laugardagur, júlí 31, 2004

Ég mun geta fallegað barnið mitt, ekki góð íslenska,  en vildi einmitt segja þetta svona. Las, krotaði í og sá hvað ég hef skrifað viðurstyggilega fljótfærnislega og lélega ritgerð. Enda vissi ég ekkert í minn haus í vetur, nema að ég vildi skrifa eitthvað um fornar útskýringar á náttúrunni. Ég veit núna hvernig draugar eiga að skrifa ritgerð á vitsmunalegann hátt!

Rok úti en þægilegt veður, það myndi ég segja. Í dag ætla ég að gera eitthvað skemmtilegt. Hvað ætti það að vera? Humm klifra eitthvað? Skoða eitthvað nýtt? Lesa bækur? Lesa greinar? Bora í nefið? Hugsa um allt það sem lætur mig hlæja? Stökkva í sjóinn og sjá hvað ég get synt langt án þess að krókna?
 
Illugaskotta fer allavegana í sinn vanalega göngutúr og í sund, því það er besta byrjun á degi sem til er í augnablikinu.

Er bara að vakna, það er rok inni í herberginu mínu og það lætur mig sofa endalaust.

Ferðalög, sjoppur, bensín, pylsur, franskar, hamborgarar, fellihýsi, tjaldvagnar, kók, rauður litur, stuð og gaman. Þannig sér maður einhvern vegin geðveikina fyrir sér sem fylgir þessum íslensku ferðalögum þjóðvegs númer eitt. Það yrði mesta pynting í heimi fyrir Illugaskottu að vera neydd í ferðalag með fellihýsi í afturdragi. Svo þyrfti hún að kaupa rautt eitthvað, borða pylsur og drekka kók og versla við Essó því þá gætu þau öll sem væru með henni í bílnum t.d. kall og börn látið stimpla einhverja geðveiki í vegabréfið sitt sem Essó gefur út, svo maður geti verið enn þá stressaðri í ferðalaginu. "Má alls ekki gleyma að láta stimpla krakkar í vegabréfið, annars fáum við ekki pylsu og kók og rautt."

Ég segi rautt, því það virðist vera hinn fjörugi litur og hamingja og stuð.
 

föstudagur, júlí 30, 2004

Illugaskottu verkjar í handleggina og það er frábært, það eru strengir. Hjólaði loksins allan Óshringinn, þvílíkt falleg leið, og óð yfir á sem var hressandi. Á leiðinni inn á Hólmavík stoppaði ég til þess að skoða grjót við veginn, þetta eru svokölluð hvalbök, en þar hefur skriðjökull runnið á ísöld. Flottar rispur í þessum klöppum sem sýna mjög vel stefnu skriðjökulsins. Þetta var gaman að sjá, einnig hef ég skoðað gilið þar sem surtarbrandurinn er, það er einnig áhugavert að skoða. Veit hins vegar ekki hve gamalt það er, einhver sagði frá Tertíertímabilinu, en það segir Illugaskottu ekki neitt!. Fór svo í sund og synti nokkra metra, sem var enn þá betra.

Loksins er verið að vinna almennilega í lóðinni fyrir framan Galdrasýninguna. En gámurinn ógurlegi öskrar en við hliðana ásýningunni.

Bráðum verður haldið upp á eins árs afmæli gámsins af starfsfólki Galdrasýningarinnar og þá verður eigendum gámsins gefin kaka í tilefni dagsins!!!.

Hlýtt í veðri, en frekar skýjað, er að fara smá út á Galdrasýningu að taka á móti hóp með Sigga og Skúla, svo í að lesa hörmungina mína, ljóta barnið mitt sem skal taka útlitsbreytingum (ritgerðin fyrir þá sem ekki vita)....

Þar til næst,,,túddelídú....Húbba!!!  Eins og Gormur í Sval og Val bókunum myndi segja.

 

fimmtudagur, júlí 29, 2004

Nú er Verslunnarmannahelgin byrjuð og ég verð á Ströndum um helgina að bardúsa og spá, í ritgerðina.

Hef fátt að segja það verð ég að segja. Lífið hér er einfallt  og gott.  Hef hitt mikið af fólki í sumar sem ég hitti venjulega ekki.

Held það verði gott veður um helgina.

Heyrumst.

miðvikudagur, júlí 28, 2004

Í gær réðst Tjaldur á Illugaskottu þegar hún var í sínum daglega göngutúr...heyrði barasta eitthvað skrítið hljóð bakvið mig og svo viti menn,,,brjálaður  Tjaldur.

Fuglalífið er auðugt og skemmtilegt hér á Ströndum. Manga hrafn er orðinn hinn besti flughrafn en Imba situr á jörðinni og grætur,,vælir og vorkennir sér. Í dag sat hún hjá mér á bekknum og kvartaði sárann, ég klappaði henni og strauk,  og þá þagði hún og lyngdi aftur augunum. En þegar ég hætti og fór að tala við fólk eða lesa bókina mína, þá pikkaði hún fast í hendina á mér.

Svo horfði hún öfundaraugum á systur sína sem brýst og þýtur um loftin blá.

Er farin á Kaffi Riis að fá mér flatböku....

þriðjudagur, júlí 27, 2004

Ég er komin aftur heim á Strandir eftir frábært ferðalag. Það var nú ljúft að renna í hlað á honum Gamla- Rauð.

Illugaskotta fór sem sagt í langt og gott ferðalag. Fór á Húsavík, Mývatnssveit, Jökulsárgljúfur og svo á hálendið, en ákvað að renna í Kverkfjöll. Kom svo við í Hvannalindum á leiðinni heim. Þar hitti ég Guðmund og Elísabetu. Við gengum að rústunum og ég heilsaði upp á Eyvind og Höllu. Ég hitti einnig margt fleira gott og frábært fólk, hitti einnig einn draug.

Hálendið skartaði sínu fegursta: Kverkfjöllin, Kistufell, Trölladyngja, Dyngjufjöll, Kollóttadyngja, Herðubreið, Bræðrafell og Eggert. Þetta eru hin skemmtilegustu fjöll.

Það var mjög hvasst hérna í morgun.

Nú er ég komin heim, sat á tröppunum á húsinu mínu ásamt hröfnunum. Við vorum að hvíla okkur eftir vinnu. Vantaði bara eitthvað gott að drekka handa okkur þremur.