laugardagur, apríl 24, 2004

Hóst, hæsi, hálsbólga, kvef, ég elska þetta helvíti. Snérist um hausinn á sjálfri mér í stress hvirfilvindi í gær. Andskotaðist á Þjóðarbókhlöðunni og önnur leiðindi. Svaf lítið sem ekki neitt vegna brjálaðra hugsana.

Hef setið mikið nálægt einum sem er alveg snarbrjálaður og stundar Þjóðarbókhlöðuna. Hann situr oft við tölvurnar, muldrar við sjálfan sig og oft koma upp setningar og orð sem koma manni til þess að hugsa um það hvort ég sé ekki alveg eins brjáluð og hann. Því ég er líka farin að tala við sjálfan mig.
Ég hef verið að segja:" Djöfull er ömurlegt loft hérna inni". "Nú klikkast ég", og áfram og áfram.

Hann segir muldrandi en þó hátt t.d. "Þetta eru allt helvítis þjófar". "Andskotinn sjálfur, já svona á þetta að vera". Svo grúfir hann sig yfir sína endalausu rannsókn alveg eins og ég. Sat bara og starði á hann fyrst, var að hugsa að það væri nú frábært að vera ekki eins klikkuð og hann, en svo fór hann að tala, alveg eins og ég. Þá runnu tvær grímur á Illugaskottu. Síðurnar urðu 64 í gær þegar ég var að lesa yfir og bæta inn í. Las ekki yfir allt, er að fara að setja myndir inn í dag. Skrifa í kvöld og morgun. Lesa yfir annað kvöld til þess að laga og bæta. Senda í yfirlestur til tveggja vina minna. Skanna inn myndir með Sigga. Laga eftir þeirra gagnrýni og senda til kennarans.

Veit ekki, naga á mér handabökin, hugsa og hrissti hausinn. Afhverju Illugaskotta? Afhverju fattaði hún þessa ritgerð ekki fyrr???? Kannski vegna þess að hún var ekki undir tímapressu? Kannski.

Sólin skríður fram úr skýjum. Vonandi étur úlfurinn hana ekki í dag. Krían kom víst í gær til Hafnar í Hornafirði. Það er gaman.

föstudagur, apríl 23, 2004

Nú er Illugaskotta stressuð!!! Hún á að skila þessari ritgerð fullbúinni þann 10. maí. Ekkert rugl og bull. Alveg innbundinn og allt það. Þetta er ein stress bomba. FARIN á þessa skrattans Þjóðarbókhlöðu til að nota bækur sem má bara alls ekki lána út. Asnalegt, handbækur...

Setja inn myndir á morgun, skrifa um 19. aldar pælingar á sunndaginn, skanna inn myndir á mánudaginn. Lesa yfir, laga og lemja endahnútinn á þetta. Senda í gagnrýni, svo til kennarans. Laga og láta prenta fjögur eintök sem skila skal 10. maí inn á skrifstofu Félagsvísindadeildar...nú er gaman, nú er fjör.

fimmtudagur, apríl 22, 2004

60 síður maður!!! 60 síður af snilld eða bulli? Það er stóra spurningin???? Sumardagurinn fyrsti er búin að vera æði, sól, logn og ótrúlegur hiti. Ég inni, en fór út klukkan 17 í dag. Eftir að hafa hrotið í sófanum í Tæknigarði í klukkutíma.

Veitti áfallahjálp í dag, vini sem ég vissi ekkert hvað ég ætti að segja við. Hlustaði og sagði fátt. Gengum út í vorið, heyrði í hrossagauk hann hneggjaði í vestri. Víst ekki góð spá það, segir þjóðtrúin. Man samt ekki hvað vestur spáin þýðir. Sáum margar feitar æðarkollur, sendlinga, og grágæsirnar vinkonur mínar.

Úff, vona og vil og skal klára þetta þessa ritgerð. Er með hausverk, hjartað er í vinstra heilahveli.
Gleðilegt sumar!

Ég er komin með 54 blaðsíður,,,,,og plús 10 af myndum sem sagt 64 blaðsíður, þetta skal takast, ég gefst aldrei upp. Fór í bíó áðan, fékk boðsmiða á Touching the Void,,sem sagt bókin sem ég var að byrja að lesa, nú þarf ég aldrei að lesa hana. Ótrúleg fjallasaga, mig langar aldrei að vera fótbrotin á fjalli, falla ofan í sprungu og síga lengri ofan í hana, klifra upp úr henni fótbrotin og skríða yfir skriðjökul og stórgrýtis urð með lag með hljómsveitinni Boney M glymjani í höfðinu á mér. En þetta gerði hann Joe, hann skreið í 4 daga, án matar og drykkjar með þetta ömurega lag á heilanum, hann komst þetta áfram með því að setja sér markmið, 20 mínútur þetta og 20 mínútur hitt,,hann komst til félaga sinna. En þeir héldu að hann væri dauður.

Góð bresk mynd um atburði sem áttu sér stað í Suður-Ameríku árið 1988.

Nú sit ég og les og spái og bölva mér að hafa ekki fattað þetta allt fyrr sem ég er að fatta núna. Sendi inn spurningu á stjörnuáhugamannafélag seltjarnarness og það sem svörin hafa dottið inn. Þvílíkt góðir gaurar þar. Hafa verið að svara mér hvaða stjarna Aurvandilstá sé, sem Þór kastaði á himininn. Þetta er sagt vera stjarnan Ríge sem er í Óríon eða Veiðimanninum, Aurvandill er forn íslenskt heiti á Óríon, sá sem gengur um með björtu skini. Aur er birta en vandill er ferðamaður.

Nú er komið nóg, ég er farin að sofa og vakna aftur í þetta.

miðvikudagur, apríl 21, 2004

Mér leiðast stjórnmál, en samt skipta þau miklu máli og manni á ekki að vera sama. Hvað er ríkisstjórnin að liggja á þessari fjölmiðlaskýrslu????, mikið er ég orðin leið á þessum stjórnmálamönnum. Alltaf sama fólkið inni á þingi, ekkert breytist í framkomu ríkisstjórnarinnar í garð fólksins í landinu. Sjálfstæðisflokkurinn og framsóknar bullið ættu að fara að pakka saman, það er komin tími á að fá nýtt blóð inn á þing. Framsókn er bara sjálfstæðið og sjálfstæðið er bara framsókn....ojbarasta.

Sko ég myndi bara gera þetta þannig að gera þeim auðvelt sem eru að skulda mikið en eru að vinna að góðum verkefnum, vera með góðar stefnur í garð umhverfisins, dýra, barna og barnafólks...og vera vond við vondu gæjana.

Illugaskotta vill byltingu. Umturnun og óskipulag sem leiðir af sér nýtt skipulag og nýjar hugmyndir ásamt almennri ánægju fólksins.

Hvar er kerlingin sem stóð við Drangey og hvenær drapst hún? Það er að segja brotnaði mélinu smærra? Annað vitið þið nokkuð hvort menn séu að síga í hið svokallað Heiðnaberg í Drangey? En Guðmundur biskup góði ákvað að blessa það ekki, og leyfa hinum vondu að vera einhvers staðar. Mjög áríðandi að fá svar.
Klukkan er hálf átt um morgun er að tala við Manju vin minn á messanum, sakna þessa brjálæðings og rugludalls. Erum að bulla á netinu nú. Hann bjargaði lífi mínu í skólanum, enda drep fyndinn og ekki að taka hlutina alvarlega.

Er að missa röddina, og datt öfga hugmynd í hug fyrir nokkru og ætla að framkvæma það í sumar, það sem ég mun ekki gera í sumar það er ótrúlegt. Það að vera ekki landvörður í sumar kemur mér til að hugsa á annan hátt og annað, gefur mér tækifæri til að gera hluti sem mér hefði aldrei dottið í hug að gera.

Farin í mína 10 tíma törn í Tæknigarði.

þriðjudagur, apríl 20, 2004

Bjórinn minn kúrir sig undir sæng en Illugaskotta er að drekka eldsterkt kaffi sem andskotar henni af stað. Ég vann í 10 tíma í gær og vona að það gerist líka í dag. Tók utan af kaktusnum sem Pétur í Ófeigsfirði gaf mér í afmælisgjöf. Þessi kaktus er eina pottablómið í turninum og hann sómir sér vel hér.

Er hins vegar í vandræðum að koma DVD diskunum mínum til að virka í tölvunni. Þeir vilja ekki spilast, líklega vegna þess að maskínan er keypt í Ameríku, finnst alltaf jafn furðulegt að skrifa Ameríka, að ég hafi verið þar. Er ekki enn þá að fatta það.

Illugaskotta hló svo mikið af sambýlingi sínum að hún fékk magakrampa, hún hló af honum í þynnku sinni. Er að fá hæsi og kvef, það er vegna þess að draugurinn hefur vanrækt að taka þessi blessuðu vítamín. Í dag er 20. apríl, vorið er komið og lóan líka, heyrði í henni í gær. Ætla að fara að líta eftir margæsunum sem stoppa við á Bessastöðum á leið sinni til Canödu.

mánudagur, apríl 19, 2004

Illugaskotta er mikið að hugsa um að fara til Ameríku aftur í haust. Áttaði mig líka á því afhverju mér hefur liðið eins og hálfri persónu, það er vegna þess að Illugaskotta stendur í skilnaði við svæði sem er norðan Vatnajökuls.

Hún stendur í skilnaði við tvö fjöll, eitt vatn, eina jökulsá og stærsta hraunflæmi Íslands, sjálft Ódáðahraun. Þetta eru engar smá persónur, líður alveg eins og þegar ég ákvað að vera ekki kærasta meir. Var ekki viss um að þetta væri rétt ákvörðun en samt ólgaði inni í mér að ég yrði að koma mér á nýja staði og kynnast öðru fólki.

Kannski var þetta rétt ákvörðun, veit það ekki, ákvarðanir sem snerta líf manns og allt það eru mjög oft erfiðar. En indíáninn vinur minn og ég erum að hugsa um að brasa eitthvað saman í haust, það er að segja ef guð lofar og allt það. Allt getur gerst og lífið er spennandi, bara svoldið furðulegt að vera að skilja við landsvæði en ekki manneskju.

Land býr yfir persónuleika.
Mikið er það rosalega leiðinlegt að vera með þynnku. Ég svaf til klukkan 15:00,,,vaknaði þá við jamm,,,,,,hausverk og asanalegar hugsanir sem verða til í þunnum hausum. Ákvað að fara í föt, drattaðist í sund. Þegar Illugaskotta gekk fram hjá ísbúðinni á Hagamelnum þá ákvað hún að Íslendingar væru furðulegur þjóðflokkur. Þar var biðröð í hring, því enginn vildi standa úti,,,,,,,allir í kremju inni í ísbúðinni, og sól og hress vindur voru úti.

Fór í sund, stóð í útiklefanum og lét vindinn sjá um að vekja mig,,,,,,,lá í gufunni og gufaði öllu mínu eitri yfir fólkið........sem sagt enginn dagur, en þess virði........því afmælið var frábært. Nú verður aldrei drukkið meir,,,og unnið í tvær vikur stanslaust í ritgerðinni sem ég mun klára nú.

Mig dreymdi rosalegann draum, Illugaskotta roðnar þegar hún hugsar um hann, hvað er að gerast í hausnum á manni þegar manni er að dreyma?

sunnudagur, apríl 18, 2004

Þetta var rosalega skemmtileg veisla, allt kláraðist.

Margir góðir gestir komu og margt var spjallað.

Við erum búin að taka til og allt er fínt og flott.

Ég fékk frábærar gjafir líka, takk fyrir það.

Ég er að ég held farin að leggja mig aftur.............sé til.