fimmtudagur, febrúar 26, 2004

Veðrið hér í Austur-Húnavatnssýslu er eins og á falskasta póstkorti. Það er logn, frost og sól!!! Þetta er að gera mig brjálaða að hanga hér inni og vinna, jamm Illugaskotta er að vinna með heilanum. Göngutúrinn í morgun var góður, sá spor eftir alls kyns dýr og líklega skrímsli líka, því ég var ekkert að átta mig á nokkrum förum hér í fölinni.

Sólin var að rýsa úr rekkju þegar Illugaskotta drattaðist upp á miðholtið eins og það er kallað, þá komst sólin loks upp fyrir Langadalsfjallið sem er fjallið mitt. Þekki hverja sprungu og hvern stein eins og klár bóndi myndi segja.

Glúmur galdraköttur verður fyrir stanslausu áreiti þegar ég er hér, hann fær ekki að sofa, ég er stanslaust að tala við hann, klípa hann og knúsa hann, enda malar hann alltaf þannig að hann vill þetta.

Ætlaði að ræða eitthvað ógnar spennandi en það er horfið úr minum litla heila sem vill einungis fara út, og út í góða veðrið. Illugaskotta fer ekki í hesthúsin núna því þá væri hún bara þar allan daginn að ríða út og eitthvað annað að brasa.

Mýs, rottur, minkur, refur, hreindýr, uglur, hummmm okkar dýralíf hér á landi er ekki svo spennandi. Okkur vantar uppáhaldsdýrið mitt sem er bjór, þeir eru klárir. Þeir byggja sér hús og gera stífflur. Svo naga þeir niður tré, éta af þeim börkinn og naga svo af þeim greinarnar, draga með heim. Og leggja í bleyti, sum tré eru eitruð fyrir bjóra en þeir vita nákvæmlega hvað hvert tré þarf að liggja lengi í bleyti svo það sé orðið afeitrað.

Ég sakna indíánanna vina minna í Canödu og nokkurra annarra þarna í Canödu...svona er lífið, ekki allt tekið út með sældinni, ha!!!! Ég veit ekkert hvað ég mun gera í sumar, kannski barasta ekki neitt. Liggja með tær upp í loft á sólarströnd með öðrum bjánum. Hvernig væri það???!!!! HUMMMMMM ætla að huxa þessa huxun til enda. Sólar kveðjur frá Húnaflóanum og öllum þeim skrímslum sem þar búa.

miðvikudagur, febrúar 25, 2004

Góðan daginn!!!!!. Hér fyrir norðan muggar hann, það er snjómugga á ferðinni, þétt snjókoma, en hlýtt úti. Fór í minn göngutúr sem varir um það bil í 45 mínútur, um hollt og hæðir hér við Húnaflóann.

Þegar ég kom svo heim þá sá ég sundurtættan fugl fyrir neðan svefnherbergisgluggann hjá mömmu og pabba, þetta hafði að ég held Glúmur galdraköttur gert, en ég er ekki viss, því þessi fugl var ekki þarna þegar Illugaskotta lagði af staði í göngutúrinn í morgun. Kannski er þetta óvinur Glúms sem vill láta skamma hann fyrir dráp á fuglum. Humm Illugaskottu finnst það líklegri tilgáta, því hann Glúmur galdraköttur er nú maður í álögum.

Var að hugsa margt og mikið í mínum göngutúr. Þar á meðal um fólk sem er bara neikvætt, hef hitt á stuttum tíma tvær mjög svo neikvæðar manneskjur. Þær tala um ýmsa hluti en aldrei með bros á vör það sem kemur út úr þeirra neikvæða huga og veltist um á þeirra neikvæðu tungu er: fúllt, ömurlegt, leiðinlegt, asnalegt eða alveg ómögulegt. Hvernig er hægt að vera svona leiðinlegur??

Illugaskotta reyndi fyrst að koma með tillögur eða ráð, en það var alveg glatað. Á endanum fékk Illugaskotta alveg nóg af einni manneskjunni og sagði við hana að hún væri bjargarlaus og vonlaus!!!! Því það var farið að losna um skapið hjá Skottunni þegar allt sem hún sagði var alveg glatað. Maður á ekki að eyða tíma sínum á svona lið.

Illugaskotta hefur kenningu um neikvætt fólk. Þetta fólk er svo leiðinlegt að það verður veikt af leiðindum. Pælið í því, ef maður er jákvæður þá ganga hlutirnir betur bæði líkamlega og andlega.

Og hana nú sagði hænan og velti sér á bakið!!!

þriðjudagur, febrúar 24, 2004

Illugaskotta getur ekki hætt að bloggast!! Það er svo gott að blogga, einhvern vegin að skrifa í burtu það sem hefur verið að gerast og allt það. Hér við Húnaflóann er best að sofa, ég svaf með opinn gluggann, og vafði mig inn í sængina ásamt því að hafa kaldan norðan gustinn hvæsandi upp við eyrað á mér. Það var þægilegt.

Vaknað snemma í morgun, fór í klukkustundar göngutúr, og hef verið að vinna í allan dag, ásamt því að tala við Glúm sem er galdraköttur. Hann sefur á skrifborðinu hjá mér og talar og talar um allt það sem hefur á daga hans drifið síðan ég sá hann seinast. Hann sefur einna mest , fer af og til í göngutúra, og drepur fugla og mýs þegar honum líður þannig. Annars er hann með þrjár bjöllur á sér, og Illugaskotta hreinlega skilur ekki hversu klókur veiðiköttur þetta er. Þess vegna er hann galdrakötturinn minn........

Kveðja í turninn og til rottunnar minnar, sem ég hef mikið gaman af.

mánudagur, febrúar 23, 2004

Í dag gerði Íllugaskotta margt skemmtilegt, en hún nennir ekki að telja það upp, dagurinn var góður og það er nóg að punkta niður.

Hún sagði loksins einum vini sínum eitt lítið leyndarmál, sem hefur verið stórt leyndarmál í langan tíma. Skrítið hvernig leyndarmál virka, þau virka stór og mikil en þegar þau hætta að vera leyndarmál og breytast í almannamál þá minnka þau og hverfa í gleymskunnar dá.

Illugakotta hefur átt við það vonda vandamál að stríða núna að vera með illræmda ritstíflu sem er farin að hafa áhrif á allt hennar líf, þannig að nú er hún að pakka sér saman í ferðalag sem liggur norður og niður. Þar mun hún grafa sig lifandi á lifandi stað með dauðum bókum og garfa í sjálfri sér og sínum hugmyndum, koma einhverjum andskotanum á blað og halda verkinu áfram. Því ekkert mun gerast ef hún byrjar ekki að skrifa.

Óskin er að komast sem fyrst út til Canödu, komast til Indlands, Bangladesh því þar búa góðir vinir draugsins í turninum.

Eftir að Illugskotta kom heim til landsins bláa þá hafa margar hugsanir leitað á hana. T.d hvort hún eigi eitthvað að vera að ferðast framar. Því hún eignast vini í útlandinu, góða vini sem hún mun kannski aldrei sjá aftur og það er svo erfitt að hugsa um.

Á maður ekki bara að andskotast í það að kaupa einhverja íbúð og hola sér það niður???? Æji ég veit það ekki, langar ekki íbúð, mig langar í jörð, með fjalli og fjöru, túnum, draugum, skeljum, tófum, mórum, spóum, kríum, gróðurhús, pott, hesta, snjósleða, bókasafn, æji nú verð ég að hætta.

Núna er klukkan að verða eitt um nótt, mig langar í bréf frá Indíána í Canödu, en hann er einhvers staðar úti að leika sér. Farin í það að pakka. Ég ætla rétt að vona að ég fari að geta skrifað eitthvað, því annars verð ég eilífðar stúdent og það er viðbjóðslega hugsun!!!!!

Eitt smá kvæði hérna handa ykkur eftir hann Ólaf Jónsson, veit ekki hvenær ég skrifa næst.

Fjöllin blá.

Fylgdu mér á fjöllin blá,
fram til efstu tinda!
Þar sem breiðum fanna frá
fellur mórauð jökulsá.
Bjartar jökulbungur gljá.
Blása svipir vinda
Svanir á vötnum synda.




sunnudagur, febrúar 22, 2004

Það búa kátir starra vinir fyrir utan gluggann minn. Núna sitja þeir þrír hér á handriðinu og garga upp fyrir sig á hina starrana sem sitja hærra en þeir. Ég held að þessir þrír séu unglingar með viðhorf. Núna stara þeir út á Seltjarnarnes. Þeim er kallt eru allir úfnir, en syngja og kúra sig saman. Nú flugu þeir á brott.

Illugaskotta gæti fengið óvænta gjöf frá þeim einn daginn, sú gjöf eitir fló, og þá verður ekki flóarfriður fyrir þeirri bévítans fló.

Gærkveldið var eins skemmtilegt og föstudagskvöldið var leiðinlegt. Ég fór á tónleika með söngkonunni Marie Boine sem er Sami, hún notar jojokið sem er söngaðferð Sama ásamt því að blanda saman við það, trommum frá suður-ameríku, flautum, venjulegum trommmum, handartrommum, bassa, gítar, og gítar sem er spilað á með fiðluboga. Þessar samsetningar voru frábærar og tónleikarnir voru göldrum líkastir. Þessi kona er með magnaða rödd, sem syngur söngva frá fornri menningu. Ég og samferðafólk mitt langaði helst ekkert til að sitja þarna kyrr í í salnum, okkur langaði að hoppa og dansa. Oddur strákurinn hennar Önnu Fanneyjar var alveg að springa úr dansi, og hoppaði upp og niður í sætinu.

Nú flauta starrarnir alveg ægilega, kannski sáu þeir sæta starra stelpu.

Það sem gerðist meir var að ljósmyndari Morgunblaðsins vildi endilega taka mynd af okkur ásamt tveimur kunningja konum Önnu Fanneyjar, það var fyndið, en kannski var þetta ljósmyndari Séð og Heyrts sem kynnti sig sem ljósmyndara Morgunblaðisins það er ekki fyndið. Ó nei, Illugaskotta vill ekki birtast í Séð og heyrt!

En það besta við þessa tónleika var að þegar þeir voru búnir og við sátum og biðum eftir að allir kæmu sér út úr salnum, þá sáum við söngkonuna koma aftur fram. Hún var að tala við einhverja æsta aðdáendur. Illugaskotta komst til hennar ásamt öðrum aðdáenda og bað hana um að taka í hendina á Oddi, sem hefði verið svo hrifinn af söngnum hennar. Þetta gerði söngkonan og Oddur sveif í himnagleði út í myrkrið, með tvær konur sér við hlið.