föstudagur, júní 17, 2005

Í dag fóru Jón glói og Jón lærði í fyrsta skipti í bað, þeir steinsofnuðu á eftir sem betur fer....hættir að æpa eins ógurlega og venjulega. Bað hrafna gengur út á það að draugar hella yfir þá ísköldu vatni úr blárri fötu, þá verða hrafnarnir ægilega kátir og byrja að þrífa sig.

Nú er það 17. júní og allir eru hressir. Gulrótarkakan ógurlega var bökuð í gær,,og hún situr nú bústin og sælleg inni í ískáp ásamt risstórri skál af þeyttum rjóma. Hef ekki enn þá dýft mér ofan í þessa köku.

Dýrindis steik beið mín þegar ég kom heim, þvílíka snilldin,,grill, salat, rauðvín. Illugaskotta er öfga kát með þetta allt saman. Hér er enn þá kuldaboli á ferð, sumarið í fyrra er ekki hér nú..skyldi engan undra.

fimmtudagur, júní 16, 2005

Skyrslettur, hafa skapað af sér deilur og leiðindi. T.d. sletta krummarnir alltaf á mig skyri, ég verð ekki hrædd eða fúl. Illugaskotta þvær það bara af sér og heldur áfram með daginn. Hvað er annað hægt að gera?

Hálendið er farið að kalla á mig, og Illugaskotta fer þangað brátt. Get ekki beðið eftir að sjá fjöll, jökla, svarta sanda, jökulár. Í straumi alls þá hugsar Illugaskotta oft til fjallsins sem heitir Herðubreið, og til staðar þar sem Hvannir vaxa vel.

Í gærkveldi lagaði ég greinarkornið mitt með hjálp Binnu, hún var hrifin af greininni og ég hlakka til að koma henni frá mér. Hún á að birtast í Morgunblaðinu þann 19. júlí, næstkomandi.

miðvikudagur, júní 15, 2005

Það er ekki enn þá búið að hýða þingmenn,,en kannski virka orð best?

Tveir hvalir aftur úti á firði, að blása. Fuglar í ham, sjaldan sé ég sel, bara séð einn hér á Steingrímsfirði í sumar. Krummarnir vilja láta tala við sig alla daga, þeim leiðist ef þeir fá ekki nóga athygli. 17. júní á föstudaginn, hæ og hó og jibbí jei.

Best að fara í morgunkaffið, morgunmatinn og halda áfram að lesa Híbýli vindanna. Mæli með þeim bókum, grípa hug minn og færa mig aftur til undarlegra og harðra tíma í Íslandssögunni.

þriðjudagur, júní 14, 2005

Illugaskotta leggur til að ríkisstjórnin öll með tölu sé múlbundin úti á Austurvelli, með rassinn út í loftið. Svo má fólk fara í röð og rasskella með gamalli spýtu eða hrís. Hver og einn má rasskella eins oft og hann vill fyrir allt það skilingsleysi sem þessir þingmenn hafa á því sem er að gerast í landinu okkar.

Hana nú, þá yrði kannski stóriðjudraugurinn laminn úr skrokk ríkisstjórnarinnar..og kannski verður lamið í þá vit..nú hlær Illugaskotta efasemdar hlátri.

Illugaskotta þekkir mann sem hefur verið sjálfstæðismaður í um það bil 40 ár. Hann hefur skömm á Framsóknarflokknum, enda segir hann að sá flokkur sé búin að marg svíkja fólkið í landinu að það sé hætt að trúa nokkrum sköpuðum hlut,,þessi sjálfstæðiðmaður er einnig kominn með skömm á Sjálfstæðisflokknum. Þessi Sjálfstæðismaður er fastlega að hugsa um að kjósa Vinstri græna í næstu kosningum, vegna þess að sá flokkur er að berjast fyrir því sem þarf að hlúa að úti á landi. Það vantar jafnvægi á milli landsbyggðar og borgar.

Illugaskotta ætlar aldrei að festa sig í flokk, það væri frábært ef það væri hægt að kjósa menn en ekki flokka.

Kiðlingurinn var að spyrja hvort að agameðferð sú sem beitt var á hrafnana virki á börn og eignmenn. Illugaskotta hefur ekki draugslega hugmynd um það. Hröfnunum var haldið í burtu frá hvorum öðrum og látnir hlýða, ekkert hlustað á möglið og bögglið í þeim. Það virkaði á þá!

mánudagur, júní 13, 2005

Hópnauðgun á Tjörninni, var yfirskrift á einni sjónvarpsfrétta Stöðvar 2 í gærkveldi. Illugaskotta og Siggi Atla störðu á þessa mjög svo undarlegu frétt og voru svo hneyksluð eftir þessa umfjöllun að þau áttu ekki til orð. Í stuttu máli var fréttin sú að andarsteggir á Reykjavíkurtjörn séu víst farnir að stunda hópnauðganir á æðarkollum.

Talað var við mjög svo áhyggjufulla Reykjavíkurmær sem vinnur á Kaffi Iðnó. Hún sagði að kollan hefði öll verið blóðug eftir árás fimm andarsteggja á hana. Síðan sagði þessi mjög svo áhyggjufulla og hneykslaða Reykjavíkurmær, að þetta hefði verið hræðilegt að horfa upp á. Móðir hefði komið niður að tjörninni með barn sitt og hún hefði þurft að taka fyrir augun á barninu vegna hræðilegra aðfara steggjanna að kollunni. Síðan var sagt að dýralæknir nokkur segði að þetta væri óvenjuleg hegðun hjá fugladýrunum.

Jæja segir Illugaskotta nú og dæsir. Afhverju var ekki talað við fuglafræðing í stað dýralæknis? Ég næ ekki upp í nefið á mér, það er hræðilegt þegar fréttamenn fjalla svo ófagmannlega um dýr. Sýn fólks á atferli dýra er í meira lagi undarleg, og að alhæfa um að hér hafi átt sér stað hópnauðgun, er fáranlegt. Ég hef hvað eftir annað orðið vitni að því að atferli dýra sé túlkað á fáranlegann og rangann máta í fjölmiðlum þessa lands.

Getur ekki verið að eitthvað hafi verið að kollunni og þess vegna hafi steggirnir ráðist á hana? Getur ekki verið að hún hafi verið svo vinsæl að sá sterkasti vinni hana og fær hana sem sína ektakollu?

Illugaskotta hvetur þá sem eru svona ægilega hræddir við dýraríkið að lesa um dýr, fara út fyrir bæinn og fylgjast með þeim, upplifa, sjá og skilja þau. Úfff,,Illugaskotta er einnig mjög leið yfir þessari frétt, hér kemur fram skilingsleysi, fordómar og fáfræði á náttúrunni hjá mörgum aðilum.

Jæja best að koma sér í moldarfötin, er að fara að moka mold í hjólbörur og keyra hér í grænmetiskassana sem eru í garðinum hér við Sæberg. Það eru smá skúrir úti, logn og yndislegt veður. Illugaskotta ætlar ekki að voga sér að hugsa út í hópnauðganir andarsteggja í bili að minnsta kosti.

Gaggalagú sagði haninn og velti sér á bakið, því hann hló svo mikið af heimsku mannanna.

sunnudagur, júní 12, 2005

Sunnudagur til suðurs!

Himbrimar, lómar, kríur, æðarfugl, sandlóur, álftarpar, lóa og brjálaður tjaldur eru þeir fuglar sem helst verða á leið minni á morgnana. Engan örn hef ég séð í sumar. Nóg að gera á Galdrasýningunni, og margt er þar í bígerð. Krummarnir hættu smá saman að æpa í gær, eftir að tveir einstaklingar tóku þá í agaþjálfun í því að þegja! Kötturinn lætur sjá sig hér í Sæbergi, er víst að eigin sögn fluttur inn. Hann er hættur að væla undarlega.