laugardagur, október 29, 2005Sælt veri fólkið. Hér koma nokkrar myndir í viðbót, ég er núna í Winnipeg. Fer heim á eftir, seint um kvöld, er í heimsókn hjá vinkonu minni.

Það kemur fullt af fólki í heimsókn til Hollow Water á morgun, til að fara í sweat. Ég ætla að fara í langt ferðalag á morgun upp ánna á mínum kanú.

Hér kemur mynd af mér standandi ofan á bjórahúsinu hennar Elísabetar og einnig af mér gera nesti á einni af mörgum eyjum Lake Winnipegs...bless.

fimmtudagur, október 27, 2005

Ég sagaði niður mitt fyrsta tré í fyrradag. Það voru nú meiri lætin þegar það féll til jarðar, þetta risa tré líka. Það er mikil tækni að saga niður stór tré. Fyrst sagar maður upp það eins og munn í þá átt sem maður vill að það falli. Svo fer maður hinum megin við það og sagar að kjaftinum sem maður bjó til. Ég heyrði ekki neitt vegna hávaðans í vélsöginni sem ég var að bjástra við, svo byrjaði tréð að hreyfast. Illugaskotta hoppaði frá, og kallaði, "Timber!"...og bamm á jörðina það féll. Síðan sagaði ég það niður í eldivið. Það var gaman.

Sagaði svo mikið í gær að eigin mati að allt í einu klukkan 17:00 var ég komin með nóg. Hendurnar á mér voru lamaðar, var búin að saga svo mikið, lyfta upp drumbun og raða þeim upp í eldiviðarstaflann. Fór inn í sturtu og vinna í mínum skrifum.

Í gærkveldi kom Jeffrey svo heim eftir að hafa siglt upp ánna með sinn riffill, hann hafði víst skotið elg, en misst af honum inn í skógarþykknið. Við fórum að leita að þessum elg í morgun. Sigldum upp ánna og löbbuðum svo inn í skóginn, þetta er engin venjulegur skógur. Ég meina það eru engnir stígar, bara tré, runnar, greinar og brotin tré út um allt, svo þykkur skógur að maður verður að brjóta sér sums staðar leið út. Fundum ekki elginn, en skyldum Jeffrey eftir á sínum kanú, hann ætlaði að sigla lengra og finna fleiri elgi.

Það er sól úti, um það bil 12 stiga hiti, og smá gola. Er að fara út að saga meiri eldivið, byggja trjáhús og skafa börk á red willow, sem er lyf er Garry notar. Sýður börkinn og drekkur, góður við öllu víst segir Indjáninn.

Förum til Winnipeg á morgun til að ná í einhverja vandræða unglinga, tvö stykki eitt þessarra stykkja er víst með bleikt hár, strákur. Er varla að nenna í þessa leiðindarborg, en mun lufsast með, vil helst alltaf vera hér í sveitinni að sigla, skrifa og vinna. Þarf að nú að erindast smá í borginni.

Illugaskotta hefur það mjög gott, takk en og aftur fyrir öll kommentin og þá tölvupósta sem ég fæ, hef gaman af þessu öllu. En er ekki dugleg að skrifa tölvupósta því eins og ég hef þegar minnst á þá er netið hér í gegnum símalínuna og ég kann ekki við að hanga lengi á línunni.

Bestu kveðjur frá Björk og bjórunum sem eru farnir að reisa sér hús rétt við húsið sem ég bý í, fylgist með þeim daglega synda fram og til baka með greinar og leðju í húsið sitt. Iðnaði eins og vegagerðinni, skógarhöggi og rafmagnsgaurum er ekki vel við bjóra, því þeir raska umhverfi iðnaðarins, þess vegna skemma þessir gaurar stíflur bjóranna og sprengja upp húsin þeirra með dínamíti. Undarlegt hvað menn ráðast oft harkalega að dýrum.

þriðjudagur, október 25, 2005

Í dag er mánudagur, ég kom heim frá Winnipeg á seint á föstudagskvöldið. En þann 21. október fór ég til Gimli til að taka þátt í hátíðarhöldum varðandi 130 ára afmæli landnáms Íslendinga í Gimli. Það var fínt, fékk far með Íslendingum og við skemmtum okkar vel.

Um kvöldið kom Gary að ná í mig til þeirra. Daginn eftir komu þau síðan í heimsókn til okkar. Til að prufa sweat. Þið hafið líklega lesið orði sweat oft á þessari síðu en mörg ykkar botnið hvorki upp né niður í þessu sweat. Nú jæja þetta er gufubað indjána, ekkert flóknara en það. Það eru hitaðir steinar um það bil 30 stykki fyrir hvert sweat í eldi. Þessir steinar eru kallaði grandfaters, eða afar því þeir eru elsta efni jarðarinnar. Síðan fara allir inn í tjaldið í sínum stuttbuxum strákar en sínum síðu pilsum og stuttermabolum stelpur, og svo eru steinarnir settir inn á gafli, tjaldinu er lokað, og sá sem stýrir sweatinu setur vatn á steinana. Síðan fara allir að svitna, þarna er sungið, spilað á indjána trommu og einnig eru notaðar hristur. Hvert sweat tekur um 2-3 tíma, en ég vil taka fram að allir steinarnir eru ekki settir inn í einu,,10 stykki fyrst og svo koll af kolli. Tjaldið er opnað af og til, og allir fá að svitna all verulega í þessum hita og myrkri sem er í tjaldinu.

Íslendingarnir voru hressir með sitt sweat og ætla að koma aftur. En í dag fórum við út í Black Island, ég, Gary og Jeff. Tókum með okkur nesti, og margt fleira. Ferðin yfir vatnið tekum um hálftíma. Báturinn hoppaði og skoppaði með okkur yfir stærstu öldudalina, indjánarnir sátu sem rólegastir og Illugskotta ákvað að allt væri í lagi með þessi öldudali og þessi hopp sem báturinn tók. Við lögðum að eyjunni, og löbbuðum inn í skógarþykknið. Gary vildi sýna okkur trén sín, en í hugum frumbyggja er Black Island heilagur staður, alveg eins og White Shell. Og vá þessi tré voru um 40 metra há eða meira. Ég lagðist niður og horfði endalaust upp eftir þessum risa trjám. Við fórum svo að safna jurtum, söfnuðum eini og svo fann Gary winter mint. Sem er jurt sem smakkast eins og piparmintu tyggjó af bestu gerð, tíndum fullt af henni, en hún er góð að nota í te þegar flensan vill ekki yfirgefa mann.

Við fórum svo annars staðar á eyjuna og söfnuðum lindar vatni, en hér í Kanödu þarf að kaupa allt drykkjarvatn, en Gary veit um lind sem fáir vita um, ekkert smá gott vatn. Á heimleiðinni stoppuðum við á lítilli eyju, þar kveiktum við eld, bjuggum til te og ristuðum okkur brauð. Át ekkert smá mikið elska að éta nesti úti, svo sigldum við heim, með myrkið allt í kringum okkur. Góður dagur. Á morgum ætlum við að byrja að leggja gildrur. Förum á fimmtudaginn til Winnipeg, en þá er Jeffrey búin í sinni afeitrun og við keyrum hann á flugvöllin þar sem hann mun fljúga til Pangassi, staðarins þar sem slæmir atburðir eiga sér stað allt of oft, ég vona að hann haldi sig frá sniffinu.

Ég mun setja inn myndir þegar ég kemst í betra netsamband, af trjánum, lindinni og fleirum stöðum. Bestu kveðjur frá Kanödu til ykkar.