sunnudagur, desember 26, 2004

Illugaskotta er að hugsa um að fara að hætta að blogga. Kannski,,,veit það ekki. En ætla ekki að blogga sko fyrr en sko á nýja árinu sko.

Kveðja til ykkar snillingar og aðrir sem nennið að lesa þetta.

mánudagur, desember 20, 2004

Það gerist fátt. Horfði á frábæran þátt í gær, eftir Rax ljósmyndara, þegar hann var að ferðast um Thule. Þar er fallegt.

Er með gubbupest, sem er andstyggilegt. Ég og Hugrún skárum út laufabrauðið í dag, 100 kökur og þetta tókst okkur á 1 og hálfum tíma,,gerir aðrir betur..með alls kyns munstrum. Mamma er að klára að steikja það núna.

Ég hlakka til nýja ársins. Þá verður gaman.

föstudagur, desember 17, 2004

Hér er 15 stiga frost, það rýkur úr sjónum..og Strandafjöllin líta glettilega vel út svona í fjarlægð. Ferðin gekk vel hingað á Blönduós, rosaleg hálka en ekkert annað. Jú einn flutningabíll eitthvað út af í sunnanverðum Ennishálsinum.

Glúmur jólaköttur hrýtur alla daga, því hann sefur af sér veturinn, jólakortagerð er komin langt áleiðis, og svo á að fara í það að baka niðurskurðartertuna um helgina, en svo köllum við hina svokölluðu Vínartertu eða Randalín.

Allt gengur ágætlega, þetta ár er búið að vera með þeim furðulegri í mínu lífi, og ég veit að það næsta á eftir að verða meira en eftirminnilegt. Hugrún systir kláraði menntaskólann í fyrradag, og er orðin stúdent.

Ég fer í húsin hvern morgun, moka skít og tala við hross og kindur. Það er frábært.Það er best að vera heima hjá sér.

miðvikudagur, desember 15, 2004

Allt er tilbúið,,,,en ég sit hér inni og horfi á töskur og kassa fyrir utan bílinn minn, skottið er frosið. Búin að dunda þarna úti í næstum því klukkutíma..frostið bítur og vindurinn hlær.

Einnig sýnist mér vindurinn vera að lesa sitthvað um goðafræði þarna úti. Bækurnar fjúka upp eins og einhver sé að fletta í þeim...það er fyndið.

Er að fara til Sverris sem leysir allar þrautir..varðandi bíla og önnur furðuleg tæki. Draugurinn skilur fátt í þessum læsingum. Nú er það Húnavatnssýslan..sá í Morgunblaðinu fyrir um það bil viku síðan að það er búið að leggja fram tillögu um að gera norðurhluta Skagans,,að þjóðgarði. Það er áhugavert og jákvætt,,enda margt að skoða þar,eins og ég hef nefnt hér á þessu bloggi. Bless, Björk.

þriðjudagur, desember 14, 2004

Frostið er komið, og grundirnar frjósa. Eydís vinkona í Danmörku á afmæli í dag, til hamingju Eydís.

Myrkrið er svo rosalegt að draugurinn er orðinn svefnóður! Þarf að pakka í dag, sortera bækur sem ég þarf að nota og gagnslausar bækur. Dót sem má fara í geymslu og má ekki fara í geymslu. Flókið...og þó ekki.

Dreymdi svo fyndin draum í nótt að ég vaknaði við sjálfa mig, að hlæja! Frábært...og allt það.

Þessi laun þessa fólks hækka um 3% eftir áramót:
Laun forseta Íslands verða rúmlega 1,5 miljón eftir breytinguna, forsætisráðherra tæplega 900.000 og annarra ráðherra rúmar 800.000 krónur en innifalið í launum ráðherra er þingfararkaup. Þingfararkaup alþingismanna verður um 450.000 krónur.
En inni í þessu eru ekki laun fyrir hin ýmsu störf í hinum ýmsu nefndum sem þessir dúdar vinna í.

mánudagur, desember 13, 2004

Það rignir hundum og köttum,,,sjórinn er á háflæði, hálkan í skálæði..og ég er í brjálæði.Ég er orðin galin, fari það og veri. Ætla í sund sem fyrst til að synda þetta í burtu. Handritið mitt kom í pósti í dag, er að skríða í gegnum það og athugasemdirnar sem eru fínar.

Setti öll jólakort til útlanda í póst í dag, þessi sem eru að fara til Ameríku koma eftir jólin held ég, en þá eru þau áramótakort.

Þarna er Alex að fjúka úti á götu,,í hálkunni. Dripp, dropp,,skopp,,,hopp..segja droparnir í fötunum. Ég er svo hissa á því að það séu að koma jól, tröllið mun kannski stela þeim, og þá verða margir glaðir. Sérstaklega þeir sem þola ekki jólin en hinir leiðir sem elska jólin.

sunnudagur, desember 12, 2004

Illugaskotta lá í bælinu í dag, í þungum þönkum. Arkaði um húsið eins og Grámann tröll. Át,,drakk bjór, hennti rusli út um gluggann,,,hennti sjálfri mér út um gluggann...horfði á sjónvarpið. Var í enn þá þyngri þönkum,,þetta er allt að koma. Hvað var að angra Illugaskottu?! Afhverju var ég í þungum þönkum?! Margt og mikið,,,er að angra mig..en það stærsta er....og það næst stærsta er heimþrá!

Byrjaði að pakka dóti í dag, mun yfirgefa Strandir á miðvikudaginn. Þetta er komið gott, ritgerðin er búin, smotterí eftir. Það er komin tími til að kíkja á fjölskylduna, og öll dýrin heima á Blönduósi.

Svífur yfir vötnum, lágfóta æddi, tröllin skældu, og útburðir vældu....ég er komin í betra skap. Ég hlakka svo til 21. janúars 2005! Það eru jól draugsins. Þá get ég farið að heimsækja góða vini,,hér og þar og alls staðar.

Máltæki sem er gott er:Carpe diem, gríptu daginn!....hann kemur nefnilega aldrei aftur og tækifærið ekki heldur.

Annað....smá..bara. Illugaskotta er á póstlista Náttúruvaktarinnar. Í dag hafa þar sveimað um leiðinlegir póstar. Það sem er kallað á góðri íslensku, innanbúðar rígur...orka sem á að beita á önnur mið, beinist inn á við. Það er slæmt, og á ekki að gerast. Læt þetta nægja að sinni.

laugardagur, desember 11, 2004

Lítið um að vera....fátt gerist og allt er við það sama. Illugaskotta vil fara að komast í einhver ævintýri, það er komið nóg af þessu ævintýri. Tröllið verður rétt bráðum drepið og allir lifa hamingjusamir upp frá því...skrítið.

föstudagur, desember 10, 2004

Komin á Hólmavík. Það var fjör á leiðinni norður, fékk með mér farþega, hana Alex. Ekki er draugur vanur að ferðast með einhverjum, en það er gaman. Í Borgarfirðinum rak Illugaskotta augun í einhvað óvenjulegt fyrir utan veg, þá hafði bíl verið að fara út af. Við stoppuðum eins og góðum borgurum sæmir, og drógum bílinn upp á veg.

Það var fjör, og hugsaði ég vel til vinar míns sem hafði eitt sinn gefið mér þennan öndvegis kaðal, snilld! En gaurinn sem hafði runnið svona verklega út af var í algjöru sjokki, Illugaskotta sagði Alex til, en gleymdi að stjórnast líka með bílstjórann, gerði bara ráð fyrir að hann vissi hvað hann ætti að gera. Svo var hnýtt í,,og dregið af stað, þegar draugurinn lýtur aftur fyrir sig, þá er bílinn á leiðinni út af hinum megin.! Vegna þess að gaurinn hafði barasta ekkert verið á þeim buxunum að vera inni í bílnum þegar ég myndi draga hann upp á veginn,,og einnig var bílinn á leiðinni á mig og rauð!!!! En allt fór vel...Alex var hress og líka útafaksturs gaurinn.

Núna erum við að taka upp úr matarkössum og bókarpokum,,,Illugaskotta hyggur mjög bráðlega á Blönduós jólafrí.

fimmtudagur, desember 09, 2004

Í gær fékk ég tölvupóst frá vini mínum í Canödu, hann sagði mér að Íslendingar hefðu verið í kanadísku fréttunum. Illugaskotta varð spennt að vita fyrir hvað: t.d. Íslendingar gefa skít í stjórnvöld og setja fram að þeir studdu aldrei stríðið í Írak eða Íslendingar eru sagðir vera fyndnasta fólkið og það skemmtilegasta...nei.

Íslendingar voru fréttunum vegna þess að þeir eru með kaupæði! Fréttin snérist um ferðir þeirra til St.Johns og fleiri staða í austur Canödu, sem bjóða upp á alls kyns vörur fyrir jólin. Íslendingarnir eyddu víst fjöllum af peningum þarna. Æj..en ægilega eitthvað bjánaleg frétt. Hömlulaus þjóð að mörgu leyti.

Annað: Ferðaþjónustu uppbygging í stað stjóriðju uppbyggingar? Ekki ný hugmynd, en margir halda það. Stjóriðjan er hins vegar auðfengnari gróði, og þetta gengur allt út á hann, hvort sem það er í peningagróða eða persónulegum frama gróða.

Skjálfandafljót er næsta æð lands og sjávar sem á að stífla. Hvenær drepst þetta land? Illugaskottu er spurn hvort eitthvað annað en stóriðja komist inn undir þykka hauskúpu þeirra sem ráða. Nú hrisstir draugur hausinn...skilingsleysið er algjört. Fyrir fólki, börnum og umhverfinu.

miðvikudagur, desember 08, 2004

Einn vinur minn skuldar: stöðumælasektir, og einhverjar aðrar sektir. Hann hefur hundsað bréf sem hóta honum lögfræðingi, sem hóta honum að bílinn hann verði tekinn, því hann á ekki bíl. Ekkert gerist þótt hann borgi ekki, þannig að hann ákvað að vinna þetta af sér í samfélagsþjónustu. Sem sagt, hann skuldar 70. þúsund, og þarf að vinna eitthvað í 20 stundir. Ekki slæmt, þannig að brátt byrjar hann að vinna eitthvað. En eitt fylgir, hann má alls ekki fá sér neitt í glas sem inniheldur alkóhól...

"Bakkus sér um sína".

Í gær var gaman, sérstaklega um kvöldið. Í dag verður enn þá skemmtilegra. Ps: Illugaskotta á heitann pott, varð bara að minna mig á það og fleiri.

Jólagjafir, jólakort, jólakökur, jólamatur, jólaöl, jólaköttur, jólasveinar, jólatröll, jólahús, jólasokkar, jólaskraut, jólahundur, jólakona, jólakall, jólakúla.......endalaust hægt að segja jóla eitthvað.

þriðjudagur, desember 07, 2004

Í heitapottinum um daginn var verið að ræða þjóðsögur...þá átti maður að nefna sínar uppáhalds þrjár..Illugaskotta nefndi:
Galdra-Loft
Djáknann á Myrká
Miklabæjar-Sólveigu
.

Ég sturlaðist af hræðslu yfir Galdra-Lofti þegar ég las hana sem krakki, en alltaf vildi ég þó lesa hana aftur, því það var eitthvað spennandi við að vera hrædd.
Djákninn á Myrká var einnig óhugnanleg,,og Miklabæjar-Sólveig virkaði mjög spennandi, sorgleg og óhugnanleg,,.

Illugaskotta er í Reykjavík, ætla til ömmu á eftir..fundurinn gekk vel, allt er á áætlun. Mikið hlakka ég allt í einu til jólanna. Bestu kv Björk

mánudagur, desember 06, 2004

Mánudagur,,,það ganga jarðskjálftar hér yfir,,,húsið skelfur. Skelfilegt...tröll,,,
eða Loki að umbylta sér?

Landskjálftar er betra orð. Tilnefningar til íslenskra bókmenntaverðlauna eru ávallt áhugaverðar. Unnur Jökulsdóttir var flott í sjónvarpinu í gær.

sunnudagur, desember 05, 2004

Fátt er títt. Hláka. Snjótittlingar á flugi,,hrafnar að sveima.

Kristján Hreinsson skáld orti þetta:

HINN ÍSLENSKI ÞRÆLL
Hinn auðmjúki, íslenski þræll
er ötull og víst er hann dæll
þótt kvalin hann störfin sín stundi
og stæri sig mest af því
að biðja um betri laun,
hann brosir að sinni raun
og líkist þá hógværum hundi
sem húsbóndinn sparkar í.

laugardagur, desember 04, 2004

"Til að illskan hafi yfirhöndina þarf ekki annað en að góðir menn aðhafist ekkert.“ Þessi fleygu orð, sem eignuð eru breska átjándualdarheimspekingnum Edmund Burke, hafa þátttakendur í skoðanakönnun bókaútgáfu Oxfordháskóla valið eftirminnilegustu tilvitnunina.Ljóðlínur Williams Butlers Yeats urðu í öðru sæti: „Gakktu varlega um, því þú gengur á draumum mínum.“ Í fimmta sæti þekkt orð Martins Luthers Kings: „Ég á mér draum.“ Í því sjötta orð Actons lávarðar um áhrif valdsins: „Valdið er gjarnt á að spilla mönnum, og fullkomið vald spillir fullkomlega.“ Í níunda sæti voru upphafsorð skáldsögunnar Hroka og hleypidóma eftir Jane Austen: „Það eru almennt viðurkennd sannindi að vel efnaður og einhleypur maður hlýtur að vera að leita sér að konu.“

Það snjóar í logni, verið að baka súkkulaðibitasmákökur niðri í eldhúsi. Fór í göngutúr í morgun, ótrúlega hressandi en einnig er alveg hræðilega erfitt að vakna í þessu myrkri. Það er eins og klukkan sé 6 um morgun þegar hún er að verða 9, furðulegt.

Horfði á fallhlífa stökksmynd í gærkveldi, ég fann alveg adrenalínið og stressið renna um æðar mér þegar liðið var að fara að stökkva og þegar það sveif um loftið, eða var að steypa sér eins hratt niður og hægt er. Magnað fyrirbæri að geta stokkið út úr flugvél, og togað í spotta,,búmmm,,fallhlíf tekur af manni fallið. Veit hins vegar ekki alveg hvort ég prófi þetta, kannski.

Þarna var Manga hrafn að éta hafragraut,,sem búið var að setja út á stein fyrir hana,,svo flaug hún á braut.

föstudagur, desember 03, 2004

Kaffið er gott,,,einnig var göngutúrinn góður sem ég fór í morgun. Snjórinn fauk, og vindurinn skemmti sér við það að búa til litla hvirfilvinda og skafrenning. Hressandi fyrir dauð myglaðann drauginn, sem var haugur fyrir göngutúrinn. Annað kvöld verður fjör.

Fór á upplestur í gærkveldi á bókasafninu. Það var fínt.

Var einnig ein í sundi í gær,,sem var eins og maður ætti barasta laugina og allt sem henni fylgir.

Hugrún systir á afmæli í dag,,til hamingju stóra mín, hún er orðin 21 árs,,og er á leið í Hússtjórnunar skólann í janúar.

fimmtudagur, desember 02, 2004

Það er til fjall sem heitir Herðubreið. Hún er svokallaður móbergsstapi, varð til við gos undir jökli og lýtur út eins og risa stór muffins kaka, finnst sumum. Herðurbreið er eitt af þessum fjöllum sem lætur mann finna það að allt sé smátt í veröldinni miðað við hana. Merkilegt fjall að mörgu leyti. Hún var fyrst klifin árið 1908 af Íslendingi Sigurði Sumarliðasyni sem var leiðsögumaður fyrir Þjóðverjann Hans Reck að nafni.

Einnig höfðu verið til sögur af Englendingi, sem hafði notast við akkeri og flugdreka til þess að láta hann hífa sig upp fjallið. Þá átti hann að hafa kastað akkerinu upp fyrir sig og svo einhvern vegin fljúga upp fjallið. Ekki veit ég hvort þetta er satt, en merkilega vel gat þessi Englendingur lýst jarðfræði fjallsins sem er á toppi þess!.

Sögur og svæði,það skiptir miklu máli að sögur fylgi stöðum, eiginlega öllu máli. Þá lifnar landið við á annan hátt.

Ég þarf að fara í eftirlit til tannlæknis, þori því ekki, þarf alltaf að hugsa það lengi áður en ég panta tíma. Bæði er það sárlega dýrt að fara til tannlæknis og svo er það oft óbærilega vont. Þar sem þeir stinga mann með risa nálum, bora og það heyrist hræðilegt hljóð....oj...ég finn fyrir þessu núna þegar ég skrifa þetta.

Nú er það lestur danskrar skruddu frá árinu 1909, sem bíður mín. Þvílík spenna og eftirvænting að hella sér út í það.

miðvikudagur, desember 01, 2004

Nú hlær marbendill...ef þessar spár myndu nú rætast í næstu kosningum. Þá er flokkurinn sem ég held alls, alls, alls ekki með..farin norður og niður.
Á landsvísu fengju Vinstri grænir 18% fylgi, Framsóknarflokkur 11%, sjálfstæðismenn 35% og Samfylkingin 31%, samkvæmt frétt Ríkisútvarpsins.

Dagur alnæmis er í dag. Ég er farin að skilja allt. Frelsið mun eiga sér stað 21. janúar 2005.

Var að skoða bloggið hans Stefáns Pálssonar,,þar kemur fram nýtt nafn á landbúnaðarráðherra vors lands og þjóðar= pulsumálaráðherra!!!!! Mikið styð ég þetta nafn.

"Krakkar,munið nú að borða nóg af pulsum og drekka kók, þá verðið þið stór og sterk"! Ég var ekki að trúa því að maðurinn væri að láta þessa vitleysu út úr sér. Fyrst hélt ég að það væri búðið að talsetja gaurinn, en nei. Þetta voru orð PULSUMÁLARÁÐHERRANS eina og sanna.

Nú mun æska vors lands detta í pylsu át og kókdrykkju.Þetta er allt byggt á fáranleika, landinu er stjórnað af fáranleikanum einum saman, sem fær gott fylgi, því miður.

Pulsumálaráðherrann spurði líka fólkið sem var að mótmæla stríðinu á Austurvelli um daginn, hvort það styddi Saddam. Ég á ekki til orð. Draugur er haugur.
Farin í sund.
Vinurinn minn hann Mark Logan, hringdi í mig í fyrradag. Hann var að koma heim frá 3 vikna ferðalagi í Ástralíu. Hann át kengúru, hann át krókódíl, hann sá sjaldgæfan fugl sem er víst hættulegur, hann sá risa leðublökur, hann fór til Singapore sem er mjög snyrtileg borg. Á heimleiðinni þá stoppaði hann í Dubai sem er eitthvert Arabaríki þarna í eyðimörkinni. Þar fór hann í eyðimerkurrallý með einhverjum brjáluðum aröbum á risa jeppum.

Merkilegt allt saman, ég sá þetta allt fyrir mér sem eitt alsherjar furðuland sem hann hafði verið að ferðast um. Hann fékk einnig næstum því kókoshnetu í hausinn, sem hefði drepið hann. Hann át kókoshnetuna, kærastan hans fékk næstum því eitthvert mangó í hausinn þegar leðurblaka flaug yfir hana og missti mangóið úr klónum. Eitt alsherjar skop ævintýri. Ekki að undra að fyrr á tímum hafi orðið til alls kyns furðusögur af einfætlingum, skrímslum og öðrum furðuverum.

Jamm og já,,Í Thailandi drepast um 30 manns á ári vegna þess að þeir fá kókoshentu í hausinn.

Sólaruppkoman er mögnuð, þvílíkir litir hérna. Best að drösslast til að halda áfram.

þriðjudagur, nóvember 30, 2004

Illugaskotta vill benda Davíð Oddssyni á að betra er að segja: afturhalds kommatittaflokkur,,heldur en að segja afturhaldskommatitts flokkur,,,vegna þeirrar augljósu staðreyndar að í flokkum eru fleiri en einn tittur. Annars var utanríkisráðherrann ekkert mjög öruggur með það að segja þetta merkilega orð í ræðustóli í gær, og tungan var ekki alveg að melta þetta orð í munni hans, en það komst þó út..og olli umræðum í fréttatíma og í Kastljósinu.

Illugaskottu finnst undarlegt hvernig þingmenn geta hagað sér í ræðustól, og fannst ekki mikið til þessa orðaskaks koma. Einnig er enn þá undarlegra að stríðið sé stutt þarna úti í arabaheimi, af íslensku ríkisstjórninni. Hef sagt þetta áður,,,og fer ekki ofan af því að það var heimskulegt að styðja þetta stríð.

Annað,,,ég þoli ekki menntahroka, gjörsamlega ekki. Vinur minn er búin að fá það óþvegið á stað sem hann vinnur. Vegna þess að hann er ekki með einhverja pappíra frá einhverjum skólum út á það sem hann kann. Það er efast um getu hans vegna þessa..það er ömurlegt, þegar fólk er áhugasamt,,spyr svo "já hvað er hann eða hún menntuð" svarið er "grunnskólapróf",,"nú já",,og missir einhvern vegin áhugann. Þetta kallar Illugaskotta vanþekkingu, virðingarleysi, hugsunarleysi og menntahroka.

Snjór, hressandi veður..hvar er Glúmur galdraköttur?

mánudagur, nóvember 29, 2004

Hvað er með álfum, hvað er með tröllum? Eigi veit ég það,,,en fyrsti í aðventu var í gær. Furðulegt hvað allt æðir áfram.

Siggi og Alex eru að fara suður. Mánudagur. Það verður jólakortagerð þann 8. des hjá Iddu piddu, ég ætla að gera nokkur kort.

Krummi krunkar úti, sjórinn er lygn, loftið er ferskt...sund í kvöld.

laugardagur, nóvember 27, 2004

Í dag fór ég í göngutúr með Alex, við fórum út að Kálfanesi. Þar sýndi ég henni brunninn sem Guðmundur góði blessaði. Við fengum okkur sopa úr hinu besta plastmáli, sem þar er fest á staur. Flott uppspretta á góðum stað.

Veðrið var dásamlegt í dag, eins og alla daga. Ég er að skrifa um náttúrusýn,,,almennt um það fyrirbæri.

Datt því miður inn í fréttatímann þar sem Geir. H . Haarde var að þenja sig. Éta upp eftir stjórnaandstöðunni það sem þeir höfðu við skattalækanirnar að athuga. Furðuleg aðferð hjá honum. Í stað þess að útskýra hvað skattalækkanir þýða, hvernig þær koma sér vel fyrir suma en illa fyrir aðra. Útskýra hvað skerðist í staðinn. Nei hann þurfti að vera að gagnrýna Össur sem sagði þetta og hinn sem sagði hitt.....Leiðindar pólitík sem hann notar.

Skítkasta pólitík myndi ég kalla þetta, og ómálefnaleg.

föstudagur, nóvember 26, 2004

Illugaskotta gerði svoldið í dag sem braut daginn algjörlega upp og fyllti hana spennu, eftirvæntingu og tilhlökkun...Illugaskotta keypti sér flugmiða til ????????????? Bandaríkjanna!!!! en hún ætlar rétta að tylla tánum á það land, en skjótast upp í aðra flugvél sem fyrst, sem mun taka hana til Canödu, á vit ævintýranna og alls þess sem þeim fylgir. Þetta er frábært.

Dagurinn hefur svoldið farið í að það skipuleggja næsta skref í verkinu. Annað ekki. Veðrið er alla daga gott, og ég er að fara út að labba, til að skella mér í sund og koma aðeins við í kaupfélaginu.

Ég þarf ekkert að ákveða utanferðardag fyrr en í kringum 12. janúar 2005, þannig að þetta er allt að smella.

Bestu kveðjur og megið þið öll eiga frábæra helgi.

fimmtudagur, nóvember 25, 2004

Það er hægt að spegla sig í götunni fyrir utan húsið..svo mikil hálka.

Horfði á afar vandræðilegann breskan þátt í gær, fólk sem er að fara að gifta sig. Allt gengur á afturfótunum, endar á því að gaurinn er farin að strjúka tengdamömmu sinni, en hann heldur að það sé konan sín...

Ég er þreytt, löt og pirruð á því sem ég er að vinna í. Þetta virðist engan endi ætla að taka. Þó komið nafn á skrímslið:"Goðsögur á stjarnhimni". Er að fara að vinna í seinasta kaflanum sem þarf að skrifa þannig séð. En svo þarf að skrifa niðustöður, formála, inngang, og fara inn í heimildirnar sem eru á bakvið heimildirnar og bakvið þær heimildir....vá...ég öskraði ekki, þegar ég skrifaði þetta.

Bjarni bró fékk að fara heim í gær,,en alveg úti á klaka. Vona að hann fari að rétta sig við.

miðvikudagur, nóvember 24, 2004

Það er alltaf ljúft að renna í höfn hér á Hólmavík. Ég var næstum því gengin af göflunum í gær,,,allt gekk hægt, hiti og loftleysi á Þjóðarbókhlöðunni, þar finnur maður heldur aldrei neitt. Fór á tvö önnur bókasöfn, sem var þægilegt,,en í milli tíðinni kom ég við í Kringlunni.

Í seinasta bókasafninu þá opnaði ég veskið og það var ekkert debet kort!..jæja best að klikkast ekki hugsaði ég. Og lét loka kortinu,,,svo var hringt í mig stuttu seinna..þá hafði ég gleymt því í Kringlunni. Dagurinn var hörmung. Ég er svo utan við mig að það er farið að valda mér áhyggjum. Ég týni öllu, gleymi öllu, og fæ stress köst hvað eftir annað.

Bjarni bróðir er enn þá á spítala,,mér lýst ekkert á þetta. Hann er með streppsukokka sýkingu sem byrjaði í hálsinum. Blóðið í honum er allt sýkt, hann liggur og það er pumpað í hann pensilíni og vökva í æð. Vona að þetta fari allt að lagast hjá honum, þeir ætla að taka úr honum kirtlana þegar hann fer að hressast. Þetta er nú meiri hörmungin. Þegar þetta byrjaði hjá honum þá píndi hann sig í vinnuna, var svo sendur heim af læknavaktinni með pensilín í poka..og svo versnaði þetta og versnaði.

Jamm og já..ég er alveg orðin eins og undin tuska af öllu þessu kjaftæði í kringum mig.

Allt verður betra á morgun, og þá hefst dagur hinna góðu verka einnig.

þriðjudagur, nóvember 23, 2004

Slabb,,stress,,,týna bókum, finna bækur, finna greinar...sturlast,,,kLIKKAST..týna einhverju öðru drasli. Get unnið á Ströndum,,,þarf að finna eitthvað hér..á bókasafninu..svo í tvö önnur bókasöfn..svo beint í bjór, whisky og fleira afslappandi.

Bjarni bró er á spítala,,hann er með næringu í æð og pensilín,,,einhver sýking í hálsinum á honum sem læknarnir ná ekki í burtu..fór að hitta hann í gær, ekki sjón að sjá gaurinn,,hvítur sem eitthvað.

Farin að vinna...svo ég geti sem fyrst fengið mér bjór.

mánudagur, nóvember 22, 2004

Hún er farin, hún er farin,,hún er farin til andskotans!...flensan

Ég er í Reykjavík, keyrði þangað í gær í þvílíka morgunveðrinu, sólin að koma upp,,og ekki sála á veginum, en nokkuð um hálku á veginum þó. Skellti mér í morgunkaffi til Hildar Eddu þegar ég var að renna í bæinn. Fór svo á ráðstefnu, þar sem verið var að kynna skýrslu um efnahags, auðlinda,félagsleg, menntunar- og umhverfismál á norðurskautinu. Þarna er nóg um verkefni sem á eftir að vinna og eru áhugaverð fyrir Illugaskottu til að vinna að. Í framandi og köldu umhverfi. Það er draugnum að skapi.

Sat einungis hálfa ráðstefnuna, en fór í bíó, með Blönduósgenginu. Það var nú mynd númer 2 með henni Bridget Jones. Jú, jú, fyndin mynd og svona, en svoldið um endurtekningar á hennar óförum í atvinnu og einkalífi frá fyrri mynd. En skemmti mér mest við að sjá kunnuglega staði í Thailandi, þar sem ég hef verið að dandalast.
Langaði allt í einu að sitja á ströndinni þar, drekka Chang bjór og éta Thailenska rétti, ásamt henni Binnu.

Nú er útréttingardagur og hitta fólk dagur, hjá mér. Fundur á morgun, með Gísla og Þorra, og Strandir snemma á miðvikudagsmorgun. Mig langar heim á Blönduós, til að hitta mitt lið, það styttist í heimkomu.

laugardagur, nóvember 20, 2004

Mokkasíur, náttbuxur, palestínusjal, lopapeysa og húfa,,hvað getur maður verið smart!

Palestínusjalið mitt er samt ekki alveg eins og það sem Arafat var alltaf með,,en hvað um það. Það er gaddur úti, ég er aumingi, það er eitt sem víst er.

Illugaskottu er boðið ásamt fleirum í svartfuglsveislu klukkan 17:00, því getur draugurinn varla beðið eftir, einn besti matur sem hann kjamsar og smjattar á.

Garry Raven vinur minn í Canödu, er að búa sig undir veturinn. Hann er búinn að taka kanóana upp úr ánni, því nú er víst von á frosti í Canödu, sem er víst allt hér á landi.

Afhverju frjósa lappirnar á andfuglum ekki? Skil ekkert í því.

föstudagur, nóvember 19, 2004

Sól, logn, frost,,,frábært veður,má ekki fara út er aðeins að hressast.

Sem þýðir að ég get farið að skrifa aftur. Fyrsti kaffibolli dagsins er við hliðina á mér. Illugaskotta drakk 1 líter ef mjólk í gær. Það er eitthvað sem draugurinn drekkur eiginlega aldrei, það er mjólk, nema út í kaffi. Margt furðulegt á sér stað og svo át draugurinn hálfa marmaraköku, og hann étur aldrei kökur,,eða mjög sjaldan.

úFFF, hvað mig langar út að hreyfa mig. Þarna úti stendur hann rauður gamli, bílinn minn. Ég hygg á að selja hann, minnka við mig. Hann hefur reynst vel, en margt hefur breyst síðan ég keypti hann. Fréttir og alls kyns dagskrárliðir rásar 1 hafa lekið í gegnum hausinn á mér seinustu tvo daga. Mikið óskaplega er þátturinn "Hlaupanótan" viðbjóðslega leiðinlegur þáttur. Myndi kjósa hann sem leiðinlegasta þátt allra tíma.

Mikið flókið líf. Nú hefjast hin góðu verk vonandi á ný.

fimmtudagur, nóvember 18, 2004

Flensan er enn að störfum, og fékk blóðnasir í fyrsta skipti á ævinni í gær. Það toppaði andstyggilegann dag.

Fallegt veður úti. Allt ruglið sem gengur á í hausnum á mér, þegar ég er ekki að vinna, það er engu líkt. Ég er leiðinleg í dag, vona að enginn enn þá leiðinlegri hringi í mig í dag. Þá yrði dagurinn fullkomnaður í leiðindum.

miðvikudagur, nóvember 17, 2004

Enn þá nýrri fréttir. Ég sjálf er með flensu, sem er leiðinlegt, andstyggilegt og óþolandi. Hélt fyrst að þetta væri letin að segja til sín og einhver þreyta, en nei. Fór samt út áðan með Ásdísi að ná í nýju lopapeysuna mína sem er jólagjöfin til sjálfrar mín. Hún er æði, rennd með svona rennilás sem er hringur í, svo er hún með hettu, og er svört, grá og hvít. Munstrið er úr gömlu pjónablaði sem er frá um 1960.

Þetta var nú það besta við þennan ömurlega dag.

Gamlar fréttir. Illugaskotta er með kvef og kverkaskít, má ekki fara út eða í sund. Sem er leiðinlegt, en án þessa banns þá batnar mér ekki.

Hef séð að það eru oft fundir á vegum Náttúruvaktarinnar, varðandi hin ýmsu mál sem viðkoma upplýsingum til almennings, náttúruvernd, umhverfisrétti, umhverfissiðfræði og áfram. Þetta er gott framtak hjá þeim.

Gaf krummunum fransktbrauð og fisk í gær úti á steini fyrir utan heima.Ætla líka að gefa þeim í dag.

þriðjudagur, nóvember 16, 2004

Ég vil óska Strandagaldri til hamingu með þá viðurkenningu sem hann fékk í dag frá Menntamálaráðuneytinu.Kvæðamannafélagið Iðunn og Strandagaldur fengu sérstök verðlaun. Það skáletraða tók ég úr Morgunblaðinu í dag. Þetta er frábært.

Strandagaldur er menningar- og fræðslustofnun. Tilgangur hennar er að standa að rannsóknum og draga saman vitneskju um galdraöldina á Íslandi, þjóðsagnir, hugmyndaheim og menningararf Strandasýslu sem tengist göldrum, á eigin vegum eða í samstarfi við aðra. Stefnt er að stofnun fræðaseturs um menningararf Strandamanna.

Strandagaldur stendur fyrir fjölbreyttri starfsemi. Þekktust er líklega Galdrasýning á Ströndum, lifandi og skemmtileg sýning á Hólmavík og í Bjarnarfirði. Sýningin var einnig sett upp í Norræna húsinu í október sl. og voru margvíslegir menningarviðburðir skipulagðir í tengslum við hana líkt og gert er í heimabyggð. Strandagaldur hefur gefið út fræðsluefni um hjátrú og galdra, í bókarformi, á geisladiskum og á vönduðum vef, og má sérstaklega nefna nýlegan margmiðlunardisk um íslensk galdramál og þjóðtrú tengda göldrum sem tilnefndur var af Íslands hálfu sem besti diskurinn í flokki menningar.

Starfsemi Strandagaldurs hefur einkennst af miklum metnaði og fagmennsku. Heimamenn hafa á að skipa sérfræðingum um þjóðfræði og bókmenntir. Þeir hafa ásamt öðrum unnið fórnfúst og óeigingjarnt starf og fengið til liðs við sig færustu sérfræðinga. Óhætt er að fullyrða að starfsemi Strandagaldurs hafi blásið lífi í áhuga fólks á menningu Strandamanna og þeim fróðleik um kveðskap, náttúru og sögu sem því fylgir. Fyrir þetta fær Strandagaldur viðurkenningu á degi íslenskrar tungu 2004
Það er frábær dagur í dag! Ekki skemmir veðrið fyrir þessu öllu saman, snjór, logn og sól. Ég vorkenni kennurum.

Fríða vinkona sem er kennari í Danmörku var farin að hugsa um að flytja heim eftir 6 ára dvöld þarna, en er mjög líklega hætt við. Vegna þessarar kennaradeilu og þeirra stöðu sem kennarar eru komnir í. Lýðurinn fær engu um neitt ráðið, þótt það sé svokallað lýðræði hér á landi, merkilegt.

Bræddi úr heilanum í gær,,datt inn í 67 síður,,,og er ekki búin. En allt á leiðinni.

Ég bið vini mína og fjölskyldu afsökunar á því hvað ég læt lítið heyra í mér og hef lítið sem ekkert samband. Ég er að skrifa ritgerð, þótt það virðist ekki mikið, þá er það heil mikið mál fyrir drauginn mig.

mánudagur, nóvember 15, 2004

Fornir textar gera mig stressaða, afbyggja mig inn í stress. Veit ekki einu sinni hvað ég er að segja þegar ég segi "afbyggja". Er að tala við Carrie-Ann vinkonu mína sem býr í Manitoba. Hún vakir allar nætur, þegar klukkan er 9 á morgnana hjá okkur þá er hún 3 um nótt í Manitoba.

Manju Indverji,,er víst farin að éta kjöt, hann sem var sífellt að segja mér að gerast grænmetisæta.

Það er 28 stiga hiti í Indlandi þar sem hann er núna. Það snjóar ekki í Manitoba eða frystir sem er mjög óvenjulegt.

Hugur minn flýgur á milli landa, eins og allra landa fjandi. Þetta sagði amma heitin á Blönduósi oft við mig, þegar ég var að koma til hennar í heimsókn:
"Er nú allra landa fjandinn komin?". ,,,,Góður dagur til góðra verka er hafin.

sunnudagur, nóvember 14, 2004

Það snjóar. Gat ekki vaknað í morgun. Fór í göngutúr sá mikið af Hávellu og Sendlingum sem eru skemmtilegir hópfuglar sem einhvern vegin falla alveg inn í fjöruna,sjást varla þar sem þeir eru að pikka og éta eitthvað óskiljanlegt.

Steikti fiskbúðing, kartöflur, ristaði brauð og spældi egg. Hádegismatur-morgunmatur í einni máltíð. Ágætt.

Ætla núna að fara að skrifa.

Muna að hver dagur er snilld á sinn hátt, og kemur aldrei nokkurn tíma til baka.

laugardagur, nóvember 13, 2004

Er að hlusta á útvarpsþáttinn "Í vikulokinn" þar er Gísli Marteinn að tjá sig,,úff erfitt að hlusta á hann,,en Dagur B. Eggertsson er að standa sig í því að svara vel og skilmerkilega.Hann er klár stjórnmálamaður.

Hláka úti. Enn hvað það væri frábært ef það kæmi nú allt í einu skrímsli syndandi inn í höfnina hérna á Hólmavík. Þá myndi ég fara út og taka myndir, senda þær til útlanda og innanlands og verða milli,,,skrímsla milli.!!! Svo myndi ég temja skrímslið og kennna því að tala eins og maður kennir páfagaukum að tala.

Hvar eru skrímslin, tröllin, huldufólkið, álfarnir og draugarnir? Ætla aðeins að hugsa það.

Nú tryllist ég. Bara nota þetta orð.

Slæki er eitt af mínum uppáhalds orðum. "Þú ert bölvað slæki"

föstudagur, nóvember 12, 2004

Ég hló mikið í gærkveldi af honum herra Slippery sem er ótrúlega fyndinn persónuleiki í breskum sjónvarpsþætti. Hann er 40 ára og eitthvað, á þrjá graða syni og eiginkonu sem hann veit ekkert hvar hann hefur. Hann heldur sífellt að hún sé að halda fram hjá sér, og svo er hann dauðhræddur við lesbíur. Svo í bland við þetta allt kemur hinn algeri breski húmor. Magnaðir þættir, og því miður er bara einn þáttur eftir.

Eins og sést er ekkert að gerast. Það er kannski bjór í kvöld á Kaffi Riis. Svo er hægt að fara þangað í flatböku annað kvöld. Ljósaskiptin eru að sigla yfir landið.

Ég er á bls eitthvað að laga og betrum bæta. Jón segist vera búinn að drepa um 200 hagamýs, og svo er hann í samvinnu við hrafnanna, sem éta allt sem hefur komið í gildrurnar hans. Gott vistkerfi þar á bæ.

Mamma og pabbi hringja oft í mig, ég hlakka til jólanna og komast heim á bæ. Bærinn heima, Blönduósbær er að hugsa um að selja hitaveituna. Það er alveg fráleitt finnst mér, þarna er gull að koma upp úr jörðinni en bæjarfélagið vill selja gullið. Það er afleitt og fráleitt..

Ég vil að farið sé í að byggja sundlaug á Blönduósi og rífa upp menningartengda ferðaþjónustu,,,það er hægt að gera ýmislegt við þetta, það er mergurinn málsins. Ásamt því að stofna hafíssetur/stofu,sýningu,tengda rannsóknum, þjóðfræði og sögu.

Eða bara eitthvað út á þá sögu sem hefur átt sér stað í Húnaþingi. Það er afleitt hvað lítið er gert þarna. Veit ekki afhverju, því ég hef ekki kynnt mér það.

fimmtudagur, nóvember 11, 2004

Arafat, sem er búinn að vera í sjónvarpinu síðan ég man eftir mér er dáinn, það á eftir að riðla þessum svokallaða heimsfrið enn þá meir. Dabbi fyrrverandi kóngur styður enn þá innrásina í Írak heilshugar. Til þess að koma á lýðræði segir hann..humm,,þetta svokallaða vestræna lýðræði. Vildi óska að hann myndi útskýra þetta lýðræði,hvað það sé og hvernig það eigi að virka fyrir Íraka og Írak.

Illugaskotta er komin á Strandir, það er kallt úti en enginn snjór. Verslaði 20 brauð í Bónus,það hef ég aldrei gert áður. 20 Bónusbrauð fylla eina innkaupakerru, þannig að þið getið gert ykkur grein fyrir því hvað þetta er mikið magn.

Halla og Ásdís eru að steikja kleinur og parta. Ég er að gúffa þessu í mig.

Mikið að gera á morgun í ritverkinu. Best að halda sér að verkinu.

miðvikudagur, nóvember 10, 2004

Allt gengur vel sem er tilbreyting. Skrattast á bókasafninu í dag, ég mun ekki vera að skrifa ritgerð þar til ég mun lenda á heldrikvennaheimili! Nei,,það er farið að sjást og örla á frelsi þarna í fjarlægri framtíð.

Ég hlakka til að keyra vestur sem fyrst, og halda áfram að vinna og fylgjast með haförnum.

Ég er hress eftir fundinn, þetta er allt á réttri leið segja Gísli og Þorri, við skulum vona að það verði það áfram.

mánudagur, nóvember 08, 2004

Komin í bæinn. Selir, ernir og himbrimar að háma í sig fisk sáust á leiðinni suður. Kom við í Dallandi, þar var kaffi og mikið spjallað. Síðan til ömmu, þar kom Beggi og sonur hans.

Síðan í bæinn að hitta vinkonurnar og það var gaman.

Nú er ég komin í Jökulinn,,,og þar er fínt að vera. Nú ætla ég að panta mér flatböku!

Svo útrétta á morgun,fundur klukkan 13:00, bókasafnið, Turninn, kassi í geymslu.

sunnudagur, nóvember 07, 2004

Í morgun kom ég sjálfri mér á óvart með því að muna lykilnúmerið á visa kortinu mínu þegar ég var að taka bensín. Sem olli því að ég komst í óvænta ferð með sjálfri mér, út á Gjögur að gera það sem ekki má.

Veðrið var magnað, sól og logn. Vegurinn á Bölunum var slæmur. Mikið hefur einnig hrunið af frekar stóru grjóti úr honum Kaldbak, sem er glæsilegt fjall.

Ekki sála á Djúpuvík, og ég mætti tveimur bílum. Á Gjögri var fjör, þar er sem sagt svæði sem ég get varla séð í friði,,eða verð alltaf að skoða með nokkurra vikna millibili.

Svo var bara rosalega mikil drulla á vegnum.

Er komin aftur í kotið, til að pakka dótinu mínu, skrifa geralista, lesa einu sinni enn yfir það sem ég er búin að skrifa og senda það svo í tölvupósti. Elda eitthvað í matinn og láta kvöldið líða.

laugardagur, nóvember 06, 2004

Strokaði út fyrri færslu, nenni ekki að spá í þessa úreltu stjórnmálaflokka þótt ég geri það innst inn við sálu, bein og taugar.

Svo er veðrið orðið æst í skapi,,hér blæs hann verklega, sjórinn er úfinn og pollarnir fjúka upp í loftið.

Var að skoða Bókatíðindin þar er margt um góðar bækur. Er hálfnuð með ritgerðina, og sagt er að hálfnað verk sé þegar hafið er..þannig að ég er að komast í land.

Hvar eru krummarnir í þessu hvassviðri?

föstudagur, nóvember 05, 2004

Fínasta veður alla daga, mikið étið og spjallað í gærkveldi. Stressið fyrir næstu skil byggist hægt og rólega upp. Sem lætur mig vinna enn þá meira.

Sundlauginn á Hólmavík og göngutúrarnir mínir halda lífi í skrokknum á mér. Það
gaula í mér garnirnar,,,farin í kaffið.

Arafat að drepast í Frakklandi, og svo má ekki grafa hann í jörðu í Palestínu, þetta er nú meira liðið þessir Ísraelsmenn.

fimmtudagur, nóvember 04, 2004

Urrrrr, verð aðeins að tjá mig um pólitísk mál,,vegna þess að ég hef ekkert skipt mér af þeim lengi hér á mínu bloggi.

Eins og margir vita þá er Framsóknarflokkurinn ekki í uppáhaldsflokkurinn minn,,ég er ekki í neinum flokki en þessi flokkur er ekki í fyrsta sæti..eiginlega hefur mér alltaf fundist þessi flokkur með því besta í því að vera hallærislegur flokkur og afturhaldssamur flokkur.Bara lítið dæmi er t.d. útilokar hann Kristinn H. Gunnarsson því hann var óþægilegur flokknum, svo kom þrýstingur á þá og þá gerast töfrarnir....

Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hefur skipað eftirtalda í stjórn Tryggingastofnunar ríkisins frá og með 1. nóvember 2004 til næstu alþingiskosninga:

Aðalmenn:
Kristinn H. Gunnarsson, alþingismaður, formaður,
Margrét S. Einarsdóttir, forstöðumaður, varaformaður,
Karl V. Matthíasson, fyrrverandi alþingismaður,
Sigríður Jóhannesdóttir, fyrrverandi alþingismaður,
Gísli Gunnarsson, sóknarprestur.
Varamenn:
Svala Árnadóttir, skrifstofumaður,
Signý Jóhannesdóttir, form. Verkalýðsfélagsins Vöku,
Elsa Ingjaldsdóttir, framkvæmdastjóri,
Bryndís Friðgeirsdóttir, kennari,
Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir, framkvæmdastjóri.


Magnaður andskoti...svo já henda þeir Siv út,,hún gerir ekki mikið úr hlutunum til að halda friðinn og til að eiga möguleika seinna meir á pólitískum frama, er orðinn almennur þingmaður..og konur þvílíkt fáar á þessu þingi..og enn þá færri í þessu ráðherrastóði og pælið í því það er komið árið 2004 og það eru bara 3 konur í ríkisstjórn. Ég bara skil þetta ekki, það verð ég að segja.

Á ekki Alþingi Íslendinga að vera þverskurður af Íslensku samfélagi, svo það virki vel út á við sem inn á við fyrir okkur Íslendinga?

Svo er það þetta brask hjá olíufélögunum. Hef engan áhuga á Þórólfi borgarstjóra hann var bara peð í þessu máli. Ég vil fá að sjá tekið fast og verklega á forstjórum þessara félaga sem stóðu að þessum svikum. Hvar eru þessir menn? Afhverju er ekkert talað við þá af fjölmiðlum?
Ganga þeir ósýnilegir í okkar samfélagi og þá undir verndarvæng hvers eða hverra?

Það síður á Illugaskottu. Mörg önnur mál hugsa ég um. Afhverju eru konur með lægri laun en kallar? Afhverju eru svona fáar konur á Alþingi? Afhverju losnaði þessi kall við það að vera dæmdur fyrir að lemja konuna sína? Jú hún reiddi hann til reiði. Vá..nú ég alveg huxi.

Ég held ég tilheyri minnihlutahóp sem heitir KONUR. Það er fáranlegt að segja þetta, en ég er að hugsa þetta eftir allar þessar staðreyndir sem blasa við manni í íslensku samfélagi í dag. Vona að ég sé bara veruleikafyrrt í dag og að þetta sé bara algjört ofsóknarbrjálæði í mér.

Farin að lesa Íslandsklukkuna,,það er næstum því búið að selja Ísland í henni. Hvað var Laxness að hugsa þegar hann læddist inn í huga allra þessarra persóna sem hann skrifaði um?
Furðulegt allt saman, vaknaði í nótt, kveikti ljósið og á útvarpinu án þess að muna eftir því. Vaknaði svo aftur og fannst sem sólin væri komin upp, þegar það var enn þá hánótt, og mundi ekkert eftir því að hafa kveikt ljósið. Ég er orðin kolrugluð..gat svo ekki vaknað í morgun fyrr en um 9 sem er afleitt því ég vinn best á morgnana.

Það er verið að sjóða fjóra kindahausa í potti niðri í eldhúsi, sviðin eru nú alltaf ágæt. Kaffi,hrökkbrauð,,kotasæla, gúrka, tómatur. Minn morgunverður,,,en hafragrautur er nú alltaf sígildur og þá með sykri.

Logn, sól, smá frost. Drekk ógnar mikið af kaffi þessa daganna sem er kannski ástæðan fyrir því hvað mér gengur illa að sofna.

Draugur er sybbinn en samt hress.

miðvikudagur, nóvember 03, 2004

Gott veður,ekki frost, það er eins og það sé vor á Ströndum..nema vantar alla vorfuglanna.

Hef ekki hreyft bílinn síðan ég kom hingað, labba allt. Enda stutt hvert sem maður fer á Hólmavík.

Fer suður á mánudaginn í skrepptúr, fundur og útréttingar. Runninn er líklega búinn að vinna forsetakosningarnar, það var nú vitað mál. Farin að vinna sem gengur vel.

þriðjudagur, nóvember 02, 2004

Kosningar í Bandaríkjunum í dag. Logn og skýjað úti. Sá einn sel í morgun, hef ekki séð marga seli hér á Ströndum hvorki í sumar eða í haust.

Eldgos, það koma fleiri.

mánudagur, nóvember 01, 2004

Það er mjög líklega hafið eldgos í Grímsvötnum!!! Spennandi það finnst Illugaskottu, vona að það fari norður og niður,,,og taki aðeins til! Það væri fjör að vera fyrir austan en ekki hægt að gera allt og vera alls staðar.

Fór í sund,,eftir vinnu ef svo má kalla. Það gengur vel að skrifa. FBI hefur ekki verið að skoða síðuna mína, nema þeir komi inn undir dulnefni. Alltaf að hafa varann og og vera tilbúin með samsæriskenningar..Alþingi var eitt sinn að skoða bloggið mitt. Þá gerði Siggi Atla mér grikk með skiptilykilinn minn.

Pantaði mér lopapeysu númer 4 í röðinni, en þessi er öðruvísi en allar hinar sem ég hef átt, hún á að vera með rennilás og hettu. Jóna er að hanna þetta fyrir mig.

Það eru Möngur og Imbur út um allt hér á Ströndum.
Á morgun verða forsetakosningar í Bandaríkjunum. Ég held að Bush vinni, því miður, ég er hrædd við Bush. Hann er öfgamaður og allt of mikið til hægri, svo langt að hann á örugglega heimsmet í því að vera hægrisinnaður.

En samkvæmt Brynhildi vinkonu (Binnu) sem býr í New York, þá mun verða borgarastyrjöld innan flokks Bush ef hann vinnur, því að margir hans flokksmenn eru á móti því hve öfgafullur hann er. Hef ekki mikinn áhuga á þessu, en þetta land hefur svo gífurleg völd í heiminum í dag að það skiptir verulegu máli hver er þar við stjórnvöllinn.

Var að hugsa það í morgun hve slæmt er að íslensk stjórnvöld lepji allt upp eftir Bandaríkjunum. T.d. núna er hætta á árás á Norðurlöndin og Eystrasaltslöndin. Hugsið út í það ef Davíð og Halldór hefðu bara verið sterkir og stoltir og sagt nei við að styðja innrásina og stríðið í Írak. Þá gæti Ísland titlað sig sem t.d. friðarríki og sjálfstætt ríki,,,finnst við vera leppríki Bandaríkjanna, ekki mikið stollt eða metnaður fyrir Íslandi eða ímynd þess út á við.

Afhverju geta íslensk stjórnvöld ekki verið sjálfstæðari og metnaðargjarnari fyrir hönd Íslands og íslensku þjóðarinnar? Mig grunar að Davíð og Halldór hafi og séu hræddir við Bandaríkin og þeirra þrýstiaðferðir,,,það er fúllt, grautfúlt.

En við skulum brosa, því við erum með friðargæslu.

sunnudagur, október 31, 2004

Í mínum morgungöngutúr þá gerist ekki margt, nema kindur og hross verða á vegi mínum, æðurinn tekur því rólega úti á sjó og stöku lómur lætur sjá sig. En í morgun þá var allt brjálað í fuglaríkinu. Stór hópur af hröfnum birtist mér, haförn flaug yfir hausnum á mér og hrafn og smyrill voru í loftslag.

Smyrillinn var ekkert á því að gefast upp fyrir krumma,,,svo flugu þeir gargandi eitthvert vestur á bóginn.

Er að hlusta á viðtal í útvarpinu við Rögnvald man ekki hvers son,en hann hefur stundað rannsóknir á ferðaháttum útlendinga og Íslendinga í mörg ár. Þar kom fram það sem ég er búin að sjá í nokkur ár að skipulagsmál hjá ferðaþjónustuaðilum á hálendinu eru í rúst!

Það vantar algjörlega að marka stefnu í skipulagsmálum ferðaþjónustu á hálendinu. T.d hvað á að vera mikil þjónusta á fjöllum? Á að bjóða upp á handþurrkur? Á að vera ruslamóttaka á fjöllum? Eiga ferðaþjónustuaðilar á fjöllum ekki að taka upp umhverfisstefnu og fá hana vottaða?
Má bara byggja alls konar hús á hálendinu og endalaust af þeim? Þarf ekki að láta þau falla inn í umhverfið, bæði hvað varðar form þeirra og lit. Olíutankar eru hér og þar á hálendinu og þeir hafa smitað mikið út frá sér. Á þeim málum þarf að taka.

Bara huxanir og pælingar. Hugurinn læddist inn á hálendið í gær, þegar ég tók þessa bansettu ljóðabók mér í hönd, sem heitir "Fjöllin blá". En hef verið staðsett að mestu leyti í Skálholti með honum Jóni Hreggviðssyni og hans félögum í Íslandsklukkunni.

laugardagur, október 30, 2004

Illugaskotta er komin á Strandirnar. Verð hér fram til 8. nóvember. Fundur í Reykjavík, og aftur sem fyrst á Strandir, því hér er gott að vinna.

Veðrið er frábært, gott haustveður. Þarf að skrifa tvo kafla í komandi viku ásamt því að laga fyrsta kaflann. Allt að skríða saman. Skeiðarárhlaup að byrja, ég gæti verið að fylgjast með því ef ég hefði drattast til þess að vera í Öræfasveitinni,,en það vil ég ekki því ég er alla daga Emma öfugsnúna.

fimmtudagur, október 28, 2004

Það rignir hér í Reykjavík. Hitti Gilla og syni hans tvo á Norræna húsinu í hádeginu. Þeir fara norður í Mývatnssveitina á morgun. Þar er víst vetur.

Ætla í bæinn í dag eftir klukkan 16:00. Er með fjöll af bókum með mér, sem ég þarf nú ekki að lesa en get nú notað samt.

Sef ógnar vel þessa daganna eftir að mér datt margt sniðugt í hug og hætti að bylta mér og hugsa allar liðlangar nætur og hafa áhyggjur af því að mér myndi aldrei nokkurn tíman aftur detta eitthvað sniðugt í hug.

Hef ekki enn þá farið á Þjóðminjasafnið, þótt það sé frítt inn á miðvikudögum. Ætla að bíða þar til Guðrún Ósk er komin suður, en hún er núna á Blönduósi á meðan þetta kennararverkfall stendur yfir. Það er eins og það hafi alltaf verið kennaraverkfall.

Sakna Glúms Guðmundssonar Bjarkan mikið (kötturinn minn) sem býr á Blönduósi. Hann hlustar á mig, segir aldrei neitt til að mótmæla mér og vill bara láta klappa sér,,svo slefar hann þegar maður klappar honum. Snilldar kötur sem ég hef áður talað um hér, enda er hann maður í álögum.

Mig langar að skrifa um álög. Afhverju verður fólk fyrir álögum? Ég þekki að minnsta kosti þrjár manneskjur sem eru undir álögum og einn kött.

miðvikudagur, október 27, 2004

Fyndið á erfitt með að vera akademón,,,,en það mun takast í nokkrar vikur. Gísli sagði þetta við mig í gær:" Björk þú verður að átta þig á því að þú ert ekki að skrifa fyrir hinn meðal tjaldbúa".

Illugaskotta veit það alveg. Það er frábært veður,,,nýkomin úr góðum bíltúr,,tala við gott fólk og njóta þess að vera til.

Hygg á Strandaferð sem fyrst. Heimildarbókaveiði vinna á morgun, ljósritun, útréttingar, skriftir og fleira.

Tunglmyrkvi byrjar klukkan 6 yfir tólf...allir að muna sem vaka svo lengi.

þriðjudagur, október 26, 2004

Hey það var ekki alveg glænýr jeppi sem Iðunn vann,,,en rosalega flottur kaggi þó!

Mikið að stússast í dag, halda áfram með skrifin eins og brjálæðingur.

Allt er ágætt. Kv Illugaskotta.

mánudagur, október 25, 2004

Amma í Kópa er 77 ára í dag. Til hamingju amma mín. Hún er úti á djamminu núna með vinkonum sínum. Amma er einn af þessum föstu og góðu punktum í tilverunni. Hvað ætli ég verði að gera þegar ég verð 77 ára?

Enn þá að djamma með Eydísi og Fríðu?

Veit það ekki.En Illugaskotta er kát í dag, því það er komið vit og línur í það sem ég er að skrifa!!!! Þetta mun takast.

Farin út í sólina.

sunnudagur, október 24, 2004

Vá Iðunn vinkona vann í bingóinu á Skjá einum hún vann heilan glænýjan Ford pickup,,,45 kíló af hveiti, grænarbaunir í dós og 10 geisladiska. Þetta er frábært, þar sem hún lennti í því um daginn að klessa fyrsta bílinn sinn.

Til hamingju Iðunn,,,nú bara njóta lífsins og vera aðal töffarinn á risa jeppa...það er gaman. Illugaskotta segir skál í bottom!!!

Illugaskotta er hress, þótt hún taki fíluköst og klikkist af og til það fylgir því bara að vera ég.

Át pizzu og drakk bjór, fékk mígrenikast, hamaðist í tölvunni,,,fór út,,,kaffihús, las blöðin, drakk kaffi,,,lét reykja yfir mig,,,og er núna í heimsókn hjá Sigga Atla, því þar er svo gaman að vera. Sendi frá mér efni sem ég fæ aftur í hausinn á þriðjudaginn.

Laufey Mattíana Long verður 4 ára á morgun, fer í afmæli til hennar.

laugardagur, október 23, 2004

Siggi Atla drap herra Pétur frá Ófeigsfirði kaktus! Það er ekki hægt að drepa kaktusa, ég gleymdi Pétri í Reykjavík í sumar,,hann þornaði næstum því upp. Svo bara gaf ég honum lífsins vatn,,vatn, svo fór ég suður á bóginn. Galdrakarlar geta verið hættulegir kaktusum....

Greyið Pétur er núna í ruslatunnu í turninum, en rottan lifir góðu lífi.

Það er hægt að kaupa amerískar og frosnar flatbökur í Nóatúni á 199 krónur. Illugaskotta keypti tvær, hún myndi kaupa 100 ef hún ætti risastóra frystikistu. Þessar flatbökur hljóta að vera fullur af rotvarnarefnum, geislavirkni og jarðsprengjum. Það er ein núna í ofninum, kannski lifi ég af.
Horfði á frábæra mynd í gær. "The day after tomorrow". Mæli með henni, spennandi, húmor,áhugarverðar pælingar og hittir bara í mark.

Er á Þjóðabókhlöðunni. Það er súrt. kv Illugaskotta.

föstudagur, október 22, 2004

Ég Illugaskotta líð vítiskvalir að vera skrifa ritgerð, ég sveiflast á milli þess að halda og trúa virkilega að ég sé snillingur í það að detta ofan í vonleysi, pirring, þreytu, vantrú, leiðindi, bjór, pizzu, fílu,gremju, pirring,,,,og aftur pirring.

Og annað, er andstyggilega pirruð út í mig að vera að skrifa um mitt væl og pirr hér á opnum vefsínum heimssins!!! En eitthvað verð ég að gera, ekki hef ég neinn til að röfla í,,ekki einu sinni köttinn minn gamla hann Galdra Glúm.

Þetta er svo andstyggilega leiðinlegt en oft skemmtilegt að ég er farin að halda að ég sé haldin kvalarlosta. Að njóta þess sem er vont,,oj,,,það gerir draugur ekki.

Í dag er sólin búin að gretta sig og glenna, vindurinn er búin að vera í fríi,,,en Illugaskotta þykist ekki taka eftir þessu. Bílinn rauk þó í gang þegar ég prófaði í dag....ekkert að honum, nema það að hann heldur að það sé nóg að mótmæla og vera með skoðun til að breyta hlutunum. Þá hefur hann rangt fyrir sér!!!

Úffffff,,,,ég er á barmi klikkunnar!!!! Ég mun horfa til baka á þetta sem bestu tíma lífs míns. Reynir Illugaskotta að sanfæra sjálfa sig um, en þetta er nauðsynlegur áfangi svo ég geti nú haldið áfram á beinu brautinn til sigurs,,sigurs á hverju?....hump!!! Bleugh!!!!

Mig langar til Danmerkur að hitta vini mína, til Kanödu að hitta vini mína,,,ferðast um Ísland og hitta vini mína þar,,,fá góða vinnu...fara að gera eitthvað af viti.

fimmtudagur, október 21, 2004

Mikið að gera í hausnum á mér. Bíllinn minn er farin að mótmæla einhverju, andskotans skoðanir, bílar og fólk á að vera skoðanalaust. Þá virkar allt voða fínt að mati hvers?????

Er komin á Árnastofnun, búin að ná í bækur úr millisafnaláni sem komu frá Englandi, kostaði 3000 krónur að panta þær, en það er í lagi. Góðar bækur.

Fór á Félagsvísindadeild sem er búið að vera á geralistanum mínum síðan í byrjun mánaðarins, til þess að bæta við einum leiðbeinanda.

Eydís vinkona eignaðist sitt annað barn í gær einhvers staðar í Danmörku, önnur stelpa. Til lukke Eydís.

þriðjudagur, október 19, 2004

Fór í heimsókn til Röggu vinkonu í gærkveldi,,ég lág í eiginlegri merkingu orðsins í tölvunni hennar og í rúmminu hennar með henni,,það var gaman. Brenndum diska, spjölluðum eða ég spjallaði endalaust er með málæði, Ragga sat bara alveg freðin undir þessum tungufossi sem óð út úr mér. Síðan lágum við og horfðum á Sopranos,það er nefnilega búið að færa sjónvarpið hennar inn í herbergið sem er bara eitt rúm og sjónavarp og fleira nauðsynlegt.

Merkilega ruddalegir þættir þessir Sopranos, eru að versna ég meina líkamlega ofbeldið.

Það er frábærlega hvasst út, svo hvasst að maður þarf ekki að lyfta upp fótunum, þeir fjúka upp og maður svífur um tún, móa og hollt eins og Marry Poppins sem átti regnhlíf sem gat látið hana fljúga.

Er á Árnastofnun, búin að ljósrita og lesa yfir mig. Maður fær nóg af grúski, það lætur heilann stífna og stíflast. Er að fara út, eftir að fá lánuð nokkur ljósrit frá Gísla og síðan einangra mig næstu daga við skriftir. Þetta er orðið gaman núna.

Hitti Ásu í hádeginu, hún er búin með sína M.A ritgerð, og hún þolir ekki England eftir að hafa dvalið þar í ár.

Farin á fjúkandi ferð, út á tún.

mánudagur, október 18, 2004

æji,,gleymdi að setja þetta í póst sem ég var búin að skrifa

Á vini í Bandaríkjunum, Kanödu, Danmörku, Englandi, Skotlandi,Indlandi og Banglahdesh.....skrítið..

Kv Illugaskotta

sunnudagur, október 17, 2004

Illugaskotta mælir með leikritinu Úlfhamssögu, flott saga, frábær tónlist sem Eyvör Pálsdóttir flytur í beinni og mikið um að vera á sviðinu. Ég hló mikið af Láru vinkonu sem leikur fuglakonu, og köllunum tveim sem voru í álögum og urðu bara skotnir, eða réttara sagt graðir í fugla. Hún hljóp um sviðið og þeir á eftir, æpandi og hún fuglinn sjálfur, flaug út um allt og gerði þá vitlausa.

Allt gerist mein hægt, en gerist þó. Fór í 1 árs barnaafmæli í dag, hjá henni Kamillu Mist,og í hádegissteik til ömmu. Mamma og pabbi eru í bænum, og mamma tók sig til og bauð öllu liðinu í steik.

Hér er rok og él, kallt.

föstudagur, október 15, 2004

Það er frábært veður úti, logn og sól. Er stressaðri en andskotinn þegar hann var að synda með Sæmund fróða yfir hafið til Íslands. Fékk andstyggilegann póst áðan sem ég er ekki hress með.

Hundsbit snemma morguns kemur manni ávallt vel af stað. Segir Illugaskotta sem langar mest að fara og æla beint út um gluggann,,gubbbbb.

Ætla að hitta Röggu í hádeginu, fara í göngutúr niður við sjó...kv til allra sem eru hressir í dag.

fimmtudagur, október 14, 2004

Illugaskotta hefur aldrei á sinni lífslöngu ævi verið eins skapstór, skapbráð og með stuttann þráð. Það er eins og það logi eldur í æðum mér við hvert það mál sem á móti mér blæs. Í gærkveldi, kvöldið þar áður, í morgun...þetta ætlar engann enda að taka.

En nú get ég æpt af gleði,því ég hef fundið það...ég sauðurinn sjálfur, sauðþjófurinn sjálfur. Fattaði loksins það augljósa í ritgerðinni. Mikið er gaman að vera sauður og fatta eitthvað sem er búið að liggja fyrir framan mín augU.

Ég er hætt að vera með samsæriskenningar, ákvað það í gær. Fór í heimsókn til Sigga Atla í gær hann er búin að klippa sig og snyrta..ætlaði ekki að þekkja kauða. En Buch var líklega með eitthvað inná sér, kannski bara biblíuna því hann er svo trúaður.

Ég er á Árnastofnun núna, hér er rólegt og gott að vera, allir eitthvað rólegir,,,,,sem er gott fyrir mig.
Ég hlakka til að fara á Strandir í nóvember og eiga góða daga í Sæbergi með hinni norninni.

miðvikudagur, október 13, 2004

Rigning eins og helt sé úr fötu, það er gott. Svo hreint allt úti. Búin að panta nokkra hauga af bókum af millisafnaláni sem er gott, mikið af bókum sem fjalla um náttúrutúlkun.

Veit ekki meir. Er að fara í leikhús á föstudagskvöldið að sjá Úlfhamssögu en Lára vinkona leikur þar fuglakonu eina. Það er einnig landvarðarpartý það kvöld, og ætli ég skelli mér ekki líka í það, nema ég fari eitthvað með leikhúsliðinu,,,allt getur gerst,,,,draugurinn er hress miðað við aldur og fyrri störf.

þriðjudagur, október 12, 2004

Rússarnir koma!!!!! Ó nei!!! Verðum að hafa bandaríska herinn hérna til að vernda okkur, þurfum meiri vopn,flugvélar, hermenn!!! Best að vera viðbúinn og óttasleginn.

Vá, gjörsamlega klikkaðar fréttirnar í gær út af nokkrum rússneskum skipum sem eru búin að hanga í nokkrar klukkustundir við austurströnd Íslands og missa nokkra björgunnarbáta fyrir borð.

Illugaskotta sannfærist betur með hverri mínútunni sem líður að hún og hinir sem búa á þessu skeri búi í banana lýðveldi. Æði!

Yggdrasill, Ratatoskur, fjögur hjartardýr, snákar, guðir, menn, nornir, urðarbrunnur, mímisbrunnur, Hel, Niflheimur, dvergar......allt hring snýst þetta og meira til í hausnum á mér. Svaf ekkert í nótt vegna huxanna!!! Argh,,ég er brjáluð, í bókstaflegri merkingu orðsins.

mánudagur, október 11, 2004

Mánudagur. Er að fara á fund með kennurunum mínum. Að bera undir þá efnisyfirlitið mitt. Stundum finnst mér þetta vera sniðugasta verkefni í heiminum en allt of oft verð ég andstyggilega pirruð á sjálfri mér að hafa valið það. Afhverju valdi ég ekki bara staðlar IUCN á einhverju varðandi umhverfið?? Eða einhver er að skrifa um póstkort sem keypt eru af íslensku landsslagi,,....

Allt of mikið af slysum í umferðinni, það var næstum því keyrt framan á mig og vin minn í gær, þegar við vorum að keyra upp brekku hér á suðurlandinu. Einhver brjálæðingur að taka fram úr.

Annað t.d. þetta í fréttunum, allt of mikið svæði undir bíla í Reykjavík. Ég mæli með að ýtt verði undir kaupmanninnn á horninu, ýta undir litlu búðirnar í hverfunum svo fólk geti labbað út í búð, spjallað við kaupmanninn,,,,persónulegra umhverfi, persónulegri viðskipti. Farin að hanga á netinu,,hreyfi mig ekki neitt þessa dagana sem þýðir...spek og leti.

föstudagur, október 08, 2004

Einhvern vegin klikkaði allt í dag, ég meina klikkaði saman í hausnum á mér, eins og dómínókubbaborg sem fellur! Magnað hvað ég fattaði.

Fór á fyrirlestur Rutar sem var að klára MA prófið sitt, það var gaman. Vá hvað það verður gaman að kynna sitt verkefni. Get ekki beðið.

Það er frábært veður ég gæti gengið um fjöll og hóla fram á morgun.

fimmtudagur, október 07, 2004

Ég bakkaði á bíl í morgun, þar sem ég var í kremju inni á bílastæðinu við JL húsið, kemur einhver bíll allt í einu og bamm!!! Rauður skildi ekki neitt hvaða fyrirstaða þetta væri,,sá ekki neitt á honum, enda er hann skrímsli.Smá beygla á horninu á honum aftan, hægra megin

Æji þetta var leiðindar byrjun á deginum, sem annars byrjaði vel.

Þarf að hringja í Tryggingarnar og bla....."ÞETTA ER YNDISLEGT LÍF" hver bjó til þann frasa???
Fór í mat til Iðunnar í gærkveldi, Hildur Edda kom líka. Þetta var þægilegt kvöld. Áður hafði ég verið að pirrast og klikkast, fór þá til ömmu. Þar beið mín pakki frá Garry Raven, póstkort frá honum og tveir geisladiskar og bréf! Síðan lagði ég mig hjá ömmu.

Nú er sól, logn. Ég verð með eldboltasýningu einhvers staðar í Kópavoginum annað kvöld. Það verður gaman.

miðvikudagur, október 06, 2004

Sólin er að brjótast út úr skýjunum hér á suðurlandinu. Er að fara að búa mér til kaffi, svo að ná í möppu sem ég gleymdi í skólanum, síðan á bókasafn UST til að klára að vinna í efni tengdu náttúrutúlkun.

Fór á fund þar í gær með forstjóranum, það var góður fundur. Gat þar útskýrt mitt sjónarhorn og hann stofnunarinnar sjónarhorn. Ýmislegt nýtt kom líka fram.

Kv frá Björk sem setti Illugaskottu í frí, því illugaskotta er agalaus.

þriðjudagur, október 05, 2004

Hvað er með það þótt ég hefði sagt og hann hefði sagt, þau hefðu sagt, hún hefði sagt og allt þetta lið hefði sagt eitthvað? Allt fer hvort sem er eitthvert.

Illugaskotta er undrandi, skilur ekki, spyr sig. Það býr margt í kýrhausnum.

Það kólnar hratt í Reykjavík á gervihnattaöld.

mánudagur, október 04, 2004

Er hundfúl og asnaleg. Allt gengur hægt, of hægt. Sit bara og hugsa eitthvað, vill fara að skrifa!!! Æpandi gámurinn er jafn pirrandi og þetta,,, varla hægt að losna við en er hægt með tímanum.

Rok, laufblöð, fjúkandi blöðrur, suddi og skrítið.

sunnudagur, október 03, 2004

Rok og stormur koma mér í gott skap. Fór með Dagný að ganga á Hengilsvæðinu, sem er í einu orði sagt frábært svæði!

Síðan í sund, svo í mat, thailenskan mat á veitingarstað í Tryggvagötu. Frábært.

Góður dagur. Allt er svo sem ágætt. Kannski fer ég út að leika með eldboltana á morgun. Eða ég veit það ekki, veit ekki neitt þessa dagana.

laugardagur, október 02, 2004



Þetta er Illugaskotta að leika sér með eldbolta í Dómadal í sumar. Þegar ég var í brúðkaupinu sem var frábært. Vá þetta er gaman,,elska eldboltana mína.

Fullt af myndum frá þessu brúðkaupi á vefnum atvinnuferda.is

Farið inn á myndir og flettið svo niður á landvörður eitthvað...þar eru margar myndir úr skemmtilegasta brúðkaupi sem ég hef farið í.

fimmtudagur, september 30, 2004

Einhverjir fjórir aðilar hafa á seinustu dögum googeld mig,,,sem sagt leitað að Illugaskottu bloggara á netinu.

Hverjir eru þetta? Skrítið,,,,,jamm,,en Halldór er ekki búin að svara mér.

Dagurinn gekk vel. Kláraði að gera efnisyfirlitið, gerði formálann, fór á opnun bókmenntahátíðarinnar" Galdur úti í mýri" það var gaman..er í Norræna húsinu þessa helgina.

Ritgerðin mín sem ég er að bisast við að skrifa til MA prófs í umhverfisfræðum er um "Heimsmynd norrænna manna og hvernig það er hægt að nota þessa fornu vitneskju til umhverfisfræðslu fyrir börn" , en þette er ekki titilinn,,,er ekki komin með vinnu nafn á skrímslið mitt.

T.d þá erum við núna inni í hausnum á Ými, askur Yggdrasils heldur heimunum þremur saman, Sól og Máni systkin ríða um himininn,,,,og döggin kemur frá mélum Hrímfaxa sem er hestur Nætur...bara smá punktar um það sem ég er að skrifa um.

Og á morgun fer ég og finn restina af heimildunum á Þjóðarbókhlöðunni. Úffff,,,ég stressast upp með hálftíma fresti yfir því að ég nái aldrei að klára þetta, en svo róa ég mig með því að segja við sjálfa mig að ég sé sérfræðingurinn í þessu...Draugar eru merkilegar skepnur.
Seinasti dagur septembersmánaðar er í dag. Fór með Laufeyju í leikskólann fyrir Valdísi í morgun, og afrekaði það að gleyma símanum heima hjá þeim. Enda er ég ekki vöknuð enn. Fæ ekki símann í mínar hendur fyrr en um 18:00 í dag, sem er ágætt.

Fór í Bílanaust, keyrði fram hjá Ríkissáttasemjara, þar var allt fullt af kennurum í verkfalli. Greyið þeir, endalaust fúlt.

Lýðræðið er lygi og tjáningarfrelsið er farið í íslensku samfélagi í dag.

Gaman væri að fá skilgreiningu á þessum hugtökum frá þeim flokkum sem eru inni á Alþingi, og bera saman svör þeirra.

Illugaskotta ætlar að byrja að spyrja Halldór Ásgrímsson.

"Hérna Halldór, gætir þú aðeins hresst upp á minnið hjá mér og útkskýrt fyrir mér hvað lýðræði og tjáningarfrelsi er, ég er nefnilega orðin alveg rugluð vegna mismunandi túlkanna í samfélaginu í dag".

Þið mættuð segja eitthvað um þetta sem eruð að lesa þetta blogg.

Annað að sjá hann þarna fjármálaráðherra Geir, í Kastljósi í gær, hann var svo ekki að svara á sannfærandi hátt afhverju hann valdi JS sem hæstaréttardómara.

miðvikudagur, september 29, 2004

Fréttin í gær á RÚV, sjónvarpinu af brunanum, gekk út á grín þessa Gísla fréttamans, sem kemur frá Akureyri.

Virðingarleysi og kjánalegt grín einkenndi þessa frétt hans. Kallinn tók úr brunarústunum leyfar af Vilkó súpu umbúðum og sagði:"Það má segja að súpan hafi brunnið við".

Kjána kall, segir Illugaskotta.

Þegar svona slæmir atburðir eiga sér stað í litlum bæjum úti á landi þá eiga fréttamenn að gæta sín, og vanda orðaval. Það virðist hafa gleymst hjá honum Gísla.

Rigning úti, lífið heldur áfram, ekkert fær stoppað tímann...það er merkilegt,,,en þetta ár hefur liðið hratt,,,,,hraðasta ár lífs míns.

þriðjudagur, september 28, 2004

Votmúli brann! Stærsta húsið á Blönduós. Vilkó súpur brunnu einnig, 20 manns búnir að missa vinnuna. Þetta er slæmt. Vona að hægt sé að koma þessum málum í lag þarna heima.

Er að fara að troða í mig morgunmat, Bjarni bró og Hugrún eru að fara að ná í mig. Jarðarför kl 1330.

Er að lesa Íslandsklukkuna, með fyndnari bókum sem ég hef verið að lesa. Jón Hreggviðsson er minn maður.

Bið ykkur um að kíkja á vefinn bokmenntir.is en þar er dagskrá sem mun fara af stað í Norræna húsinu sem er tengd galdri.




mánudagur, september 27, 2004

Keypti mér jakka í dag og spennur í hárið, svokallaða gogga. Fundurinn með leiðbeinendum mínum var góður, gaman þegar fólk með reynslu úr mismunandi fræðigreinum er að tala um hluti eins og t.d. umhverfið. Alls kyns hugmyndir koma fram.

Þeir eru hræddir um að þetta sé ekki nógur tími, að klára fyrir 10. janúar. En ég skal. Enda er allt vel skipulagt, og ég veit að það er mikil vinna fram undan sem ég hlakka til að takast á.

Þrammaði út um allan bæ, gott veður, hitti margt fólk, búin að tala í allan dag. Illugaskotta er þreytt, er heima. Búin að borða. Þarf að strauja fötin mín fyrir morgundaginn og bíða eftir að Sopranos byrji.

Tony einn mafíósinn í Sopranos er æði, hann er karlmennskan uppmáluð,,,,magnað fyndið að fylgjast með honum. Í seinasta þætti fékk hann nei frá kellu einni,,,það féll ekki í góðan jarðveg hjá honum. Tók þá fram vindilinn og vélbyssuna. Sat í stól og beið eftir bjarndýri.


sunnudagur, september 26, 2004

Mánudagur á morgun. Tæknigarður, lestur, labba, Mokka, Bjarni bró, Gullsmári, fjölskyldan.

Heim. Er með margt á prjónunu, allt gengur ágætlega. Er orðin algjör dreifbýlis vargur, vill hvergi vera annars staðar en úti á landi.

Er farið að langa sjúklega mikið að fara til útlanda, bara smá að kíkja. Ísland er nú alltaf best, en stjórnvöld og þeirra aðferðir eru að gera mig meira en fúla.

Ég vil að íslensk stjórnvöld dragi stuðningsyfirlýsingu sína til baka varðandi stríðið í Írak. Við eigum ekkert með það að styðja þjóðarmorð og vera á lista yfir hinar staðföstu þjóðir.

Ísland ætti að gefa sig út fyrir það að vera friðarþjóð. Eins og Halldór forsætisráðherra vor sagði, þá eigum við að horfa fram á veginn varðandi stríðið í Írak. En það er ekki hægt! Við, íslenska þjóðin höfum dregist ofan í svaðið með þeim sem ákváðu að styðja innrásina í Írak. Íslensk stjórnvöld verða að bera ábyrgð á gerðum sínum og það geta þau ekki gert ef þau horfa bara fram á veginn.

Þetta er allt of klikkað allt saman.

Bændaþjóðin með hor í nös að styðja stríðsbrölt smekkbuxna hill billy Bush!!!

Fáranleikinn er algjör...það segir Illugaskotta. Saddam er farin en önnur vandamál eru komin.

Hvað ætla Bandaríkin að reyna lengi að stjórna vandræða unglingnum Írak!


laugardagur, september 25, 2004

Allt fer úr skorðum þegar maður er ekki í sínu greni,, mitt greni færist úr stað af og til. Grenið er núna á Hólmavík. Sakna Stranda og rólegheitanna sem eru þar.

Hef ekki hreyft mig í þrjá daga. Ráðstefnan var frábær, þvílíkt athyglisverðir fyrirlestrar. Því var veitt athygli að það var engin frá umhverfisráðuneytinu, umhverfisstofnun, enginn þingmaður ekkert...en verið að fjalla um sjálfbæra þróun sem er eitt alsherjar flækju hugtak, sem fáir skilja en allir slá í kringum sig, því þetta er svo jákvætt og gott orð fyrir umhverfið, menn og dýr. Jú Dagur.B.Eggertsson borgarfulltrúi kom og talaði um margt.
Rokið hefur lægt, það er dimmt úti, ætla í langan göngutúr á morgun. Fundir og fleiri fundir á mánudag, meira snatt á þriðjudag, jarðarför. Á miðvikudag byrjar fjörið aftur.

föstudagur, september 24, 2004

Geisp,,,er alveg úrvinda eftir allt sem ég var að gera í gær.

Annars búin að vera á mjög áhugaverðri ráðstefnu í dag, fengum kleinur, kaffi og vínarbrauð með súkkulaðibitum...það er gott. Einnig skemmtilegt fólk,,,og gott að hressa upp á heilasellurnar.

Hitta fólkið mitt seinni partinn, fer með Bjarna bró sem kom af sjónum í gærmorgun.

Síðan ætla umhverfispælarar og ælarar að hittast á Ljótasta andarunganum,,,sem er kaffihús sem ég er að uppnefna.

Rok,,hætt að rigna,,og allir eru kátir eftir að láta feikja sér út um allar grundir af honum kára í jötunmóð.

Á maður ekki bara að spreða í flugmiða,,,hverfa og koma aldrei meir???

Þarna labbar hagfræðingurinn Ragnar sem ég lærði margt af, þótt mér hefði dauðleiðst í tímunum hjá honum, hagfræði er mjög nýtilegur hlutur, enda skilja allir,,næstum allir peninga.

fimmtudagur, september 23, 2004

Nú er ég komin til Reykjavíkur. Var á Blönduósi frá seinustu helgi. Veðrið var frábært á leiðinni suður. Stoppaði og týndi nokkur blóm uppi á Holtavörðuheiði. Vel sást til jökla og sólin skein, þvílíka veðrið. Haust og vor held mest upp á þessar árstíðir. Fer á ráðstefnuna á morgun og laugardaginn.

Leiðinlegir atburðir hafa átt sér stað, systir hennar mömmu hún Helga dó á mánudaginn. Hún var einungis 53 ára gömul, varð snögglega veik, og ekkert hægt að gera. Jarðarför á þriðjudaginn. Allt breytist hratt, stundum ekki neitt, en það er alltaf eitthvað að breytast. Illugaskottu finnst mjög ósanngjarnt og sorglegt að Helga sé dáin.

Var að leika mér með Einari í dag, fórum í sund, hamborgari, kveiktum eld, spjölluðum, og svo kvaddi ég hann. Hann er á leiðinni til Kaupmannahafnar að freista gjæfunnar. Meðan ég sit hér og neita að gefast upp, skal klára ritgerðina með stæl, svo verður það frelsið. Var að uppgötva hvert póstarnir mínir fara sem ég segist aldrei fá. Þeir hafa farið í rusl póst, fann mjög mikilvægt bréf þar áðan. Kannski rætist draumurinn minn.

Megið þið eiga góðan dag á morgun.

föstudagur, september 17, 2004

Pakka, sortera, geyma, henda, laga til. Er að pakka dótinu mínu hér á Höfðagötunni, fer á Blönduós í dag. Klára fyrstu drögin þar.

Hestaréttir á sunnudaginn og ball með Sixties heima í reiðhöllinni á laugardaginn, sem verður gaman að kíkja á með Hugrúnu og Fannari.

Sá Imbu hrafn í gær, hún er risa stór, gaf henni harðsoðið egg og tómat.

fimmtudagur, september 16, 2004

Nú er hellt úr fötu, og vindurinn er í fjöri.

Það er ótrúlegt að þakið hafið fokið af Hótelinu í Freysnesi. Þarna hef ég oft komið, þetta er mjög stórt hús. Vá....heyrði í Jóni áðan í útvarpinu sem á hótelið ásamt Önnu Maríu. Þetta er gífurlegt tjón fyrir þau. En samt fyrir öllu að enginn slasaðist. Fyrsta haustveðrið gerir allt vitlaust og pabbi er búin að segja að þetta verði snjóþungur vetur.

Núna er Siggi á Hnappavöllum á fullu að keyra dreka hjálpasveitarinnar Kára í Öræfum. Þetta er brynvarður dreki sem Þýska ríkið gaf hjálparsveitinni fyrir nokkrum árum. Rosa græja, hægt að setja skothelda hlera fyrir rúðurnar og keyra þannig, ásamt því sem hann á að þola það að keyra í rosa veðri eins og gengur núna yfir landið.

Ég og Ragga vitum fátt skemmtilegra en að keyra þennan dreka. Núna er hann að hvessa hér.

Farin að rífa í mig Grímnismál, Prologus og Gylfaginningu. Síðan held ég að ég fari að pakka dótinu mínu hægt saman. Annars verð ég að viðurkenna að ég nenni ekki að fara héðan, hér er gott að vera.

Illugaskotta er að verða leið á flakki.

miðvikudagur, september 15, 2004

Rjúpu greyin hugsa ég þegar ég geng minn göngutúr á morgnana. Þær eru farnar að breyta um lit, eru eins og gjæfar hænur, og sjást auðveldlega í grænu og gulu grasinu. Þetta vilja menn skjóta, fara á hænsnaveiðar upp til fjalla.

Hvað ætli nýji umhverfisráðherrann geri varðandi rjúpnaveiðibannið?

Sá viðtal við hann þarna formann Skotvís í gær í sjónvarpinu,,,vá hann er alveg brjálaður í að drepa fröken og herra rjúpu.

Illugaskotta er með tillögu.

Sko, hvað með að fara bara að rækta rjúpur eins og hænur. Fá svo skotveiðimenn til þess að hlaupa um fjöll, móa og hæðir með allt draslið með sér, byssuna, nestið og hundinn. Siðan þegar þeir eru orðnir þreyttir þá geta þeir skotið á gervirjúpur hér og þar í hlíðum fjallsins. Og svo fara þeir til rjúpanræktunarbóndans og kaupa hjá honum heimaræktaðar rjúpur...sem þeir bera svo stoltir heim til sín.

Það er þvílíkt auðvelt að skjóta rjúpur, því þær eru varla fleygar og eru ekkert mjög styggar.
Ég vona að rjúpan fái áfram að vera friðuð í smá tíma í viðbót. En einhvern vegin held ég og gruna að hinn nýji umhverfisráðherra aflétti banninu. Við skulum sjá.

þriðjudagur, september 14, 2004

Nú þekki ég einn sem hefur komist áfram í Idol keppninni, hann komst í úrslit í dag á Ísafirði, hann Addi, það er frábært.

Annars þá byrjaði ég að skrifa í dag, og það gengur vel. Einnig hleðst inn á dagskránna allt það sem ég ætla og þarf að gera þegar ég fer til Reykjavíkur.

1) Ráðstefna um sjálfbæra þróun 24 og 25. september
2)Flytja allt dótið mitt í burtu úr turninum, JL húsinu.
3)Grisja eitthvað af öllum þessum fötum sem ég á og fer aldrei í
4)Hitta:Guðrúnu Ósk, Kamillu Mist, Láru, Hildi Eddu, Iðunni, Elísabetu, Steinunni, Dagnýju, ömmu auðvitað, Valdísi Veru og Laufeyju,Hólmfríði, Einar, Þórdísi, Nóa, Tátu og Tóvu og einhverja fleiri sem ég man ekki í augnablikinu
5)Fundur með Gísla og Þorra sem eru leiðbeinendurnir mínir
6)Fundur á Umhverfisstofnun
7)Fara á bókasafn Ust og ljósrita greinar um náttúrutúlkun
8)Þarf að fara með allar bækurnar á þjóðarbókhlöðuna og taka þær aftur því þeir eru með svo fullkomið kerfi að það er ekki hægt að endurnýja oft lán á bókum í gegnum síma.
9)Fara til læknis
10)Versla mér geisladisk
11)Fara í sund í Vesturbæjarlauginni
12)Kaffihús,,nú auðvitað Mokka, þar er gott að hugsa og lesa blöðin
13)Taka viðtöl kannski við nokkra landverði

Vá!!! Vissi ekki að þetta væri svona fjandi margt og meira á eftir að bætast við...kannski ákveð ég að gera ekki neitt,,,liggja bara í sundi með tærnar upp í loft!¨!!!,,,ps verð að muna að kveðja svo rottuna annars verður hún fúl.
14)Vinna á bókasafninu Þjóðarbókhlöðunni, eitthvað á Borgarbókasafninu.
Illugaskotta trúir á veðurgaldra,,vindgapa. Þetta veður er ótrúlegt, það er búið að vera gott veður í allt sumar!!! og enn glennir sólin sig eins og hún sé í grettukeppni. Þetta er frábært. Umhverfið í kringum Galdrasýninguna tekur breytingum hvern einasta dag.

Næsta sumar verður glæsilegt. Sama hvar ég verð niðurkomin.

Skál í mjólk!

mánudagur, september 13, 2004

Illugaskotta ætlar á ráðstefnu um sjálfbæra þróun sem haldin verður 24. og 25. september í Reykjavík. Þetta er mjög áhugaverð ráðstefna þar sem saman kemur fólk með mjög fjölbreyttann bakgrunn. Þeim mun fjölbreyttari bakgrunnur þeim mun áhugaverðari umræður og fyrirlestrar.

Illugaskottu er umhugsað um það hvað fólk er hrætt við að segja skoðun sína. Eitthvað er þetta fólk hrætt við og það er slæmt.

Ég hef orðið vör við að það endurómar í íslensku samfélagi að það sé best að þegja og styggja ekki neinn.

Skilaboðin séu: Ekki segja neitt, bara vinna og þegja. Það er ekki gott að segja skoðun sína, það eru allir hræddir segir fólk. Hvað er að hræða það hef ég spurt, svarið er þá: það er hrætt við að missa vinnuna ef skoðanir þess brjóta í bága við það sem á að hafa skoðun á. Þessi svör er hvísluð, fólk horfir furðulega á mann og ákveður svo að svara.

Stórhættuleg þróun ef þetta er ekki bara ímyndunarveiki og ofsóknarbrjálæði að angra einn draug. Vil ekki hugsa þessa þróun til enda.

Vá Idol bíll var að keyra fram hjá húsinu mínu bara rétt í þessu.

sunnudagur, september 12, 2004

Það er besta svefnveður í heimi út: Rok....

Það var smalað í gær, sund, leti, Bændahátíð, étið, hlegið, talað við skemmtilegt fólk, heim. Frábært dagur í gær.

Hugrún systir hringdi í mig í gær, sagðist vera búin að hlaupa alla Hnjúkanna heima á eftir snarbrjáluðum rollum, Fannar bróðir var orðin brjálaður út í þessar skjátur og allir dauðuppgefnir. Þau voru að fara heim að éta skíthaugahoppara.

Held ég fari heim um næstu helgi, svo suður, svo austur og svo veit draugur ekki meir um sitt líf. Enda er ekkert gaman að vita alltaf hvert allt stefnir.

föstudagur, september 10, 2004

Skrif Illugaskottu hafa stundum æst upp fólk. Illugaskotta vill engum illt, hún vill bara að segja hvað býr í hennar brjósti. Það er í frjálsu vali hvers og eins hvernig hann/hún tekur skoðanir mínar til sín.

Skoðanaskipti eru til þess að fólk geti rætt málin, gagnrýnt hvort annað og séð hlutina í fleiru en einu ljósi. Skoðanir eru til þess að breyta samfélögum, koma af stað umræðu svo eitthvað breytist, svo fólk fari að hugsa á annann hátt.

Illugaskotta er að fara að smala á morgun. Fé og fólk, labb og fjör.


Fannst og finnst áhugavert að Umhverfisráðuneytið og aðilar sem koma að ferðaþjónustu á hálendinu séu að fara að beita sér að auknum krafti gegn utanvegarakstri. Gott og blessað og allt það kjaftæði! En, ég segi bara en,, því ég hef lítið tjáð mig um hina all hötuðu Kárahnjúkavirkjun, en hvað með spjöllin sem þar eru unnin? Allan utanvegar aksturinn sem þar á sér stað? Þetta er í lagi því þetta er framkvæmdarsvæði, öðru nafni aftökustaður Kárahnjúkasvæðisins.

Þá eru nokkur utanvegaraksturs hjólför ekki neitt miðað við það. Eins og Andri Snær rithöfundur benti á. Það er verið að skemma heilu hauganna af náttúrudóti sem ætti að vera fyrir komandi kynslóðir. En nei þetta er bara svona, best að koma í veg fyrir utanvegarakstur þá erum við alla veganna að gera eitthvað gott fyrir landið okkar. Jamm,,og hux...Illugaskotta verður alveg snarbrjáluð þegar hún hugsar um Kárahnjúkarvirkjun. Þetta eru mestu mistök sem hafa verið gerð.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir núverandi menntamálaráðherra, sagði árið 2001 sem Siv heimilaði virkjunnar skömmina, að Sivjar yrði minnst sem konunnar sem hafði bjargað efnahag íslensku þjóðarinnar!

Það verður aldrei spáir Illugaskotta.

Siv er umhverfisráðherra í nokkra daga í viðbót, svo sest hún inn á Alþingi sem óbreyttur þingmaður. Hvað fékk hún fyrir að heimila Kárahnjúkavirkjun?
Virðingu og stuðning flokksins síns? Ekki held ég það.

Sivjar verður minnst sem umhverfisráðherrans sem heimilaði stærsta hernaðinn gegn landinu okkar, umhverfisráðherrann sem hefur komið í veg fyrir að börnin okkar fái að sjá þetta svæði í sinni upprunanlegu mynd, hennar verður minnst sem umhverfisráðherrans sem réttlæti þennan hernað gegn landinu.

Hvað hefði gerst ef hún hefði sagt nei við Kárahnjúkavirkjun?

Eiga umhverfisráðherrar ekki að vinna fyrir umhverfið?

Kynslóðir koma og fara, stjórnmálamenn koma og fara. Allt fer einhvern vegin.

fimmtudagur, september 09, 2004

Illugaskotta sefur frekar lítið þessar næturnar, einhvern veginn er hugurinn á flugi út um allar trissur, fjöll, dali, og ár.

Svo þegar klukkan er að nálgast það að verða 16:30 þá fer draugurinn að horfa á rúmið sitt löngunar augum. Bara smá lúr, já bara smá segir draugurinn við sjálfan sig. Nei það gengur ekki, ég ætla að vera búin að lesa þessar bækur, ljósrit og fleira fyrir 23. september. Annað sem hefur komið í ljós, það eru til svo margar fræðigreinar um mitt mál sem ég er að rekast á í heimildarskrám þessarra fræði kalla og kellinga að stundum sýður á mér. Það er ekki hægt að lesa allt, sem er alveg satt.

En draugurinn hefur ákveðið að vera ekki að stressast eða flýta sér, bara einn bagga í einu og svo verður þetta búið.

Hef dottið í einhvern matarpakka! Bakaði fjallagrasabrauð í gær, tvö stykki. Og í kvöld ætla ég að búa til baunasúpu, án saltkjöts! Nota beikon, gulrætur, rófur, lauk og kartöflur. Þetta verður öndvegis baunasúpa. Langar að gera spænskan mat á morgun. Hlakka til að synda á eftir.


miðvikudagur, september 08, 2004

Jötnar voru og eru hundvísir, þetta er orð sem lítið sem ekkert er notað í dag. Ég hef hins vegar ekki séð eitt einasta slæki í dag, kannski í kvöld þegar ég fer í sund.

Vonandi hitti ég bráðlega hundvísan jötunn sem getur stjórnað vindinum. Þá mun ég kaupa mér svifdreka, svífa til framandi landa. Nú er hausinn á mér orðinn fullur af forneskju í bland við drauma. Farin að búa til fjallagrasabrauð í pásunni minni.


þriðjudagur, september 07, 2004

Að horfa á myndir í sjónvarpsfréttum af morðum, slysum, svindlum, rifrildum, valdagræðgi, nauðgunum, misþyrmingum og fleiru neikvæðu er það sem sett er í fréttir. Það eru svo sjaldan jákvæðar og skemtilegar fréttir, ef þær eru þá eru þær hafðar í enda fréttatíma, eins og stef eða eitthvað.

Þessar neikvæðu fréttir hafa hægt og bítandi slæm áhrif á þjóðarsálina sem býr víst í Þjóðmenningarhúsinu ef maður á að muna orð Davíðs Oddssonar þegar hann opnaði það snobb hús!

Ég var að horfa á myndir í seinni kvöldfréttum frá gíslatökunni í Rússlandi. Greyið fólkið, þetta hefur verið hræðilegt. Fast þarna inni með sprengjur út um allt, vopnaða og grímuklædda menn yfir sér. Svo sá ég myndir í dönsku vefblaði, það var annar viðbjóður.

Illugaskotta er að spá í að stofna nýjann fréttatíma. Tími jákvæðra frétta, þar verður sagt frá hinu og þessu jákvæða í lífi Íslendinga og hvað sé að gerast hér og þar í dýralífinu hér á landi.

Nú kallar sjónvarpið, minn stjórnandi á kvöldin, breskur glæpaþáttur. Hann lætur Illugaskotta ekki fram hjá sér fara,,kaldhæðnislegt...morð, neikvætt, spenna, áhugavert,,,,úr verður sjónvarpsþáttur...hummm þetta er eitt alsherjar samsæri.
Það rignir og rignir. Það er gott. Illugaskotta heyrði í Bjarna bróður sínum í gær.Hann fór út á sjó í morgun í 6 vikur! Vá, vera á sama staðnum í 6 vikur það er með ólíkindum. En þetta er gott pláss á Örvari frá Skagaströnd sem er víst ágætur togari.

Búin að gera þetta og hitt í morgun. Allt að gerast.


mánudagur, september 06, 2004

Ég sá hval í gær, eina hnýsu sem blés hátt og mikið.

Hef verið að tala við Carrie-Ann sem býr í Canödu, hún er núna að keyra yfir hana Canödu til Bresku Cólumbíu, hún er núna í Alberta fylki í þjóðgarðinum Jasper. Hún fékk nóg af NRI, deildinni sem ég var í og hún. En ætlar að fara aftur í janúar, til þess að klára.

Nú er sól, rok og hressandi veður. Allt gengur ágætlega, langar bara að klára þetta sem fyrst.


laugardagur, september 04, 2004

Í gær lagðist Illugaskotta í smá ferð norður á Strandir, til Seljanes. Veðrið var sól, logn, fögur fjallasýn ásamt því að himinninn var heiður og blár. Annað var að það var ekki nokkur sála á ferðinni. Illugskotta tók myndir eins og óð væri, fjöllin æptu á athygli og það fengu þau. Síðan var laumaðist ég í heita pottinn þar sem bannað er að baða sig. Það var gaman að liggja þarna með fagurt útsýni til fjalla og hafið rétt bak við sig.

Næsta stopp var á Djúpavík, síðan stoppaði ég á Eyri, þar var sjórinn sem spegill, tveir gamlir kallar voru að landa þorski, búið að byggja smá bryggju. Allt í einu kom jeppi, gömul hjón. Tók þau tali, svo kom annar jeppi kona og barn, svo tvær dráttavélar og tveir kallar. Allir stóðu og spjölluðu um þorsk, hringorma, reka, veður, fugla, ferðamenn, og fleira merkilegt.

Næsti viðkomustaður var Seljanes. Þegar Illugaskotta renndi þar í hlað þá var klukkan að verða 20:00. Þar stóðu fjórir kallar allt í einu, þeir hreyfðu sig ekki þar sem þeir stóðu í röð við húsgafflinn. Hummm,,, voru þetta tröll eða menn???,þekkti einn þeirra en ekki hina þrjá. Þetta voru þá Guðjón, Grímur, Jón og Óskar. Bræður fjórir frá Dröngum sem eru að gera upp gamla íbúðarhúsið.

Spjallað um refi, minnka, nýtingu náttúrunnar, brjálaða veiðimenn, étið brim salt saltkjöt, allt í einu var klukkan að verða 2 um nótt. Þá voru lygasögurnar orðnar margar, hláturinn enn þá meiri og allir farnir að geyspa vel, einn útselurinn hraut undir þessu öllu saman.

Það þyrfti að setja alla þá sem eru að fá byssu-og veiðleyfi í geðrannsókn sagði einn Drangabróðirinn. Illugaskotta er sammála, of mikið af bölvuðum fávitum hafa leyfi til þess að bera byssu, námskeiðið er aulahellt, of auðvelt.

Illugaskotta svaf úti á túni,,,,það var ljúft, vaknaði klukkan 4 um nóttina þegar rigningin var farin að lemja á mér andlitið, fór þá inn í hús.

Daginn eftir var byrjað að smíða, allt í einu urðu hundarnir brjálaðir niðri í fjöru. Þeir fundu minnk, haglabyssa, bensín, hundar, menn, eldur, minnkalykt. Skot, dráp, tveir hundar að rífa í sig minnk.

Haldið áfram að smíða. Illugaskotta vildi gera eitthvað, humm. En fann ekki neitt. Ritgerðin kallaði ásamt því að hana langaði aftur í sund. Yfirgaf bræðurna fjóra sem eru ekkert annað en skemmtilegir.

Kom við á Ingólfsfirði, fékk þar orma þorsk að borða, flatkökur og kaffi. Spjallað margt um forna tíð. Síðan áfram haldið suður. Sund í Bjarnarfirði, heim í rúmið. Lambasteik hjá Sigga og Alex, ásamt góðum samræðum, um pólitík og um landið okkar sem íslensk stjórnvöld bera ekki nógu mikla virðingu fyrir.

föstudagur, september 03, 2004

Komin með 19 blaðsíður í ritgerðinni, er sem sagt að byrja frá grunni.

Búin að fara í gegnum kvæðin þrjú úr konungsbók eddukvæða og einnig í gegnum það sem ég mun taka fyrir úr Snorra-Eddu. Nú er bara að fara að lesa allar fræðigreinarnar sem ég hef viðað að mér, en fyrst verður haldið í Seljanes.

Veðrið er æði, sól og logn ég er farin að pakka, en mun þá taka með mér Snorra-Eddu til að spá aðeins betur í þetta allt saman sem ég er ekki alveg viss um hvort ég muni taka fyrir.

Ég þarf að undirbúa fjögur viðtöl, hafa samband við þetta fólk og koma á fundi. Einnig er ég búin að panta þónokkuð af lestrarefni í tengslum við náttúrutúlkunina,sem mjög lítið er búið að skrifa um á íslensku. En á að vera eitt aðaltæki landvarða í fræðslunni. Merkilegt nokkkkk,,,,,en ég skal laga það.

Það gengur allt vel, og hugmyndirnar hrynja inn.

fimmtudagur, september 02, 2004

Seljanes annað kvöld. Vinna eins og satann sjálfur þegar hann er í ham. Hringja, græja, redda, lesa, skrifa, spá og pæla.

Fór í sund í gær, hef alltaf verið frekar löt að synda skriðsund, en neyddist til að synda það mína 500 metra, þar sem annað hnéð á mér gargaði og vældi þegar ég synnti bringusund. Kom þá á nýrri tækni hjá mér í skriðsundinu, þannig að nú held ég að ég syndi það oftar.

Fuglarnir hafa róast og eru flestir að ég held farnir að huga að utlandsferðum, æðurinn og rjúpan er sá fugl sem ég verð hvað mest vör við í morgungöngunni minni.

Skrifaði tvö alvöru bréf í gær, ásamt því að sortera bókhaldið og aðra pappíra.

miðvikudagur, september 01, 2004

Steingrímsfjörðurinn er spegill,sólin glennir sig út um alla Strandasýslu og Illugaskotta situr inni og les fornkvæði.

Nú er gaman, nú er fjör.

þriðjudagur, ágúst 31, 2004

Ja svei mér þá. Þetta finnst mér vera eitt það óklifurslegasta fjall sem ég hef fengið í hausinn. En eins og bóndinn sagði sem gat ekki fært alla áburðarpokana,,úff, jamm og jæja. Bara einn poka á dag...svo voru þeir allt í einu orðnir tveir á dag og allt í einu var þetta bara búið.

Illugaskottu langar að fara norður á Strandir.
Í dag er seinasti vinnudagurinn minn á Galdrasýningunni. Þetta sumar hefur liðið ótrúlega hratt, á morgun er 1. september.

Í vor þegar Illugaskotta var að gera upp við sig hvað í skrattanum hún ætti að gera af sér, þá var hún ekki viss hvort það væri sniðugt eða skemmtilegt að vinna á Ströndum. En það var sniðugt, skemmtilegt og nauðsynlegt fyrir Illugaskottu að dvelja á Ströndum í sumar. Vinnan var skemmtileg, ég lærði margt nýtt og hitti fullt af áhugaverðu og skemmtilegu fólki.

Eiginlega ef Illugaskotta á að segja eins og er, þá var það gott fyrir hana að hætta í þessum landvarða-skálavarða buisness, en hún hætti á harkalegann hátt, það er önnur saga sem hefur kennt Illugaskottu margt.

Imba hrafn kom aðeins við hér í gær, hún er orðin mjög stygg. Það kom til mín maður sem sagði að hún væri heimskur hrafn vegna þess að hún vildi ekki koma á hendina á honum! Ég sagði að það væri hún ekki, hún væri varkár og allt væri hættulegt, sérstaklega maðurinn.

Rottan fræga sem öskraði og andskotaðist á Hringbrautinni hefur skotið upp kollinum hér á Hólmavík, hún virðist halda svolítið upp á hann Sigga Atla, og hans skeggvöxt.

Yfir og út, ég ætla að halda áfram að synda um á netinu, lesa annarra manna blogg og sitt hvað fleira, þennan seinasta vinnudag minn.




föstudagur, ágúst 27, 2004

Hafís setrið/stofa,sýning eða safn?

Þetta er ein hugmynd sem ég rakst á úti í Kaupfélagi í dag hér á Blönduósi, einhver hefur sett fram grunnhugmynd af þessu safni sem gaman væri að setja upp á Blönduósi.

Þetta lýst Illugaskotta ágætlega á að verði sett upp í Hillebrandtshúsinu hér á Blönduósi,margt merkilegt tengt hafís. Þjóðsögur, þjóðtrú, harðindi, sögur, ísbirnir, breytt veðurfar núna, hvernig varð veðrið áður....t.d.

Hægt að reisa rannsóknarstofu á Blönduósi líka í tengslum við Veðurstofu Íslands.

Veit ekkert hve langt þessi hugmynd er komin áleiðis hjá Blönduósbæ, mun kannski athuga það.

Illugaskotta ætlar ekki að taka vinnuna, vegna þess að hitt planið snérist um að klára ritgerðina og koma mér svo út til Ameríku, gerast Vestur-Íslendingur. Kannski mun ég leggjast í Doktorinn, allt getur gerst, en september og október eru helgaðir ritgerðinni. Síðan má allt gerast.

Bestu kveðjur til allra sem eru ekki ruglaðir og æða ekki úr einu í annað.



fimmtudagur, ágúst 26, 2004

Farin á Blönduós í kvöld.

Illugaskotta hringdi eins og brjálaður draugur tvisvar sinnum í gær til útlanda. Skotlands og svo til Canödu. Indjáninn er ekki dauður, tölvan hans sprakk í loft upp. Eða réttara sagt elding kom í vírana úti á þaki og allt í tölvuna!

Garry Raven er bara hress og Illugaskottu langar að hitta hann sem fyrst

miðvikudagur, ágúst 25, 2004

Allt gerist hratt í lífi Illugaskottu, hún er að fara í atvinnuviðtal annað kvöld á Blönduósi!

Veit ekki hvað verður, en þetta er starf sem er á flottum stað og svoldið svona frjálst starf, frá 15. september til 1. júní 2005, þetta er starf þar sem ég get unnið í friði í mínu stússi ásamt því að sinna starfinu sem ég er ráðin í.

Kannski, kannski.......Illugaskottu langar í hund, og hús, og hest, og margt fleira.

Er þá ekki á leið til Canödu fyrr en á næsta ári, hummmm. Lífið er spennandi og skemmtilegt. Í dag eru bara búnir að koma útlendingar á sýninguna, frá Ísrael og Rússlandi. Manga hrafn er búin að kíkja á okkur tvisvar sinnum í dag. Ég fór í sund í morgun og veðrið er gott, en hvar er rigningin?!!!


þriðjudagur, ágúst 24, 2004

Eftir að hafa hitt hinn og þennan, útréttað hitt og þetta, andskotast hingað og þangað, og munað allt í einu hitt og þetta sem ég varð að redda í dag,,,þá komst Illugaskotta út úr bænum klukkan 17:00, en fór af stað klukkan 8 í morgun. Gaf blóð í 17 skipti í dag,,,það var gaman. Vinir mínir í Reykjavík eru hressir, amma er að hressast og mér tókst að gera næstum því allt sem ég ætlaði að gera...

Ég kom heim yfir Tröllatunguheiðina og var hálftíma fljótari heim en venjulega, flott leið sem gaman er að keyra þegar haldið er til Hólmavíkur. Allar mýrar, ár og lækjarsprænur er hálf þurrar, þetta er skrítið að sjá,,,kannski ætti ég að fara að dansa regndansinn??!!!!

Er búin að koma töskum, pokum og öðrum klyfum inn í Sæberg, þá er bera eftir að sortera allt. Mikið er gott að vera komin út á land, hér er ekki stress.

Illugaskottu vantar vinnu,,en ekki í september. Langar í vinnu sem er krefjandi, spennandi, fjölbreytt....skemmtileg...vá,,,það er líklega ekki til svoleiðis vinna.


mánudagur, ágúst 23, 2004

Er í Reykjavík fram á morgundaginn. Brúðkaupið var með þeim flottari sem ég hef farið í. Brúðhjónin komu ríðandi í þjóðbúningum, veisla í tjaldi, nóg að éta og drekka, varðeldur, fjörugt fólk, svaf uppi í fjalli og vaknaði eldsnemma til þess að koma mér niður á flatlendið og sofa meira.

Keyrt í bæinn og legið fyrir í gærkveldi,,,enda var tekið á því.

Eldboltaatriðið sem Illugaskotta var með í brúðkaupinu gekk frábærlega, Einar og Hlynur blésu eldi sitt hvoru megin við mig...rosa fjör og mikill kraftur.

Nú er bara snatt, hitta vini, útrétta og annað.

Þarf að muna að fara í Bónus á morgun. Var í þynnku í gær, langt síðan, og þetta var svona allt í lagi þynnka,,,

þriðjudagur, ágúst 17, 2004

Imba hrafn birtist í dag, eftir næstum því tveggja vikna fjarveru úr vinnu. Illugaskotta var ekki að trúa þessu að hrafninn væri kominn.....og hvar hefur hann verið???? Það er ein alsherjar spurning sem ekki er auðvelt að svara.

Sólin hefur grett sig í allan dag framan í mig og fleiri. Vökvaði þak Galdrasýningarinnar í gær, en Illugaskotta heldur að það hafi rignt svona um það bil þrisvar sinnum í allt sumar hérna á Ströndum.

Er á leið í frí fram á næstu viku, fer á Blósinn í kvöld, og svo í Reykjavíkina á fimmtudaginn. Síðan verður svifið af draugasið upp í Dómadal í brúðkaup á laugardaginn en það er hann Helgi vinur minn sem er að fara að giftast henni Maríu. Þetta verður úti brúðkaup og mikið af fólki yfir 100 manns...örugglega gríðarlegt fjör.

Mikið grín og allt það.

Illugaskotta bjó til rannsóknarspurninguna fyrir ritgerðina í dag, ásamt því að lesa yfir mitt gamla minnispunktadrasl! Ég hef verið á einhverri sýru þarna í vetur, eða bara veit það ekki. En náði greinilega ekki fókusi í neinu .

Eigið þið góða daga. Það mun ég gera. Bless.

sunnudagur, ágúst 15, 2004

Illugaskotta fór í leiðangur með Ásdísi á Vodaphone kagganum,,,yfir Kollafjarðarheiðina,,,þá varð bílinn eitthvað fúll, fór að hósta og rykkjast áfram....keyrðum bara áfram,,yfir hæðir og hóla, Bjarkarlundur...heimsókn á sveitabæ,,. Svo til baka yfir Tröllatunguheiðina,,, og enn hóstaði bíllinn af og til...þetta hef ég aldrei farið áður. Reykhólasveitin er mjög falleg...dagurinn góður.

Ætla núna að fara að fá mér beyglu og te,, Það er 15. ágúst í dag,,,,mér finnst svo stutt síðan 17.júní var! Þýðir þetta að allt líður hraðar en það gerði áður fyrr?
Bráðnaði fram úr rúmminu,,blessuð sólin steikir allt og alla. Ég er sauðaþjófur=Húnvetningur.

Að sögn Sigga og Jóns þá er þetta alþekkt staðreynd meðal Strandamanna,,,hummmm huxaði Illugaskotta. Kannski alþekkt Strandaþekking til að gera Húnavatnssýslu skemmtilegri... Illugaskotta var samt ekki viss,,en skyldi ekki grínið því aldrei heyrt þetta áður.

En aðalmálið er og verður að Húnavatnssýsla hefur ekki á sér góða ímynd, hvort sem við erum sauðaþjófar eða ekki. Einhvern vegin er ekkert skemmtilegt og uppbyggjandi að gerast þar.

Humm,,þar er duglegasta vegalöggan að störfum. Blönduós á að markaðsetja sem matvælabæ og hátíðin Matur og menning er orðin fastur liður. En það vantar eitthvað fyrir sýsluna.. Heilabrot, Illugaskotta hefur ekki verið á svæðinu mikið síðan hún fór í nám til Reykjavíkur 16 ára.

Það þarf að gera Húnavatnssýslu að spennandi svæði til að heimsækja. Nóg er sagan, nokkrir hólar sem gaman er að skríða upp á. Mikil veiði bæði fugl og fiskur. Á Blönduósi er elsta hús á Íslandi, sem búið er að gera upp, en það stendur tómt. Hillebrandtshúsið.

Veit það ekki, það þarf að vera áhugi fyrir þessu í héraðinu annars gerist ekki neitt.

föstudagur, ágúst 13, 2004

Hitabylgjan skall á Ströndum í dag. Illugaskotta var að vinna, tók fram sólstólinn. Lá eins og skata í vinnunni, ásamt því sem ég sorteraði allar myndirnar mínar í tölvunni. Setti þær í merktar möppur en á eftir að gefa þeim flestum titla ásamt því að brenna þær á diska. Ásdís tók mynd af mér í vinnunni í dag þar sem Illugaskotta lá í sólstólnum, með sólgleraugun og öll íklædd svörtu...var þó farin úr sokkum.

Var samt einna mest inni því það var svo heitt að draugurinn lamaðist.

Hvað gerir maður svo þegar sumarið er búið? bla...humm hvar ætti Illugaskotta að búa næst? Kannski í vita? Hálfvita? Eða í tjaldi,,,bíl, bát, flugvél eða húsi?..Íslandi, Indlandi eða Banglahdesh....!??'

Vammmm....læt þetta allt ráðast.

fimmtudagur, ágúst 12, 2004

Veðrið og Íslendingar = mikilvægt.

Óveður og Íslendingar og alls kyns persónur= enn þá mikilvægara.

Vá,,,er bara að spá. Var að gjóa öðru auganu á Kastljósið áðan. Fyrsta umræðuefnið var veðrið, hitamet og bla...

Það gengur vel að lesa Sjálfstætt fólk, mikið er hann Bjartur í Sumarhúsum mikill þverhaus, þverhaus Kólumkilla! Hann er núna að bjóða draugum og forynjum byrginn. Hann býður öllum byrginn. Hreindýrum, hreppstjóranum, kaupfélagsstjóranum, verslunarstjóranum, veðrinu, sjúkdómum og gleðinni. Allt fyrir sjálfstæðið og rollurnar!

Textinn í þessari bók er svo eðlilegur, að maður sér allt fyrir sér. Fólkið, dýrin og náttúruna, en Illugaskotta hefur aldrei verið hrifin af honum Laxa kallinum. Eitthvað sem hefur verið innrætt í hana eða hún innrætt hjá sjálfri sér. Bara,,,, hann settur á einhver hærri stall en aðrir, og þess vegna hefur Illugaskotta ekki viljað lesa þenna Laxa kall. En svo gluggaði hún í bókina og festist í þessari sögu, enda ægir þarna öllu saman og síðast og ekki síst er mikið talað um drauga og huldufólk.

Sjálfstæður maður er sá sem skuldar engum neitt og á allt sitt sjálfur, þarf aldrei að biðja um hjálp eða aðstoð.

miðvikudagur, ágúst 11, 2004

Illugaskotta er komin aftur í Hólmavík, var að vinna í dag. Það er greinilegt að ferðamenn eru einhvers staðar annars staðar en á Hólmavík. En aðsókn hefur dregist mikið saman.

Ferðalagið var meira en gott. Við keyrðum í Trékyllisvík á fyrsta kvöldinu. Þar tjölduðum við, eða Þórdís tjaldaði, ég bjó mér til bæli úti í móa þar sem ég svaf undir berum himni, því ekkert er betra en það. Um morguninn gengum við að Kistunni, þar sem þrír menn voru teknir af lífi fyrir galdur. Kistan er gjá niður við sjóinn. Svo var safnið Kört í Trékyllisvík skoðað og það er mjög athyglisvert safn. Með ljósmyndasýningu frá gömlum tímum hér á Ströndum, ásamt ótrúlega mörgum merkilegum hlutum. Svo var það Norðurfjörður, Krossnesslaug, Munaðarnes til að sjá Drangaskörðinn en þau voru illsýnileg vegna þoku, svo var keyrt inn í Ófeigsfjörðinn.

Þar komum við okkur fyrir og fórum síðan í gönguferð áleiðis að Hvalárgljúfrum, það var gaman. Allt á kafi í berjum, mikið um áhugaverðar plöntur, heilu haugarnir af Grettistökum þarna á leiðinni, og komust við að mynni gljúfranna. En vegna þess að frú þoka var að skella á, þá skeiðuðum við niður að á til þess að vera vissar um að komast aftur til bílsins. Hvalá er merkilega djúp sums staðar, og þar sem hún er dýpst heitir Óp, ekki veit ég afhverju, og ekki vissi Pétur afhverju.

Í gær var svo keyrt af stað heim á leið. Stoppuðum þá í Djúpuvík, og í Kúvíkum sem var verslunarstaður Strandamanna lengi vel. En nú eru þar rústir einar. Í Reykjafirði var sól og blíða en alls staðar annars staðar var frú þoka á ferðinni. Svo fórum við í sund í Bjarnarfirðinum, ég sýndi svo Þórdísi Galdrasýninguna og svo fór hún í Önundarfjörðinn en Illugaskotta fór að sofa.

Illugaskotta er komin með Reykjavíkurveikina. Sem lýsir sér þannig að hana langar í: bíó, hamborgara á American Style, drekka bjór fyrir utan kaffihús og láta bíla æla yfir sig mengun, hitta vini sína, fara á kaffi mokka, í sund í vesturbæjarlauginni, hitta ömmu, versla sér tónlist og kannski fatagarma. En ég þjáist ekki mikið. Er á leið í sund.

sunnudagur, ágúst 08, 2004

Nú er ég bara að bíða eftir Þórdísi. Svo brunum við af stað norður í Ófeigsfjörðinn í kvöld. Þar munum við setja upp tjaldbúðir vorar, eða réttara sagt matbúðir. Erum með víst mat fyrir um 20 manns! Svo á að ganga þvers og kruss um landakortið...en aðallega éta þó.

Veðrið segist ætla að vera gott. Engin Manga sást í dag. Illugaskotta saknar hrafnanna. komast af stað...núna það vil ég...

laugardagur, ágúst 07, 2004

Ekkert er meira pirrandi en fá ekki svör við sms eða tölvupósti, þegar maður nennir ekki að hringja í viðkomandi og ræða málin,,því það er aldrei hægt að hitta viðkomandi, bara hægt að tala við viðkomandi í gegnum síma. Nenni ekki að hringja,,læt það eiga sér. Fari viðkomandi norður og niður. Svei!

Hljómar eru með ball í bragganum á Hólmavík í kvöld. Illugaskotta nennir ekki.

Það var fjör á Galdró í dag,,spenna og gleði. Bestu kv frá Björk sem er að fara í ferðalag á morgun,,mikið hlakka ég til,,, ps Manga er á sveimi en ekki Imba.

föstudagur, ágúst 06, 2004

Var að vinna í dag. Galdra-Manga hrafn kom heim til sín um hádegisbilið,,,en engin Galdra- Imba sást við Galdrasýninguna....humm þetta er skrítið hugsaði Illugaskotta...

Galdra-Manga er þögul, hún fór í leitarflug í dag..en kom ein heim.

Hvar er Galdra-Imba? Einhver bauð 20. þúsund krónur í sitthvorn hrafninn í gær, þá var Illugaskotta ekki að vinna.

Fáir á ferli.

Þórdís kemur á sunnudaginn og um kvöldið munum við þeytast af stað norður og niður,,,nei ekki alveg, norður á Strandir myndi ég frekar segja. Heyri ekkert frá Garry Raven indíánanum vini mínum í Canödu, hins vegar er Deb komin til Bangladesh og þar eru hræðileg flóð, og Manju er komin til Indlands, og gæti ekki verið hamingjusamari.

Indland, Bangladesh og Canada,, voru lönd sem Illugaskotta hafði ekki mikið pælt í áður en hún fór til Canödu. Það rignir á Ströndum og sem betur fer myndi ég segja, hér er allt skrælnað.

Bestu kv,,skotta rotta.