föstudagur, febrúar 11, 2005

"Gengið á reka" er skemmtileg bók eftir Kristján Eldjárn sem kom út árið 1948, þar skrifar hann um nokkra fornleifafundi, með þeirri aðferð að láta fólkið sem átti hlutin eða hlutina lifna við,,galdrakarl var hann líklega hann Kristján Eldjárn. Hef áður lesið bók eftir hann, sem ég man ekki hvað heitir í augnablikinu, en þar fékk Illugaskotta ógnar áhuga á þríblaðanælum og hvert skipti sem ég sé þær á söfnum erlendis man ég söguna á bakvið þær, sem enn og aftur gerir þær áhugaverðari.

Í gær var brunað alla leið austur í Lón. Fjalla- og jöklasýn var ægifögur, hreindýr hoppuðu um grundir og fáir aðrir voru á ferli. Komum einnig við á byggðarsafninu á Höfn, þar eru hlutir sem prýða flest byggðarsöfn, en inn á milli liggja fjársjóðir. Þarna fann ég forláta beisli, sem er líklega frá 16. eða 17. öld og er það ægilega fallega skreytt. Einnig voru þarna fallegir náttúrugripir og ljósmóðurtöskur. Illugaskotta veltir oft fyrir sér afhverju hinar ýmsu iðngreinar eins og t.d. hnakkasmiðir og gullsmiðir sæki sér ekki hugmyndir á byggðarsöfnin.

Birtan á leiðinni heim var sérstök, svona jöklabirta þegar húmið er að síga yfir. Veit varla hvað bók ég á að lesa, þannig að ég er núna að lesa þrjár. Skaftárelda, Gengið á reka, og Bókmenntasögu I...hún er hundleiðinleg..en verð að lesa þetta til að skilja allt sem ég hef verið að skrifa um betur.

Í dag er skemmudagur, enda þarf rauður á smá upplyftingu að halda.

miðvikudagur, febrúar 09, 2005

Núna er Illugaskotta stödd á Hnappavöllum í Öræfasveit, eða sveitinni milli sanda. Í gær þegar ég keyrði í gegnum Eldhraunið þá upplifði ég landslagið á annan hátt vegna bókarinnar Skaftáreldar, sem er eftir Jón Trausta. Ég reyndi að hugsa um hvað allt fólkið hafði verið að gera árið 1783 á meðan hraunið ólgaði og flæddi um sveitina sem eitt sinn var græn og öll í blóma. Persónur bókarinnar skutust fram úr hrauninu hér og þar á meðan ég og gamli rauður skriðum hægt í gegnum þessar ógnar myndir.

Hvílíka hraunið, það er satt og magnað að landslag verður einhvern vegin lifandi á annan hátt þegar maður er búin að lesa sögur sem tengjast því, eða ljóð. Landið okkar er magnað, Lakagígar voru og eru ógnar mikið og merkilegt fyrirbæri. Sem eiga skilið að fólk viti meir um þá, uppbyggingu vantar algjörlega í kringum þessa miklu sögu, sögu einna mestu jarðelda sem um getur. Einnig um sögu fólksins, sem margt hvert hélt að það hafði gert eitthvað af sér og þess vegna væri guð að refsa því.

Náttúran ræður sér sjálf, sem betur fer, þótt mannverurnar smáu vilji stjórna henni og beisla. Það vantar að fólk beri virðingu fyrir henni og átti sig á að hún er sterkari en við. Þokan ein og sér getur komið manni til að missa áttirnar, hvað þá? Eða regnið og vindurinn getur gert okkur svo köld að við getum orðið úti.

Eldur, vatn, jörð og loft, við getum ekki lifað án þessara frumefna og annað, þau geta líka öll drepið okkur. Ægilega er ég nú eitthvað að spá, en bara verð að koma þessum hugsunum frá mér.

Núna er sólin að glenna sig, ég hef algjörlega slakað á, ligg bara fyrir framan sjónvarpið í einni fegurstu sveit landsins, hvaða, hvaða...jamm og já. Ég verð dugleg á morgun. Í sveit er ekki klukka, þar er birta og myrkur. Nú ætla ég í göngutúr, svo ætla ég að fara inn og lesa meira um Skaftárelda, einnig um goðsögur, dróttkvæði og eddukvæði.

mánudagur, febrúar 07, 2005

"Forn-Grikkir voru heillaðir af breytingu, hreyfingu og margbreytileika náttúrunnar. Laufblað verður til, en fölnar svo og eyðist. Allt virðist breytingum háð. Þeir vildu vita hvort eitthvað lægi að baki þessum breytileika".

Tók þetta upp úr bókinni Vísindabyltingin og rætur hennar í fornöld og á miðöldum sem kom út 2004, höfundur hennar er Andri Steinþór Björnsson. Svona er nú gaman að skoða bækur og spá í hvað aðrir hafa skrifað, túlkað og haldið fram.

Tók daginn snemma eftir að hafa grúskað og legið yfir barninu, langt fram á nótt, barnið sem mun líklega aldrei fæðast, er komið með nafn, en móðir þess er ógnar skrímsli og óhemja sem á erfitt með að sinna því sem skyldi,,móðirin hefur ekki alveg skilið þarfir þessa barns, sem eitt sinn var ofurlítið hugarfóstur í Illugaskottu illgjörnu. Jæja,,það er ferskur vindur úti,,allt gengur bara eins og það gengur. Gangi ykkur sem allra best með ykkar störf í dag, lesendur góðir.

sunnudagur, febrúar 06, 2005

Mæja jarðarber, er sá karakter sem Lára vinkona leikur í leikritinu Ávaxtakörfunni. Illugaskottu hlakkar til að sjá þetta sniðuga leikrit, einhvern tíma í febrúar.

Rok, rigning og grámyglan í algleymi. Man ekki hvenær allt var fyndið seinast eða sniðugt, bráðum kemur að því. Ræddi við eina vinkonu mína lengi í pottunum í Vesturbæjarlauginni í seinustu viku. Við vorum að ræða tengslanetið mikila sem nauðsynlegt er að hafa í kringum sig. Fólk sem hægt er að treysta, er ekki á hverju strái.

Illugaskotta hefur mikið verið að hugsa upp á síðkastið hvert allt stefni.