föstudagur, september 17, 2004

Pakka, sortera, geyma, henda, laga til. Er að pakka dótinu mínu hér á Höfðagötunni, fer á Blönduós í dag. Klára fyrstu drögin þar.

Hestaréttir á sunnudaginn og ball með Sixties heima í reiðhöllinni á laugardaginn, sem verður gaman að kíkja á með Hugrúnu og Fannari.

Sá Imbu hrafn í gær, hún er risa stór, gaf henni harðsoðið egg og tómat.

fimmtudagur, september 16, 2004

Nú er hellt úr fötu, og vindurinn er í fjöri.

Það er ótrúlegt að þakið hafið fokið af Hótelinu í Freysnesi. Þarna hef ég oft komið, þetta er mjög stórt hús. Vá....heyrði í Jóni áðan í útvarpinu sem á hótelið ásamt Önnu Maríu. Þetta er gífurlegt tjón fyrir þau. En samt fyrir öllu að enginn slasaðist. Fyrsta haustveðrið gerir allt vitlaust og pabbi er búin að segja að þetta verði snjóþungur vetur.

Núna er Siggi á Hnappavöllum á fullu að keyra dreka hjálpasveitarinnar Kára í Öræfum. Þetta er brynvarður dreki sem Þýska ríkið gaf hjálparsveitinni fyrir nokkrum árum. Rosa græja, hægt að setja skothelda hlera fyrir rúðurnar og keyra þannig, ásamt því sem hann á að þola það að keyra í rosa veðri eins og gengur núna yfir landið.

Ég og Ragga vitum fátt skemmtilegra en að keyra þennan dreka. Núna er hann að hvessa hér.

Farin að rífa í mig Grímnismál, Prologus og Gylfaginningu. Síðan held ég að ég fari að pakka dótinu mínu hægt saman. Annars verð ég að viðurkenna að ég nenni ekki að fara héðan, hér er gott að vera.

Illugaskotta er að verða leið á flakki.

miðvikudagur, september 15, 2004

Rjúpu greyin hugsa ég þegar ég geng minn göngutúr á morgnana. Þær eru farnar að breyta um lit, eru eins og gjæfar hænur, og sjást auðveldlega í grænu og gulu grasinu. Þetta vilja menn skjóta, fara á hænsnaveiðar upp til fjalla.

Hvað ætli nýji umhverfisráðherrann geri varðandi rjúpnaveiðibannið?

Sá viðtal við hann þarna formann Skotvís í gær í sjónvarpinu,,,vá hann er alveg brjálaður í að drepa fröken og herra rjúpu.

Illugaskotta er með tillögu.

Sko, hvað með að fara bara að rækta rjúpur eins og hænur. Fá svo skotveiðimenn til þess að hlaupa um fjöll, móa og hæðir með allt draslið með sér, byssuna, nestið og hundinn. Siðan þegar þeir eru orðnir þreyttir þá geta þeir skotið á gervirjúpur hér og þar í hlíðum fjallsins. Og svo fara þeir til rjúpanræktunarbóndans og kaupa hjá honum heimaræktaðar rjúpur...sem þeir bera svo stoltir heim til sín.

Það er þvílíkt auðvelt að skjóta rjúpur, því þær eru varla fleygar og eru ekkert mjög styggar.
Ég vona að rjúpan fái áfram að vera friðuð í smá tíma í viðbót. En einhvern vegin held ég og gruna að hinn nýji umhverfisráðherra aflétti banninu. Við skulum sjá.

þriðjudagur, september 14, 2004

Nú þekki ég einn sem hefur komist áfram í Idol keppninni, hann komst í úrslit í dag á Ísafirði, hann Addi, það er frábært.

Annars þá byrjaði ég að skrifa í dag, og það gengur vel. Einnig hleðst inn á dagskránna allt það sem ég ætla og þarf að gera þegar ég fer til Reykjavíkur.

1) Ráðstefna um sjálfbæra þróun 24 og 25. september
2)Flytja allt dótið mitt í burtu úr turninum, JL húsinu.
3)Grisja eitthvað af öllum þessum fötum sem ég á og fer aldrei í
4)Hitta:Guðrúnu Ósk, Kamillu Mist, Láru, Hildi Eddu, Iðunni, Elísabetu, Steinunni, Dagnýju, ömmu auðvitað, Valdísi Veru og Laufeyju,Hólmfríði, Einar, Þórdísi, Nóa, Tátu og Tóvu og einhverja fleiri sem ég man ekki í augnablikinu
5)Fundur með Gísla og Þorra sem eru leiðbeinendurnir mínir
6)Fundur á Umhverfisstofnun
7)Fara á bókasafn Ust og ljósrita greinar um náttúrutúlkun
8)Þarf að fara með allar bækurnar á þjóðarbókhlöðuna og taka þær aftur því þeir eru með svo fullkomið kerfi að það er ekki hægt að endurnýja oft lán á bókum í gegnum síma.
9)Fara til læknis
10)Versla mér geisladisk
11)Fara í sund í Vesturbæjarlauginni
12)Kaffihús,,nú auðvitað Mokka, þar er gott að hugsa og lesa blöðin
13)Taka viðtöl kannski við nokkra landverði

Vá!!! Vissi ekki að þetta væri svona fjandi margt og meira á eftir að bætast við...kannski ákveð ég að gera ekki neitt,,,liggja bara í sundi með tærnar upp í loft!¨!!!,,,ps verð að muna að kveðja svo rottuna annars verður hún fúl.
14)Vinna á bókasafninu Þjóðarbókhlöðunni, eitthvað á Borgarbókasafninu.
Illugaskotta trúir á veðurgaldra,,vindgapa. Þetta veður er ótrúlegt, það er búið að vera gott veður í allt sumar!!! og enn glennir sólin sig eins og hún sé í grettukeppni. Þetta er frábært. Umhverfið í kringum Galdrasýninguna tekur breytingum hvern einasta dag.

Næsta sumar verður glæsilegt. Sama hvar ég verð niðurkomin.

Skál í mjólk!

mánudagur, september 13, 2004

Illugaskotta ætlar á ráðstefnu um sjálfbæra þróun sem haldin verður 24. og 25. september í Reykjavík. Þetta er mjög áhugaverð ráðstefna þar sem saman kemur fólk með mjög fjölbreyttann bakgrunn. Þeim mun fjölbreyttari bakgrunnur þeim mun áhugaverðari umræður og fyrirlestrar.

Illugaskottu er umhugsað um það hvað fólk er hrætt við að segja skoðun sína. Eitthvað er þetta fólk hrætt við og það er slæmt.

Ég hef orðið vör við að það endurómar í íslensku samfélagi að það sé best að þegja og styggja ekki neinn.

Skilaboðin séu: Ekki segja neitt, bara vinna og þegja. Það er ekki gott að segja skoðun sína, það eru allir hræddir segir fólk. Hvað er að hræða það hef ég spurt, svarið er þá: það er hrætt við að missa vinnuna ef skoðanir þess brjóta í bága við það sem á að hafa skoðun á. Þessi svör er hvísluð, fólk horfir furðulega á mann og ákveður svo að svara.

Stórhættuleg þróun ef þetta er ekki bara ímyndunarveiki og ofsóknarbrjálæði að angra einn draug. Vil ekki hugsa þessa þróun til enda.

Vá Idol bíll var að keyra fram hjá húsinu mínu bara rétt í þessu.

sunnudagur, september 12, 2004

Það er besta svefnveður í heimi út: Rok....

Það var smalað í gær, sund, leti, Bændahátíð, étið, hlegið, talað við skemmtilegt fólk, heim. Frábært dagur í gær.

Hugrún systir hringdi í mig í gær, sagðist vera búin að hlaupa alla Hnjúkanna heima á eftir snarbrjáluðum rollum, Fannar bróðir var orðin brjálaður út í þessar skjátur og allir dauðuppgefnir. Þau voru að fara heim að éta skíthaugahoppara.

Held ég fari heim um næstu helgi, svo suður, svo austur og svo veit draugur ekki meir um sitt líf. Enda er ekkert gaman að vita alltaf hvert allt stefnir.