laugardagur, ágúst 20, 2005

Ég man þegar videó kom í fyrsta skipti, því var smyglað heim til okkar það var árið 1984. Ég man að ég vildi bara horfa á videó myndina Dracúla, því Dracúla var og er ein af mínum uppáhaldssögum. Einnig man ég þegar risastór flutningabíll vallt í Langadalnum, hann var fullur af alls kyns gosi. Við drukkum gos í margar vikur eftir það, það voru dýrðardagar. Ég man eftir ógleymanlegum útilegum á Smyrlabergi, landinu sem var tekið af okkur. Þar veiddi ég minn fyrsta fisk, þar lærði ég að rota þá og rífa öngul úr, þar festist líka öngull í nösinni á mér, það var fyndið.

Þá varð Illugaskotta ægilega hrædd, en Hildur frænka var með mér, og hló ægilega mikið. Einnig fór ég í mína fyrstu almennilegu "skurðaklósett" ferð á Smyrlabergi, það var ekkert annað "Klósett" að hafa, og ekki var hægt að keyra mann niður á Blönduós, þegar heyskapur var á fullu. Í heyskapnum smurði amma niður frá ofan í okkur. Í stóran hvítan og appelsínugulann dall. Hún spurði alltaf:" Já og viljið þið ekki smurt og með því?". Það var mest spennandi í öllum heiminum að opna þennan dall þegar kaffitíminn kom í heyskapnum, þar leyndust svo góðar samlokur, og kökur að ég fæ vatn í munninn á meðan ég skrifa þetta.

Ég man líka eftir því þegar Perla mín, sem var fyrsti hesturinn minn varð blind, einnig man ég eftir stórhríðum, þar sem ég var látinn sitja í bílnum, pínulítil að hlusta á Bítla plötuna "Abeey road", þetta er enn þá uppáhaldsplatan, mín. Einnig man ég eftir því þegar við fórum að gefa hrossunum niðri í haga á veturna, þessi hagi er niður við Blöndu, há brekka og svo er haginn. Það var allt í lagi að labba niður eftir í djúpum snjónum, en þegar farið var til baka, urðu skrefin þung. Ég vældi, vildi að pabbi myndi halda á mér. Hann sagði að það kæmi ekki til greina, ég yrði að sjá um mig sjálf, það var fúlt þá en í dag er ég voða stollt að hafa getað bögglast upp þessa árans brekku sjálf.

Að eiga land, er fjársjóður. Land geymir sögur, endurminningar og óendanlega möguleika fyrir kynslóðir sem lifa núna sem og komandi kynslóðir. Það var sár dagur þegar við misstum landið vegna ósanngirni og lyga, við þurftum að setja öll hrossinn í sláturhúsið, loka á minningar, hætta að fara í sveitina.

Haustið kom í morgun, ég fann það á lyktinni í morgungöngunni. Krían er hætt að garga á mig, stelkurinn er þagnaður og einnig tjaldurinn.

miðvikudagur, ágúst 17, 2005

Flugslys í Grikklandi allir dauðir, flugslys í Suður-Ameríku, allir dauðir...Illugaskotta hugsar með hryllingi til sinna tveggja flugferða. Fimm tímar til Bandaríkjanna, og svo einn og hálfur til Winnipeg. Verst þegar þær eru að lenda, hreinn viðbjóður allt sem viðkemur flugvélum. Skelfing og angist grípur mig í hvert sinn sem flugvélar ræfillinn skelfur í loftinu.

Svo hættir hún að skjálfa en taugar draugsins eru þandar, augun stíf, og blóðið rennur aðeins hraðar, í lófunum má sjá svitadropa....flughræðsla er þetta víst kallað. Fælni, kíkið á www.doktor.is ef þið viljið lesa ykkur til um fælni og aðra krankleika.

Sólin skín en golan er köld, mjög köld. Krækiberin eru tilbúin, og einnig hvannarfræin, þarf að safna þeim. Jón Glói kemur af og til á svæðið, en hann er ekkert voða gjæfur lengur. Jú, bað um hausnudd í dag, en um draug fór hrollur því hrafninn er farinn að gogga ægilega fast, en hann lokaði sínum augum og vildi meira hausnudd.

Illugaskotta er enn harðákveðin í því að hætta að blogga.