laugardagur, júlí 16, 2005

Jón lærði hefur ekki skilað sér heim í dag, hann var hins vegar á prikinu sínu í gærkveldi. Jón Glói er alveg pirraður og veit ekkert hvernig hann á að haga sér þegar uppáhalds bróðirinn er ekki á svæðinu. Líklega hefur hann Lærði litli fundið galdrabækur í einhverjum giljum hér á Ströndum og er að læra eins hratt og hann getur alla þá galdra sem snúa að hröfnum.

Það rignir núna, át skyr með rjóma í dag, draugurinn varð svo gráðugur að hann fyllti diskinn af rjóma, lét hann drekkja skyrfjallinu..og svo slafraði hann þessu öllu í sig eins og hann hefði aldrei borðað skyr áður. Svo varð draug herfilega illt í maganum, æ mig aumann. Og borðaði ekkert fyrr en í kvöldmatnum. Eftir góðan sundsprett í lauginni sem bætir allt.

Nú er rólegt laugardagskvöld hér á Ströndum, sólin er farin eitthvert annað. Illugaskotta er að klára að lesa bókina Lífsins tré sem er eftir Böðvar Guðmundsson. Góður og fyndinn höfundur hann Böðvar.

föstudagur, júlí 15, 2005

Hálf grillaður draugur situr hér fyrir framan tölvuna. Var að mála úti í Bjarnarfirði í dag, það var svo heitt að draugurinn reif sig úr fötum og hamaðist að vinna. Svo var bakið orðið grillað,,,og hendur..en ekki andlit,,því það var grátt og hvítt af sólarvörn. Draugur gleymdi að húðin hans er svo mikið drasl þegar sólin vill steikja hana.

Það er föstudagur, þokan er að skríða niður hlíðarnar hérna. Illugaskotta mun einnig dvelja úti í Bjarnafirði á morgun.

Eygerður og fjölskylda kom á svæðið í gær, það var gaman að hitta þau öll, og svo komu þau út í Bjarnafjörðinn í dag.

Glói og Lærði litli voru á baksíðu Morgunblaðsins í gær, en Illugaskotta átti myndina.

Bestu sumarkveðjur frá Skottu rottu...ps. Vegurinn upp í Herðubreiðarlindir er að fara í sundur eða í kaf eða bara bæði held ég, Jökulsá á Fjöllum er ekkert lamb að leika sér við.

þriðjudagur, júlí 12, 2005

Ég öskraði á vindinn í morgun, en hann bara hló og hélt áfram að blása inn í hausinn á mér. Hann blæs enn þá og klukkan er að ganga fjögur um dag. Illugaskotta hefur ekki bakað neitt, eða eldað að ráði. Sjónvarpsdagskráin er áhugamál hjá draugnum, sem situr oft með hundshaus yfir kassanum. Svo hefur geralistinn styðst, og núna er ég að byrja að skrifa greinargerð um verkefnið mitt í Kanödu. Það er erfitt að skrifa þessa greinargerð, vegna þess að ég verð að afmarka mig vel.

Í einum sjóði sem ég ætla að sækja um styrk í eru 500 milljónir, fimmhundruð milljónir, bara ef ég fengi svona nokkrar krónur af þessum 500 milljónum þá yrði draugurinn kátur eins og brjálaður bátur.

Það er hins vegar svo margt sem ég á eftir að gera í Kanödu, að ég fæ spenningarhnút í magann!

Núna ætla ég að éta eitthvað og halda svo áfram að pikka og stinga út hugmyndum úr mínum þykka haus inn í mína þunnu tölvu.

sunnudagur, júlí 10, 2005

Hið milda Strandaveður kom í kvöld, við sátum úti á tröppum og drukkum rauðar veigar, á meðan við nutum lognsins í stað roksins ægilega sem hér hefur geisað.

Hef fátt að segja, fylgist lítið með fréttum, drekki mér í alls kyns bókum, tala við ferðamenn,,,sinni herra hröfnum og spái í sjálfa mig. Er egóisti þessa daganna, eða kannski er ég það alla dag? Eldaði kús kús í gær og í dag, merkilegur matur það. Nennti ekki í sund eftir vinnu dag, lagðist strax í mitt bæli og lagði mig.

Keypti moggann í dag, vegna þess að í honum er athyglisverð grein um mann sem er þjóðháttafræðingur plantna, eða ethnobotany. Einmitt hlutur sem Illugaskotta hefur einkar mikinn áhuga á. Vinkona mín kemst sem betur fer á fyrirlestur hans sem verður á miðvikudaginn, þá fæ ég nánari fréttir af þessum frekar áhugaverða manni.

Frí á morgun, hef margt að gera í því. Græja pappíra, pósthúsið, hringja ýmiss símtöl, tína jurtir og rætur, kannski baka brauð og gera þykka súpu úr alls kyns grænmeti. Illugaskotta er hress og dagarnir líða allt of hratt.