laugardagur, maí 22, 2004

Nú er maður í Öræfasveitinni, fyrrverandi "Litla héraði" "Sveitinni milli sanda". Hér er rok og rigning. Mikið um fugla hér eins og spóa, hrossagauka og jaðrankan. Held að spóa nýlendan sé staðsett hér á landi.

Tók okkur 4 1/2 tíma að keyra hingað austur, enda vorum við ekki á hraðferð. Guðrún Ósk er með mér, hún var með puttan á kortabókinni, sagði mér hvað hraunin og bæirnir heita, á meðan við skriðum austur þjóðveg númer 1.

Núna er Guðrún Ósk í fjárhúsunum með Sigga, þau eru að merkja lömb, en draugurinn vill ekki út, fyrr en seinna í dag.

Eftir hádegi hyggjum við á að fara að Jökulsárlóni, til að sýna Guðrúnu Ósk það ásamt því að skoða eitthvað fleira, fara svo í skemmuna koma vetrardekkjunum mínum fyrir þar, skipta um olíu og olíusíu á bílnum. Svo bara veit ég ekki, en nóg er að vera hér og taka öllu með ró.

Borgir eru þreytandi en sveitir eru skemmtilegar.

föstudagur, maí 21, 2004

Þá er búið að gæsa, grágæsina hana Láru. Það var gaman, hins vegar var draugurinn ekkert á því að drekka þetta kvöld, og kom sér heim hið snarasta, því draugur verður veikur daginn eftir.

Fórum í Golfskála, spila golf, svo í Bláa lónið sem fylltist af túristum kl 18, milljón rútur. Tók leir mér í hönd af botninum, ojbarasta hann var fullur af hárum. Finnst Bláa lónið vera svona mannlegt bað, bað allra landa!!!! Hvað fer svo fram ofan í þessu vatni? Humm, hef ekki hugmynd en það fer ógeðis hrollur um mig.

Farin í Öræfasveitina í dag.

miðvikudagur, maí 19, 2004

Það er hagél úti. Fór í ríkið og í krónuna áðan. Hitti gamlan skólabróður í Krónunni, hann var klæddur í jakkaföt, eins og besti kerfiskall, en er það nú ekki. Gaman að spjalla við hann.

Verslaði bara hollt, það er gott. Át í hádeginu á Kentucky Steiktum kjúklingi ásamt Sigga Atla og Jóni, það var fínt, hef ekkert étið síðan þá, svo stór skammtur þarna frá Steikta kjúklingnum. Á morgun verður gaman, en enn þá skemmtilegra á föstudaginn því þá fer ég austur í sveit.

Það var hringt í mig í fyrradag, verið að bjóða mér einhverja tryggingu, en hún passaði mér ekki því ég á engan nema sjálfa mig og er ekki í fastri vinnu..............
Mitt nafn er Björk Bjarnadóttir og hið nýja er Meldal. Björk Bjarnadóttir Meldal.

Hvernig hljómar þetta? Veit það svei mér ekki, var að skoða Íslendingabók, þar er þetta nafn tengt langalanga afa mínum frá Melrakkadal í Víðidal. Er að reyna að koma skipulagi á allt, það er þó nokkuð.

þriðjudagur, maí 18, 2004

Þriðjudagur. Ekkert markvert svo sem að gerast. Er heima að lesa greinar og annað spennandi. Hjólatúr í kvöld vonandi.

Veðrið er ágætt...bráðum flyt ég frá Reykjavík og norður.

sunnudagur, maí 16, 2004

Fór í langan göngutúr í gær, svo að horfa á fimleikaatriðið sem var niðri á Austurvelli, síðan skellti ég mér á opnun myndlistarhátíðar það var gaman. Áhugaverðar ljósmyndir og svo var hljóðverk, en þau eru í sérstöku uppáhaldi hjá mér. Tveir gaurar að tala saman, voru á krossinum, eins og jesú. Oft voru þeir að tala um hluti þannig að manni langaði að setja orð í belg með þeim. Frekar fyndið.

Svo bara horft á keppnina sem var hrikaleg, en hélt með henni Ruslönu enda vann hún, sem betur fer.

Seinasta vikan að renna upp þar sem ég verð að vesenast í að lesa greinar, ljósrita og panta fleiri greinar. Síðan er ráðgert að fara austur í Öræfasveit, skoða Bæjarstaðarskóg í Morsárdal og kíkja kannski aðeins á hana Skeiðará og hitta gott fólk.