laugardagur, mars 20, 2004

Sat inni langt fram á dag við ritgerðarsmíð, dæsti, æddi um gólf, gargaði, lagðist upp í rúm. Ákvað að þetta gengi ekki lengur, hætta eða halda áfram. Ákvað að halda áfram því að hætta eða gefast upp eru orð sem eru ekki til í orðabók Illugaskottu. Hélt áfram og fékk svo góðar hugmyndir að það lá við yfirliði í hugmyndum.

Gott fólk kom í heimsókn og æddi með þessu góða fólki á magnaða myndlistarsýningu sem er haldin í sal Ásatrúarfélagsins. Myndefnið er tekið úr Gylfaginningu, sem er eitt aðal lestrarefni Illugaskottu þessa daganna. Sýning heitir: Frumkraftarnir: Eldur, vatn. loft, vatn. Hvernig allt varð til í þessum heimi. Með honum stóra hvelli segja vísindamenn, ég segi það líka, en kannski gerðist það eins og segir í Gylfaginningu og Völuspá. Hver veit?

Garry Raven, öðru nafni Morning Star sagði mér einmitt að það væru þessi fjórir frumkraftar sem gætu drepið okkur en án þeirra gætum við ekki lifað.

Er ekki alveg ákveðin enn þá með sumarið, er að hugsa um að breyta yfir í hina vinnuna! Vá ég er svo galin að það nær engri átt. Gott að vera galin og skrítin og klikkaður og allt annað, svo lengi sem maður er ekki leiðinlegur þá er allt hitt afsakanlegt. Er það ekki?

Draumurinn er að vera að vinna úti í Canödu með indíánum, sigla um á kanóum, veiða fisk eða einhver landdýr og njóta lífsins í sátt við sjálfan sig, hina og landið. Ég og mig og henni og mér langar það.
Illugaskotta hefur sett landvörðinn í sér í frí, hann var hvort sem er orðinn þreyttur og pirraður, enda er hann hvíldinni feginn og sefur vært með marbendli einhvers staðar undir sæng. Þannig að í sumar verður Illugaskotta ekki landvörður og hún verður heldur ekki að vinna í útlöndum eins og áætlanir stóðu til.

Þetta er skrítin tilfinning að æða ekki í einhvern kofa á öræfum og búa þar í sumar, en ekki vond tilfinning nei, alls ekki.

Gærkveldið var fínt, með Valdísi Veru og Laufeyju Mattíönu, átum saman fínan heimagerðan mat ásamt því að við drukkum eina rauðvínsflösku, ég og Valdís.

Nú var ég að vakna eftir góðan svefn. Er komin með meira en nóg af andvökum þær eru andstyggilegar, ég ætla líka aldrei aftur að verða stressuð, því stress veldur sjúkdómum, það er ég viss um.

föstudagur, mars 19, 2004

Þetta er nú búin að vera meiri dagurinn. Illugaskotta sofnaði í 2 tíma, og svo var vakað. Var að drepast í maganum, hélt að ég væri að fara að fæða skrímsli, en svo var ekki.

Vinur draugsins heimtaði að fá hann í sund. Dammmm,,,,fínasta ferð í sund, hittum hana Dagnýju. Sólin skein í heiði og rætt var margt skemmtilegt.

Svo sturta, og svo átti sér mikið drama stað í kvennaklefa Vesturbæjarlaugarinnar, sem draugurinnn var vitni af, og annar aðili sem byrjaði dramað,,,,,,og allar konurnar sem hlustuðu. Þetta var mér um megn,,,,dæs er að fara í kaffi,,gangslaus dagur,,,nema kannski í vina hópi.
Það var hringt í mig í gærkveldi. Ég var víst í bekk sem hét 4A,, já og það eru 10 ár síðan við urðum stúdentar og það væru endufundir með öllum þeim árgangi þann 15. maí á þessu ári.

Illugaskotta sá líf sitt fyrir 10 árum síðan. Meðan hún var að tala við þennan gamla bekkjarfélaga, þá skrifaði hún orðið "ojbarasta".

Eina sem hefur breyst er að liðið hefur fitnað eða grennst, það hefur fjölgað sér eður ei, það hefur unnið hér og þar og fjárfest í hinu og þessu. Mér er alveg sama hvað það hefur verið að bardúsa.

Afhverju á draugur að hafa samband eða blanda geði við lið sem draugurinn neyddist til að vera með í skóla?

Menntaskólaárin mín voru þau ömurlegustu sem ég hef upplifað.

Ég held ég fari heldur í vorið úti á land þann 15. mai í stað þess að eyða kvöldstund með fólki sem ég man ekki lengur einu sinni hvað heitir.

Er annars andvaka sem er hið mesta fjör, þá rúllar maður í hringi í rúmminu eins og rúllupylsa, dæsir og pirrast, þar til þetta gengur ekki lengur. Er að rita þetta hér ásamt því að éta AB mjólk og morgunkorn og svo er ég að fara að vinna. Klukkan er hálf fimm um morgun.

Illugaskotta mun ekki tjá sig um frétt frá Öræfum, en marbendill hló svo um munaði, hann hló svo mikið að ég varð að segja honum að hætta svo ég gæti farið að sofa, en hann neitaði að hætta að hlæja, hann er núna í Sigga Atla herbergi að hlæja,,,,húsið hrisstist......fimmtudagur, mars 18, 2004

Illugaskotta fór á söngsýningu hjá 10 ára frænku sinni. Það var gaman að horfa á hana og allar hinar sönghetjurnar. Stigu upp á svið, kynntu sig og svo sungu þau tvö lög, með undirspil frá skemmtara og allar græjur.

Einbeitnin skein af þeim, og allir áttu góðan dag. Ég, mamma og Guðrún Ósk fórum svo á kaffihús á eftir og áttum góða stund þar.

Illugaskotta er nú heima ásamt bjórnum sínum, við erum að huxa um lífsins tilgang og annað álíka léttvægt. Bjórinn er dýrið mitt, ekki bjór til að drekka. Horfi á fréttirnar með öðru auganum en er alls staðar annars staðar en hér, ég er þar.

Sela sagan hans Sigga Atla er góð lesning, og ég mæli með að þið kíkið á hana, er með tengill inn á síðuna hans. Flottar myndir af selum hjá honum Sigga.

Nóg af hugmyndum hamast í hausnum á mér, allt að gerast. Ritgerðin er hress og svo er ég líka.

Dagarnir líða og vorið er að koma rétt bráðum finnst mér.

Hvar verð ég í sumar? Það er mér hulin ráðgáta. Farin að skrifa.

miðvikudagur, mars 17, 2004

Sólin er hress hér á suðurlandinu. Þórdís vinkona mín er bara úti að leika sér á hestum og að garfa í garðinum sínum, það get ég bráðum. Ég mun ekki láta freistast út, nema til að hreyfa mig sem er nauðsynlegt svo að heilinn virki.

Synti smá í gær og fór svo í göngutúr með fram Ægissíðunni í gærkveldi það var gaman, heyrði og sá nokkur sjóskrímsli.

Kaffið rennur ljúflega niður núna klukkan 9 um morguninn, svaf ógnar vel.

Er ekki búin með Haustskip en fór að lesa aðra bók sem er miklu áhugaverðarði, hún heitir "Endurminningar grænlensks galdramanns"
Þessi bók er full af einlægum texta ásamt því sem hún er ótrúlega óvenjuleg. Galdramaðurinn er fæddur 1892, og það er danskur prestur sem ákvað að skrifa niður þessa ævisögu.

Allir í sund!

þriðjudagur, mars 16, 2004

Sólin sem vissi ekkert hvar hún átti eitt sinn heima eins og stendur skrifað í Völuspá, vann bug á prinsessunni þoku. En í íslenskri þjóðtrú er þokan talin hafa verið prinsessa í álögum er margur smalinn komst í kynni við.

Það eiga eftir að koma mörg hundrað góðir sólardagar, ég ætla ekki að láta þennan dag tæla mig út eða hafa áhrif á mig...fussum svei.

Þriðjudagur í dag, hún Guðrún Ósk frænka mín sem er 10 ára hefur verið að læra að syngja í vetur, draugurinn ætlar að sjá hana syngja núna á fimmtudaginn, það verður gaman. Hún syngur alla daga og er hinn mesti snillingur.

Fékk bréf frá indíánanum vini mínum í dag, hann sagði að það væri brjálaður snjóstormur í Manitoba núna og allir vegir að lokast eða þegar lokaðir. Það er skrítið til þess að hugsa.

Nú fer að líða að ákvörðun um sumarið,,,,hux með exi og mjög stórri exi.

Ég skoða af og til dagbækur fólks sem ég þekki ekki neitt, datt inn á dagbók Björns Bjarnasonar, sem er lúmskt fyndinn gaur. Hann er hér að tala um pistil sem hann sá í Fréttablaðinu...og vitna ég í hann hér, en kona að nafni Eva skrifaði þennan pistil þar sem hún er að tala um skoðanir sínar sem tengjast Gunnari í krossinum og Birni Bjarnasyni. Nennti ekki að lesa þetta allt en klippti hérna út úr dagbókinni hans. Vona að þetta sé í lagi herra dómsmálaráðherra?

Guðinn hans Gunnars er svo dómharður og leiðinlegur að ég næstum gubba, meðan minn er kærleiksríkur og alltumvefjandi.“ Hún segir síðar: „Birni hins vegar tækist seint að sannfæra mig um nauðsyn sérdeildarsveitar lögreglunnar og ég sat eftir með köfnunartilfinningu og óþol í sálinni, eins og alltaf þegar ég hlusta á málflutning Björns.“

Um leið og ég bendi Evu vinsamlega á að slökkva á viðtækinu eða fara á aðra rás, þegar ég birtist á öldum ljósvakans - ekki vil ég bera ábyrgð á, að hún kafni -


Farin að skrifa um tunglið, sólina, dag og nótt.
Ég horfði út um gluggann í morgun og áðan en sé ekki neitt. Það er svo mikil þoka og hún er svo þykk að það virðst vera að það sé hægt að skera hana í sneiðar.

Mér fallast oft hendur við þetta lokaverkefni. Núna er ég að vinna með þrjú kvæði úr Konungsbók eddukvæða, vingsa úr þeim það sem þau segja um sama efni en á mismunandi hátt, varðandi umhverfið, sköpun og allt það. Illugaskotta á eftir að skrifa 80 blaðsíður.....satann og djöfullll,,,það skal takast segi ég með mjórri rödd.

mánudagur, mars 15, 2004

Í gær kláraðist kaffið mitt sem ég keypti í Delínu mínu og Binnu í New York. Besta kaffi sem um getur í sögu Illugaskottu. Hitti á hana Binnu á messanum, og þá kom í ljós að arabarnir vilja endilega senda Illugaskottu meira kaffi. Þeir eru víst alltaf að tala um drauginn, hummm,,,enda var gaman að spjalla við þá því er ekki að leyna.

Snillingar með sniðuga búð. "The Olive Tree Delhi", þar sem búðarkötturinn sefur í grænmetinu og stekkur stundum upp á axlirnar á gestum. Fór í útréttingar fyrir verkefnið mitt í dag.

Sá þá á göngu minni meðfram tjörninni að gæsirnar voru allar í baði, rifu af sér vetrarfjaðrirnar ásamt því sem þær hoppuðu um alla tjörnina til þess að ná af sér meiri skít, eða til að fá á sig meiri skít. Þegar ég fór að glápa á þær, fannst þeim eitthvað skrítið á seiði. En ákváðu svo að stressa sig ekki á mér.

Fór á málstofu um náttúruverndaráætlun, það var gaman. Þrjú með fyrirlestur, Siv ráðherra, Ari Teitsson bóndi og einhver frá sveitarstjórnum. Áhugavert að heyra sjónarhorn mismunandi hagsmunaaðila. Er nú á leið í eitt versta hús Reykjavíkur, Þjóðarbókhlöðu fjandann, þar er aldrei súrefni, bara dautt loft og enn þá dauðarar fólk.

Hef verið beðin með stuttu millibili að tala við grunnskólabörn um þjóðsögur. Illugaskottu dauðhlakkar til þess að gera börnin dauðhrædd og áhugasöm.
Nú fara mörg ríki að verða stressuð yfir því að hafa stutt heimska fíflið hann Bush!!!!! En eftir þær hörmungar sem áttu sér stað á Spáni þá myndi Illugaskotta segja að allt geti komið fyrir. Þetta skáletraða tók ég úr mogganum í morgun, en merkilegt er að þessi merkilega frétt er ekki á forsíðu Morgunblaðsisns einungis undir dálknum erlendar fréttir. Maður spyr sig margs vegna þessa.

Al-Quaeda samtökin hafa lýst ábyrgð á hryðjuverkunum á hendur sér og segja það í refsingarskyni fyrir stuðning spænsku stjórnarinnar við herförina í Írak en 90% Spánverja voru andvígir þátttöku í stríðinu gegn Saddam Hussein Íraksforseta.

sunnudagur, mars 14, 2004

Blikadalur sem er utan í henni Esju verður spændur upp í dag af tveimur skessum af norðan, síðan á að drífa sig í sund og svo heim fyrir Illugaskottu að vinna. Veðrið er með besta móti.

"Skyldi eitthvert lögmál vera fyrir því að Íslendingar gerast ævinlega drukknir þegar á reynir? Er það veðrið, eða er það ólukka landsins, eða er það einber og eilíf fátæktin"? Textin sagður af amtmanni árið 1759, tekinn af blaðsíðu 256 úr bókinni Haustskip eftir Björn Th. Björnsson.

Ég er enn þá að lesa bókina Haustskip, les oftast áður en ég er að fara að sofa og þá eru það svona fjórar síður,,,,,,,,sem sagt en bókin er að nálgast endalokin. Alltaf verið að senda fanga til Danmerkur, en hins vegar er merkilegt að þessir svokölluðu menntamenn, dómarar og sýslumenn á Íslandi, vissu ekkert hvert þessir fangar fóru þegar þeir stigu sínum þreyttu og dæmdu fótum á flata landið Danmörku.

Það voru þrír staðir sem þeir fóru á, en þeim var nokk sama um það hér á klakanum, bara ef þessar sálir myndu yfirgefa landið, þá leið þeim vel. Annars þá til að upplýsa ykkur aðeins meir, þá drápust þessir Íslendingar flestir þarna í steininum, þeir voru hýddir þar til sást í kjöt og bein, og síðan lagðist alls kyns óværa á þá. Flestir drápust innan árs, því matur var af skornum skammti ásamt því að nóg var um sjúkdóma sem Ísland var laust við. Mikið um ungt fólk sem hafði eitthvað hrasað í því að vera ekki að stela eða sofa hjá hinum og þessum. Einnig var fólk brennimerkt ef það stal, kallar á enni en konur á bak.

Ég sæi í anda ef allir þeir sem eru að sofa hjá hinum og þessum yrður dæmdir glæpamenn eða glæpakonur og send héðan frá Íslandi í fangelsi í Danmörku!

Illugaskotta dæsir og er hugsi yfir öllum sínum löndum sem drápust þarna úti rassgati í svokallaðri Kóngsins Köbenhavn, oftast vegna smáglæpa eða smá yfirsjónar. Ekkert var fangelsið hér á landi þá árið 1759 og eitthvað varð að gera við þessa glæpamenn. Sumir sýslumenn tóku upp á því að hengja þessa þjófa hér á landi, því oft var erfitt þegar ekki var skip sem fór til Danmerkur, þá sátu sýslumenn oft upp með sína fanga í heilt ár, þar til næsta haustskip myndi láta sjá sig.

Illugaskotta sá svo í sjónvarpinu um daginn fínt fólk frá Íslandi og Danmörku sem var að skoða ný uppsetna sýningu um sjálfstæðisbaráttu Íslendinga og hann Jón Sigurðsson sjálfstæðisbóndann sjálfan. Fyrst varð hún pirruð að sjá að sýningin gekk að mestu leyti út á langa texta á fínum og dýrum spjöldum og svo varð draugurinn reiður, því það er komið nóg af því að velta sér upp úr þessari andskotans sjálfstæðisbaráttu, enda er öllum sama um hana, nema kannski þeim sem vilja bara horfa á góða tíma þessa lands, og vilja ekki vita af hörmungum þeim sem Íslendingar hafa einnig gengið í gegnum.
Það ætti að gera sýningu um þá Íslendinga sem hurfu í gleymskunnar dá þarna í Danmörku. Saga þessa fólks er falin í dómsskjölum og annálum, öllum gleymd en stór partur af sögu þessa lands.


Ég kalla þetta sögurasisma. Að velja einungis að fjalla um þá sögu sem inniheldur forna dýrð og gleði en hafna því að setja upp sýninga um atburði sem ekki innhalda forna dýrð og gleði. Hugsið út í það ef sýning um hina íslensku fanga yrði sett upp í Jónshúsi í kóngsins Köbenhavn! Myndi það ekki falla í frjóann jarðveg!

Hvað finnst ykkur?