miðvikudagur, febrúar 09, 2005

Núna er Illugaskotta stödd á Hnappavöllum í Öræfasveit, eða sveitinni milli sanda. Í gær þegar ég keyrði í gegnum Eldhraunið þá upplifði ég landslagið á annan hátt vegna bókarinnar Skaftáreldar, sem er eftir Jón Trausta. Ég reyndi að hugsa um hvað allt fólkið hafði verið að gera árið 1783 á meðan hraunið ólgaði og flæddi um sveitina sem eitt sinn var græn og öll í blóma. Persónur bókarinnar skutust fram úr hrauninu hér og þar á meðan ég og gamli rauður skriðum hægt í gegnum þessar ógnar myndir.

Hvílíka hraunið, það er satt og magnað að landslag verður einhvern vegin lifandi á annan hátt þegar maður er búin að lesa sögur sem tengjast því, eða ljóð. Landið okkar er magnað, Lakagígar voru og eru ógnar mikið og merkilegt fyrirbæri. Sem eiga skilið að fólk viti meir um þá, uppbyggingu vantar algjörlega í kringum þessa miklu sögu, sögu einna mestu jarðelda sem um getur. Einnig um sögu fólksins, sem margt hvert hélt að það hafði gert eitthvað af sér og þess vegna væri guð að refsa því.

Náttúran ræður sér sjálf, sem betur fer, þótt mannverurnar smáu vilji stjórna henni og beisla. Það vantar að fólk beri virðingu fyrir henni og átti sig á að hún er sterkari en við. Þokan ein og sér getur komið manni til að missa áttirnar, hvað þá? Eða regnið og vindurinn getur gert okkur svo köld að við getum orðið úti.

Eldur, vatn, jörð og loft, við getum ekki lifað án þessara frumefna og annað, þau geta líka öll drepið okkur. Ægilega er ég nú eitthvað að spá, en bara verð að koma þessum hugsunum frá mér.

Núna er sólin að glenna sig, ég hef algjörlega slakað á, ligg bara fyrir framan sjónvarpið í einni fegurstu sveit landsins, hvaða, hvaða...jamm og já. Ég verð dugleg á morgun. Í sveit er ekki klukka, þar er birta og myrkur. Nú ætla ég í göngutúr, svo ætla ég að fara inn og lesa meira um Skaftárelda, einnig um goðsögur, dróttkvæði og eddukvæði.

Engin ummæli: