sunnudagur, maí 01, 2005

1. maí er í dag. Nú er svo stutt í bjartar sumarnætur, með fuglum í móa og draugum á sveimi. Það var samt kalt í gærkveldi. Var í Hafnarfirðinum í gærkveldi í heimsókn hjá henni Sirru sem mun eignast barn eftir að ég held 29 daga. Við átum ís og spjölluðum um margt.

Illugaskotta hefur ekki áhuga á því að festa líf sitt í steinsteypu. Af og til hellist yfir mig að ég verði að eiga heima einhvers staðar, eiga hús, vera í fastri vinnu, detta í hinn reiknanlega pakka. Vinna frá 8-17..frí um helgar, versla í Bónus á föstudögum, skreppa af og til út úr bænum, eiga kall og buru. Æji nei, þetta er svo óáhugavert sem frekast getur. Þetta skipulagða líf, úff...nei, ég held ég haldi áfram að njóta frelsisins, prófi nýja hluti og kynnist fleira fólki.

Ég hef átt íbúð með fullt af dauðu drasli, það var ágætt en svo kom ekkert meir,,,ég var alltaf að bíða eftir að eitthvað fleira spennandi myndi gerast. Þá vildi ég kaupa fleiri dauða hluti, áklæði á sófann, mála þetta og hitt og eiga hitt og þetta, og allt í einu þá bara vildi Illugaskotta ekki eiga dauða hluti.

Hún bara fór út í hinn stóra heim með hjartað í buxunum og kom heim til baka með hjartað á réttum stað.
Það sem ég var stressuð þegar ég fór í fyrsta skipti til útlanda. Réð mig í 7 mánaða vinnu á Jersey sem er í Ermasundinu, 22 ára og hafði bara aldrei farið á stóra flugvelli, ratað á einhver flughlið, notað vegabréf eða undarlega flugfarseðla. Núna tek ég ekki eftir þessu þegar ég ferðast, nema ég er sífellt að passa það að ég týni ekki vegabréfinu eða flugmiðanum. Margt er merkilegt í hinum stóra kýrhaus.

Engin ummæli: