yndislega Delí kaffi sem fæst á Delínu hennar í New York, mitt er alveg að verða búið.

fimmtudagur, febrúar 19, 2004

Góðan daginn!

Ég hljóp um Þjóðarbókhlöðuna eins og brjálæðingur í gær að leita að skjölum, bókum og öðru þvílíku. Heilinn dó allt í einu í miðri leit. Tölvukerfið er svo hægvirkt að maður getur hitað kartöflur og étið þær áður en næsta færsla birtist á skjánum, það að bíða gerði mig gargandi brjálaða. Enda langaði mig að garga á alla sem voru eitthvað að flækjast fyrir mér þegar ég var við leit í hillunum, mig langaði að sótbölvast. En Illugskotta fór þá að hugsa jákvætt og þá gekk þetta betur.

Hitti margt áhugavert fólk. Spjallað um aðbúnað fólks fyrr á öldum, hvað það át, hvernig það svaf í rúmunum sem eru nógu stór fyrir dverga, hvernig konur pissuðu þegar þær voru úti á hafi. Þær notuðu víst hrútshorn var mér sagt í gær, sem þær pissuðu í gegnum. Hún Þuríður formaður átti víst hið besta horn. Annað merkilegt var að konur dóu hvað mest úr blöðrubólgu því allar brækur voru opnar. Þetta eru nú meiri upplýsingarnar.

Illugaskotta hefur mikið velt því fyrir sér, hvað fólk notaði sem klósettpappír áður fyrr, eða getnaðarvarnir, eða hvað konur notuðu þegar þær voru á blæðingum. Þessar upplýsingar hafa einhvern vegin horfið, fólk er ekkert mikið að tala um þessa hluti. Einhvers konar klofbannsumræða á þessum hlutum.

Er nú á Þjóðarbókhlöðunni að halda áfram með það sem frá var horfið í gær. Margt að gera í dag.
Fara á fund klukkan 11:00 hjá bókaútgáfunni Sölku.
Ná í miða á tónleikana sem verða á laugardaginn.
Borga reikning sem ég átti víst að fá gíróseðil fyrir, en sem sagt er komin á svartan lista þarna hjá einhverri ráðstefnunefnd, mér var sendur tölvupóstur um að borga.....áhugavert.
Hitta Guðrúnu Ósk snilldarfrænku og fara með hana í menningarferð, hún er 9 ára.

Það rignir með mesta móti, mér er sama. Fór í sund, og er aldrei hressari en eftir þá skrokka og sálar lyftingu.

miðvikudagur, febrúar 18, 2004

Leti, regn, rok. Þjóðarbókhlaðan ógurlega. Vonandi er hann Funi galdraköttur í anddyri Þjóðarbókhlöðunnar,,,,ooooo,,jamm og já,,,mig vantar þræl sem ég get sennt út og suður. En ég sjálfur draugurinn Illugaskotta get setið heima, lesið og grúskað, meðann þrælinn hendir í mig,bókum, skjölum og öðrum nauðsynjum.

Farin út í veðrið.

þriðjudagur, febrúar 17, 2004

Fannar Bjarnason, yngsti bróðir minn er 18 ára í dag! Til hamingju stóri bróðir með daginn!!!!

Illugaskotta les hverja frábæru bókina á fætur annari. Nú er það bókin Haustskip eftir Björn Th. Björnsson. Þetta er hin mesta skemmtun að lesa, fjallar um Íslendinga sem einhverra hluta vegna enduðu í fangelsi í Kaupmannahöfn um 1780. Bókin er þannig skrifuð að það er ekki hægt að hætta að lesa, fyndinn og spennandi texti.

Það er fróðlegt að lesa um aðstæður fátækra á Íslandi og hverju þessu fólk var að stela til þess að lifa af, síðan var þetta lið sennt til Danmerkur í afplánun, brennimerkt á ennið eins og búpeningur og þarna týndi það flest líftórunni. Einnig er áhugavert að lesa um dómara, sýslumenn og annað pakk sem nýtti sér vald sitt til hins ítrasta og oft út fyrir öll velsæmismörk.

Keypti einnig frábæran disk á útsölu í Skífunni, það er hann Neil Young, og diskurinn heitir Harvest Moon.

Í seinustu viku hitti ég steinakallana vini mína, þeir og ég ræddum margt, en það sem stóð upp úr var umræðan um fyrsta og eina fjöldamorðingja Íslandssögunnar, hann Axlar-Björn sem bjó á Snæfellsnesi. Hann myrti 18 manneskjur, með hjálp konu sinnar sem hét Steinunn. Þau voru dæmd til dauða á Brekkuþingi árið 1597. Ungur maður að nafni Ólafur var fenginn til að lífláta Axlar-Björn. Fyrst voru leggirnir brotnir með trésleggju og haft lint undir svo kvölin yrði meiri.

Axlar-Björn kveinkaði sér ei. Þegar allir útlimir Axlar-Bjarnar voru brotnir sagði kona hans við þá er voru viðstaddir:"Heldur saxast á limina hans Björns míns." Þá sagði Björn:" Einn er þó eftir og væri hann betur af." Og var hann þá höggvinn. Dys Axlar-Bjarnar sést enn í dag í túninu á Laugarbrekku, dysin er úr grjóti og er orðin grasi vaxin, er hún kölluð Axlar-Bjarnardys. (Jón Árnason, II)

Það væri magnað að til væri safn um þennan óþokka, því þetta er líka saga þessa lands. Það væri hægt að gera ótrúlega spennandi, hryllilegt og áhugavert safn út frá þessari sögu. Ég vil ekki einu sinni fara að láta mig dreyma, en eitt er víst og svo öruggt að fólk vill vera hrætt og það vill upplifa viðbjóð og spennu.

mánudagur, febrúar 16, 2004

Höfðabrekku-Jóka er farin að banka upp á hjá mér á kvöldin, þannig að mér er ekki farið að verða um sel. Því mun ég ekki svíkja hana eins og einhver annar hefur þegar gert. Hér koma seinust erindin í þessu kvæði, sem hann Ólafur Jónsson samdi.

Illa segja ýtar mig.
Eg skal hata þá.
Aðeins börnin ómálga
elska Jóka má.
Þeim varð aldrei heift í hug
hrein er þeirra sál,
þekki ekki þessa heims
þyngstu vandamál.
Ungabörnin eru vís,
eldri verða flón.
Reykjarsvæla röm og stæk
rýkur yfir frón.
Vertu ekki að vola,
vesalings drengurinn!
Skilurðu ekki skriftirnar,
Skælu-Bárður minn?

Vertu ekki að væla lengur,
vot er lítil kinn.
Ekki þarf að óttast neinn,
aulabárður minn.
Blundaðu, barnið gott,
byrgðu tára lind.
Höfða-Jóka hampar þér,
herleg kind.
Sællt veri fólkið í þessari meiriháttar vorblíðu hér á suðurlandinu sem er að gera mig hressari en ella. Ísinging var þykk á bílrúðunni í morgun, hin besta líkamsrækt fyrir þá sem eru alltaf veikir. Illugaskotta er að þykjast að vera gera eitthvað hér á Þjóðarbókhlöðunni. Það er staður sem henni verður eiginlega aldrei neitt úr verki nema hún viti nákvæmlega hvað hún er að fara að gera þar og hvað hún er að sækjast eftir þar.

Í anddyri Þjóðarbókhlöðunnar var undarlegur náungi sem virtist vera búin að eigna sér hina heitu rist sem er inn við útidyrahurðina. Þessi náungi, sat þarna á ristinni, í gulum fötum að hlýja sér á tánum. Enginn virtist veita honum athygli nema Illugaskotta. Enda var þetta köttur að nafni Funi, sem býr hér á melunum. Einhvern vegin hefur hann smeykt sér inn um dyrnar og þarna unir hann hag sínum vel.

Ég klappaði honum og spjallaði aðeins við hann, hann sagðist vera eitur hress og væri einungis að hlýja sér á tánum, ekkert sjálfsagðara, finnst mér.

Svo fór ég að fylgjast með úr fjarlægð hvor fólk sæi hann Funa eiturhressa eitthvað, og svo var ekki. Fólk skundar eins hratt og það getur inn og út úr þessu húsi, með augun og öll önnur skilningarvit lokuð.

Merkilegt hvað fólk er blint, eða kannski er Funi galdraköttur sem einungis Nornin í mér sér.

Kvæði kemur seinna í dag.

sunnudagur, febrúar 15, 2004

Hvað get ég sagt í dag annað en það að vindurinn og rigning tóku aldeilis til í þessari borg, sópuðu í burtu mengun og skít,,,loftið er hreint og fínt í dag, enda allir sofandi nema ég og fáeinar aðrar hræður hér í Reykjavík.

Ég les nú mér til gamans en einnig til upprifjunar allt um þjóðfræði til þess að vekja upp minn gamla heila og margt er að koma á daginn sem ég var barasta búin að gleyma. Svo hef ég hugsað mér í dag að labba í bæinn og fá mér kannski kaffibolla á Mokka og skrifa í alvöru dagbókina mína. Þessi dagbók eru svona hreinsuð, eins og ég hef áður sagt þið fáið aldrei að kíkja lengst inn í mín hugarskot þótt sum þeirra séu dregin hér fram.

Sagan hennar Höfðabrekku-Jóku heldur hér áfram, þeir sem ekki hafa lesið allt, þá er hún Jóka að koma honum Bárð skælu inn í draumalandið.

Mér er jafnan morð í hug
meina finn ei bót.
Heimska mín um hefndir bað,
af hatri varð ég ljót.
Aldrei lít ég æðra ljós,
innri vitund dimm.
Afglaparnir óttast mig
af því verð ég grimm.
Sumir þylja særingar,
söngla stefin forn.
Geigur þeirra og galdrakukl
gerðu úr mér norn.
Komi ég á bóndabæ,
burtu skrýllinn flýr,
af því get ég öskrað hátt
eins og villidýr.
Fordæðunni færir þrótt
fólksins djöflatrú.
Bíum, bíum Bárður!
Blundaðu nú
!