föstudagur, maí 13, 2005

Föstudagurinn þrettándi,,,,er enn í Reykjavík. Bílinn er blindfullur af bónusvörum, drasli, og töskum sem ég á og svo á eftir að troða dótinu hennar Hugrúnar systur inn, þetta lítur út eins og tveir sveitarvargar séu algjörlega að flytja í burtu úr borginni, sem við erum að gera. Þarf aðeins að koma við á einum sveitabæ því ég get ekki látið neinn sveitavarg vera sem ég þekki.

Ég horfði á kassana mína um daginn þar sem þeir eru í geymslu, hugsaði um hvort ég myndi nokkuð taka eftir því ef þeir myndu hverfa!,,,þetta eru bækur, og fleiri bækur...dröslast með þetta drasl nenni ekki að hugsa um það. Illugaskotta er fíkill á tvennt...kaffi og bækur, hún á svo erfitt með sig í bókabúðum að það er hlægilegt. Það að kaupa bók gefur henni dóp í æðar sem hvergi er hægt að nálgast nema í bókabúðinni.

Kaffið er gott. Er búin að dvelja á Dunhaganum hjá henni Iðunni sem var frábært. Takk Iðunn fyrir þetta. Ævintýri sumarsins eru að byrja.

Krummi hann er fuglinn minn..

fimmtudagur, maí 12, 2005

Illugaskotta var að tala við vin sinn Manju sem er að vinna að MA ritgerðinni sinni, harði diskurinn í tölvunni hans er ónýtur og ritgerðin hans Manjus er horfin. Kannski getur einhver tölvusnillingur bjargað honum, en ég veit hvernig honum líður. Vona að allt reddist hjá honum, en öll gögnin hans frá rannsókninni hans á Indlandi voru í tölvunni. Hræðilegt ef það er ekki hægt að redda þessu. Þá getur hann vinur minn ekki útskrifast í haust.

Tæknin getur gert komið aftan að manni þegar hún klikkar illilega. Alltaf að vista allt á 3 stöðum segir Eygerður vinkona mín, og ég gerði það. Skila á eftir, þusa í Þjóðarbókhlöðunni, hitta Hugrúnu, hitta ömmu, snúast, ná í Laufey Mattíönu á leikskólann, snúast meir, pakka, hitta Önnu Fanney og Eygerði, pakka meir,,,klikkast brjálast og njóta lífsins...norður.

miðvikudagur, maí 11, 2005

Vorið er minn uppáhaldstími, þá vaknar allt af vetrardvalanum, menn, dýr og gróður. Birtan eykst og allir verða einhvern vegin lífsglaðari. Sá kríuna í gær, sendlinga, sandlóur, grágæsir, margæsir, æðarfugl, stokkendur, hettumáva, veiðibjöllur, skógarþresti, spóa og starra. Það var allt brjálað þar sem ég var í fuglaskoðun.

Ritgerðin kom úr prentun í dag, en vegna þess að Illugaskotta er nákvæm þá fletti hún í gegnum allt, og þá kom í ljós að mistök hefðu verið gerð í þremur eintökum af fimm, þannig að ég gat ekki skilað henni í dag. Hún fer á sinn stað á morgun. Það verður svo margt skemmtilegt að gera í sumar að ég veit varla á hverju ég á að byrja. Yfirgefa Reykjavík á vorin er það besta, hér er ágætt að vera en bara stutt.

Hitti Hugrúnu litlu systur í dag á Laugarveginum þar sem hún var að rogast með stúdentshúfuna sína í poka.

Gera listinn minn er óendanlega langur en það hefur mikið saxast á hann í dag. Þarf að hitta fullt af fólki á morgun, erindast og snúast. Svo er það Húnavatnssýslan um helgina svo er það Strandasýslan. I

llugaskotta er kát vegna þess að hún er frjáls frá ritverkinu ógurlega. Vegna þessa lokakafla þá var framin "rites of passage", eða svona nokkurs konar athöfn sem tekur mann frá einu stigi yfir á annað. Ragga vinkona varð vitni af þessu. Illugaskotta sem sagt skrúfaði pinnan úr tungunni á sér, og mikið er gott að hann er farin alveg eins og ritgerðin. Þessi pinni var settur í tunguna á mér í Glasgow árið 1998 að mig minnir, það var komin tími á breytingar þá eins og nú. Úff hvað það er leiðinlegt að vera andvaka. Er búin að harka mér í gegnum margar vefsíður hjá fólki sem ég hef aldrei hitt, lesa moggann, éta ristað brauð, drekka djús...lesa meir.....andstyggilegt. En þetta er hið svokallaða spennufall.

þriðjudagur, maí 10, 2005

Í kvöld eru eldhúsdagsumræður. Fyrir ári síðan tók Ögmundur Jónasson upp óréttlætið sem tengdist fánamálinu fræga, allt varð brjálað og svo hætti allt að vera brjálað. Illugaskotta er kát yfir því að allt sé hætt að vera brjálað, og hún ætlar að horfa hin rólegasta á eldhúsdagsumræður, og vera voða ánægð með alla þessa þingmenn, hvað er annað hægt? Þeir eru hvort sem er þarna og við kusum þá þangað. Pollýana í mér í dag.

Jákvæðin drepur engan. Í nótt þegar ég fór að sofa þá sá ég blaðsíður, blaðsíður og fleiri blaðsíður sem svifu um í mínum tóma þverhaus. Úfff,,,reyndi að hugsa mig í burtu frá þessu en ekki hægt. Heilinn hélt áfram að stríða mér, segja mér hvað ég ætti að gera í dag, búa til geralista þegar hann átti að vera að hvíla sig. Sussum svei en ég get ekkert tjónkað við þennan heila, enda er ég kleifhugi ímynda ég mér.

Ef ég hefði staðið við orðin um að snerta ekki mitt hár fyrr en ritgerðin væri tilbúin þá væri ég ekki búin að fara í klippingu í heilt ár, en gerði það fyrir mömmu að láta snyrta makkann um jólin, enda var það orðið slæmt. 150 síður, af Goðsögum á stjarnhimni, óendanlegt gæti það líka verið, en punkturinn kemur í dag, sá seinasti.

sunnudagur, maí 08, 2005

Megi Morrinn gleypa mig og alla mína ára. Stress er ekki mitt uppáhalds ástand, en það hefur yfirtekið hug minn, algjörlega. Best að fara í bakaríið og fá sér eitthvað róandi,,,ég gær ruglaði ég orðum, sagði til vínrauðið í staðinn fyrir rauðvínið.

Ekki gott ástand, þess vegna er það bakaríið!,,en ekki Apótekið.