föstudagur, janúar 30, 2004

Ég Húnvetningurinn sjálfur ætti að skammast mín þar sem ég hef lítið sem ekkert skoðað af Skaganum sjálfum sem er fullur af merkilegum fyrirbærum, sögum og þjóðtrú.

Óvíða er jafn mikið um álagabletti, tjarnir, þúfur og steina og á Skaganum. Gullsteinn heitir mikið bjarg norður frá Nesvatni. Sú sögn fylgir þessi bjargi að þar sé falinn fjársjóður en munu þeir einir geta velt steininum sem eru fæddir þríburar í Kelduvík og aldir á kaplamjólk fyrstu 12 árin. Fyrir þá sem ekki vita, þá er kapla mjólk merarmjólk og sögð einna líkust mannamjólk.

Árið 1909 lennti bóndinn í Ketu í átökum við skrímsli við Skálavatn. Bóndinn hafði lagt sig til svefns í Fölskubrekku, sem er brekka vestur frá vatninu. Nú dreymir bónda að óvættur sæki að sér, grípi á fæturna á honum og reyni að draga hann í vatnið. Bóndi vaknaði í stimpingunum og var hann þá kominn fram á vatnsbakann og verkjaði mjög í fæturna. Þar var hann heppinn bóndinn sá.

Farin að gleypa í mig fleiri fræði og tryllast enn þá meir.

Það væri gaman að fara á Strandir á þorrablót. Mun pæla í því Snúlla.
Kuldaboli býr fyrir utan hjá mér. Fínasta veður hér fyrir norðan. Dreymdi svo súran draum að ég ætla bara að setja smá bút hér inn frá honum.

Hross nokkurt var í þessum draum, en það talaði mannamál. Þetta hross var með skreytingu inn í kjaftinum sem var einhvern vegin fest upp í nefið! Jæja sem sagt var að festa þessa skreytingu í hross greyið sem stóð gapandi og stynjandi á meðan ég bjástraði í kjaftinum á því. Þetta voru silfurskeiðar. Þóttist vera búin með verkið, snéri mér við í annað súrt verk í þessum draum, en þá fór hrossið að hósta og ég heyrði köfnunarhljóð úr því.

Snéri mér við, jú, ein skeiðin hafði losnað og sat föst í kokinu á hrossinu, á þverveginn. Ég æddi með hendina ofan í kokið á hrossinu og eftir mikið streð þá náði ég að losa skeiðina og festi hana betur í þessa furður skreytingu.

Ég er svo aldeilis hissa. Draumar og ég, eigum vel saman.

Ekkert markvert annað, Fannar bróðir og Hugrún koma í dag í helgarfrí. Hér er éljagangur, ég pínist hér með mína ritstíflu, sem er ekki skemmtileg, en held þó áfram að puða.

fimmtudagur, janúar 29, 2004

Tröll og aðrar vættir eru skemmtilegar verur. Margt af orðum í íslenskri tungu hafa komið frá þeim, má þá nefna orðið að tryllast.

Menn voru sagðir tryllast þegar tröll voru búin að ná þeim til sín og þegar þessi menn eða konur fóru að taka á sig tröllsmynd. Að lokum þegar þessar mennsku verur voru endalega orðnar trylltar þá voru þær farnar að afneita guði sínum og taka átrúnað á trunt trunt og tröllin í fjöllunum.

Nú tryllist ég!!!
Ég sef eins og steinn, enda öskrar vindurinn hér úti og ruggar mér í svefn. Það er frábært þetta myrkur og þessi vindur er enn þá betri. Glúmur galdraköttur vill alls ekki vakna eins og ég, hann rétt stekkur út fyrir landareignina til þess að gera sín skítverk og svo stekkur hann inn aftur.

Húnaflóinn er úfinn, það er éljagangur og ég sé ekki Strandafjöllin sem eru hin mesta prýði þegar það er gott veður.

Fimmtudagur í dag, ég er að fara að lesa í gegnum alla bókastaflann minn. Sú bók sem ég er að lesa mér núna til skemmtunar heitir "Kajak drekkhlaðinn af draugum". Þjóðsögur frá Inúítum frá Grænlandi og Canödu, þessi bók er frábær.

Bestu kveðjur frá Björk

miðvikudagur, janúar 28, 2004

Illugaskotta er andsetin af flensudraugnum ógurlega sem hefur heltekið hana af lífi og sál. Ég berst um á hæl og hnakka og mun sigra þetta auma en lúmska gerpi.

Ég fékk bókina Strandanornir í jólagjöf í gær, kláraði hana bara núna fyrir 10 mínútum síðan. Þessi bók er hin mesta skemmtun. Hló alveg ógurlega mikið og fannst textinn skemmtilega byggður upp, þar sem mikið var um galdra og skemmtilegt umhverfi.

Glúmur köttur og maður í álögum, liggur og sefur alla daga, hann þolir ekki þennan kulda. Vælir á mig þegar ég er að reyna að vekja hann. Hann vill liggja í vetrardvala. Hann verður samt settur upp í hesthús bráðlega þegar frostið minnkar, til þess að fara á músaveiðar. Pabbi þolir ekki þegar hann er að gefa og það skoppa kátar mýs út úr heyinu. Viðbjóður segi ég nú bara, þessar pissu mýs.

þriðjudagur, janúar 27, 2004

Sælt veri fólkið. Ég var fjóra tíma norður því ég talaði svo mikið í símann, og það var ógnar hálka á sumun stöðunum.

Póstfjallið sem beið eftir mér var ægilegt, og að taka sig til og opna þetta allt var klikkun. Enda var þetta að mestu leyti póstur frá einhverjum BT banka,,,og Landsbankanum og já bullið maður. En er búin að útretta allt í dag. Ég reif upp hvert umslagið á fætur öðru eins og brjálaður krakki við jólatré, meira en helmingur alls þessa pósts er kominn í ruslið.

Úti á landi tekur þetta enga stund. Maður þarf ekki að sýna skírteini, því það þekkja mann allir. Tryggingar, pósthúsið og bankinn bara tók eina klukkustund að græja allt og annað. Þjónustan er meira en fyrsta flokks, hún er persónuleg og það er ekki hægt að verðleggja.

Nú get ég horfið á ný eitthvert út í buskann.

Ég sakna vina minna í Kanödu.

mánudagur, janúar 26, 2004

Nú er ég farin frá turninum, Sigga Atla og rottunni. Ég er farin norður og niður, en áður en það gerist þá fer ég í Bónus að gera alsherjar innkaup fyrir heimilið fyrir norðan, svo fer ég í besta kaffi sunnan heiða hjá vinkonu minni og svo verður brunað af stað norður.

Muna að athuga olíuna!!!! Allt er tilbúið, tónlistin, ég sjálf þó aðallega, tek með sundföt og svefnpoka. Ætla að kíkja aftur á Grettislaug, en gleyma sundfötunum fyrir þá laug, hann Grettir býr í lauginni það get ég sagt ykkur. Þvílíka snilldin þessi laug.

Rakst á frábært kort í haust á bensínstöðinni á Blönduósi, þetta kort heitir;
Gönguleiðir í Austur-Húnavatnssýslu og Skagafirði.. Þarna eru gönguleiðir merktar inn, eyðibýli og ártal sem segir hvenær það fór í eyði, GPS punktar.

Það sem mér finnst hvað best við þetta kort er að það eru upplýsingar um staðina aftan á kortinu, hvernig þessir staðir koma inn í söguna, hvers lags náttúrugæði eru þarna og svo fram vegis. T.D. sagt frá Spánverjadrápunum sem tengjast Spánskunöf á Skaga.

Sagan segir að á þessum stað hafi spænskir sjóræningjar gengið á land og stefnt að prestsetrinu á Höskuldsstöðum. Prestur safnaði saman mönnum og stóðhrossum, lét binda hrísklyfjar á þau og kveikja í klyfjunum. Síðan keyrðu menn stóðið með miklum látum á móti Spánverjunum og féllu sumir þeirra á melunum en aðrir hröpuðu fram af björgunu. Af atburðum þessum er nafnið dregið

Mun rita meira næst um mína sýslu hér á þetta blogg.

sunnudagur, janúar 25, 2004

Fuglar á ferð og flugi um bíótjaldið ásamt snilldartónlist, þetta er mynd sem er vert að sjá. Upp vöknuðu alls kyns spurningar um fugla. Einnig var lítið talað í myndinni,,,,sem var það besta.

Áhorfendur hlógu, gripu andann á lofti, og lokuðu augunum,,,minn bíófélagi hann tók oft fyrir augun þegar eitthvað var að koma fyrir fuglana, t.d. þegar þeir voru skotnir niður og þess háttar. Raunveruleiki fugla,,,,hann er einnig settur fram,,ekki bara dúllu fuglar,,,,allt fallegt,gott, sætt og dúllulegt, nehey!!!!

Ég hef mikið velt fyrir mér hvað gæsirnar á Háskólatúninu eru að tala um, og einnig því hvernig fuglar skipta um stöðu í oddaflugi.

Hvað segja þeir? Segja þeir bara:" Hey núna þú fremst að brjóta loftið því ég get ekki meir, næsti"?

Núna bættust við fleiri spurningar.....

Tónlistin er þess virði að kaupa. Eitt sem skyggði á var að myndin var í litlum sal, sem er fáranlegt því umhverfið sem fuglarnir eru í er gjörsamlega stórkostlegt og einnig eru þessi fuglar stórkostlegir. Í þessari mynd er farið út um allan heim. Krían er sigurvegari í langflugi, hún flýgur 20 þúsund kílómetra á sínu flakki.

Frönsk kvikmyndahátið er svöl......allir að kíkja á eitthvað sniðugt þar,,,

Þessa mynd ætla ég að kaupa.
sunnudagur til sudda

gaf öndum, gæsum og álftum brauð í dag, það var gaman.

þessi dýr eru fyndin, dugleg að láta mata sig og sniðug að lifa góðu lífi í Reykjavík.

Sá frænkur mínar tvær, önnur er stór og hin er lítil

Er svo á leið núna á franska mynd um fugla heimsins. Já ég er fuglaáhugastelpa. Víst algjör snilld þessi fuglamynd, sá sýnt úr henni í sjónvarpinu í gær.

Át fjórar ristaðar brauðsneiðar með rifsberjasultu og skyri, drakk danskan bjór með.

"Im að complete nutter", hver sagði þessa setningu fyrir framan 20 manns án þess að blikna og hvenær var þetta sagt???? þeir sem vita svarið fá fría leiðsögn niður á tjörn og brauð til að gefa öndun, gæsum, álftum og dúfum.