laugardagur, maí 03, 2003

Það er óþarfi að týna hlutum en ég er alltaf að týna hlutum. Er sífellt að athuga áður en farið er út úr húsi hvort ég sé ekki með hina heilögu þrenningu á mér sem er: lyklar, veski og sími. En ég hef ekki týnt neinu úr hinni heilögu þrenningu einungis tveimur pörum af vettlingum sem eru mínir uppáhalds vettlingar og hef þess vegna lítið gert af því að hjóla, hendur frjósa hratt á hjóli. Lúffur og prjónaðir vettlingar, andskt kæruleysi. Mamma sagði að ég yrði að muna hvar ég léti hlutina frá mér en mér er það ekki mögulegt, hendi hinu og þessu út um allt!

Lóurnar eru út um allt þessa daganna hér við Háskólann, hjólaði fram hjá nokkrum heilalausum lóum og söng fyrir þær: Lóa litla lipurtá,,,,og þær hlupu í burt þegar ég söng.

föstudagur, maí 02, 2003

Gluggaveður, þetta er fáranlegt. Allt á stopp þar til eftir 13. maí. Þá taka til hendinni, flytja í eitthvert skipti ekki neitt þannig séð bara í bílinn. Fer vestur á firði fyrri hluta sumars, norður og svo á hálendið. Þar verður mikið að gera sem er gott, svo til Kanada í haust og það verður enn þá skemmtilegra. Læt mig dreyma um allt það sem hægt verður að gera eftir 13. maí.
Mér er alveg sama. Krummi flýgur hér fram hjá mér, Háskólabíós krummi. Geisp. Fundur í gærkveldi til 24:00 hjá landvarðafélaginu. Vá loftfimleikar hrafna eru eitthvað sem fáir taka eftir.

miðvikudagur, apríl 30, 2003

Það rignir í dag og það finnst mér gott og gróðrinum líka að ég held, svona gróðraskúr myndi mamma segja. Ánamaðkarnir skríða þá af stað og ég á í mestum vandræðum með mig þá því ég vil hvorki ganga á þeim eða hjóla yfir þá, svona kannski álagatrú. Það er ógeðsleg lykt út úr munninum á mér og það er merkilegt að maður tekur ekki eftir því þegar er í lagi með kjaftinn á manni að maturinn fer aftast og er þar að jótrast, það festist allt í þessum holum eftir jaxlana og ég vil bara borða sjeik.

1. maí er á morgun og 10 dagar til kosninga. Ég er komin með nóg af auglýsingum flokkanna, fletti yfir þær í morgunblaðinu, loka augum og eyrum þegar þær eru í tv og útvarpinu. Skítkast alla daga finnst mér, mætti tala meira um málefni en fólk,,,en svona er nú það.

þriðjudagur, apríl 29, 2003

Ég gat það, ég lifði það af að fara til tannlæknis og láta draga úr mér tvo rokna stóra endajaxla. Klapp og blístur fyrir mér. Svitnaði og skalf í stólnum á meðan tanni tók á því. Hljóðin eru verst þegar verið er að jugga tönninni til í gómnum og hún er að brotna, ojbarasta vont. Núna er deifingin að fara, og allt að gerast sem er vont, og verra en vont. Annar jaxlinn var með skrítna rót svona eins og hann vildi krossleggja ræturnar! Svaf lítið í nótt, veitt fátt verra en tannlækna. En Gunnar Guðni tannlæknirinn minn sagði að ég væri jaxl og ég ætla að trúa honum. Fann flottann bát fyrir 1.2 milljónir króna upp við Rauðavatn. Dagurinn í dag fer ekki í lestur og einbeitningu.

mánudagur, apríl 28, 2003

Tölvuverið í Tæknigarði er á jarðhæð, reykingarfólkið hér á bæ hefur mikið fyrir því að koma sér fyrir úti undir gluggum tölvuversins og svo smókar það inn. Fjandinn! Fari þau fjandans til. Ég rauk út, fann þau ekki, jú þarna földu tvær kellur sig. Ég sagði"Góðan daginn væri ykkur sama um að reykja ekki beint undir gluggunum?" Þær: " Lokaðu bara glugganum" Ég:"Nei það er loftlaust inni í tölvustofunni og á ég bara að loka til þess að þið getið reykt?": Þær: sögðu ekki neitt og löbbuðu í burtu, með svipinn, "við erum reykingar menn en er alls staðar úthýst, greyið við"

Mér er sama um reykingar en þegar þær eru þar sem þær eiga ekki að vera, t.d. inni í tölvustofunni þá klikkast ég, augum verða rauð og mér pirrar í nefið. Já eins og þessar línur gefa til kynna er stutt í þráðinn á mér í dag. Ég myndi ekki vilja hitta mig í dag.