laugardagur, febrúar 19, 2005

Illugaskotta er búin að fá nóg, hún er hætt að skrifa ritgerð, enda má það allt fara til fjandans og lengra en til helvítis ef það er til. Það er komið nóg, þetta er aldrei nógu gott hjá mér, of mikið eða of lítið, þarf að skerpa, stytta og bæta við einum kafla. Nei, nú laga ég það sem þarf, svo er ég farin til Canödu 3. mars. Tek lufsuna með mér þangað, vinn eitthvað í henni þar, en sem minnst TAKK!

Það er ekki um neitt annað að ræða, ef ég fer ekki út þá lendi ég í húsinu með rauða þakið sem er staðsett við sundin blá hér í Reykjavík.

Ég held ég útskrifist aldrei og ætla bara að hafa það þannig, að hitt gerist er svo fjarlægt mínum litla og illa starfandi heila að hann heilinn nær ekki og vil ekki spá í það lengur.

Ég hitti ekki neinn, ég hugsa allan daginn um ritgerð, ég geri ekki neitt, ég geri allan daginn ritgerð, ég hugsa ekki um neitt skemmtilegt, ég hugsa allan daginn um hvað akademónum finnist um þetta eða hitt, hvort þetta sé ekki flott, hvort þetta sé nóg, nei það þarf meira, nei það þarf að henda því út, nei þetta er undarlegt að ég hafi skrifað þetta, ekkert flæði...djöfullegt í alla staði að vera svona heimsk,,,,

ég er FÁVITI OG ÞETTA ER LÉLEGASTA RITGERÐ Í HEIMINUM!!!!!!!!!!!! Svona líður Illugaskottu, svo hef ég unnið illa með texta en lagaði það allt í gærkveldi í stress og pirrkasti. Þegar Illugaskotta vaknaði í morgun, vildi hún ekki tala, aldrei að tala meir. Fór í göngutúr og þá komst ég í gang að sjá sjó og fugla, þeir skipta máli. Ekki ritgerð, hún er fífl.

Dreif mig svo í bíltúr austur á Hvolsvöll, það var gaman enda eru sveitir bestar.

föstudagur, febrúar 18, 2005

Ein stærsti galli Illugaskottu er fljótfærni og tillitsleysi. Veit af þessum göllum en þeir æða upp eins og verstu draugar oft á dag, viku og á hverju einasta ári.

Framdi glæp í ritgerðinni, er farin að stunda ritstuld án þess að roðna, það var óvart, mun laga það og fara yfir allt verkið, þetta var og er ægilegt að sjá.

Er að fara að hlusta á Guðrúnu Jóhannesdóttur tala um sitt lokaverkefni klukkan 15:15 og mun vinna í ritgerðinni á meðan, hlusta og vinna...vil alltaf gera tvenna í einu, helst fimmt. Hún er að spá í Kötlu gömlu,,,það verður áhugavert að sjá og hlusta á.

Góð íslenska það. Vorið er æðandi, ég finn fyrir því í nefinu...merkilegt.

Kveðja Björkin.

fimmtudagur, febrúar 17, 2005

Allt gengur samkvæmt skipulagsleysi Illugaskottu. Allt er á áætlun, get svo svarið fyrir það, að það er satt. Jamm og já, mun tala við krakkana í Gimli grunnskólanum 17. mars um þjóðtrú og þjóðsögur. Síðan um kvöldið mun vera kvöldvaka í Icelandic Heritage Museum, þar sem Illugaskotta mun tala um jamm svei mér þá,,,veit það ekki alveg. Spila eftir eyranu í stuði á ensku. Búin að fá lánaðan tilbera mér til halds og trausts, vonandi taka tollararnir hann ekki af mér í Bandaríkjunum.

Nenni ekki að tjá mig um fundinn, hann var bara allt í lagi, ég þarf núna að stytta, afmarka, tengja betur og bæta við hagnýtingu verkefnisins fyrir náttúrutúlkun. Þetta þýðir að Skotta rotta verður að rottast í þessari ritgerð úti í Kanödu, en ekki mikið, nei og svei.

Vor í lofti, er svöng, þarf að ná í bækur í Tæknigarð, svo að hitta ömmu, svo heim að lesa, mun éta steiktan steinbít í kvöld og halda áfram að lesa. Steinbítur og þarna munnljóti gaurinn hinn, þarna já Skötuselur eru í miklu uppáhaldi þegar á að éta þessi grey, hjá mér.

þriðjudagur, febrúar 15, 2005

Seinustu nóttina mína á Hnappavöllum, áttu sér stað undur og stórmerki. Illugaskotta var viss um að Þorgeirsboli sjálfur væri sloppinn út og farin að elta hana, vegna furðulegs fnæs og dæs við gluggann hennar einhvern tíma um miðja nótt. Hún ákvað að þetta væri rugl og datt aftur inn í draumaheiminn. En hins vegar þegar Hnappavallabóndinn var að teygja sig og sína skanka um morguninn og horfa yfir sveitina sína fögru úr aðaldyrunum, þá rekur hann augun í tuddana sína sem höfðu víst brotist út úr fjósinu um nóttina. Þeir dönsuðu kátir um brekkur og grundir, en fengu fljótt að fara á sinn stað.

Nú hendist Illugaskotta upp um bókahillur og rekka í Þjóðarbókhlöðunni, í leit að alls kyns þjóðsagnaverum sem hinir ýmsu listamenn hafa fangað á pappír. Þessar verur eiga að fylgja mér til Canödu, svo hægt sé að sýna þær ungum jafnt sem öldnum þar á bæ. Ég er að setja þær á glærur.

Fór í morgunkaffi á Kaffi eitthvað, rakst þar á Skúla Gauta, það var gaman, ásamt því að hitta fleira gott fólk. Margt liggur fyrir í dag, þessi geralisti er eins og gormur sem lengist og styttist eftir því hve mikið hangir í honum.

Það er best að vera í sveit. Bestu kveðjur frá Illugaskottu.

mánudagur, febrúar 14, 2005

Nú er dvöl Illugaskottu á Hnappavöllum senn á enda, það er búið að vera endurnærandi fyrir orkulausan og draugfúlann draug að staldra hér við í nokkra daga. Smjörgerðin í gær tókst vel og mikið er það sniðugt að geta búið til sitt eigið smjör og rjóma. Næst þegar ég kem verður búið til skyr, hundrað gerðir af því!

Við skruppum í heimsókn í gær að Kvískerjum, þar er ætíð gaman og fræðandi að koma. Sigurður og Helgi voru heima, en Hálfdán hafði brugðið sér suður á Suðurnesin til að skoða fugla. Þeir sögðu okkur t.d. frá fjárborg sem þeir hefðu rekist á fyrir um það bil fjórum árum, sem er öll niðurgrafin og ævaforn, rætt var um Skeiðarárhlaup á 19. og 20. öld, og margt fleira sem tengist náttúrunni og sögu á einn eða annan hátt. Síðan var haldið heim á leið.

Í dag er víst Valentíusardagur, hver var þessi Valentíus?

Takk fyrir mig Siggi á Hnappavöllum, þetta var snilld.

sunnudagur, febrúar 13, 2005

Núna kraumar hryggurinn í ofninum,,,umm...Illugaskotta er búin að vera frekar fjörug í eldhúsinu, bakaði í gær tvær eplakökur og já bjó til undanrennu og rjóma í skilvindu, og ætla að búa til smjör í dag, ásamt því að logsjóða og rafsjóða. Þetta eru hlutir sem allir þjóðfræðingar ættu að kunna. Rjóminn er með þeim þykkari sem ég hef séð, eiginlega er hægt að moka honum upp með skeið..hvernig mun hann lýta út á rjómatertu? Gríðarlega flott og sniðugt allt saman.

Skellti mér einnig á rúntinum með Hnappavallabóndanum á Willys árgerð 1965 í gær, það er sniðugur bíll.

Jæja verð að fara að setja kartöflur í pott og svo gera eitthvað skemmtilegt eftir átið á sunnudagssteikinni.