laugardagur, febrúar 22, 2003

Ég og Ragga tókum bara fram úr einum bíl og rúðuþurkan fauk af,,,já já ég veit hefði átt að setja nýja áður en ég fór af stað en hún var alveg föst á í Reykjavík, en skakklöppuðumst út úr jeppanum klukkan 22:00 alveg þreyttar, brúmm brúmm, sáum ekkert á leiðinni, myrkrið var svo mikið þegar við vorum að keyra yfir brúnna á Gígju kvísl að það var eins og við værum að keyra úti í geymnum á þessari brú, svart tóm í kringum okkur, eins og að vera í Harry Potter. Myrkur hér er sko myrkur. Veðrið er upp á sitt besta, erum að fara í Skaftafell að labba upp að Svartafossi.

föstudagur, febrúar 21, 2003

Sund í morgun, geggjað veður í dag, svona hljóðlátt veður og hreint, það verður þannig þegar snjóar mikið og það hægist á öllu, allir verða að keyra hægt og allir verða seinir í vinnuna. Hef ekki komist í sund í heila viku og þetta var frelsi...sundperrinn var mættur að góðum vana. Bílinn minn er eins og belja á svelli í svona veðri, allt of léttur að aftan þarf að þyngja hann áður en ég æði út á land seinni partinn.

Smá saga: Kona nokkur frá Akureyri var í útvarpsviðtali á Rás 2, eins og þið vitið þá er oft snjór og hálka á Akureyri og það var verið að spyrja hana út í snjóinn og hálkuna, hún sagði að það væri svo mikil hálka að hún hefði verið eins og og svelja á belli þarna úti á bílnum sínum! Útvarpsmaðurinn byrjaði að hlæja og svo áttaði hún sig og leiðrétti sig, nei hún hefði verið eins og belja á svelli.!

Mynduð þið vilja fara að nota orðið slæki, því það er snilld, slæki þýðir= feitt, ferlíki, hvalur,,,,eða einhver sem er feitur. Þetta er nú meira slækið getur maður sagt t.d. um Gauja litla.

fimmtudagur, febrúar 20, 2003

Eitt sem er gaman af það er að fara á áhugaverða fundi og verða svo massa pirruð á þeim sem eru endalaust að spyrja fyrirlesarann, ég var orðin svo svöng að ég æddi út í miðjum spurningum á þessum fyrirlestri sem ég var á sem var um áhrif stíflna og virkjana á náttúru og mannlíf þeirra sem búa nálægt þeim.
Fimmtudagur,,,,ég er svo aldeilis hissa vikan er næstum því búin og ég er einhvern vegin bara búin að snúast í kringum hugsanir. Ég og Ragga vinkona munum skella okkur í sveitina á milli sanda á morgun, spáin er ekki góð en Öræfin heilla og svo býr vinur okkar þarna sem ætlar að sýna okkur eitthvað sniðugt út um alla sveit. En Öræfin búa yfir mörgum leyndardómum eins og flestar sveitir. Flensan sem helltist í mig í gær fór því ég fór að drekka uppleyst c-vítamín og bruddi verkjalyf eins og mér væri borgað fyrir það, flensan dó en ég lifði.

miðvikudagur, febrúar 19, 2003

8 dagur í kvefi, vildi óska að ég kynni galdraþulu sem lætur kvef fara í rass og rófu. Nú er frábært veður og ég hjólaði í skólann, skildi rauða skrímslið eftir heima. Bílinn minn er svo stór að ég get talað um hann í fermetrum, ætla að flytja í hann og þá þarf ég ekki að borga húsaleigu. Myndin af mér og Röggu er eitthvað klikk og kann ekki að laga þetta. Því allt hverfur þegar ég reyni það, skrítið. Fúlasti tölvufræðikennari heimsins er hérna inni í stofunni, hann vill ekki hafa aðkomu fólk hér inni í tölvuverinu.

þriðjudagur, febrúar 18, 2003

Gott, frábæra fólk,,,ég er búin að kaupa mér jeppa,,,og draumurinn er orðin að veruleika. Ég er svo montin af honum að ég svíf um á einu grænu montskýi....

Var að leika mér í smá torfærum með vini mínum og bílinn bara fer allt,,,þetta er ótrúlegt, nei enda er þetta jeppi.......jibbbbíiiiii...þetta er frelsi en dýrara að reka þetta en litla bitaboxið sem ég átti...
Hérna eru myndir af jeppanum mínum og monthausnum mér og einnig mér og Röggu, sem var með ræpu í gær.
Mynd 1
Mynd 2

mánudagur, febrúar 17, 2003

Spáin hans Jóns vinar míns er svo fyndin að ég verð að setja hana hérna inn, gott fólk þetta er það sem koma skal:

Veðurspá dvergsins fyrir næstu daga og vikur hljóðar svo:
Ekkert verður að veðri og færð verður góð um land allt og lægðirnar fara framhjá lengst fyrir sunnan land. Blómin springa út og fuglar kvaka við raust. Tjaldurinn kemur að Kirkjubóli þann 15. mars og krían kemur tveimur dögum fyrr en venjulega eða þann 8. maí. Sólmyrkvi verður á Raufarhöfn í lok maí en illugaskotta missir af honum af því hún verður að háma í sig mat og drekka sig fulla og gleymir að horfa til himins. Siggi Atla lendir í óveðri þegar hann álpast næst út úr húsi í apríllok til að fara í ríkið. Hálka verður á vegi Arnars og mun hann eiga í vandræðum með ökutæki sitt sem leitar stíft eftir nánum kynnum við umferðarskilti. Sólin ofhitnar og springur í 1000 tætlur í lok júní og jörðin þeytist út af sporbaugnum í kjölfarið og fer aldrei inn á hann aftur. Í lok ágúst rekst jörðin síðan á Júpíter. Allt fer til helvítis.
Veðrið er hressandi þessa dagana, hrisstir upp í manni og gott að reka við því lyktin fýkur í burtu. Dagurinn í gær var snilld, fór í morgunmat til Valdísar, þar var bandarískur morgunmatur á ferðinni, svo fórum við í sund, allt fauk sem fokið gat í Vesturbæjarlauginni nema við því við erum slæki, Kolaportið kom mér á óvart því þar rakst ég á bækur sem ég hef lengi verið að leita að Jónatan Livingston mávur sem er saga um máv sem er alltaf að eltast við draumana sína og svo bók um Skaftafell eftir Þórð Tómasson en þessi bók er biblía þeirra sem hafa verið að vinna í Skaftafelli sem landverðir, þar eru sögur af Einari í Skaftafelli og skessunni, en skessan bjó inni í Morsárdal og var oft að hjálpa Einari í smiðjunni, en talið var að skessan hefði verið mágur Einars sem hafði strokið úr haldi sýslumanns á Kirkjubæjarklaustri, en Einar á að hafa falið mág sinn og komið þeirri sögu af stað að inni í Morsárdal byggi skessa, hitti einnig snilldar pönkara sem höfðu margt merkilegt að segja um samfélagið okkar í dag, svo fórum við að ná í barnið, og skelltum okkur í kaffi til fólksins sem býr við flugvöllinn, ja það var nú kaffi í lagi, og allt fylltist af gestum og allir töluðu og töluðu og einn kúkaði í sig, og margir hlógu. Takk fyrir kaffið griðkona, við Valdís munum taka á þér hús bráðlega aftur. Jæja skelltum okkur svo í keilu, barnið var best í keilu við hinar vorum bara að horfa á hitt fólkið og brjálæðið í keiluhöllinni minnti mig á stresshaug.


Kvef, verð að borða hollt og taka vítamín.