föstudagur, júlí 16, 2004

Heyrst hefur til eyrna Illugaskottu að landverðir í Herðubreiðarfriðlandi og Öskju hafi ákveðið á fundi í gær að flagga ekki í hálfa stöng. Þetta er leytt að heyra vegna allra þeirra fórna sem búið er að færa fyrir þennan atburð seinustu tvö sumur.

Flaggað var í hálfa stöng þann 19. júlí 2002 og 2003 vegna þess að þá undirrituðu stjórnvöld viljayfirlýsingu við Alcoa að taka upp samstarf við þá. Þar með var búið að undirrita dauðadóm yfir stóru landsvæði sem fer undir miðlunarlón norðan Vatnajökuls.

Flaggað var í hálfa því við vildum tjá sorg okkar yfir þessum atburði.

Umhverfisstofnun missti vitið og sendi mér hinar og þessar spurningar,ég varð að fá mér lögfræðing til að svara fyrir það afhverju ég flaggaði í hálfa stöng.

Afhverju flagga þau ekki í hálfa stöng? Veit það ekki. Ætla ekki að spyrja þau. Þeirra ákvörðun sem þau þurfa að svara fyrir núna og í náinni framtíð. Ég fæ sting í magann og hjartað yfir því að hugsa til þess að hótanir og kúgun koma í veg fyrir að fólk tjái skoðanir sínar.

Landverðir í Herðubreiðarfriðlandi og Öskju árin 2002 og 2003 voru einu landverðirnir sem hafa tekið þátt í þessum mótmælum. Hinir hafa verið skálaverðir í Kverkfjöllum og Snæfelli, og einstaklingur búsettur í Grágæsardal yfir sumartímann, nafn hans er Völundur.

Ég hugsa oft til Herðubreiðar, Jökulsár á Fjöllum, Dyngjufjalla, Öskju, Ódáðahrauns og svartra sanda. Merkilegt hvað landsvæði geta haft sterk ítök í manni. Kannski fer ég í heimsókn á hálendið í haust?

Ég hugsa líka til landvarðanna sem hafa neitað því að fremja seiðinn.

Hvað eru þau að hugsa?

fimmtudagur, júlí 15, 2004

Manga hrafn sofnaði á öxlinni á mér í dag.

Það er alltaf nóg að gera á Galdrasýningunni, sem er gaman.

Það ringdi eins og það væri hellt úr fötu, sundlaugin er ekki enn þá tilbúin. Ég er að fara eitthvert að tína ilmreyr.

þriðjudagur, júlí 13, 2004

Spánn hér í morgun en kólnaði eftir hádegi. Er búin að vera hörkudugleg að baka fjallagrasabrauð og bollur, húsmóðirin helltist yfir mig. Svo komu gestir Binna, Bjartmar og kærastinn hans. Þau átu og átu, eins og besta úlfahjörð, gerði ofur kaffi fyrir þau. Sýndi þeim galdrasýninguna og svo brunuðu þau út á Krossnes.

Á eftir að tína ilmreyr, birki og hvönn í dag, ætla að redda mér hvannarót því hún er víst allra meina bót, svo þarf ég að lesa margt og mikið.

Vinna á morgun, hrafnarnir stækka ógurlega. Varð bara að setja þessu vísu hér inn eftir hann Kristján Hreinsson skáld.

Núna landsmenn fagnað fá
því Framsókn er að hverfa,
minni verður þjáning þá
hjá þeim sem landið erfa.

Kristján Hreinsson, skáld

Kannski hverfur framsókn, og mikið ósköp er hann Halldór Ásgrímsson leiðinlegur á að hlusta, kraftlaus og ósannfærandi. Hann gjörsamlega ætlar að fórna öllu fyrir það að troða sér í forsætisráðherrastólinn eftirsótta, hann lepur allt upp eftir sjálfstæðismönnum og styður þá í einu og öllu. Furðulegt, afhverju er framsókn til yfir höfuð sem flokkur?
Þeir ættu bara að sameinast sjálfstæðisflokknum og leggja niður þennan hællærislega og afturhaldssama flokk.

Bestu kveðjur frá Illugaskottu sem er alveg orðin snar rugluð á þessu fjölmiðlafrumvarpi sem er að drepa þjóðina úr leiðindum. Leyfið okkur bara að kjósa og hættið þessu þvargi segi ég nú bara við okkar þreyttu ríkisstjórn.

mánudagur, júlí 12, 2004

Er komin á Hólmavík. Ekkert í fréttum. Átti fínasta frí heima á Blönduósi, fór einn daginn með Hugrúnu systur í Laxárdal sem er bakvið Langadalsfjallið. Þaðan erum við ættaðar frá bæ sem heitir Illugastaðir. Flottur dalur sem fáir leggja leið sína í.

Í gær var ég að leika mér á gröfunni hans Stebba frænda og eitthvað að brasa. Horfði svo á fáranlega hryllingsmynd sem heitir" Keðjusagarmorðinginn", þvílíka sláturhúss myndin hún var eitt bull.