þriðjudagur, nóvember 08, 2005

Illugaskotta er mjög leið í dag en einnig glöð í hjarta sínu. Einhvern vegin er Illugaskotta gráti og hlátri nær. Ég komst enn og aftur nær því að dauðinn er ekki það versta í þessum heimi. Það er svo margt annað verra enn dauðinn. Lygar, svik, afbrýðissemi, undirferli, reiði, gremja, frekja, afskiptasemi og neikvæðni eru t.d fyrirbæri sem mér persónulega finnast verri en dauðinn.

Litla hjarta draugsins er leitt og smá kátt vegna þess að Raymond bróðir hans Garys, dó í dag, þann 7 nóvember. Hann Raymond er einn sterkasti maður sem ég hef kynnst. Hann mátti þola margt áður en hann komst yfir í "spirit world" eins og frumbyggjarnir segja hérna. Hann var blindur, búinn að missa báða fæturna og annan handlegginn, en alltaf var hann kátur, stríðinn og tilbúinn að ræða heimsins mál. Illugaskotta er leið vegna þess að hún saknar hans og þess að hlusta á þá visku sem í honum bjó, en hún er einnig létt í hjarta sínu vegna þess að hann er frjáls undan þeim líkamlegu þjáningum sem hann mátti ganga í gegnum dagsdaglega. Þótt ég þekkti hann ekki áður en missti útlimi og sjón þá sá ég hann aldrei sem fatlaðann mann.

Ég sá Raymond alltaf sem heilbrygða, sterka og fallega persónu.

Dagurinn í dag hefur farið í það að vera í kringum fólkið hans, fara á einn fund með Gary. Koma svo aftur heim, ná í indjánatjald, reisa það í garðinum hans Raymonds og kveikja eld inni í því. Þessi eldur er heilagur og hann mun loga í fjóra daga og fjórar nætur, sem tákn um þann eld sem bjó í hjarta Raymonds. Jarðarförin verður á laugardaginn.

Kennslan gekk vel í Háskólanum á laugardaginn, ég elska að tala um drauga og galdur, og náði stúdentunum með mér inn í undraheima íslenskrar þjóðtrúar. Það er margt að gera í þessari viku. Mun líklega ekki skrifa aftur fyrr en eftir helgi.

Það er skrítið að vera hérna þegar svona stórir hlutir gerast en þetta er víst líklega hluti af því sem ég þarf að skilja og læra áður en ég get skrifað almennilega um það. Á morgun koma líklega pow wow söngvarar til að syngja við eldinn, og ég ætla að taka þessa söngva upp.

Bestu kveðjur heim á Ísalandið frá smá leiðum draug en einnig létt í hjarta draug.

Engin ummæli: