föstudagur, nóvember 18, 2005

Það er farið að snjóa og það er komið frost. Jæja hvar skal byrja í þessu öllu saman. Á laugardaginn var jarðarförin hans Raymonds, hún fór fram í félagsheimilinu þeirra hér í Hollow Water, og var að Kaþólskum sið. Í kaþólskum messum þá gefur fólk alltaf pening, mér varð hugsað til þeirra peninga sem Kaþólska kirkjan mun aldrei borga vegna Raymonds. En hún skuldaði honum 20 þúsund kanadíska dali, sem hún neitaði að borga vegna þess að Residential Schools voru á ábyrgð kanadísku ríkisstjórnarinnar, en vá! Var misnotkun presta og nunna á nemendum ekki á ábyrgð kirkjunnar ég bara spyr.!

En nú skal haldið áfram. Þessir jarðarfarar og líkvöku dagar voru allir ógnar langir og undarlegir í augum Illugaskottu. Hér kom fólk saman hvert kvöld þar sem kistan stóð opin. Það var spiluð tónlist, fólk fór með tölu um hinn látna og svo var spiluð meiri tónlist. Það voru ótrúlega margar fyndnar sögur sagðar af Raymond og allir hlógu voða mikið.

Á mánudaginn fórum við til Winnipeg, við keyrðum Jeff á flugvöllinn og allt í einu var heimalingurinn farinn til síns heima. Það voru margar fyndnar sögur sem Jeff sagði mér. Eitt sinn spurði hann kærustuna sína afhverju hún væri orðin svona feit, hann væri nú ekki búin að gefa henni svona mikið að borða. Þá sagði hún við hann að hún væri ófrísk komin 6 mánuði á leið! Þetta fólk í Panguassi er ekki í tengslum við margt af því sem gerist í daglegu lífi fólks, vegna þess trúarofstækis sem hefur verið troðið upp á það. Trú og túlkun á henni hefur gert margt lífið erfitt hjá fólki...en Jeff hló og Illugaskotta líka eftir þessa undarlegu sögu. Svo sagði hann að kærastan hefði farið til Winnipeg í 3 mánuði og svo hefði verið komið barn.

Gary þurfti að fara á fund á mánudaginn. En þá gerðist það, það kom algjörlega vitlaust veður. Það var ekki hægt að keyra neitt, og við vorum veðurtept í Winnipeg, ég var með tölvuna mína og hafði sem betur fer klætt mig vel. Þurfti samt að kaupa mér skó og ullarsokka. Þetta var fyndið. En stofnunin sem Gary er að vinna fyrir núna borgaði hótelið fyrir okkur í tvær nætur og einnig allar máltíðir. En sem sagt Gary er núna búin að taka að sér 3 stráka sem eru bensín sniffarar frá Panguassi, þeir eru 11 ára, 14, ára og 17 ára. Sá sem er 17 ára er einhver sem ég ekki treysti. En hér eru þeir af öllum stöðum jarðarinnar og munu vera hér í mánuð.

Þeir voru teknir af foreldrum sínum og nú er bara að bíða og sjá hvað mun gerast næst.

Áin er freðin og þannig eru einnig bátarnir tveir sem liggja hér úti í ánni, þeir eru freðnir í henni. Var að bisast í dag að reyna að lemja þá til og frá, en þeir haggast ekki í þessu frosti. Það er kalt úti, en allt er þurrt og fínt hér.

Það er ekki margt annað á dagskránni hér en að vinna með þessum strákum, græja allt hér úti fyrir vetrarhörkur, ná í einn vélsleða og koma öðrum í viðgerð, setja plast á alla glugga til að einangra hitann betur inni og hafa það náðugt.

Illugaskotta er hress, bestu kveðjur heim.

PS: Í gær var ég að tala við Gary, skildi ekkert í því hvað hann var tregur að svara einfaldri spurningu, ég endurtók það sem ég var að spyrja. Og þá áttaði ég mig á því að ég var að tala íslensku við hann! ég verð oft mjög þreytt á því að tala ensku stanslaust, fólk á oft erfitt með að skilja mína skosku ensku, með íslenskum hreim, sem fer oft endalaust í taugarnar á mér að hafa þennan hreim. Jæja en hvað um það....Elísabet bjór var búin að gera við stífluna sína að hálfu.