þriðjudagur, nóvember 16, 2004

Ég vil óska Strandagaldri til hamingu með þá viðurkenningu sem hann fékk í dag frá Menntamálaráðuneytinu.Kvæðamannafélagið Iðunn og Strandagaldur fengu sérstök verðlaun. Það skáletraða tók ég úr Morgunblaðinu í dag. Þetta er frábært.

Strandagaldur er menningar- og fræðslustofnun. Tilgangur hennar er að standa að rannsóknum og draga saman vitneskju um galdraöldina á Íslandi, þjóðsagnir, hugmyndaheim og menningararf Strandasýslu sem tengist göldrum, á eigin vegum eða í samstarfi við aðra. Stefnt er að stofnun fræðaseturs um menningararf Strandamanna.

Strandagaldur stendur fyrir fjölbreyttri starfsemi. Þekktust er líklega Galdrasýning á Ströndum, lifandi og skemmtileg sýning á Hólmavík og í Bjarnarfirði. Sýningin var einnig sett upp í Norræna húsinu í október sl. og voru margvíslegir menningarviðburðir skipulagðir í tengslum við hana líkt og gert er í heimabyggð. Strandagaldur hefur gefið út fræðsluefni um hjátrú og galdra, í bókarformi, á geisladiskum og á vönduðum vef, og má sérstaklega nefna nýlegan margmiðlunardisk um íslensk galdramál og þjóðtrú tengda göldrum sem tilnefndur var af Íslands hálfu sem besti diskurinn í flokki menningar.

Starfsemi Strandagaldurs hefur einkennst af miklum metnaði og fagmennsku. Heimamenn hafa á að skipa sérfræðingum um þjóðfræði og bókmenntir. Þeir hafa ásamt öðrum unnið fórnfúst og óeigingjarnt starf og fengið til liðs við sig færustu sérfræðinga. Óhætt er að fullyrða að starfsemi Strandagaldurs hafi blásið lífi í áhuga fólks á menningu Strandamanna og þeim fróðleik um kveðskap, náttúru og sögu sem því fylgir. Fyrir þetta fær Strandagaldur viðurkenningu á degi íslenskrar tungu 2004

Engin ummæli: