miðvikudagur, nóvember 09, 2005

Fyrsti snjórinn féll í nótt. Illugaskotta er kát og það er aftur farið að snjóa. Var ekkert ofsa hress á mánudaginn en allt tekur enda. Tré féllu í gær á veginn, símalínann fór í sundur og allir voru hressir með það.

Var í gærkveldi í Winnipeg á líkvöku. Það er skrítið, þá koma allir saman í kapellu. Þar er gospel söngur, matur, fólk talar saman, hlær og allt annað. Tók okkur 4 tíma að keyra heim, í stað 2 1/2. Vegurinn var slæmur, slabb og þykkur snjór. Keyrði alla leiðina til Pine Falls var þá algjörlega komin með nóg að keyra á 50 km hraða, renna til og frá og reyna að halda sér inni á veginum.

Margt hefur breyst í kollinum á mér, umbreytingar stórar og einnig á mínum verkefnum. Nú er einn höfundur bókarinnar fallinn frá, en sem betur fer tókst mér að taka eitt langt viðtal við hann um þá hluti sem við erum mest að tala um.

Fyrir viku síðan þegar ég var að keyra til Pine Falls, ákvað ég að stoppa hjá húsinu hennar Elísabetar og stíflunni hennar. En vitið þið hvað!? Það var búið að rífa húsið hennar í sundur, og einnig stífluna hennar. Greyið var syndandi um þarna, í kringum sitt sprungna hús og með allan matinn sinn fyrir veturinn allt í kringum sig. Greinar og börk. Ég spurði Gary hvað hefði gerst. Hann sagði að Highway Manitoba hefði líklega sprengt húsið með dínamíti og rifið stífluna í sundur með gröfu. Í stað þess að veiða bjórinn lifandi og hans fjölskyldumeðlimi og færa þá langt inn í sveit, ákváðu þeir að sprengja allt í tætlur. Þetta er þeirra náttúruvernd sagði Gary.

Nú er komin vetur, og ég sá einn bjór synda um í gærdag við sprungna húsið sitt, þetta er ekki gott. En þeir segja að vatnið sem bjórarnir stífla skemmi veginn,,,veit ekkert um það. En mun setja inn myndir af öllu í tætlum bráðum. Nú mun Elísabet annað hvort frjósa í hel eða hún fer og biður aðra bjóra um náð. Hún þarf að vinna sér inn rétt hjá þeim að meiga flytja inn. Svo ef hún er dugleg sem allir bjórar eru þá leyfa þeir henni brátt að flytja inn.

Inni í bjórahúsum er eitt stórt herbergi og svo á hver og einn bjór sína litlu eða stóru holu til að sofa í, merkilegra og merkilegra dýr finnst mér alltaf.

Bestu kv Björk

þriðjudagur, nóvember 08, 2005

Illugaskotta er mjög leið í dag en einnig glöð í hjarta sínu. Einhvern vegin er Illugaskotta gráti og hlátri nær. Ég komst enn og aftur nær því að dauðinn er ekki það versta í þessum heimi. Það er svo margt annað verra enn dauðinn. Lygar, svik, afbrýðissemi, undirferli, reiði, gremja, frekja, afskiptasemi og neikvæðni eru t.d fyrirbæri sem mér persónulega finnast verri en dauðinn.

Litla hjarta draugsins er leitt og smá kátt vegna þess að Raymond bróðir hans Garys, dó í dag, þann 7 nóvember. Hann Raymond er einn sterkasti maður sem ég hef kynnst. Hann mátti þola margt áður en hann komst yfir í "spirit world" eins og frumbyggjarnir segja hérna. Hann var blindur, búinn að missa báða fæturna og annan handlegginn, en alltaf var hann kátur, stríðinn og tilbúinn að ræða heimsins mál. Illugaskotta er leið vegna þess að hún saknar hans og þess að hlusta á þá visku sem í honum bjó, en hún er einnig létt í hjarta sínu vegna þess að hann er frjáls undan þeim líkamlegu þjáningum sem hann mátti ganga í gegnum dagsdaglega. Þótt ég þekkti hann ekki áður en missti útlimi og sjón þá sá ég hann aldrei sem fatlaðann mann.

Ég sá Raymond alltaf sem heilbrygða, sterka og fallega persónu.

Dagurinn í dag hefur farið í það að vera í kringum fólkið hans, fara á einn fund með Gary. Koma svo aftur heim, ná í indjánatjald, reisa það í garðinum hans Raymonds og kveikja eld inni í því. Þessi eldur er heilagur og hann mun loga í fjóra daga og fjórar nætur, sem tákn um þann eld sem bjó í hjarta Raymonds. Jarðarförin verður á laugardaginn.

Kennslan gekk vel í Háskólanum á laugardaginn, ég elska að tala um drauga og galdur, og náði stúdentunum með mér inn í undraheima íslenskrar þjóðtrúar. Það er margt að gera í þessari viku. Mun líklega ekki skrifa aftur fyrr en eftir helgi.

Það er skrítið að vera hérna þegar svona stórir hlutir gerast en þetta er víst líklega hluti af því sem ég þarf að skilja og læra áður en ég get skrifað almennilega um það. Á morgun koma líklega pow wow söngvarar til að syngja við eldinn, og ég ætla að taka þessa söngva upp.

Bestu kveðjur heim á Ísalandið frá smá leiðum draug en einnig létt í hjarta draug.