laugardagur, janúar 18, 2003

Ætlaði ekkert að skrifa um helgina en er komin í tölvu og þá skrifa ég....er að vinna í umsókn til að fá að kynna bókina mína í Kanada og einnig að vinna í öðru plaggi sem kemur fyrrverandi Náttúruvernd við núverandi Umhverfisstofnun. Frí á morgun í hausnum og ætla að brasa eitthvað með þessari handleggsbrotnu. Ég og leikkonan og söngkonan fræga sátum í öllum pottum Vesturbæjarlaugarinnar í 2 1/2 klukkutíma í gær! Ræddum lands-, heims- og persónuleg málefni. Fórum svo í frábæra búð, blómabúðina Blómaval. Þar eru risa páfagaukar sem flauta á mann þegar maður snýr bakinu í þá, einnig er hlýtt þarna eins og í hitabeltislandi, keyptum og keyptum plöntur. Lára keypti nú meir en ég, ég hanna allt í kringum mig þannig að ég sé alltaf að flytja og það lætur mig kaupa sem minnst, keypti þó plöntu sem mig hefur lengi langað í Aloe Vera plöntu sem er komin á skrifborðið mitt. Hver maður ætti að eiga svona plöntu því gott er að nota safann úr henni á brunasár. Þá tekur maður blað af henni, opnar það, leggur á brunasárið og lætur vera á brunasvæðinu. Sviðinn hverfur.

Ekkert annað markvert í gangi, fólk í kringum mig virðist almennt vera hundfúlt og leiðinlegt. Allir að drepast úr fílu eða kannski er það bara ég?

föstudagur, janúar 17, 2003

Kallt úti og það er æði, ég er í lopapeysunni minni og mér líður svo vel með þennan kulda að það er ótrúlegt. Það er að koma skíðasnjór og mig langar að læra á snjóbretti, er hörmuleg á skíðum en fer samt á skíði því mér finnst það svo gaman. Hálka úti, ég hef komið þessum vetri af stað. Búin að tala um það í allan vetur að þetta sé þvílíki góði hjólaveturinn, jæja ég flyt í hlíðarnar og tek hjólið mitt fram og viti menn veturinn kemur eins og ég hafi ákallað hann með hjólinu mínu. Hjólinu hans Sigga Atla vinar míns var stolið, aumingja Siggi, það er svo fúllt þegar það er stolið frá manni hlutum. Hvar er Blámi þinn Siggi? Ég vona að sá sem stal því sé búin að detta illilega á því í hálkunni og meiða sig vel. Farin í sund þótt seint sé, frýs og það er svo gott að frjósa á sundlaugarbakkanum og stökkva út í til þess að þiðna, mana sig svo upp í það að fara í heitasta pottinn því hann bítur mann í skinnið. Eigið góða helgi.

fimmtudagur, janúar 16, 2003

Hafið þið lennt í því að fólk fái símann ykkar lánaðan? Mér er ekkert sérstaklega vel við það að borga símreikninginn fyrir aðra en lánaði símann minn í dag, hann hvarf í allt of langann tíma og ég saknaði hans. Næst þegar ég verð spurð hvort hann eða hún geti fengið að hringja þá ætla ég að segja nei eða viltu þá kaupa fyrir mig kaffi og snúð í staðinn! hehehe nánös get ég verið. Nánös hvaðan kemur það orð? Elsku Landsvirkjun ég vona að allt gangi vel hjá ykkur í náinni framtíð við það að skemma náttúruna. Takk!

Ég fór í ráðhúsið í dag, var á pöllum en var alveg kurteis, hlustaði á borgafulltrúa og grálúsugann almúgann púa á sjálfstæðismenn en klappa fyrir hinum sem eru víst vinstri sinnaðir. Leiðinlegar ræður, leiðinlegt fólk engin spenna, allt of langar ræður, allt of mikið verið að segja það sama. Hvar er mottóið skemmtilegt krakkar???!!!! Eða " verum eins sniðug og við getum svo allir taki mark á okkur krakkar"
Veit það ekki maður, þusa bara hér á netinu um þetta mál.
Snjór, snjór, gleði, bros og hamingja!!!! Bílasalinn var svo fúll út í mitt móðgandi tilboð að hann hringdi ekki einu sinni í mig. Ætla að hækka mig um 20. þúsund krónur í dag. Þá er gaurinn að fá 500 þúsund fyrir þennan öfga gamla jeppa. Einu sinni hélt ég að þegar ég yrði 20 ára að þá mynd ég hætta að fá bólur, beið öfga spennt eftir þessum merkis bólulausa degi en hvað haldið þig eftir tuttugasta afmælisdaginn minn þá bara breyttist þetta ekki neitt, þær koma alltaf jafn glaðar á mitt broshýra smetti og nú get ég sagt að eftir eitt ár hljóta þær að hætta að koma en þá verðu Illugaskotta þrjátíu ára gömul 30 ára, skrítið.. Ég lýsi hér með stríði á hendur bólna, en bólur eru ekki með hendur þær eru með vibba. oj. Ein vinkona mín er svo skipulögð að í gær sýndi hún mér stundatöfluna sína fyrir lífið, hún gerir vikulegt lífsskipulag, lífið eftir vinnu og í vinnunni, setur inn það sem hún ætlar að éta og hvað hún ætlar að horfa á í Tv og hverja hún ætlar að hitta, ég vildi að ég gæti þetta en ég yrði sturluð að vita alltaf hvað ég væri að fara að gera þótt það myndi gera hlutina einfaldari.

Já Illugaskotta fór á fundinn í gær, og fékk meira að segja sæti, tók sæti af einhverjum sem vissi ekkert um málið og einhverjum sem hefði frekar átt að sitja þarna. En flott dagskrá, salurinn sprakk af fólki, Mynbandið var listilega unnið og allir einhvern vegin já hvernig voru allir einhvern vegin?Fólk er leitt, reitt, undrandi á því sem er að gerast en fyrirgefið mér þetta er búið að vera á teikniborðinu í mörg ár! Búið að kynna þetta fyrir mörgum árum, Björk ekki vera svona fúl!!! Segii ég við sjálfan mig, bara finna mér jörð á Ströndum þar get ég verið í friði með selunum sem eru feitir og geta leikið sér allan daginn og étið allan daginn.

miðvikudagur, janúar 15, 2003

Frost úti og mig langar að sofa úti í sveit í nótt. Bauð áðan í rauðu tófunna, bílinn sem mig langar gríðarlega hræðilega mikið í. Hlynur og ég fórum á rúntinn, jú fínn bíll sagði bifreiðaskoðunin Hlynur. Bílasalinn sagði að gaurinn myndi ekki vilja mitt tilboð, þá sagði ég bara að mér væri nokkuð sama það væri til nóg af öðrum bílum til að bjóða í og ég færi bara eitthvert annað. Þá vildi hann hringja í gaurinn sem á jeppann en þeir eru vinir. Er að bíða eftir svari við tilboðinu og held það verði nei en það skiptir mig ekki máli.

Bílasalar eru furðulegur þjóðflokkur

þriðjudagur, janúar 14, 2003

Baráttufundur á morgun fyrir Kárahnjúka svæðinu en mig langar barasta ekki baun!!! Afhverju ætli Illugaskottu langi ekki baun í bala á þennan fund, já látum okkur sjá er það vegna þess að hún er búin að gefast upp! Eða einfaldlega vegna þess að með því að mæta ekki er ég bara félagsskítur ársins á suðurhluta landsins og er alveg sama um þetta mál og bara vil láta hlutina fara eins og þeir eru að fara??.
Nei, Illugaskottu finnast málsvarar umhverfisverndarsinna ekki málefnalegir, ekki traustvekjandi og ekki skemmtilegir, ekki koma vel fram og ekki tala rétt. Skoðana kúgun stjórnvalda minnir mig á bíó mynd um Rússland í gamla daga, sjálfstæðismenn minna mig á einn heila sem Davíð stjórnar, hálendisumræðan er komin út um víðan völl, þetta er allt of seint, eins og ég hef áður skrifað allir vakna of seint af blundinum ógurlega.!!!!
Í stuttu máli sagt þá er ég orðin hundleið eða hestleið á þessu öllu saman. En með því að mæta er ég að sýna stuðning minn við málefnið segir fólk við mig, já hux og hux, ætla að huxa málið með x-i.
Kannski segir borgin nei og þá!!! hvað þá kæra og fella úrskurð borgarinnar svona finnst mér þetta hafa gengið, kært og úrskurður felldur og Landsvirkjun heldur sínu striki því hún bara kærir.

Ég hefði getað gert meir hugsa ég en hvað!! Gæti talið upp endalaus atvik sem myndu gera hvern mann agndofa og brjálaðan úr leiðindum.

Ég er í tíma í dag sem heitir "Mat á umhverfisáhrifum framkvæmda" og gaurinn sem er að kenna mér er einn harðasti virkjunarsinni landsins! Hann gerir hlutina svo einfalda sem búið er að tala um að séu slæmir, ég er að falla á þeirra hlið. Nei, en rökin hans er ótrúleg hann er eins og sölumaður kölska þarna upp við töflu. Dregur úr öllu og segir að þetta verði allt svo snyrtilegt og smart eftir virkjun og þetta séu nú allt ýkjur og bla bla bla bal bal, bla og allir lifðu hamingjusamur til æviloka.

En þótt ég mæti ekki í kirkju þá þýðir það ekki að ég sé trúlaus og þótt ég mæti ekki á fundinn á morgun þá þýðir það ekki að ég sé búin að gefast upp.

mánudagur, janúar 13, 2003

Gleymdi að segja að ég átti frábæran dag í gær. Flytja meira dót á nýja staðinn, fór að æfa mig að skjóta með efnafræðingnum óstöðvandi, hann vildi ekki hætta að skjóta fyrr en ég væri búin að læra þetta en skapið rauk af stað, ég pirraðist og sá það fyrir að ég myndi aldrei geta bjargað lífi mínu með þessu hátterni, róaði mig og ákvað að nú yrði ég að læra að miða almennilega og það tókst sem var frábært. Hittum furðumenn í gryfunni sem voru með heimatilbúna byssu sem skýtur kartöflum hátt upp í rassinn á guði. Nota hársprey við þessa iðju, takka af gasgrilli, púmmm. Háaloft fann þar bókina "Helgi skoðar heiminn" sem er ein besta bók allra tíma eftir Njörð P. Njarðvík, Örvar fékk bókina, sund, hamborgari óhollt en gott,,,,heim hitti meðleigjandann í fyrsta skipti og sofnaði vel eftir frábæran dag.

Annað var að ganga um í peysufötum og steinbítsroðsskóm allan laugardaginn ásamt þremur öðrum konum, við vorum í Fljótshlíðinni. Skemmtilegur dagur með fólki sem ég hafði ekki hitt áður, já verð að segja að fólk er ,,,,,,,,sniðugt þótt það sé oftast fífl.!!!
Illugskotta er skotin í bíl, rauðum og traustum jeppa sem gjörsamlega lætur mig fá í hnén, magann og hausinn. Þessi bíll þýðir frelsi til þess að hoppa og skoppa um hálendið, hálendið sem er undir árás frá auðvaldinu og stóriðjunni, er búin að hugsa um bílinn alla helgina og er að fara að bjóða í hann í dag eða á morgun, það er hægt að sofa á pallinum á honum, ofur græjur í honum, flott lakk, bara fínasti jeppi sem hver maður ætti að vera ánægður með. Ég bara spyr, hafið þið verið skotin í bíl?

Það eina sem ég er búin að borða í dag er klór og eitthvað annað blönduð vatnsgusa úr Vesturbæjarlauginni, kúgaðist og ældi næstum því á eina perrann í lauginni sem er ótrúlegur hann reynir alltaf að rekast á mann hvar sem maður er í lauginni, greyið maðurinn er eins og stefnulaus bauja sem einungsi rekst á kvenkyns einstaklinga í lauginni! Langar í AB-mjólk og banana en át ekkert áður en ég hjólaði af stað í morgun í sund. Það eru oftast eða alltaf einhver vonbrigði í hvers manns lífi og mín vonbrigði í þessum mánuði eru þau að ég týndi uppáhalds hringnum mínum sem ég keypti á Orkneyjum, sérsmíðaður á mig. Kannski er hann í Fljótshlíðinni á fingri huldukonu eða tröllkona nokkur hefur hann í keðju um hálsinn, það eina sem eftir er af honum hjá mér er far á baugfingri. Sem er kannski ekki allslæmt, ég hugga mig við það þegar ég týni hlutum að einhver annar geti notað þá betur en ég, því ég er alltaf að týna hlutum. Ekkert bögglabera bögg meir hann er kolfastur á hjólinu núna. Fer bráðum til Kaupmannahafnar að heimsækja litla bróður sem er að standa sig vel í Köben, hlakka til að skoða mig um og skemmta mér þar.