föstudagur, september 30, 2005

Í gær hélt ég á 35. þúsund dala ávísun! Þetta var borgun Kandadísku ríkisstjórnarinnar til Raymonds Raven. Þeir voru að borga honum bætur fyrir það hve illa var farið með hann í hinum svokölluðu "Residential Schools", sem voru reknir af kanadíska ríkinu og Kaþólsku kirkjunni. Kaþólska kirkjan skuldar Raymond enn þá 10 þúsund dali, vegna þess að hún segist ekki geta borgað svona mikið og einnig vegna þess að hún segist ekki hafa borið ábyrgð á því að þessi skólar hefðu verið stofnaðir. En hún ber ábyrgð á þeirri misnotkun sem prestar og nunnur beittu þessi börn. Ekki trúir Illugaskotta að kirkjan hafi ekki efni á að borga 10 þúsund dali, páfinn baðar sig í gulli þarna suður í Róm!!!!

Þessi blindi, fótalausi og einnar handar maður, er einn sá sterkasti karkater sem ég hef kynnst. Hann vill lifa, hlæja og hitta fólk. Í þessum heimavistarskólum var menning, tungumál og siðir indjána barin úr þeim, með líkamlegu og andlegu ofbeldi. Raymond sagði mér að sakleysi hans hefði verið rænt frá honum þegar hann var 14 ára, það var nunna sem gerði það. Illugaskotta hugsaði sitt á meðan bílinn sem við vorum í flaug á milli húsa, garða og trjáa, á leið með okkur í bankann svo hann gæti leyst ávísunina sína út. Til að reikna út hve miklar bætur hver og einn fær sem hefur verið í Residential school, þá eru gefin stig fyrir mismunandi misnotkun, mismunandi ofbeldi, lengd dvalar, þeirra ára sem viðkomandi dvaldi í skólanum og svo framvegis.

Ég spyr mig, hvernig er hægt að mæla í punktum þjáningar fólks?

Indjáninn sat framm í, og sagði mér nánar frá hvað hann mátti upplifa. Ógleðin rann um blóðið á mér. Reiði í garð ríkisins og kaþólsku kirkjunnar kviknaði í huga mér. Hins vegar sat Raymond sterkur og sagði mér frá. Hann sagði mér að hann væri búin að fyrirgefa þeim það sem hafði verið gert í garð hans. Þeir hefðu rænt sig æskunni en hann gafst aldrei upp. Núna vill hann eyða peningum sínum fyrir fjölskylduna sína.

Hins vegar sagði hann mér einnig að saklaus hvítur maður hefði verið dæmdur í fangelsi, þar hefði þessi gaur dvalið í 4 ár. Núna fær hann bætur sem nema 1 milljón kanadískra dala á ári frá ríkinu. Hver er munurinn á þjáningu hans og þeirra indjána sem máttu dvelja í Residential schools? Afhverju fær þessi gaur hærri bætur en indjánar? Gæti það verið vegna þess að hann er hvítur?

Residential Scholls eru svartur blettur í sögu Kanada. Þar átti sér stað þjóðarmorð, sem snérist um það að eyða tungumáli indjána, láta þá hætta segja sögur eða notast við sína menningu. Ef þessi börn dirfðust til þess að tala Ojibway eða Cree tungumálið var þeim refsað með barsmíðum eða öðru verra. Þessum börnum var rænt frá foreldrum sínum af lögreglunni og þau voru færð í skóla. Langa hárið þeirra var klippt, þau látin ganga öll í eins fötum og samskipti þeirra við fjölskyldu sína og samfélag hvarf. Allt gekk þetta út á það að láta Indjána samlagast hvítu samfélagi og auðveldara væri að ánetjast auðlindir þeirra, komast yfir landið þeirra og þær auðlindir sem þar er að finna.

Gary strauk 3 sinnum úr Residential School, eftir þriðja strokið hættu þeir við að elta hann. Eftir annað strokið náði presturinn honum úti í skógi, hann hafði elt Gary, sá fótsporin í snjónum. Gary sagði að hann hefði barið sig lengi, en eins og Gary sagði: "Ég var sterkur og þrár, og ákvað að ég myndi strjúka aftur, sem ég gerði".

Jæja,,ekki fallegar sögur, fleiri sögur hef ég skráð í tölvuna en þær birtast ekki á þessu bloggi. Haustið kemur hratt hingað núna. Það er logn, skýjað og riging. Haust kveðjur til ykkar, frá Björkinni.

þriðjudagur, september 27, 2005

Núna er internetið hér í lagi, og ég nota tölvuna í dag. Fríða klukkaði mig og vill að ég segi fimm staðreyndir um sjálfa mig.

1. Ég er góður kokkur og bakri, þegar ég nenni því
2. Ég elska skyr, bláber og jarðarber.
3. Ég bý á indjána verndarsvæðinu Hollow Water í Kanada.
4. Mér finnst gaman að læra nýja hluti eins og sigla bátum og kanó.
5. Ég er óendanlega kát með lífið og tilveruna.

Verð að bæta við númer sex: Mér er illa við moskítóflugur!

Fórum til Winnipeg í dag að ná í einn indjána sem þarfnast hjálpar, hér mun Gary kenna honum að bjarga sér, í gegnum hefðir og siði indjána.

Núna er ég að fara út að klára að mála kanúinn minn svartann. Við veiddum engan elg í gær, en sáum fullt af öndum. Það eru um það bil 5 bjórahús hér við ána.

Á leiðinni til Winnipeg sá ég Bald Eagel í návígi ásamt krumma nokkrum þar sem þeir voru að gæða sér á gæs, bara si svona beint á veginum. Þessi örn er mikilfenglegur fugl. Ef við veiðum ekki elg, þá mun vera keyptur eitt stykki vísundur fyrir veturinn. Þá þurfum við að vinna hann allan, flá hann og vinna kjötið.

Síðan ég kom til Kanada, þá hef ég t.d. lært að: Kveikja almennilegann eld, ég kann á utanborðsmótor og hvernig á að stýra. Ég er að læra á kanú, sem er frekar erfitt þegar það blæs vindur á móti, þá bara rær maður á sama stað endalaust. Einnig er ég búin að læra að slaka á! Bara nota tímann, nógur tími segir indjáninn sem hér býr, og Illugaskotta hlustar á það og vinnur sitt. Ég að ég myndi nú seint læra að slaka á, kannski mun ég einn daginn læra eitthvað fleira sem mun koma mér til góðs. Núna hlær Illugaskotta draugslegum hlátri.

Bestu kveðjur heim,,,,stundum vildi ég að þið gætuð séð hvað ég er að bjástra hérna.

mánudagur, september 26, 2005

Þegar ég sé að það er hríð, frost, vindur, kallt og andstyggilegt á Íslandi, verð ég enn þá kátari að vera í flatasta landi jarðarinnar. Hér er 19 stiga hiti, fallegir haustlitir, og alltaf nóg að gera.

Var að klára að mála einn kanó svartann sem ég nota hvað mest. Bjórarnir eru farnir að saga niður tré eins og brjálaðir séu. Það segir okkur að veturinn hér verður ægilega langur, kaldur og erfiður. En hvað um það. Illugaskotta er öll að hressast af ofnæminu, en þessar flugur elta mig eins og ég sé rjómaklessa með jarðarberjasultu.

Ætlaði að njóta góða veðursins áðan við ána, en hljóp inn, þær sugu og bitu drauginn sem brjálaðar væru. Dagarnir líða hratt við útistörf, jurta söfnun, báta siglingar, könnunarleiðangra, elgsveiðar á hverju kvöldi. Við siglum upp ána með þrjár gerðir af byssum, ég stýri bátnum. Býðum eftir elg, en já þeir láta ekki sjá sig.

Er að fara að veiða elg núna verð að drífa mig út. Bestu kveðjur til frostsins og ykkar allra.