miðvikudagur, ágúst 11, 2004

Illugaskotta er komin aftur í Hólmavík, var að vinna í dag. Það er greinilegt að ferðamenn eru einhvers staðar annars staðar en á Hólmavík. En aðsókn hefur dregist mikið saman.

Ferðalagið var meira en gott. Við keyrðum í Trékyllisvík á fyrsta kvöldinu. Þar tjölduðum við, eða Þórdís tjaldaði, ég bjó mér til bæli úti í móa þar sem ég svaf undir berum himni, því ekkert er betra en það. Um morguninn gengum við að Kistunni, þar sem þrír menn voru teknir af lífi fyrir galdur. Kistan er gjá niður við sjóinn. Svo var safnið Kört í Trékyllisvík skoðað og það er mjög athyglisvert safn. Með ljósmyndasýningu frá gömlum tímum hér á Ströndum, ásamt ótrúlega mörgum merkilegum hlutum. Svo var það Norðurfjörður, Krossnesslaug, Munaðarnes til að sjá Drangaskörðinn en þau voru illsýnileg vegna þoku, svo var keyrt inn í Ófeigsfjörðinn.

Þar komum við okkur fyrir og fórum síðan í gönguferð áleiðis að Hvalárgljúfrum, það var gaman. Allt á kafi í berjum, mikið um áhugaverðar plöntur, heilu haugarnir af Grettistökum þarna á leiðinni, og komust við að mynni gljúfranna. En vegna þess að frú þoka var að skella á, þá skeiðuðum við niður að á til þess að vera vissar um að komast aftur til bílsins. Hvalá er merkilega djúp sums staðar, og þar sem hún er dýpst heitir Óp, ekki veit ég afhverju, og ekki vissi Pétur afhverju.

Í gær var svo keyrt af stað heim á leið. Stoppuðum þá í Djúpuvík, og í Kúvíkum sem var verslunarstaður Strandamanna lengi vel. En nú eru þar rústir einar. Í Reykjafirði var sól og blíða en alls staðar annars staðar var frú þoka á ferðinni. Svo fórum við í sund í Bjarnarfirðinum, ég sýndi svo Þórdísi Galdrasýninguna og svo fór hún í Önundarfjörðinn en Illugaskotta fór að sofa.

Illugaskotta er komin með Reykjavíkurveikina. Sem lýsir sér þannig að hana langar í: bíó, hamborgara á American Style, drekka bjór fyrir utan kaffihús og láta bíla æla yfir sig mengun, hitta vini sína, fara á kaffi mokka, í sund í vesturbæjarlauginni, hitta ömmu, versla sér tónlist og kannski fatagarma. En ég þjáist ekki mikið. Er á leið í sund.

Engin ummæli: