laugardagur, júní 11, 2005

Púfff,,úfff,,húffffff...heyrðist úti á flóa í morgun. Undarleg hljóð hugsaði ég þar sem ég lallaði í mínum göngutúr. Horfði út á flóann og sá ekki neitt. Kannski var þetta einhver vél hinu megin við flóann. Nei, þetta er eitthvað annað. Svo sá Illugaskotta hvað þetta var, tveir hvalir að fnæsa og blása úti á firði. Strókarnir stóðu upp í loftið. Merkilega skemmtilegt að fylgjast með þessum dýrum.

Sólin skein í morgun, nú er að verða skýjað. Það virðast vera hátíðir út um allt land í sumar. Hin og þessi bæjarhátíðin er orðin fastur liður í sumarpakkanum stóra sem allir taka þátt í að einhverju leyti. Hér á Hólmavík verða það Hamingjudagar. Á Blönduósi er Matur og menning orðin fastur liður. Ekkert nema gott um þessar hátíðir að segja. Svo eru alltaf búin til sönglög fyrir hverja hátíð. Kannski ættu þessi bæjarfélög að fara í söngvalagakeppni sín á milli?

Draugurinn er á leiðinni í vinnuna. Það er fjör. Hef ógnar gaman af því að segja fólki frá göldrum og galdrafárinu, þótt þetta hafi verið dökkir tíma, þá er áhugavert og gaman að fræða fólk. Hér kemur alhæfing:" Allar sögur eiga rétt á því að vera sagðar". Eða hvað?

Engin ummæli: