mánudagur, febrúar 09, 2004

Klukkan er 15:00 og ég hef ekki stigið fæti út úr turninum mínum og rottu helvítið sefur værum blundi. Illugaskotta er komin með ægilega dynnti út af kaffinu sínu. Nú sem sagt er mjólkin hituð í potti og kaffið látið sjóða í könnu á hellunni. Þetta eru ógurlegar serimóníur sem kalla á rólegheit í eldhúsinu og það er svo gott.

Ég er að vinna í beinagrind ritgerðarinnar og stressast upp þegar ég sé alla vinnuna sem er fram undan, en það þýðir ekkert.

Rigningin lemur húsið að utan og ég tel regndropana sem voru einhvers staðar uppi á himninum áðan.

Smá fræðsla hérna um skagann fræga í Húnavatnssýslu.

Mikið var um selbúskap á Skaganum, því lítið sem ekkert jarðnæði er við ströndina en beitiland er gott á Skaganum sjálfum. Mörg þessara selja voru tekin til ábúðar þegar þrengdist um jarðnæði. Víða liggja selrústir við gönguleiðir og er vel þess virði að stoppa við og hugsa út í þær aðstæður sem fólk bjó við á þessum tímum. Veturinn 1881-1882 bjó í Hraunsseli einsetukona, Guðrún Ólafsdóttir að nafni. Fékkst hún nokkuð við að kenna börnum kristinfræði enda talin greind kona. Stuttu eftir hríðarveður 24. febrúar 1882 fannst Guðrún helfrosin, föst í eldhússtrompinum. Hugðu menn að Guðrún hefði farið út að gefa kindum sínum hey og notað strompinn sem útgönguleið, því fennt hafði fyrir útidyrnar. En er hún kom aftur frá því að gefa kindunum hafi strompurinn reynst of þröngur fyrir hana klökuga og fannbarða, og hún látið þar lífið.

Já ekki hress saga, en samt lítið brot af sögu þessa svæðis.

Ég ætla að gefa blóð í dag, synda og halda áfram að vinna. Góðar kveðjur til ykkar, og nei, það er leyndarmál hvar mér hefur verið boðin vinna. En tvær eru þó í útlöndum.

Engin ummæli: