laugardagur, október 08, 2005

Í dag er ég búin að vera hér í Kanödu í einn mánuð. Þetta hefur liðið hratt og margt hefur drifið á daga mína, en einnig er eins og ég sé búin að vera hérna alltaf. Ég bý í tveggja hæða timburhúsi, með 5 öðrum persónum. Það er Garry, sonur hans, kærastan hans og krakkinn hennar, einnig býr hér ungur maður sem er í afeitrun..krakkinn hennar er óþolandi lygari, kærastan er fúlari en fúlasta fúlegg, sonurinn er bara, Garry er fínn og ungi maðurinn sem er í afeitrun er fyndinn, eftir að hann stökk út úr sinni skel.

Ungi gaurinn sagði mér frá því að hann ætti hálfsystur sem hann hafi aldrei kynnst. Og þegar hann hafi komið heim í sitt samfélag eftir nokkrar mánaðar fjarveru, varð honum starsýnt á þessu flottu gellu. Hann sagði vini sínum að hann vildi fara út með þessari stelpu, vinur hann glotti og sagði: "Já með systur þinni?" Jeffrey hló bara, svo sagði hann mér í dag að það væri hræðilegt að fljúga í flugvél. Ég spurði afhverju, hann sagði:"Vegna þess að ég er næstum því úti í geimnum". Ég er enn þá að hlæja af þessu svari.

Stundum getur þetta orðið frekar pirrandi að vera innan um allt þetta fólk þótt að Illugaskotta sé vön að búa með mörgum, þá er þetta öðruvísi lið. En hvað um það.

Í gær og í dag hafa verið hérna nemendur úr grunnskóla þau eru frá 7 ára til 12 ára. Mjög skemmtilegir krakkar, indjánar. Illugaskotta hefur verið að segja þeim sögur frá Íslandi, sögur af tröllum, álfum, draugum, huldufólki, en hafmeyjur eru í uppáhaldi hjá þeim.

Hins vegar datt af þeim andlitið þegar ég fór að segja þeim frá okkar 13 jólasveinum, frá matarsiðum hennar Grýlu og einnig frá því hvað jólakötturinn gerir. Í dag vorum við að búa til Tomhahawks, sem eru axir eins og indjánar bjuggu þær eitt sinn til. Við hjuggum niður nokkur tré, og notuðum þau sem handföng á axirnar, síðan söguðum við gap upp í handföngin, náðum í flata steina og settum inn í handfangið og bundum síðan steininn fastan.

Sólin skein og allir voru kátir. Var að búa til brauðdeig en á morgun er ég að fara í tvö matarboð, og kem með mitt fjallagrasabrauð í þau bæði. Er á fullu í því að skrifa inn viðtöl og ætla að drífa mig í það núna.

Bestu kveðjur frá Illugaskottu.

miðvikudagur, október 05, 2005

Sælt veri fólkið hef ekki skrifað í smá tíma vegna anna og einnig vegna þess að netið hefur verið brjálað.

Jæja, hvað er í fréttum segja Íslendingar, en ekki Kanadamenn. Það sem er helst í fréttum er að ég er ekki búin að skjóta elg, en daginn eftir að ég hélt á þessari ávísun, þá var ég að rogast með elgsfætur, læri, og rif í frystinn hérna. Síðan ætlaði Illugaskotta að kippa elgshaus upp úr skottinum á bílnum, en ekkert gekk.

Elgurinn starði bara á mig, með sitt stóra nef og þunga haus. Jæja reyndi aftur togaði og togaði en hann rétt hreyfðist. Við tókum hann síðan tvö saman upp úr skottinu.

Veðrið hérna hefur verið yndislegt, 20 stiga hiti, gola og sól. Ég er búin að klára kanóinn minn bara eftir að mála á hann nafnið sem er: Blue Wolf woman og Míkwamí Íkwe. Þegar ég fer út á ánna er gaman, en það er ekki gaman þegar vindurinn blæs á móti mér. Þá snýst ég í hringi eins og laufblað ofan á drullupolli. Er að æfa mig með árina, en já það gengur vel þegar vindurinn heldur sig heima hjá sér.

Það snjóar í dag í Winnipeg en það er bara hvasst hér og kallt. Í dag kemur hingað kennari til að fá kynningu hjá Garry á því hvað hann kennir hér í Ravens Creek, síðan um helgina kemur heill bekkur frá Black River reserve með þessum kennara til að læra inn á siði, hefðir og menningu Ojibway indjána.

Ég var í Winnipeg í gær með Gary, ég keyri allt hér en ekki í borginni, of klikkað og rata ferlega lítið þar á bíl. Verslaði mér snjósleða buxur og snjósleða skó, ótrúlega ódýrt í búðinni Canadian Tire. Fáranlegt nafn, þessi búð er eins og Húsasmiðjan en svona 100 sinnum stærri. Einnig verslaði ég mér skinn pels, fyrir 1000 kall!, í búð sem selur notuð föt. Sumar vinkonur mínar myndu urlast ef þær færu í þessa búð hún er jafn stór og Kolaportið, full af frábærum og ódýrum fötum.

Illugaskotta varð bara þreytt að horfa yfir allt þetta fatahaf, sem hún þyrfti að fara í gegnum ef hún væri að leita sér að einhverju sérstöku, lét það eiga sig.

Thanks giving er á mánudaginn, þá éta allir kalkún. En ég, Gary og einn annar erum að fara á mánudaginn til að leggja gildrurnar. Ég verð Trapper í vetur, sem þýðir að það þarf að fara daglega og vitja um þessar gildrur. Setja í þær beitu sem oftast er kjöt eða fiskur, og taka dýrin úr gildrunum. Síðan er feldurinn á þeim unninn og seldur. Núna förum við á bátum en í vetur förum við á snjósleðum.

Í dag er ég hins vegar að fara að vinna við að búa til kennslu hús. Það verður búið til úr trjám og síðan tjald strengt yfir. Þetta hús verður hringlaga, þannig að þarna getur Gary tekið á móti hópum sem eru að koma hingað, og kennt þeim þar. Síðan verður sett viðareldavél inn í tjaldið svo hægt verður að nota það allan ársins hring.

Bið að heilsa ykkur öllum, takk fyrir kommenntin ykkar. Bestu kveðjur frá Björk.