fimmtudagur, janúar 27, 2005

Hinn sjálfspilandi grammafónn heilans tók upp á því að setja þetta lag á fóninn þegar ég var að vakna í morgun.

Heyrið vella á heiðum hveri
heyrið álftir syngja í veri
Íslands er það lag.
Heyrið fljót á flúðum duna
foss í klettaskorum bruna.
Íslands er það lag.


Ég þarf að komast á fjöll.

miðvikudagur, janúar 26, 2005

Illugaskotta er svo aldeilis hissa, eru til þrír félagsmálaráðherrar eða eru allir þessir framsóknargaurar eins? Guttinn sem er félagsmálaráðherra, er alveg eins og framsóknarguttinn sem var í Kastljósinu í fyrradag, og svo var einhver framsóknargutti í Silfri Egils um helgina og hann er eins og hinir tveir!!! Þetta er ægilegt. Er farið að Klóna framsóknarmenn ?.....Þeir eru svona með eins hausa, gleraugu og klæða sig allir í ótrúlega fín jakkaföt, og einnig tala þeir allir um það sama. Að það sé endalaust verið að ráðast á Halldór og allt það, sem enginn nennir ekki að spá í. Þetta eru ungu guttarnir í framsóknarflokknum.

Ungu guttarnir í sjálfstæðisflokknum eru einhvern vegin öðruvísi.

Hvar er Davíð? Sem dró Halldór með sér í sandkassann þar sem ríkir stríð.

Í gær var mér gefin mynd sem er búin að hanga í einhverjar vikur á Mokka, það var gaman. Svo bara er allt einhvern vegin ósköp flatt, það er mjög mikið myrkur úti, og ég veit ekki hvenær vorið, krían og allt þetta blómastóð í haga kemur, en þá verður fjör. Bókin "Skaftáreldar" hefur fangað hug mig gjörsamlega, og ég les og les á kvöldin um fólk sem átti að hafa verið til árið 1783, árið sem Lakagígar fóru að láta til sín finna.

þriðjudagur, janúar 25, 2005

Horfði á Kastljós með öðru auganu í gær, þar var enn og aftur verið að ræða ákvörðunina með Írak. Þegar framsóknarmaðurinn byrjaði að tala þá setti ég hann á þögn,,fyrst ákvað ég að gefa honum tækifæri,,en það var ekki hægt. Orð hans skáru hlustir Illugaskottu, hann hamaðist við að verja Halldór, hamaðist við að segja að þjóðin væri komin með nóg af þessu máli. En hann hamaðist ekki við að segja að 84% þjóðarinnar væri á móti því að Ísland var sett á þennan fáranlega lista...og þar með fékk hann þagnarmeðferð hjá mér.

Pólitíkin er furðuleg tík, sem erfitt er að komast til botns í.

Það er vor í lofti, en Þorrinn er bara í smá fríi.

mánudagur, janúar 24, 2005

Einhvern daginn á ég eftir að líta til baka og hugsa: "oo hvað það var nú góður tími þarna í rassgati, þegar ég var að þykjast vera akademón..."

Nei, þetta er nostalgía, bull. Sá tvo hunda í gær í göngutúr, álftir úti á frosinni tjörn, önnur þeirra var að sofa af sér veturinn, nokkra bústna snjótittlinga en fátt fólk.

Horfði á góða mynd um helgina "Hell boy". Hún er fyndin, spennandi og óútreiknanleg, enda er hún gerð eftir teiknimyndabók. Hvenær ætli "Preacher", verði gerð að kvikmynd, þá mun ég fara endalaust í bíó.