laugardagur, júní 12, 2004

Murra og mala, það gera Manga og Imba hrafnar Galdrasýningarinnar þegar þær eru orðnar saddar. Í dag eru þær búnar að borða: fugl, hakk og hundamat, ásamt hundavítamíni. Þær verða oft mjög þreyttar,,,liggja þá í blómabeðunum með haus undir væng. Þá set ég þær í laupinn sinn, svo fá þær að hoppa um garðinn.

Það rignir vel hér á Ströndum, sem er gott því hér er búinn að vera þurrkur í marga daga. Nú mun gróðurinn spretta hratt. Var að klára að lesa bókina "Saga Litla trés", ágæt bók uppvaxtarsaga indjána sem elst upp hjá afa sínum og ömmu. Núna er ég að fara að lesa "Gunnlaðar sögu" sem er eftir Svövu Jakobsdóttur. Hef ekki í 7 sumur getað lesið eða hugsað. Þetta er eitthvað nýtt og sniðugt.

Er að þurrka jurtirnar sem ég fann á flandri mínum um Goðdal, og svo mun ég fara að búa til jurtasmyrls. Það verður nú spennandi. Illugaskotta er einnig farin að fara í klukkustundar göngutúr hvern einasta morgun. Það er gott. Pabbi á afmæli í dag, hann varð 57 ára í dag. Hann segir að tíminn líði allt of hratt, það er líklega rétt hjá honum. Hlakka til að sjá þau öll um næstu helgi.

Engin ummæli: