föstudagur, maí 28, 2004

Tra la, la, la.

Norður fer ég í dag. Þarf fyrst að fara: Í Sölku, kaupa linsur, Tæknigarð, HÍ Aðalbyggingu að skrá mig úr útskrift, Þjóðarbókhlöðu bækur og ljósrita. Hitta Röggu og Valdísi í hádeginu. Kaffihúsið Bleika dúfan, þeir ætla að selja bókina mína. Viðtal í Mbl, en þar á ég að segja frá starfi landvarða, kveðja ömmu. Keyra út úr bænum, versla í Bónus í Borgarnesi...og fara heim í burtu frá lygum, ásökunum og öðrum leiðindum.

Verð á Blósnum um helgina, fer vestur á Strandir á mánudaginn til að taka við nýjum störfum og flytja í nýju 6000fm íbúðina mína. Það er ekki slæmt.

Svo kem ég suður á fimmtudags kvöldið, vinna á þjóðdeild á föstudaginn, fara í brúðkaup og 30 afmæli á laugardaginn. Norður á sunnudaginn. Þetta er nú meiri flækingurinn.

miðvikudagur, maí 26, 2004

Dagurinn á morgun fer í að vakna! Vinna fram á daginn. Skrifa bréf. Pakka fötunum mínum og taka niður myndavegginn sem mun fylgja mér í mitt nýja herbergi á Ströndum.

Föstudagurinn fer í að snattast, hitta Röggu í hádeginu, versla í Bónus, tala við LÍN, kveðja ömmu,og keyra norður í Ísbjarnarsýsluna,,,,Húnavatnssýslu, mína sýslu. Ég fer svo á Strandirnar á mánudaginn til að byrja ný störf.

Ég er búin að ákveða að sannleikurinn skuli koma, hvað sem tautar og raular. Ég vil að það komi fram afhverju Dagný Bergþóra Indriðadóttir var ekki ráðin til starfa sem landvörður en fólk án landvarðarréttinda og reynslu er ráðið til starfa sem landverðir.

Fánamálið spilar hér stórt hlutverk. En allir þegnar þessa lands hafa rétt til þess að hafa skoðanir og tjá þær.

Ég viðurkenni að ég óhlýðnaðist mínum yfirmanni en það var vegna þess að ég var að berjast fyrir réttindum landvarða og einnig fyrir því að Umhverfisstofnun myndi gera náttúruverndarþættinum hátt undir höfði í Herðubreiðarfriðlandi og Öskju. En sú varð ekki raunin. Umhverfisstofnun tekur hvað eftir annað upp hanskann fyrir Ferðafélag Akureyrar. En Umhverfisstofnun stendur ekki með sínum starfsmönnum. Hvað veldur? Svari hver fyrir sig.

Ég segi um þetta mál: "Heggur sá er hlífa skyldi"

Hana nú, ég mun ekki þreyta ykkur meir með þessum skrifum.

Rottan er róleg, turninn er góður staður til að búa í. Siggi Atla eldaði dýrindis steik í kvöldmat og gaf mér bjór með. Ég er alsæl, enda kann ég að njóta góðs matar en ég kann ekki að ljúga. Það er eitt sem víst er.

Skál og étið skarfakál, þá fáið þið ekki skyrbjúg.
Það er stutt í júní. Ég er ekki enn þá búin að koma mér út úr húsi í dag, er þreytt eftir átök gærdagsins.

En er að fara á Kaffi Mílanó að hitta tvær úr umhverfisfræðinni. Síðan held ég galvösk í verkefni gærdagsins sem er orðið verkefni dagsins, að safna heimildum á Þjóðarbókhlöðunni.

Stefni fastlega á útskrift í haust. En annað er óráðið með mitt líf, sem er spennandi. Er kannski að fara til Ameríku aftur, kannski að vinna með Guðjóni að hlaða úr torfi og grjóti, kannski að vinna áfram í lokaverkefninu, kannski að fá mér einhverja vinnu hér á Íslandi, kannski fæ ég barasta enga vinnu því að Árna Bragason segir það! smá grín á hans kostnað og minn, að minnsta kosti fæ ég ekki vinnu hjá Umhverfisstofnun.

Það er yfirlýsing frá mér í Morgunblaðinu í dag. Ég er ekki hress með það að ósætti landvarða frá því í fyrra við FFA sé blandað inn í þetta mál. Fánamálið og samskiptavandamál okkar við FFA eru aðskilin mál. Skrítið að Umhverfisstofnun standi með FFA, en ekki starfsmönnum sínum, starfsmönnum sem unnu 100% með náttúrunni þarna upp frá. Við vildum slíta samstarfi vegna þess að við getum ekki sinnt fræðslu eða eftirliti, því 80% okkar tíma fer í vinnu fyrir FFA og 20% í fræðslu og eftirlit. Þannig að friðlandið ber skaða af því að landverðir geta alls ekki sinnt því!!! Þess vegna þarf að slíta samstarfi. En það er ekki gert. Við sem unnum þarna upp frá vorum ekki að skemma 30 ára farsælt samstarf við FFA. Seinustu ár hafa landverðir átt í miklum vandræðum að vinna með FFA. Þetta er ekki ný bóla.

Illugaskotta huxar margt. Megið þið eiga ævintýranlega dag. Það ætla ég að gera, vonandi mæti ég tröllum og drekum í dag. Nóg var af þeim í kringum mig í gær.

þriðjudagur, maí 25, 2004

Það er allt búið að vera brjálað í dag. Búin að hendast niður á Alþingi hálf sofandi, hlusta á þingpöllum og fara í viðtal í útvarpið og meir og meir. Fundur í kvöld. Margt er óhreint.

Í samtali Dagnýjar Bergþóru Indriðadóttur við Árna Bragason mánudaginn 17. maí kom fram að ég, Illugaskotta mun ALDREI!!! fá vinnu aftur hjá Umhverfisstofnun. Þetta er leitt að heyra og er þetta vegna þess að ég á að hafa óhlýðnast skipunum hans. Ég óhlýðnaðist honum, það er rétt, en það gerði ég til að berjast fyrir réttindum landvarða. Einnig tjáði hann sig við hana um skýrsluna sem ég hafði skrifað. En hann sagði að hún hefði verið eins og blaut tuska í andlitið, það væri fáranlegt að leyfa hverjum og einum landverði að skrifa sína skoðun og svo sagði hann að ég fengi aldrei vinnu þarna aftur. Hvað gengur þessum manni til? Afhverju segir hann þetta ekki beint við mig?

Mér finnst furðulegt að Umhverfisstofnun standi ekki með starfsmönnum sínum, þá meina ég landvörðum.

Þetta er skrítið land, ég hef ekki áhuga á þessu bulli, þetta er leiðinlegt mál. Það er leiðinlegt að Dagný fái ekki vinnu því hún hefur skoðanir á náttúruvernd og er ekki að hylja þær skoðanir.

Illugaskotta er samt hress, lífið er skemmtilegt, ég á marga góða og sterka vini, ég er að segja satt, ég berst fyrir náttúrunni. Að eiga góða vini og sterka fjölskyldu er fyrir öllu, einnig að hafa góða heilsu. Þessu fólki skal ekki takast að skemma neitt fyrir mér.

Þeir sem vilja kynna sér þetta mál er bennt á síðu Ögmundar Jónassonar. ogmundur.is

En þar er hægt að skoða þau skjöl sem Umhverfisstofnun sendi Illugaskottu/Björk, vegna þessa svokallað fánamáls, ásamt þeim svörum sem ég sendi.

mánudagur, maí 24, 2004

Það er margt um óréttlætið í þessum heimi og einnig á Íslandi. Ögmundur Jónasson tók á einu af fáum mála sem tengist óréttlæti. Illugaskotta fagnaði. Þetta var það sem þurfti. Ögmundur sagði t.d. þetta sem er hér feitletrað.

Þá minntist hann á að landverðir sem mótmæltu í fyrra framkvæmdum á hálendinu yrðu ekki endurráðnir í sumar. „Ætlum við að láta ríkisstjórnina komast áfram upp með þessi vinnubrögð? ... Það er kominn tími til að beina íslenskri pólitík inn í annan og uppbyggilegri farveg en þessi ríkisstjórn hefur grafið...“

Við sem unnum á hálendinu í sumar, reyndum í einu og öllu að vinna með náttúrunni, sýna náttúruvernd í öllum okkar verkum, þess vegna óhlýðnuðumst við skipunum okkar yfirmanna. Þess vegna!!!! Eitt okkar sótti aftur um í sumar á hálendinu en fékk ekki vinnu. Hvað sem þessi landvörður hefur spurst fyrir þá hefur honum ekki verið svarað afhverju hann er ekki endurráðinn!!!!

Ég sótti ekki um aftur vegna þess að ég vissi að ég fengi ekki aftur vinnu sem landvörður. Vegna þess bréfs sem ég fékk frá lögfræðingi Umhverfisstofnunnar eftir að ég varð að fá mér lögfræðing, til að verja það að ég flaggaði í hálfa stöng utan míns vinnutíma á mína eigin fánastöng.

Ég ákvað að sækja ekki um vegna þess að ég frétti að ég fengi ekki vinnu þarna aftur. Vegna þess að ég tala máli náttúrunnar. Þess vegna fengi ég ekki vinnu aftur. Ég tala ekki máli minna yfirboðara, og hlýddi þeim ekki vegna þess að þeir unnu á móti okkar þekkingu og reynslu á svæðinu vegna þess að þeir vinna á móti náttúrunni.

Heggur sá er hlífa skyldi! Þetta segi ég um Umhverfisstofnun.

Þegar yfirmenn manns vinna á móti náttúrunni, sem eiga að vinna með henni, þá er manni öllum lokið.

Enda er Illugaskotta búin að draga sig inn í sitt greni en hugsar sitt og segir sitt.
Sól og blíða á suðurtánni. Keyrðum í Laka í gær, í mjög góðu veðri. Vegurinn sundurgrafinn enda ekki búið að laga hann, þurftum að fara yfir nokkrar ár og sprænur sem er gaman.

Illugaskotta ætlaði ekki að trúa sínum eigin augum þegar komið var á svæðið. Þetta er ótrúlega magnaður staður, risa gígar út um allt, hraunbreiðan og víðátturnar, sást upp á Síðujökul,Sveinstindur og þar fyrir neðan kúrir hann Langisjór, sem ég hef mikinn áhuga á að vernda en ekki virkja.


Hins vegar er ekkert búið að gera fyrir ferðamanninn!!!! Þarna eru smá skilti um að þú sért komin inn í friðlandið en ekkert annað. Ekki áningarborð, ekki sögu- eða jarðfræðiskilti um eitt mesta gos sem sögur fara af á Íslandi á sögulegum tíma, en gosið átti sér stað árin 1783-84. Lakagígar eru um 25 km löng gígaröð í Vestur-Skaftafellssýslu.

Þarna þarf að koma upp lítilli fræðslumiðstöð, með jarð-sögu,flóru og fugla upplýsingum....en mikið er landið okkar magnað. Ég segi ekki meir. Greinilegt er að hér liggur fyrir mikið verk í fræðslu og uppbyggingu á þessu svæði.

sunnudagur, maí 23, 2004

Nú er sólin komin og regnið farið í frí.

Margt brasað í gær, Jökulsárlón skoðað, það var mikið um ísjaka á því, krívarp labbað en engin egg komin, þvílíkt mikið af kríum, eins og horfa á snjókomu af kríum að líta upp í dökkann himininn. Síðan stoppuðum við á Kvískerjum til að tala við hann Sigurð sem þar býr. Hann er mikill sagn- og náttúrufræði áhugamaður.

Þegar hann er að spá í atburði sem gerðust 1362 eða 1789 þá er eins og þessir atburðir hafi átt sér stað fyrir um það bil viku eða mánuði. Allt þetta forna stendur honum næst,. Þegar hann var að segja frá heimsókn Sveins Pálssonar í sveitina þá leið mér eins og að Sveinn Pálsson hefði bara verið í kaffi þarna á Kvískerjum fyrir um það bil mánuði síðan, en það eru um meira en 200 ár síðan hann Sveinn var upp á sitt besta og fékk kaffi á Kvískerjum.

Sigurður er ógnar fróður og Illugaskotta hefði getað setið langt fram á dag og hlustað á sögurnar hans sem allar virðast vera ný skeðar, en maður fattar að þær eru gamlar þegar hann dregur fram ártölin. Það er gaman að hlusta á hann segja frá atburðum í mannlegu lífi ásamt því að tengja þá all oftast við einhverjar náttúruhamfarir sem hafa átt sér stað hér í Öræfasveitinni.

Hann sagðist spá mest í því sem væri honum næst, í sinni sveit, því það skilur hann best.

Í dag á að keyra í Laka. Þangað hef ég aldrei komið og ekki heldur Guðrún Ósk. Siggi frá Hnappavöllum sem við erum að heimsækja kemur einnig með.