laugardagur, apríl 10, 2004

Vindurinn blæs kaldur að norðan, svo kaldur vindur að hann bítur í beinin. Hvítt niður í miðjar hlíðar Langadalsfjallsins.

Í fyrradag, fór Illugaskotta ásamt 10 ára frænku sinni að leita að tröllum. Fórum inn í Vatnsdal og fram að Þingeyrum, en tvö tröll eiga að hafa dagað uppi inni í Vatnsdal, og eitt af þessum tröllum átti að hafa hennt staf sínum að Þingeyrarkirkju. Stafurinn brotnaði á miðri leið, kom hálfur niður rétt við kirkjuna, hann var síðan notaður sem hestasteinn, en skessan var svo reið og pirruð út í kirkjuna að hún gleymdi sér og sólin gerði hana að steini. En við fundum engin tröll, en keyrðum um fallega sveit í góðu veðri.

Allt er svo sem ágætt, get ekki kvartað.

miðvikudagur, apríl 07, 2004

Merkilegt hvað ég hef mikla þolinmæði til að bíða eftir að netsíðan birtist hér á þessum skjá á þessari fornaldartölvu sem ég er að nota.

Dagurinn hefur farið í að fatta að ég sé fyrir norðan en ekki fyrir sunnan. Hér er best að sofa, sjávarloftið er einstakt. Fór í húsin í morgun með henni systur minni. Étinn var grjónagrautur og slátur í hádeginu. Pælt í mörgu og margt hugsað. Hér er nóg að éta, kjúklingur í kvöld. Illugaskotta finnst hún blása út eins og hinn besti loftbelgur.

Það er apríl, hlakka til sumarsins. Að takast á við ný verkefni og kynnast alls kyns fólki.

þriðjudagur, apríl 06, 2004

Ég er komin heim í heiðan dalinn ég er komin heim við sjó og grjótafjöru, grjótafjöru sem þakka má Blönduvirkjun og Landsvirkjun... (SYNGIST SEM "ÉG ER KOMIN HEIM Í HEIÐANN DALINN")

Sólin skín í heiði, Strandafjöllin og Vatnsnesið eru hress að mér sýnist. Það eru að koma páskar.

En hvað það er gott að vera í burtu frá Reykjavík og öllu því sem þar býr.

mánudagur, apríl 05, 2004

Hvað er í gangi?!!! Þessi frétt Morgunblaðsins er ein sú furðulegasta sem Illugaskotta hefur séð,,,kannski finnst mogganum þetta áhugavert vegna þess að þetta gerist í Ríkisstjórnar Íslands heittelskuðu Bandaríkjunum!!!!!

Þekking á sögu Íslands kom sér vel fyrir 14 ára bandarískan skólapilt því hún varð til þess að hann vann landafræðikeppni Georgíuríkis í Bandaríkjunum.
Robert Nuttall frá borginni Decatur vann keppnina er hann vissi svarið við lokaspurningunni en þar var spurt hvaða land milli Grænlandssunds og Noregshafs hefði á sínum tíma lotið yfirráðum Noregs og Danmerkur.

Ísland, sagði Nuttall og hafði sigur í keppninni sem fram fór í bænum Milledgeville á föstudag. Fráfarandi meistari, Martin Ocon frá bænum Cumming, sagði Grænland og varð því annar í keppninni.

Að launum fær Nuttall þátttökurétt á bandaríska landfræðimeistaramótinu í Washington í lok maí.


Sem sagt alveg furðuleg frétt....Ísland er komið á spjöld sögunnar í bandarískum spurningarkeppnum....
Jamm og já. Illugaskotta sólbrann í gær, fór aðeins í sund, draugsins viðkvæma andlit er ekki mikið fyrir sól. Vesturbæjarlaugin var mannsins draumur í gær, sólin skein í heiði og allir voru kátir. Fór svo í hitta vin minn sem vinnur á Morgunblaðinu og þar var margt pískrað og rætt. Hygg á norðurferð á morgun, vinna í dag og koma ýmsu á hreint.


Er komin með góða hugmynd af starfsvettvangi fyrir drauga frá hausti fram að jólum, bara eftir að koma því á framfæri.

sunnudagur, apríl 04, 2004

Það er vor, vor úti,,,,brjálað vor. Er að fara í hjólatúr og fulgaskoðun með sjálfri mér. Sá hegra um daginn rétt við Dalland þar sem ég var á hestbaki, hélt fyrst að þetta væri fljúgandi dreki, en svo var þetta hegri. Þeir eru með vænghaf frá 170 cm til 195, ég er svo hissa. Var að lesa fuglahandbókina mína.

Já, afmælið var hin mesta skemmtun en drakk ekki neitt, var bara alveg siðprúð, en át vel af bestu snittum sem ég hef bragðað á. Gaman að hitta fólk og spjalla.

Það eru 12 dagar í að ég verði fullorðin. Hvernig ætli það sé að verða fullorðin? Iðunn segir að það sé engin breyting, þannig að ég held að það muni ekkert gerast. Og svo hef ég heldur aldrei verið mikið fyrir það að verða fullorðin.

Það gengur ekki neitt með þessa ritgerð, ég meina ég skrifa ekki neitt. Er að lesa og pæla og pæla og lesa. Finnst allt freðið í hausnum á mér og skil ekkert í því að dagarnir líða og ég bara sit í sama fúla hjólfarinu, spóla mig niður í helvíti kannski!? Æji maður, þetta er eitthvað svo asnalegt, finnst ég vera búin að týna áttum einhvern vegin. Er sem sagt búin að rífa allt út um upprunaskýringar úr Eddunum og er núna að finna uppruna útskýringar í þjóðsögunum varðandi fyrirbæri sem eru í náttúrunni. Svo á ég eftir að finna myndir, skrifa um 19. aldar goðafræði náttúrupælingar sem voru þó nokkrar þá ásamt því að túlka það sem ég er búin að rífa úr eddunum og þjóðsögunum. Þetta er gaman.

Bestu kveðjur frá Skottu rottu.